
Ef mig misminnir ekki þá fór ég ekki á nema 2 myndir í bíó í sumar (Hangover og Brüno), og fannst ég samt ekki missa af neinu, nema kannski Hurt Locker. Ég ætla mér þó að bæta það upp á næstu dögum.
Ég fór á Inglourious Basterds með talsverðar væntingar. Tarantino er svo yndislega mikið bíónörd, og myndirnar hans eru alltaf uppfullar af svona "tongue-in-cheek" tilvísunum í alls konar myndir. Í þessari mynd kom ég t.d. auga á mjög augljósar tilvísanir í þrjár mjög frægar myndir: The Searchers, The Good, the Bad and the Ugly og Taxi Driver.
The Searchers: Frægasta skotið í The Searchers sýnir John Wayne standa í dyragætt og snúa sér svo við og fjarlægjast. Á mjög áhrifamiklu augnabliki í fyrsta kafla Inglourious Basterds er þetta skot endurskapað að nokkru leyti. Þið takið eftir því þegar þið sjáið það.

Samt er Inglourious Basterds alls ekki bara samansafn af tilvísunum fyrir bíónörda, heldur er þetta bráðskemmtileg, spennandi og á köflum drepfyndin mynd (fyrir þá sem hafa séð hana: "Arrivederci" (berist fram með sterkum Suðurríkjahreim)). Plottið er stórsniðugt og sumar senurnar bera vott um gríðarlega hugmyndaauðgi Tarantinos. Til dæmis er ekki hægt að saka Tarantino um sögufölsun, því hann gefur einfaldlega sagnfræðinni langt nef og endurskrifar hana að flestu leyti.
Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast við þessa mynd er hvað hún tekur sig (og heimsstyrjöldina) lítið alvarlega. Í raun á myndin meira skylt við teiknimyndir og ævintýramyndir en stríðsmyndir. Ofbeldið í myndinni er að hluta til meira teiknimyndaofbeldi en alvöru (alveg eins og í Kill Bill), og sumar persónurnar eru yndislega ýktar eins og Bjarnarjúðinn Donny Donowitz (sem er leikinn svo ýkt af Eli Roth að ef um eitthvað annað hlutverk væri að ræða hefði ráðning hans verið talin hneyksli), en hans helsta kennimerki er hafnaboltakylfan... Einnig er persóna Hitlers gott dæmi um þetta - hann er hálf-kómískur karakter, ofur-veiklyndur og skapstór, minnir kannski mest á einræðisherra Chaplins eða Hitler eins og hann birtist í gamanmyndinni The Devil with Hitler frá 1942.
Raunsæi er neðarlega í forgangsröðinni hjá Tarantino í þessari mynd, og mér líkar það. Ég vil miklu frekar sjá bíómynd sem tekur sig eða umfjöllunarefnið EKKI alvarlega og leikur sér með efnið, en mynd sem þykist vera ofur-raunsæ en inniheldur síðan bull-söguþráð eða margfellur um sjálfa sig í þessu "raunsæi" sínu (t.d. Saving Private Ryan og Gladiator)
Í stuttu máli sagt er Inglourious Basterds pottþétt bíó og einstök skemmtun. Ég mæli eindregið með þessari.