Híena (Grzegorz Lewandowski)
Annars var margt ágætt í myndinni sjálfri. Sögusviðið yfirgefið iðnaðarsvæði í Póllandi, drungalegt og fráhrindandi. Aðalpersónan er ungur drengur sem er alinn upp á draugasögum, og hann og vinir hans keppast við að segja sögur af voðaverkum sem eiga að hafa gerst eða eiga að vera að gerast í nágrenninu. Titillinn vísar í þá sögu sem er lífseigust í gegnum myndina: mannætu-hýena gengur laus.
Það tekst ágætlega að skapa stemmningu, sérstaklega í kringum mjög skuggaleg undirgöng sem drengurinn þarf að fara í gegnum á hverjum degi á leiðinni heim úr skólanum. Við búumst alltaf við því að einhver/eitthvað stigi út úr skuggunum og taki hann.
Í lýsingu á myndinni segir að myndin "gerist á landamærum veruleika og ímyndunar", og ég bjóst við að það yrði meira unnið úr þessu, eða að maður fengi skýrari mynd af þessari hlið sögunnar. Fyrir utan 1-2 martraðasenur, fannst mér aldrei að við sæjum eitthvað sem aðalpersónan var bara að ímynda sér. Mér finnst því eðlilegast að ætla að allt sem við sjáum sé raunverulegt, og að ímyndunina sé fyrst og fremst að finna í orðum drengsins.
En meira að segja þótt ég hefði séð myndina í almennilegum mynd- og hljóðgæðum, held ég ekki að þetta hefði nokkurn tímann verið virkilega góð mynd. Maðurinn með brunasárið er allt of "over the top" og ekki nærri því nógu áhugaverð persóna. Það kemur manni heldur ekki mikið á óvart hver hinn raunverulegi morðingi er, því sú persóna lætur mjög grunsamlega megnið af myndinni. Sterkustu þættir myndarinnar eru leikmynd og lýsing, og þeir njóta sín ekki nógu vel í þessum myndgæðum.
Himinbrún (Fatih Akin)
Meginvandi myndarinnar er persónusköpunin. Mér fannst persónurnar almennt séð vera of einvíðar og einfaldar til þess að ég gæti samsamað mig við þær. Þetta eru týpur og ég gleymdi því aldrei að þetta væru karakterar í bíómynd, mér fannst þetta aldrei verða sannfærandi "fólk". Pabbinn komst kannski næst því að verða manneskja. Það var sérstaklega ein sena, þar sem tyrkneska stúlkan (Ayten) rífst við þýsku mömmuna. Þessi sena eyðilagði eiginlega fyrir mér persónu tyrknesku stúlkunnar, því eftir þetta fannst mér hún bara vera málpípa einhverrar pólitískrar skoðunar frekar en persóna.
Núna hljóma ég eins og mér hafi fundist myndin vond, en það er alls ekki raunin. Þó svo að persónurnar séu þesslegar, þá finnst mér ég aldrei vera að horfa á einhverja dæmisögu (öfugt við t.d. Crash). Ég held bara að ég hefði getað lifað mig meira inn í myndina ef persónurnar hefðu verið trúverðugri. Þar að auki fannst mér fléttan eiginlega of snyrtileg, maður var of meðvitaður um að atburðir eða hlutir væru "plot points."
Ég er ekki alveg nógu ánægður með þessa færslu, því myndin hljómar miklu verri en hún er. Mér tekst einfaldlega ekki að henda reiður á því sem er gott við myndina, þó svo að hún sé sannarlega góð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli