8. Soul Kitchen
Myndin fjallar um Zinos, Þjóðverja af grískum ættum, sem á og rekur frekar sorglegt veitingahús sem hann kallar Soul Kitchen. Þar ber hann á borð upphitaða og djúpsteikta frosna rétti fyrir verkamenn, og hefur rétt svo í sig og á. Síðan kemur röð atburða sem kemur öllu úr jafnvægi: kærastan hans flytur til Kína, hann fer í bakinu og getur ekki lengur "eldað" og bróður hans er sleppt úr fangelsi. Með hjálp hóps af sérvitringum gjörbreytist Soul Kitchen úr sveittri ruslfæðisbúllu í líflegan og spennandi veitingastað, en það gengur ekki áfallalaust.

Þetta er hress og skemmtileg mynd, og fullt af "twists and turns" á leiðinni. Leikstjórinn, Fatih Akin, var líka með mynd á hátíðinni fyrir 2-3 árum. Hún hét The Edge of Heaven og var bara nokkuð góð. Það er svo sem ekkert mikið meira um þessa mynd að segja. Ég get alveg mælt með henni.
9. Íslenskar stuttmyndir 1
Á þessari sýningu voru fimm stuttmyndir. "Reyndu aftur", "Knowledgy" og "Breki" voru ágætar myndir; "Pleisið" og "Heart to Heart" voru talsvert slakari.
"Reyndu aftur" hefst á því að aðalpersónan ætlar að fremja sjálfsmorð, en röð tilviljana hindra hann í því. Spaugileg og nokkuð vel gerð.
"Knowledgy" fjallar um kvikmyndaskólanema sem leigir herbergi hjá pari sem er í einhverjum furðulegum sértrúarsöfnuði. Seinasta verkefni Michaels var misheppnuð heimildamynd um ketti (kennarinn hans telur að kettir séu ekki gott efni í mynd, en hann hefur kannski ekki séð The Private Life of a Cat), og nú dettur honum í hug að gera heimildamynd um leigusala sína og sértrúarsöfnuðinn þeirra. Þessi sértrúarsöfnuður virðist vera blanda af nokkrum frægustu sértrúarsöfnuðum samtímans, og eiginmaðurinn virðist vera alveg heltekinn af þessu, en eiginkonan er bara í þessu til þess að gleðja hann. Úr þessu verður gott grín.
"Pleisið" er frekar ómerkileg mynd. Mér fannst hún mest eins og lélegt forvarnarmyndband. Skilaboðin eru einhvern veginn svona: "Ef þú drekkur og dópar springa vinir þínir í loft upp og þú lendir í fangelsi þar sem þér verður nauðgað! Fíkniefnalaust Ísland árið 2000!"
"Heart to Heart" er fáránlega artí mynd. Það eru alveg flott skot í henni og svoleiðis, en enginn söguþráður og allt voða súrrealískt.
10. Where's the Snow
Myndin sjálf er alveg ágæt. Hún svissar á milli viðtala við tónlistarfólk sem talar um hvað Airwaves hátíðin er frábær, og tónleika á hátíðinni. Þessar tónleikaupptökur eru yfirleitt eitt lag með einhverri hljómsveit; stundum er laginu leyft að hljóma en stundum er viðtalið við viðkomandi sveit sett yfir lagið. Allir flytjendur eru íslenskir, og eins allir viðmælendur fyrit utan einn bandarískan tónlistarfræðing. Skilaboðin til væntanlegra Airwaves-gesta: "Ekki skipuleggja - ráfaðu bara um og uppgötvaðu eitthvað nýttt:"
11. Submarino
Aðalleikarinn, sem leikur Nik, svaraði spurningum í lok sýningarinnar. Honum fannst vera vonarglæta í lok myndarinnar sem ég hafði ekki áttað mig á, en þegar ég pældi í því gat ég alveg séð það (ég ætla samt ekkert að fara að segja hvernig myndin endaði). Megnið af myndinni er samt hrikalega átakanlegt og einkennist af mikilli eymd. Senurnar með yngri bróðurnum og syni hans voru sérstaklega erfiðar, eins og þegar hann sækir son sinn á leikskólann út úr heiminum í heróínvímu. Ég mæli hiklaust með þessari.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli