Danielson: A Family Movie (J.L. Aronson)
Ég upplifði þetta ekki sem frábæra heimildarmynd, en samt var ég alveg stórhrifinn. Daniel Smith, forsprakki Danielson, og fjölskylda hans og vinir eru bara svo áhugaverðir karakterar, og ekki skemmir tónlistin fyrir.
Hljómsveitin varð til sem útskriftarverkefni Daniels í listaháskóla, og þá fékk hann til liðs við sig systkini sín til þess að leika á hin ýmsu hljóðfæri. Þegar útskriftarverkefnið fékk plötusamning varð ekki aftur snúið. Þetta var 1994. Síðan þá eru nokkur systkini næstum hætt, önnur eru gift og fengið makann í hljómsveitina, og ýmsir vinir hafa spilað með þeim, þ.á.m. Sufjan Stevens. Daniel bjó til stúdíó í kjallara foreldra sinna, og gefur nú sjálfur út plötur Danielson á labelinu Sounds Familyre. Hann gaf líka út fyrstu tvær plötur Sufjans.
Það var mjög gaman að sjá upptökur af tónleikum hljómsveitarinnar og Daníels sólo því sjónræni þátturinn er mjög sterkur hjá þeim. Tónlistin sjálf er ekkert svo frábrugðin því sem gengur og gerist í indí-heimum, en Danielson-tónleikar eru skrítin blanda af tónlist, myndlist og gjörningi. Fyrstu árin léku Danielson í hjúkku-búningum með ásaumuðum hjörtum sem áttu að tákna græðandi krafta tónlistarinnar. Í dag leika þeir í hálfgerðum skátabúningum með ásaumuðum hjörtum (ekki veit ég hvort boðskapurinn sé annar). Þegar Daniel leikur sóló er hann yfirleitt í gerfi trés, "The 9-Fruit Tree", sem er tilvitnun í Pál postula (eitthvað um hina níu ávexti trúarinnar, "the nine fruits of faith: love, joy, peace, patience, kindness, goodness, faithfulness, gentleness and self-control").
Stórskemmtileg mynd, mæli eindregið með henni. Og ef þið fílið indí, þá er hún skylduáhorf.
Vandræðamaðurinn (Jens Lien)
Í upphafssenunni, sem ég rétt náði endanum á, fremur aðalpersónan, Andreas, sjálfsmorð. Afgangurinn af myndinni gerist í einhvers konar limbói (ekki helvíti og ekki himnaríki, heldur einhvers staðar á milli), og í fyrstu virðist allt voða fínt. Andreas fær vinnu, og samstarfsfólkið er vinalegt. Hann hittir konu, á í sambandi við hana og flytur inn til hennar. En eftir því sem á líður rennur upp fyrir Andreasi að það er eitthvað grunsamlegt á seyði. Enginn sýnir sterkar tilfinningar, ekki einu sinni ástkonan, og allt er grátt, hljótt og bragðlaust.
Á þessum stað getur enginn drepist, og senan þegar Andreas kemst að því er ROSALEG. Hann stekkur fyrir lest, en drepst ekki. Síðan kemur önnur lest, og önnur, og önnur. Og alltaf viðeigandi hljóð-effektar. Verulega ógeðsleg sena, en hún kom á réttum fyrir mig því ég glaðvaknaði.
Ég held að þetta sé svona mynd sem maður annað hvort fílar eða hatar. Ef lýsingin vekur áhuga, þá á ykkur örugglega eftir að finnast hún fín, og ég er nokkuð viss um að hún sé á leið í almennar sýningar að hátíðinni lokinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli