sunnudagur, 22. ágúst 2010

Um Topp-10 listann

Allir eiga að skrifa svolítið um topp-10 listann sinn. Við getum sagt aðeins frá myndunum á listanum, hvað það er sem höfðar svona til okkar, og kannski nefnt myndirnar sem eru rétt fyrir utan listann. Kannski breytist listinn á meðan maður skrifar.

Svona topp-10 listar geta valdið mikilli sálarangist hjá manni. Ég var örugglega klukkutíma að setja minn saman, en ég er nokkuð ánægður með samsetninguna. Kannski aðeins of margar nýlegar myndir. Ég reyndi meðvitað að hafa fleiri nýjar myndir, en ég gæti alveg sett saman lista þar sem a.m.k. 8 myndanna væru frá því fyrir 1970. Þá er ekki nema helmingur myndanna svart-hvítur, og er það hlutfall í lægri kantinum fyrir mig. Staðreyndin er sú að ég elska svart-hvítar myndir: djúpur fókus, mikill kontrast og sterkir skuggar eru nokkrir hlutir sem ég kann að meta í svart-hvítum myndum. Night of the Hunter er kennslubókardæmi í þessu öllu saman. Þar að auki hef ég ansi gaman af þöglum myndum. Í algjöru uppáhaldi í þeim efnum eru gamanleikir (sérstaklega Buster Keaton) og þýski expressjónisminn.

Í nokkurs konar hefðarröð:
The General:
Það verður að vera Buster Keaton mynd á listanum, og í raun gætu þær verið fleiri. Sherlock Jr. og Steamboat Bill Jr. gætu alveg komist á listann líka.
Buster Keaton er uppáhalds þögli grínistinn minn (og uppáhalds-grínistinn minn yfirleitt). Myndirnar hans eru ótrúlegar - hann er algjörlega óhræddur að leika sér með kvikmynda- og frásagnarformið. Sjónræna grínið er frábært, Buster gerir ótrúlega hluti og gerir öll áhættuatriði sjálfur. Eitt af því sem hann gerir svo vel er að afbyggja sagnahefðina. Dæmi um það er endirinn á College. Buster fær stúlkuna, og svo er dissolvað á 1) brúðkaup, 2) barnaskara, 3) gömul hjón og loks 4) tvær grafir hlið við hlið. Þetta gefur frasanum "...and they lived happily ever after" alveg nýja vídd.
The General er "stærsta" og aðgengilegasta mynd Busters. Buster er lestarstjóri í Suðurríkjunum í bandarísku borgarastyrjöldinni. Lestinni hans er stolið, og hann eltir hana alla leið til Norðurríkjanna, og úr verður mikið ævintýri. Grínatriðin ("gags") sem Buster hannar í kringum lestina eru frábær - ímyndunarafl hans er ótrúlegt, og þegar maður er ekki hlæjandi þá gapir maður af undrun yfir frumleika myndarinnar.

The Apartment:
Það er eins með Billy Wilder og Buster Keaton, ég gæti sett margar fleiri myndir eftir hann á listan: Double Indemnity, Some Like It Hot og Sunset Blvd. sem dæmi. Ég hef einfaldlega aldrei séð slaka mynd eftir Wilder, handritið er alltaf frábært (enda skrifar Wilder það alltaf) og leikur og leikstjórn yfirleitt framúrskarandi. Wilder er líka með frábæran húmor, getur jafnt verið dökkur og kaldhæðinn sem hlýr.
The Apartment er mynd sem ég get horft á aftur og aftur. Það fer bara um mig hlý og notaleg tilfinning þegar ég horfi á þessa mynd. Jack Lemmon er frábær í aðalhlutverkinu og Shirley MacLaine er ótrúlega sjarmerandi í þessari mynd.


Dead Man:
Þessi var lengi vel uppáhaldsmyndin mín, og enn ein mynd sem ég get horft á aftur og aftur (ætli ég hafi ekki séð hana u.þ.b. 10 sinnum). Sagan er furðuleg en jafnframt einstaklega fyndin. Johnny Depp er góður í titilhlutverkinu, og margir fínir leikarar í öðrum hlutverkum, t.d. er þetta ein af seinustu myndunum sem Robert Mitchum lék í, en hann er einn af mínum uppáhaldsleikurum, og einn af mestu töffurum allra tíma.
Svart-hvít myndataka Robby Müllers er ótrúlega flott, svo flott að eftir að ég sá þessa mynd í fyrsta skipti leigði ég heilan helling af myndum sem hann vann við (Repo Man og Paris, Texas eru eftirminnilegastar).
Svo má ekki gleyma tónlistinni sem Neil Young gerði - gítar-glamrið hjá honum ásamt myndatökunni og dularfullum söguþræðinum skapar ótrúlega stemningu.

Das Kabinett des Doktor Caligari:
Flottasta þýska expressjónista-myndin að mínu mati. Sagan er nokkuð einföld, en lúkkið á myndinni er ÓTRÚLEGT. Fyrsta skiptið sem ég sá hana gapti ég í forundran. Mig hafði aldrei grunað að það væri hægt að gera eitthvað svona. Um leið og myndin var búin spólaði ég til baka (já, það er svo langt síðan) og horfði á hana aftur.
Sviðsmyndin er nær öll máluð, og á lítið sem ekkert sameiginlegt með raunveruleikanum. Allt er skakkt og skælt, oddhvasst og þakið dökkum skuggum (sem voru yfirleitt málaðir á). Förðunin á leikurunum, sérstaklega á Caligari og svefngenglinum Cesare, er mjög ýkt. Allt átti þetta að endurspegla innri upplifun persónanna, sérílagi sögumanns sem reynist vera geðveikur.
Red Hot Chilli Peppers gerðu myndband sem þið hafið örugglega öll séð, sem vísar mjög í þessa mynd, þannig að það er óvíst að þið yrðuð jafn "impressed" og ég var þegar ég sá hana fyrst.

Night of the Hunter:
Þetta er að mörgu leyti sérstök mynd. Ég veit ekki um neina bandaríska mynd sem er undir jafnmiklum áhrifum frá þýska expressjónismanum, þótt hún sé gerð 25-30 árum eftir hápunkt þessa stíls. Þá er þetta líka eina myndin sem Charles Laughton leikstýrði, en hann var um langan tíma einn besti "karakter-leikarinn" í Hollywood.
Lúkkið (lýsing, myndataka, sviðsmynd) er líklegast það flottasta við myndina, en sagan er líka mjög góð og Robert Mitchum er ótrúlega góður sem vondi kallinn. Þá er Billy Chapin, í hlutverki stráksins, líklegast einn besti barnaleikari sem ég hef séð.
Það eru nokkur skot í þessari mynd sem eru fáránlega falleg!

Jæja, ég læt þessar fimm duga í bili, en þetta er án nokkurs vafa topp-5 hjá mér. Næstu fimm á listanum gætu léttilega breyst, en það þyrfti eitthvað mikið til þess að velta þessum úr sessi.

Engin ummæli: