þriðjudagur, 28. september 2010

RIFF 2010: Dagur 6

Í dag fór ég á In the Attic, The Tillman Story, Winter's Bone og Kimjongilia. Auk þess fór ég á masterklassa um gerð leikinna mynda kl. 16. Þetta var klárlega besti dagurinn til þessa. Allar myndirnar voru góðar og masterklassinn var mjög áhugaverður.

14. In the Attic
"Þetta er Buttercup"
Þetta reyndist vera einhvers konar leikskólasýning. Þegar ég kom inn í salinn voru þar á bilinu 30-40 5-6 ára gömul börn, hvert öðru órólegra og háværara. Ég var vægast sagt áhyggjufullur um að þau myndu eyðileggja sýninguna fyrir mér. Og áhyggjur mínar minnkuðu ekki þegar starfsmaður RIFF kynnti sig og sagðist ætla að vera nokkurs konar sögumaður og útskýra fyrir krökkunum það sem gerðist í myndinni jafnóðum og það gerðist. Sem betur fer voru áhyggjur mínar ekki á rökum reistar. Þegar myndin byrjaði þagnaði krakkaskarinn, og sögumaðurinn truflaði mig lítið.
"Þetta er Schubert. Hann er voða duglegur."
Myndin sjálf var bráðskemmtileg. Þetta er tékknesk stop-motion mynd sem sameinar brúður, leirkarla og smá live action. Aðalpersónur myndarinnar eru gömul leikföng uppi á háalofti. Dúkkan Buttercup, leirkarlinn Schubert, bangsinn Teddy (minnir mig) og strengjabrúðan Handsome búa saman í gamalli ferðatösku/dúkkuhúsi. Líf þeirra er eins og í ævintýri þangað til útsendarar Gullhauss, einræðisherra vonda landsins, ræna Buttercup. Þetta er svolítið eins og stop-motion útgáfa af Toy Story með fullt af tilvísunum í kommúnisma og einræðisherra austantjaldsríkjanna.
"Þetta er Teddy. Hann er alltaf þreyttur."



15. The Tillman Story
Þessi var ansi mögnuð og kúventi væntingum mínum algjörlega. Ég fór á þessa mynd með talsverðum fordómum: ég var alveg sannfærðum um að efni myndarinnar, Pat Tillmann, hlyti að vera íþróttaidjót og þjóðremba af verstu sort, en það reyndist alvitlaust. Svona til að útskýra, þá var Pat Tillmann leikmaður í NFL-deildinni en hafnaði samningi upp á margar milljónir dollara og gekk í herinn árið 2002. Þegar hann lést í Afganistan árið 2004 var hann uppmálaður sem þjóðhetja, og æðstu menn hersins og fjölmargir Repúblikanar reyndu að eigna sér hann (m.a. talaði George Bush um hann í einni ræðu, og John McCain mætti í jarðarförina). Markmiðið með þessari mynd var tvíþætt: annars vegar að sýna að Pat Tillman var ekki sá maður sem þessir hægrimenn vildu að hann væri, og hins vegar að draga fram í dagsljósið aðstæðurnar í kringum dauðdaga hans (hann var skotinn af mönnum í sama liði) og samsæri um að leyna þessum aðstæðum sem virðist hafa náð alla leið upp til forsetans sjálfs.
Árið 2002 gengu Pat Tillman og bróðir hans, Kevin, í herinn. Svo virðist sem árásirnar 11. september hafi haft eitthvað að segja í þessari ákvörðun, en Pat neitaði alltaf opinbera ástæðu sína fyrir því að gera þetta. Í myndinni er dregin upp mynd af eldklárum strák með sterka gagnrýna hugsun sem lét hvorki stýrast af þjóðrembu né trúarofstæki. Hann var vinstrisinnaður (miðað við Bandaríkjamann) og var aðdáandi Noam Chomsky, og þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak var hann algjörlega mótfallinn því, og kallaði það meira að segja ólöglegt stríð. Auðvitað veit maður aldrei hversu mikið er satt þegar fólk talar fallega um fólk sem er látið, en Pat Tillman virðist einfaldlega hafa verið góður gaur.
Þetta er að mörgu leyti mjög áhugaverð mynd. Hún varpar ljósi á marga vankanta í bandarísku samfélagi, og er áfellisdómur á bandaríska fjölmiðla. Eiginlega allar þær upplýsingar sem koma fram í myndinni voru aðgengilegar fjölmiðlum, en þeir kusu ávallt að segja einföldustu söguna - þá sögu sem ráðamenn matreiddu ofan í þá. Í Q&A-inu sagði leikstjórinn að fréttastöðvarnar vildu bara einfaldar sögur og sögur sem eru eins og bíómyndir. Hann talaði um að bíómyndir væru goðsagnir okkar tíma og að þessi hugmynd, að eitthvað sé eins og í bíómynd, sé eins og dóp: þegar okkur er sögð saga eða frétt sem er uppbyggð á sama hátt og bíómynd, eða sem inniheldur sömu goðsagnakenndu stefin, þá fari það í aðra stöð í heilanum og við meðtökum það miklu betur og það veitir okkur ánægju. Fréttastöðvunum er nákvæmlega sama hvort þær segi okkur sannleikann, þær vilja bara áhorfendur og segja okkur þess vegna það sem við viljum heyra.
Ég mæli hiklaust með þessari.



16. Winter's Bone
Þessi var mjög góð. Myndin hefst á því að hinni 17 ára Ree er tjáð það að ef pabbi hennar mætir ekki í réttarsal þá missir fjölskyldan húsið og landareignina, en pabbinn hefur ekkert sést í þrjár vikur. Upphefst þá leit Ree að föður sínum (eða líkinu af honum), en pabbinn hefur helst unnið sér það til frægðar að vera góður í að búa til meth.
Ég gæti hugsað mér að nota Winter's Bone sem sýnidæmi í handritaskrifum. Uppbygging myndarinnar er einföld og alveg klassísk. Heimi Ree er komið í uppnám þegar hún heyrir að heimili fjölskyldunnar er í hættu, og hún þarf að yfirstíga hverja hindrunina á fætur annarri til þess að ná markmiði sínu. Þetta er klassískur aristótelískur sögubogi.
Leikaraliðið á stóran þátt í að gera þessa mynd góða. Jennifer Lawrence er virkilega góð sem Ree og aukahlutverkin eru mörg hver mönnuð af kunnuglegum andlitum úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, svona gæða karakter-leikurum sem standa ávallt fyrir sínu. Ég mæli með þessari.



17. Kimjongilia
Ég er á báðum áttum með þessa mynd. Efni myndarinnar er ansi magnað, en efnistökin voru soldið skrýtin. Myndin fjallar um þjáningar íbúa Norður-Kóreu og er að miklu leyti byggð upp á viðtölum við fólk sem hefur flúið landið, en inn á milli birtast einhverjar óttalega artí senur með dansara, sem mér finnst einfaldlega ekki passa við efni myndarinnar. Einnig birtast mörg norður-kóresk áróðursmyndbönd, sem virðast fyrst og fremst ætluð til þess að gera grín að Kim Jong-Il, og eiga ekkert sérstaklega erindi í akkúrat þessa mynd.
Einn helsti viðmælandinn í myndinni, Shin Dong-Hyuk, en hann fæddist í fangabúðum.
Sögur viðmælendanna eru ótrúlega átakanlegar og sorglegar. Einn þeirra var handtekinn og færður í fangabúðir 9 ára gamall vegna þess að afi hans var grunaður um glæp, en í Norður-Kóreu tíðkast það að "hreinsa" þrjár kynslóðir í einu, þ.e. ekki bara afbrotamanninn sjálfan heldur líka konu, börn og barnabörn (eða foreldra, konu og börn). Annar fæddist í fangabúðum og þekkti ekkert annað, en eftir að hann eignaðist vin í búðunum sem sagði honum frá lífinu utan þeirra (honum fannst skemmtilegastar sögurnar af því hvað hann borðaði), þá gat hann ekki hugsað sér að vera lengur í búðunum og lagði líf sitt í hættu til þess að flýja. Einnig var talað við konu sem tókst að flýja til Kína, en þá lenti hún í jafnvel enn verri aðstöðu því fólk misnotaði sér veika stöðu hennar og hneppti hana í kynlífsþrælkun í fimm ár (en í Kína eru flóttamenn frá Norður-Kóreu sendir aftur heim ef þeir finnast).
Þetta eru ekki góðir gaurar
Eftir myndina var mjög áhugavert Q&A með leikstjóranum. Ástandið í Norður-Kóreu er henni mikið hjartans mál, og m.a. kynnti hún fyrir salnum fulltrúa LINK (Liberty in North Korea) sem virtust mjög góð og áhugaverð samtök sem ég mæli alveg með að þið kynnið ykkur..Ástandið í Norður-Kóreu er hræðilegt. Í stórum hluta landsins hefur ríkt hungursneyð nánast samfleytt frá 1994, svo ekki sé minnst á kúgunina og mannréttindabrotin sem eiga sér stað á hverjum degi. Þrátt fyrir nokkra galla í stíl myndarinnar mæli ég hiklaust með henni. Þetta er málefni sem allir ættu að kynna sér.



RIFF 2010: Dagur 5

Í dag fór ég á Inside America og Attenberg.

12. Inside America
Offurraunsæ og eymdarleg unglingamynd.
Kunningi minn furðaði sig á því hversu hefðbundin þessi mynd væri í uppbyggingu - að hún minnti hann soldið á bandarískar unglingamyndir frá 9. áratugnum. Það er samt bara uppbygging sögunnar; myndin sjálf er allt öðruvísi og er greinilega ætlað að vera óvæginn spegill á bandarískt samfélag. Á IMDb stendur að myndin sé "A feature film taking a tougher look on reality than any documentary," sem ég skil þannig að hún taki raunveruleg vandamál og ýki þau upp - a.m.k. eru aðstæðurnar í þessari mynd ótrúlega ýktar.Svona redda unglingar sér bjór í Texas - þeir stela honum!
Samfélagið sem myndin lýsir er rosalega misskipt. Ríku krakkarnir keyra um á jeppum og halda rosaleg partí, á meðan fátæku krakkarnir þurf að vinna á nóttinni með skólanum og þurfa að hafa áhyggjur af því að verða heimilislaus þegar þau verða 18 ára og verður hent út af fósturheimilinu. Aðal ríki strákurinn er í ROTC bekk, sem þýðir að hann er í herbúning í skólanum og er í hermannaleik megnið af deginum. Aðal ríka stelpan er klappstýra, og skóladagurinn hennar virðist fara í förðunarkennslu og það að læra að vera módel! Á meðan eru fátæku krakkarnir í Home-Ec að læra að vera foreldrar.
Nei, þetta eru ekki hermenn. Þetta eru menntaskólanemar!
Ég hélt í fyrstu að þetta væri fáránlega ýkt útgáfa af bandarískum menntaskóla, en síðan sá ég eiginlega nákvæmlega sömu senurnar í Winter's Bone, þ.a. kannski er þetta nokkurn veginn sannleikanum samkvæmt. Þetta er mynd sem ætlar að sjokkera mann og sýna manni hversu fáránlegt bandarískt samfélag er, og henni tekst það nokkuð vel. Þetta er engin gargandi snilld, en myndin er að mörgu leyti ágæt.
Hádegisverður meistaranna
Hópþrýstingur
Gaman í hermannaleik

13. Attenberg
Þegar ég fór á þessa mynd var ég soldið annars hugar og það gæti hafa haft áhrif á upplifun mína af henni. Auk þess minnti lýsingin mig á gríska mynd sem var á hátíðinni í fyrra, Dogtooth, en sú mynd var frekar sjokkerandi og eiginlega alveg rosaleg, þ.a. ég fór á þessa með háleitar væntingar um að vera stuðaður, en þær væntingar voru ekki uppfylltar.
Vinkonan kennir Marinu að kyssa
Þetta er ágæt mynd, en frekar óvenjuleg. Hún fjallar um stúlku, Marinu, sem býr með dauðvona föður sínum í yfirgefnum verksmiðjubæ. Stelpan vill ekkert vita af mannfólkinu og hennar reynsla af heiminum virðist aðallega fengin úr dýralífsmyndum Davids Attenborough (eða Attenberg eins og eina vinkona hennar ber það fram). Leikstjórinn sagði eftir myndina að hún væri um sambönd og þríhyrninga, að eini rétti fjöldinn í sambandi væri þrír. Eftir því sem pabbi stúlkunnar nálgast dauðann opnar hún sig meira fyrir ungum manni, og kannski er pælingin sú að það sé eitthvað sem hún verði að gera til þess að halda þessu þrí-sambandi gangandi.
Some silly walks

Innblásturinn: Monty Python sketsinn "The Ministry of Silly Walks"
Myndin er öll byggð upp af samtölum og löngum skotum, með stuttum "silly walks" senum inn á milli, sem eru innblásnar af Monty Python. Leikurinn er soldið skrýtinn, mjög fjarlægur og tilfinningalaus. Leikstjórinn talaði um að hún vildi hafa þetta þannig, að hún hafi sagt leikurunum að fjarlægja sig frá persónunum sínum. Sem mér finnst frekar skrýtin pæling. Þessi mynd er ekki fyrir alla, en mér fannst hún ágæt. Hins vegar fangaði hún mig aldrei alveg, en hvort það er vegna þessarar fjarlægðar leikaranna eða vegna þess að ég var annars hugar get ég ekki sagt með neinni vissu.

mánudagur, 27. september 2010

RIFF 2010: Dagur 4

Í dag fór ég á Soul Kitchen, Íslenskar stuttmyndir 1, Where's the Snow? og Submarino auk þess sem ég fór á masterklassa um Jim Jarmusch.
Samkvæmt lýsingunni í dagskránni átti þessi masterklassi að fjalla um Jim Jarmusch og aðra bylgju nýamerískrar kvikmyndagerðar (eða eitthvað svoleiðis), en síðan reyndist fyrirlesturinn bara vera um Jarmusch, sem voru ákveðin vonbrigði. Umfjöllunin um Jarmusch var ágæt; David Edelstein talaði um það úr hvaða jarðvegi Jarmusch sprettur og hverjir áhrifavaldar hans eru, en hann var alveg sannfærður um það að Jarmusch væri ekki hluti af neinni bylgju, og að raunar reyndi Jarmusch vísvitað að forðast allt slíkt. Þannig að út frá kvikmyndasögulegu sjónarmiði misstuð þið ekki af miklu.

8. Soul Kitchen
Þetta er bráðskemmtileg mynd. Hún er frekar "mainstream", og ef hún væri á ensku myndi þetta vafalaust teljast dæmigerð "indie" mynd.
Myndin fjallar um Zinos, Þjóðverja af grískum ættum, sem á og rekur frekar sorglegt veitingahús sem hann kallar Soul Kitchen. Þar ber hann á borð upphitaða og djúpsteikta frosna rétti fyrir verkamenn, og hefur rétt svo í sig og á. Síðan kemur röð atburða sem kemur öllu úr jafnvægi: kærastan hans flytur til Kína, hann fer í bakinu og getur ekki lengur "eldað" og bróður hans er sleppt úr fangelsi. Með hjálp hóps af sérvitringum gjörbreytist Soul Kitchen úr sveittri ruslfæðisbúllu í líflegan og spennandi veitingastað, en það gengur ekki áfallalaust.
Hér er Zinos aðeins farinn að bæta sig í eldamennskunni. Í bakgrunni má sjá Shayn, sérvitra kokkinn sem kennir honum listina og hverfur svo (soldið eins og Shane!).

Þetta er hress og skemmtileg mynd, og fullt af "twists and turns" á leiðinni. Leikstjórinn, Fatih Akin, var líka með mynd á hátíðinni fyrir 2-3 árum. Hún hét The Edge of Heaven og var bara nokkuð góð. Það er svo sem ekkert mikið meira um þessa mynd að segja. Ég get alveg mælt með henni.
Bræðurnir Illias og Zinos



9. Íslenskar stuttmyndir 1
Á þessari sýningu voru fimm stuttmyndir. "Reyndu aftur", "Knowledgy" og "Breki" voru ágætar myndir; "Pleisið" og "Heart to Heart" voru talsvert slakari.
"Reyndu aftur" hefst á því að aðalpersónan ætlar að fremja sjálfsmorð, en röð tilviljana hindra hann í því. Spaugileg og nokkuð vel gerð.
"Knowledgy" fjallar um kvikmyndaskólanema sem leigir herbergi hjá pari sem er í einhverjum furðulegum sértrúarsöfnuði. Seinasta verkefni Michaels var misheppnuð heimildamynd um ketti (kennarinn hans telur að kettir séu ekki gott efni í mynd, en hann hefur kannski ekki séð The Private Life of a Cat), og nú dettur honum í hug að gera heimildamynd um leigusala sína og sértrúarsöfnuðinn þeirra. Þessi sértrúarsöfnuður virðist vera blanda af nokkrum frægustu sértrúarsöfnuðum samtímans, og eiginmaðurinn virðist vera alveg heltekinn af þessu, en eiginkonan er bara í þessu til þess að gleðja hann. Úr þessu verður gott grín.
"Breki" er aðeins listrænni en hinar tvær. Hún byrjar á því að ungur maður er í dáleiðslumeðferð hjá sálfræðingi, en meginefni myndarinnar er þær minningar sem dáleiðslan vekur upp, en myndin á að fjalla um það hvernig aðalpersónan tókst á við dauða föður síns þegar hann var 5-6 ára gamall. Miðað við mynd sem á að heiðra minningu látins manns, þá er ein senan í myndinni mjög óheppileg. Í fyrstu vita áhorfendur ekkert af hverju aðalpersónan er hjá sálfræðingi, né hvaða minningar kunni að koma upp á yfirborðið í dáleiðslunni, og ein senan gefur sterklega til kynna barnaníð (sem ég vona að hafi ekki verið ætlunin). Annars eru minningarsenurnar voða artí, með einhverjum filterum og effektum og soldið vel hrista handhelda myndavél. Ágæt mynd en ekki sama skemmtigildið og hinar tvær.
"Pleisið" er frekar ómerkileg mynd. Mér fannst hún mest eins og lélegt forvarnarmyndband. Skilaboðin eru einhvern veginn svona: "Ef þú drekkur og dópar springa vinir þínir í loft upp og þú lendir í fangelsi þar sem þér verður nauðgað! Fíkniefnalaust Ísland árið 2000!"



"Heart to Heart" er fáránlega artí mynd. Það eru alveg flott skot í henni og svoleiðis, en enginn söguþráður og allt voða súrrealískt.

10. Where's the Snow
Það var gaman að fara á þessa, þó ekki væri nema til þess að gíra sig upp fyrir Airwaves. Þetta var einhver sér Airwaves sýning. Fyrir myndina tóku Mammút og Agent Fresco nokkur lög, sem var gaman. Og svo var alls konar tónlistarfólk sem hafði verið boðið á myndina. Og frír bjór (sem ég nýtti mér syndsamlega lítið).
Myndin sjálf er alveg ágæt. Hún svissar á milli viðtala við tónlistarfólk sem talar um hvað Airwaves hátíðin er frábær, og tónleika á hátíðinni. Þessar tónleikaupptökur eru yfirleitt eitt lag með einhverri hljómsveit; stundum er laginu leyft að hljóma en stundum er viðtalið við viðkomandi sveit sett yfir lagið. Allir flytjendur eru íslenskir, og eins allir viðmælendur fyrit utan einn bandarískan tónlistarfræðing. Skilaboðin til væntanlegra Airwaves-gesta: "Ekki skipuleggja - ráfaðu bara um og uppgötvaðu eitthvað nýttt:"



11. Submarino
Þessi var djöfulli öflug. Hún er í leikstjórn Thomasar Vinterberg sem gerði Festen, sem ég vænti að flestir séu búnir að sjá. Þessi er álíka óþægileg og Festen. Hún fjallar um tvo bræður sem ólust upp við vondar aðstæður (mamma þeirra var alki) og það hvaða áhrif það hefur á líf þeirra þegar þeir fullorðnast (þeir eru ónýtir, sjálftortímandi fíklar). Eldri bróðirinn, Nik, er nýsloppinn úr fangelsi, er að springa úr innibyrgðri reiði og gerir fátt annað en að drekka bjór. Yngri bróðirinn, sem virðist ekkert nafn hafa, er heróínfíkill og einstæður faðir. Þetta er svona danskur sósíalrealismi af bestu gerð.
Nik
Aðalleikarinn, sem leikur Nik, svaraði spurningum í lok sýningarinnar. Honum fannst vera vonarglæta í lok myndarinnar sem ég hafði ekki áttað mig á, en þegar ég pældi í því gat ég alveg séð það (ég ætla samt ekkert að fara að segja hvernig myndin endaði). Megnið af myndinni er samt hrikalega átakanlegt og einkennist af mikilli eymd. Senurnar með yngri bróðurnum og syni hans voru sérstaklega erfiðar, eins og þegar hann sækir son sinn á leikskólann út úr heiminum í heróínvímu. Ég mæli hiklaust með þessari.


sunnudagur, 26. september 2010

RIFF 2010: Dagur 3

Í dag sá ég Uppistandsstelpur/Ísland-Úganda, Jo for Jonathan og Big Man Japan. Ég ætlaði líka að sjá Attenberg, en þökk sé klúðri hjá RIFF þá komst ég ekki á hana. Svo ég fái aðeins útrás fyrir vonbrigðin, þá ætlaði ég að kaupa miða á allar myndir dagsins þegar ég fór á Uppistandsstelpur, en þá fraus kerfið einmitt þegar verið var að afgreiða mig, þ.a. það eina sem ég fékk var handskrifaður miði á Uppistandsstelpur. Þegar ég kom svo í Bíó Paradís 10 mínútum fyrir sýningu á Attenberg var uppselt á hana. Sem sagt, ef kerfið hefði ekki frosið, eða ef það hefði bara frosið 1 mínútu seinna, þá hefði ég komist á þessa mynd. Frekar fúlt.

5. Uppistandsstelpur / Ísland-Úganda
Tvær íslenskar heimildamyndir.
Uppistandsstelpur var ansi skemmtileg. Fyrir þá sem ekki vita, þá fjallar hún um hóp stúlkna sem ákveða að byrja með uppistand, fyrst og fremst vegna þess að það eru engar stelpur í uppistandi. Myndin byggist fyrst og fremst á viðtölum við stúlkurnar og stuttum myndskeiðum frá uppistandi þeirra. Það er skemmst frá því að segja að þetta er skemmtileg hugmynd hjá þeim, og margar þeirra eru drepfyndnar. Myndin reynir líka að varpa ljósi á kynbundnar staðalímyndir varðandi grín og uppistand. Til dæmis tala stelpurnar um hvernig allir spyrji hvernig þær þori þessu - eitthvað sem enginn virðist spyrja stráka í uppistandi.



Ísland-Úganda var talsvert síðri. Í henni kynnumst við (mjög yfirborðskennt) sex manneskjum, þremur Íslendingum og þremur Úgandamönnum. Ætlunin er væntanlega að bera saman þessi tvö samfélög með einhverjum hætti, en það vantar alla dýpt í myndina auk þess sem hún kemst ekki beint að neinni niðurstöðu. Það eru fyndin augnablik, en heilt yfir virkar myndin hálf pointless.

6. Jo for Jonathan
Þetta var ágæt mynd en ekkert mikið meira en það.
Myndin fjallar um Jo, 17 ára lúser sem lítur ofboðslega upp til bróður síns. Bróðir hans, Thomas, er með bíladellu og er í raun engu minni lúser en Jo, nema hvað hann á flottan bíl og sæta kærustu (sem er að öllum líkindum æðsta markmið Jo í lífinu). Jo fellur á bílprófinu en segir öllum að hann hafi náð því, og fær svo bíl bróðurs síns lánaðan og fer í spyrnu, tapar og getur ekki borgað það sem hann hafði veðjað. Þetta hrindir af stað atburðarás sem endar með því að bróðir hans stórslasast í spyrnu og Jo kennir sjálfum sér um.
Það er margt ágætt í þessari mynd, en mér fannst ég aldrei komast almennilega inn í hana. Jo er ekkert sérstaklega sympatísk persóna, og raunar vitum við sjaldnast hvað honum gengur til - hann segir og gerir mjög fátt. Myndin er öll frekar grá og dauf í útliti og er líka ansi hæg. Það eru í henni ágætar senur og nokkur flott skot, en það vantar eitthvað upp á til þess að fanga áhorfandann almennilega.

7. Big Man Japan
Þetta var alveg stórskemmtileg sýra eftir leikstjóra Symbol, en ekki alveg eins góð og Symbol.
Þessi byrjaði soldið hægt, en samt stórskemmtilega. Þetta er mockumentary um síðustu ofurhetju Japana, mann sem getur stækkað og orðið risastór þegar á reynir, t.d. þegar risastór skrímsli ráðast á höfuðborgina. Fyrstu 15 mínúturnar af myndinni gerist afskaplega fátt, þær eru eiginlega bara viðtal við stóra manninn, nema á meðan hann er í eðlilegri stærð. Vegna þess hversu skemmtileg og skrýtin týpa stóri maðurinn er, þá eru þessar rólegu fyrstu mínútur ansi skemmtilegar. Mér þótti t.d. mjög gaman hvað hann hélt upp á hluti sem geta stækkað þegar maður þarf á þeim að halda, eins og regnhlíf og frystiþurkað þang.
"Ég elska þang, því það er eins og ég!"
Það er líka ansi skondið þegar hann stækkar í fyrsta sinn og þarf að takast á við skrímsli. Það er ekki beint mikið lagt í tæknibrellurnar, þ.a. þessar hasarsenur eru ekkert sérstaklega flottar, en þær eru sniðugar. Hins vegar verða þær soldið endurtekningarsamar eftir fyrstu 2-3 skrímslin, og heilt yfir eru senurnar þar sem stóri maðurinn er lítill skemmtilegri og á allan hátt vandaðri.

laugardagur, 25. september 2010

RIFF 2010: Dagur 2

Í dag tók ég soldið við mér og skellti mér á þrjár myndir: Addicted in Afghanistan, Littlerock og Symbol.

2. Addicted in Afghanistan
Addicted in Afghanistan er soldið erfið mynd. Ekki vegna þess að hún er ekki aðgengileg, heldur vegna þess að hún sýnir manni inn í heim sem maður vill ekkert endilega vita af, heim þar sem konur og börn lifa við ömurlegar aðstæður og það er ekkert óvenjulegt að 15 ára drengir séu heróínfíklar. Aðalpersónur myndarinnar eru þeir Jabar og Zahir, 15 ára heróínfíklar, sem í upphafi myndar eru nýstroknir af meðferðarheimili. Fyrir utan nokkur (mjög) stutt viðtöl við lækna á meðferðarstofnunum og fullorðna fíkla, þá fylgjum við þessum tveimur drengjum alla myndina.
Ástandið í Afganistan er hræðilegt. Framleiðandi myndarinnar, Sharron Ward, sat fyrir svörum og sagði meðal annars að samkvæmt nýjustu tölum er ætlað að í Afganistan séu um 2,5 milljónir heróín- og ópíumfíkla. Heildaríbúafjöldi Afganistan er um 30 milljónir, þ.a. þetta er næstum því 10% þjóðarinnar, og að miklu leyti eru þetta konur og börn. Það er gríðarlegt framboð af heróíni í Afganistan og nánast engin meðferðarúrræði. En þessi mynd fjallar í raun ekkert um það. Í þessari mynd fáum við engar beinharðar staðreyndir og enga hlutlausa umfjöllun um efnið. Það eina sem við fáum að vita um ástandið í Afganistan er það sem misvitrir og lítt upplýstir viðmælendur segja. Til dæmis virðast drengirnir tveir sammála um að fíkniefnavandinn hafi fyrst birst með innrás Bandaríkjamanna inn í landið, og að ef Talíbanarnir næðu aftur völdum myndi vandinn hverfa samstundis. Þetta á sér hins vegar enga stoð í raunveruleikanum.
Þessi mynd er áhrifarík og lýsir hræðilegu og vonlausu ástandi, en samt vantaði eitthvað upp á að ég næði almennilegum tilfinningatengslum við myndina. Þrátt fyrir að við værum alveg ofan í drengjunum alla myndina, fannst mér ég aldrei ná neinum tengslum við þá. Kannski er það vegna þess að þeir eru fíklar alla myndina. Við kynnumst þeim aldrei "edrú" - meira að segja eftir að Zahir fer í gegnum meðferð virkaði hann á mig sem tóm skel. Kannski var áherslan í myndinni of mikil á heróín-neysluna. Kannski snerist líf þeirra að svo miklu leyti um neysluna, að það var engin leið fyrir kvikmyndagerðarmanninn að komast nær þeim, eða sýna þá öðruvísi. Þetta er erfið og átakanleg mynd, en hún hefði getað verið átakanlegri og um leið kannski hjartnæmari, ef dregin hefði verið upp rúnnaðri mynd af drengjunum. Einnig hefði hún getað frætt mann talsvert betur um ástandið ef áherslurnar hefðu verið aðrar.





3. Littlerock
Mér fannst þessi fín. Myndin fjallar um japönsku systkinin Atsuko og Rintaro sem eru á ferðalagi í Kaliforníu og ætla að heimsækja San Fransisco, bæinn þar sem afi þeirra bjó, og Manzanara, fangabúðirnar þar sem hann var geymdur í seinni heimsstyrjöldinni. Í smábænum Littlerock, á leið til San Fransisco, bilar bíllinn þeirra. Á meðan þau bíða eftir viðgerð kynnast þau nokkrum ungum mönnum á staðnum, m.a. sveitalúðanum og pabbastráknum Cory (leikarinn sem leikur hann er í alvörunni frá Littlerock). Þessir ungu menn hrífast allir af Atsuko og af einhverri undarlegri ástæðu hrífst hún líka af þeim - það mikið að þegar bíllinn kemur úr viðgerð fer Rintaro til San Fransisco án hennar.
Atsuko talar enga ensku og margar senur í myndinni, sérstaklega eftir að Rintaro er farinn, eru uppfullar af gríni sem gerir út á samskiptaleysið milli hennar og fólksins á staðnum. Einnig er gaman að sjá hvernig Atsuko misles aðstæður og telur staðarfólkið mun vingjarnlegra og velviljaðra en það er í raun og veru. Ein spurningin í Q&A-inu kom einmitt frá konu sem óttaðist mjög um Atsuko alla myndina. Það skal ósagt látið hér hvort sá grunur reyndist á rökum reistur.
Leikstjórinn svaraði spurningum undir lokin og þar kom margt skemmtilegt fram. Í einni senunni reykja persónurnar hass í litlu hjólhýsi og sú sena var ekki bara að miklu leyti spunnin, heldur lét leikstjórinn leikarana reykja hass í raun og veru, og rýmið var svo lítið að þegar tökum lauk voru allir, þ.á.m. leikstjórinn, orðnir freðnir. Hann mælir ekki með slíkum vinnubrögðum. Svona spurningatímar eru ótrúlega skrýtnir. Stundum koma engar spurningar og stundum koma spurningar sem fæstir almennir áhorfendur hafa nokkurn áhuga á að vita svarið við. Í þetta skiptið hafði einn áhorfandinn mikinn áhuga á að fá að vita um alls konar tæknileg atriði í myndinni. T.d. spurði hann á hvernig myndavél myndin var tekin, og svo spurði hann (eða öllu heldur besservissaði) hvort það væri ekki rétt munað hjá sér að sú myndavél væri með áfastri linsu, og hvort þeir hefðu notað lens-adapter eða hvað? Raunar kom líka frá honum ein mjög góð spurning (eða spurning sem hafði í för með sér mjög áhugavert svar). Svarið var á þá leið að crewið í þessari mynd var ekki nema 4, þ.e. leikstjórinn, myndatökumaður og tveir hljóðmenn. Síðan komumst við líka að því að myndin kostaði ekki nema 15 þúsund dollara í framleiðslu, sem hlýtur að teljast ansi vel sloppið. Lexían? Það er betra að fá margar leiðinlegar spurningar og eina góða en að fá engar spurningar.
Að lokum nokkur orð um sýninguna sjálfa. Tæknifólkið í Háskólabíó hafði lækkað í hljóðinu í Q&A-i eftir myndina sem var á undan, og gleymdi síðan að hækka aftur, þ.a. fyrsta tvær mínúturnar af myndinni voru þöglar. Ekki nóg með það, heldur virtist engum detta í hug að spóla til baka þegar hljóðið var loks komið í gang (sem hefði ekki verið mikill vandi, enda myndin sýnd af digibeta, en ekki filmu). Ekki voru þetta einu tæknivandræðin, því myndin hökti á köflum, og leikstjórinn var frekar vandræðalegur yfir þessu öllu (þótt þetta sé auðvitað ekki honum að kenna). Það er fátt leiðinlegra en þegar svona tæknileg atriði klúðrast, og það er ótrúlegt hvað maður finnur til mikils vanmáttar, að sitja og horfa á svona klúður og geta í raun voða lítið gert.



4. Symbol
Þessi var ótrúlega skrýtin og á köflum ansi hreint skemmtileg. Hún flettar saman tveimur sögum, annars vegar af Sniglamanninum (Escargot Man), mexíkóskum glímukappa sem má muna sinn fífil fegurri, og hins vegar af manni sem vaknar í (næstum) galtómu dyralausu herbergi. Veggirnir í þessu galtóma herbergi eru þó ekki alveg líflausir, því bak við þá (eða inni í þeim) eru litlir englar, en það eina sem sést af þeim megnið af myndinni eru typpin, sem skaga út úr veggnum. Hetjan (leikin af leikstjóranum sjálfum, Hitoshi Matsumoto) áttar sig fljótt á því að þegar hann snertir typpin gerist eitthvað, en hvað gerist fer alveg eftir því hvaða typpi hann snertir!
Englarnir sem leynast bak við veggina

Hvað skyldi gerast þegar hann þrýstir á þetta typpi?

Þessi mynd er fyrst og fremst ótrúleg sýra, en heldur manni ansi vel við efnið framan af. Síðan er maður mestan part myndarinnar að pæla í því hvernig þessar tvær sögur tengjast, og það má með sanni segja að tengingin hafi verið fremur óvænt og ansi fynding (salurinn sprakk úr hlátri). Ég held ég geti hiklaust mælt með þessari.


RIFF 2010: Dagur 1

Ég fór á opnunina og náði þess vegna bara að sjá eina mynd: opnunarmyndina Cyrus. Það hefur bæði kosti og galla að fara á opnunina. Það var gaman að taka þátt í þessum hátíðarhöldum og ekki verra að fá vín og snittur, en um leið fannst mér ég vera að missa af bíói. Ég hefði nefnilega léttilega getað farið á þrjár myndir þetta kvöld ef ég hefði ekki farið á þessa opnunarhátíð.

1. Cyrus

Kunningja mínum, sem ég spjallaði við eftir myndina, fannst þetta skrýtin opnunarmynd á RIFF og að hún hefði passað betur á kvikmyndahátíð Græna ljóssins en á RIFF. Ég verð að játa að ég er sammála honum. Það er ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd - hún er bara frekar "mainstream" og alls ekki dæmigerð fyrir þær myndir sem eru sýndar á RIFF.
Cyrus er svona "quirky" gamanmynd í anda Little Miss Sunshine (kannski ekki alveg eins "feel-good"). John C. Reilly leikur John, algjöran lúser sem virðist hafa verið að drukkna í þunglyndi undanfarin sjö ár, eftir að fyrrverandi konan hans (Catherine Keener) fór frá honum. Þau eru samt enn góðir vinir (raunar virðist hún frekar vera í einheverju móðurhlutverki), en í upphafi myndarinnar tilkynnir hún honum að hún ætli að giftast aftur. Í framhaldi af því hvetur hún hann til þess að fara út á lífið og þá hittir hann Molly (Marisu Tomei) og þau verða ástfangin. Allt er voða gott þar til hann hittir 21 árs gamlan son Molly, Cyrus (leikinn af Jonah Hill), en Cyrus er jafnvel enn meira "clingy" við mömmu sína en John er við fyrrverandi eiginkonuna. And comedy ensues...
Þrátt fyrir þennan fræga leikarahóp er myndin ekki algjörlega "mainstream". Duplass bræður, sem skrifuðu og leikstýrðu myndinni, notast að miklu leyti við spuna, a.m.k. hvað díalóg varðar. Sumar senurnar ná miklum hæðum í vandræðalegheitum og bjánahrolli (sem mér finnst bara gott). Sum tæknivinnslan er líka óhefðbundin. Þar ber helst að nefna skrýtna myndatöku (furðuleg og stuðandi hröð zoom sem gerðu ekkert annað en að koma mér út úr myndinni) og furðulega hljóðvinnslu (oft er settur inn díalógur sem er greinilega úr annari töku eða annari senu, jafnvel díalógur persónu sem er í nærmynd, og varirnar hreyfast ekki). Mér fannst þessi tæknilegu "sérkenni" ekki bæta neinu við myndina, og raunar ekki gera neitt nema minna mann í sífellu á að maður væri að horfa á mynd (og hindra þannig almennilegt "suspension of disbelief").
Þetta er samt alls ekki vond mynd. Hún er bara alveg ágæt, og mun aðgengilegri en margar myndir á hátíðinni. Eins og Sveinn (sem kom í tíma til okkar á mánudaginn) sagði, þá er Cyrus soldið "safe bet". Ef þið eruð óvön listrænum og erfiðum myndum, eða mjög eymdarlegum heimildamyndum, þá getur þessi mynd verið ágæt tilbreyting frá þeirri hlið hátíðarinnar.

föstudagur, 17. september 2010

Maraþonmyndir: Umsagnir

Ég er búinn að taka saman maraþonmyndakosninguna ykkar. Fyrsta sæti jafngildir 10, annað sæti 9 og það þriðja 8. Síðan tók ég einfaldlega meðaltalið af þessum "einkunnum" fyrir hvern hóp. Ég vona að ykkur finnist það sæmilega réttlátt.

Mér þóttu myndir ykkar alveg hreint ágætar, og hálf-furðulegt hvað þær voru að mörgu leyti svipaðar, og um leið frábrugðnar mörgum myndum fyrri ára. Þær voru allar þöglar (fyrir utan endann hjá hópi 4), allar gerðu mjög vel í að nota tónlist til þess að skapa stemningu og flestar höfðu þær ágætt flæði og nokkuð vel heppnaðar klippingar (það voru kannski klippingarnar sem komu hópi 2 í koll).

Ég er að langmestu leyti sammála dómi hópsins.
  • Hópur 3 (Flöguhatur) náði að skapa góða stemningu og gerði margt mjög vel í sinni mynd. Tónlistarnotkunin var góð og fyrir utan 2-3 atriði tókst klippingin furðu vel miðað við að bara mátti klippa í myndavélinni.
  • Mér finnst lítill gæðamunur á hópum 1 og 4.
    Hóp 1 (Ást) tekst líkast til einna best upp við tónlistarnotkunina, og skipta áreynslulaust og á hárréttum tíma milli laga. Bardagasenan var sú eina sem ekki tókst sem skyldi - þar hefðu þau mátt prófa að fara nær hasarnum og hafa myndavélina handhelda (taka smá shaky-cam á þetta) til þess að búa til blekkingu um meiri hasar en var í raun og veru.
    Hóp 4 (Leti) tekst vel upp framan af, skapar góða og drungalega stemningu. Það voru nokkur ansi góð skot í þessari. Hins vegar var endirinn soldið "ódýr" lausn. Þótt ég fíli "meta"-myndir þá er það vandmeðfarið form og hefði þurft betri uppbyggingu til þess að pay-offið hefði verið almennilegt.
  • Hópur 2 (Græðgi) gerir líka ágæta mynd þótt þau komist ekki á pall. Nokkrar misheppnaðar klippingar, soldið einföld saga og hæg atburðarás gerir að verkum að hún nær ekki alveg hinum þremur. Samt er margt fínt í henni. Textinn var haganlega leystur og tónlistarnotkunin var fín.

1. sæti
Hópur 3: Flöguhatur
Nemendur: 9,5
Kennari: 9,5

2. sæti
Hópur 1: Ást
Nemendur: 9,1
Kennari: 9,0

3. sæti
Hópur 4: Leti
Nemendur: 9,0
Kennari: 9,0

4. sæti
Hópur 2: Græðgi
Nemendur: 8,5
Kennari: 8,5

Það virkar kannski pínu "leim" að ég skuli gefa nákvæmlega sömu einkunnir og þið, en mér finnst þetta einfaldlega vera réttu einkunnirnar. Hópur 3 var með bestu myndina, en hún er samt ekki upp á 10. Hópar 1 og 4 eru skrefi þar fyrir aftan, og svo er hópur 2 skrefi fyrir aftan þá.