laugardagur, 25. september 2010

RIFF 2010: Dagur 2

Í dag tók ég soldið við mér og skellti mér á þrjár myndir: Addicted in Afghanistan, Littlerock og Symbol.

2. Addicted in Afghanistan
Addicted in Afghanistan er soldið erfið mynd. Ekki vegna þess að hún er ekki aðgengileg, heldur vegna þess að hún sýnir manni inn í heim sem maður vill ekkert endilega vita af, heim þar sem konur og börn lifa við ömurlegar aðstæður og það er ekkert óvenjulegt að 15 ára drengir séu heróínfíklar. Aðalpersónur myndarinnar eru þeir Jabar og Zahir, 15 ára heróínfíklar, sem í upphafi myndar eru nýstroknir af meðferðarheimili. Fyrir utan nokkur (mjög) stutt viðtöl við lækna á meðferðarstofnunum og fullorðna fíkla, þá fylgjum við þessum tveimur drengjum alla myndina.
Ástandið í Afganistan er hræðilegt. Framleiðandi myndarinnar, Sharron Ward, sat fyrir svörum og sagði meðal annars að samkvæmt nýjustu tölum er ætlað að í Afganistan séu um 2,5 milljónir heróín- og ópíumfíkla. Heildaríbúafjöldi Afganistan er um 30 milljónir, þ.a. þetta er næstum því 10% þjóðarinnar, og að miklu leyti eru þetta konur og börn. Það er gríðarlegt framboð af heróíni í Afganistan og nánast engin meðferðarúrræði. En þessi mynd fjallar í raun ekkert um það. Í þessari mynd fáum við engar beinharðar staðreyndir og enga hlutlausa umfjöllun um efnið. Það eina sem við fáum að vita um ástandið í Afganistan er það sem misvitrir og lítt upplýstir viðmælendur segja. Til dæmis virðast drengirnir tveir sammála um að fíkniefnavandinn hafi fyrst birst með innrás Bandaríkjamanna inn í landið, og að ef Talíbanarnir næðu aftur völdum myndi vandinn hverfa samstundis. Þetta á sér hins vegar enga stoð í raunveruleikanum.
Þessi mynd er áhrifarík og lýsir hræðilegu og vonlausu ástandi, en samt vantaði eitthvað upp á að ég næði almennilegum tilfinningatengslum við myndina. Þrátt fyrir að við værum alveg ofan í drengjunum alla myndina, fannst mér ég aldrei ná neinum tengslum við þá. Kannski er það vegna þess að þeir eru fíklar alla myndina. Við kynnumst þeim aldrei "edrú" - meira að segja eftir að Zahir fer í gegnum meðferð virkaði hann á mig sem tóm skel. Kannski var áherslan í myndinni of mikil á heróín-neysluna. Kannski snerist líf þeirra að svo miklu leyti um neysluna, að það var engin leið fyrir kvikmyndagerðarmanninn að komast nær þeim, eða sýna þá öðruvísi. Þetta er erfið og átakanleg mynd, en hún hefði getað verið átakanlegri og um leið kannski hjartnæmari, ef dregin hefði verið upp rúnnaðri mynd af drengjunum. Einnig hefði hún getað frætt mann talsvert betur um ástandið ef áherslurnar hefðu verið aðrar.





3. Littlerock
Mér fannst þessi fín. Myndin fjallar um japönsku systkinin Atsuko og Rintaro sem eru á ferðalagi í Kaliforníu og ætla að heimsækja San Fransisco, bæinn þar sem afi þeirra bjó, og Manzanara, fangabúðirnar þar sem hann var geymdur í seinni heimsstyrjöldinni. Í smábænum Littlerock, á leið til San Fransisco, bilar bíllinn þeirra. Á meðan þau bíða eftir viðgerð kynnast þau nokkrum ungum mönnum á staðnum, m.a. sveitalúðanum og pabbastráknum Cory (leikarinn sem leikur hann er í alvörunni frá Littlerock). Þessir ungu menn hrífast allir af Atsuko og af einhverri undarlegri ástæðu hrífst hún líka af þeim - það mikið að þegar bíllinn kemur úr viðgerð fer Rintaro til San Fransisco án hennar.
Atsuko talar enga ensku og margar senur í myndinni, sérstaklega eftir að Rintaro er farinn, eru uppfullar af gríni sem gerir út á samskiptaleysið milli hennar og fólksins á staðnum. Einnig er gaman að sjá hvernig Atsuko misles aðstæður og telur staðarfólkið mun vingjarnlegra og velviljaðra en það er í raun og veru. Ein spurningin í Q&A-inu kom einmitt frá konu sem óttaðist mjög um Atsuko alla myndina. Það skal ósagt látið hér hvort sá grunur reyndist á rökum reistur.
Leikstjórinn svaraði spurningum undir lokin og þar kom margt skemmtilegt fram. Í einni senunni reykja persónurnar hass í litlu hjólhýsi og sú sena var ekki bara að miklu leyti spunnin, heldur lét leikstjórinn leikarana reykja hass í raun og veru, og rýmið var svo lítið að þegar tökum lauk voru allir, þ.á.m. leikstjórinn, orðnir freðnir. Hann mælir ekki með slíkum vinnubrögðum. Svona spurningatímar eru ótrúlega skrýtnir. Stundum koma engar spurningar og stundum koma spurningar sem fæstir almennir áhorfendur hafa nokkurn áhuga á að vita svarið við. Í þetta skiptið hafði einn áhorfandinn mikinn áhuga á að fá að vita um alls konar tæknileg atriði í myndinni. T.d. spurði hann á hvernig myndavél myndin var tekin, og svo spurði hann (eða öllu heldur besservissaði) hvort það væri ekki rétt munað hjá sér að sú myndavél væri með áfastri linsu, og hvort þeir hefðu notað lens-adapter eða hvað? Raunar kom líka frá honum ein mjög góð spurning (eða spurning sem hafði í för með sér mjög áhugavert svar). Svarið var á þá leið að crewið í þessari mynd var ekki nema 4, þ.e. leikstjórinn, myndatökumaður og tveir hljóðmenn. Síðan komumst við líka að því að myndin kostaði ekki nema 15 þúsund dollara í framleiðslu, sem hlýtur að teljast ansi vel sloppið. Lexían? Það er betra að fá margar leiðinlegar spurningar og eina góða en að fá engar spurningar.
Að lokum nokkur orð um sýninguna sjálfa. Tæknifólkið í Háskólabíó hafði lækkað í hljóðinu í Q&A-i eftir myndina sem var á undan, og gleymdi síðan að hækka aftur, þ.a. fyrsta tvær mínúturnar af myndinni voru þöglar. Ekki nóg með það, heldur virtist engum detta í hug að spóla til baka þegar hljóðið var loks komið í gang (sem hefði ekki verið mikill vandi, enda myndin sýnd af digibeta, en ekki filmu). Ekki voru þetta einu tæknivandræðin, því myndin hökti á köflum, og leikstjórinn var frekar vandræðalegur yfir þessu öllu (þótt þetta sé auðvitað ekki honum að kenna). Það er fátt leiðinlegra en þegar svona tæknileg atriði klúðrast, og það er ótrúlegt hvað maður finnur til mikils vanmáttar, að sitja og horfa á svona klúður og geta í raun voða lítið gert.



4. Symbol
Þessi var ótrúlega skrýtin og á köflum ansi hreint skemmtileg. Hún flettar saman tveimur sögum, annars vegar af Sniglamanninum (Escargot Man), mexíkóskum glímukappa sem má muna sinn fífil fegurri, og hins vegar af manni sem vaknar í (næstum) galtómu dyralausu herbergi. Veggirnir í þessu galtóma herbergi eru þó ekki alveg líflausir, því bak við þá (eða inni í þeim) eru litlir englar, en það eina sem sést af þeim megnið af myndinni eru typpin, sem skaga út úr veggnum. Hetjan (leikin af leikstjóranum sjálfum, Hitoshi Matsumoto) áttar sig fljótt á því að þegar hann snertir typpin gerist eitthvað, en hvað gerist fer alveg eftir því hvaða typpi hann snertir!
Englarnir sem leynast bak við veggina

Hvað skyldi gerast þegar hann þrýstir á þetta typpi?

Þessi mynd er fyrst og fremst ótrúleg sýra, en heldur manni ansi vel við efnið framan af. Síðan er maður mestan part myndarinnar að pæla í því hvernig þessar tvær sögur tengjast, og það má með sanni segja að tengingin hafi verið fremur óvænt og ansi fynding (salurinn sprakk úr hlátri). Ég held ég geti hiklaust mælt með þessari.


Engin ummæli: