5. Uppistandsstelpur / Ísland-Úganda
Tvær íslenskar heimildamyndir.
Uppistandsstelpur var ansi skemmtileg. Fyrir þá sem ekki vita, þá fjallar hún um hóp stúlkna sem ákveða að byrja með uppistand, fyrst og fremst vegna þess að það eru engar stelpur í uppistandi. Myndin byggist fyrst og fremst á viðtölum við stúlkurnar og stuttum myndskeiðum frá uppistandi þeirra. Það er skemmst frá því að segja að þetta er skemmtileg hugmynd hjá þeim, og margar þeirra eru drepfyndnar. Myndin reynir líka að varpa ljósi á kynbundnar staðalímyndir varðandi grín og uppistand. Til dæmis tala stelpurnar um hvernig allir spyrji hvernig þær þori þessu - eitthvað sem enginn virðist spyrja stráka í uppistandi.
Ísland-Úganda var talsvert síðri. Í henni kynnumst við (mjög yfirborðskennt) sex manneskjum, þremur Íslendingum og þremur Úgandamönnum. Ætlunin er væntanlega að bera saman þessi tvö samfélög með einhverjum hætti, en það vantar alla dýpt í myndina auk þess sem hún kemst ekki beint að neinni niðurstöðu. Það eru fyndin augnablik, en heilt yfir virkar myndin hálf pointless.
6. Jo for Jonathan
Þetta var ágæt mynd en ekkert mikið meira en það.
Myndin fjallar um Jo, 17 ára lúser sem lítur ofboðslega upp til bróður síns. Bróðir hans, Thomas, er með bíladellu og er í raun engu minni lúser en Jo, nema hvað hann á flottan bíl og sæta kærustu (sem er að öllum líkindum æðsta markmið Jo í lífinu). Jo fellur á bílprófinu en segir öllum að hann hafi náð því, og fær svo bíl bróðurs síns lánaðan og fer í spyrnu, tapar og getur ekki borgað það sem hann hafði veðjað. Þetta hrindir af stað atburðarás sem endar með því að bróðir hans stórslasast í spyrnu og Jo kennir sjálfum sér um.
Það er margt ágætt í þessari mynd, en mér fannst ég aldrei komast almennilega inn í hana. Jo er ekkert sérstaklega sympatísk persóna, og raunar vitum við sjaldnast hvað honum gengur til - hann segir og gerir mjög fátt. Myndin er öll frekar grá og dauf í útliti og er líka ansi hæg. Það eru í henni ágætar senur og nokkur flott skot, en það vantar eitthvað upp á til þess að fanga áhorfandann almennilega.
7. Big Man Japan
Þetta var alveg stórskemmtileg sýra eftir leikstjóra Symbol, en ekki alveg eins góð og Symbol.
Þessi byrjaði soldið hægt, en samt stórskemmtilega. Þetta er mockumentary um síðustu ofurhetju Japana, mann sem getur stækkað og orðið risastór þegar á reynir, t.d. þegar risastór skrímsli ráðast á höfuðborgina. Fyrstu 15 mínúturnar af myndinni gerist afskaplega fátt, þær eru eiginlega bara viðtal við stóra manninn, nema á meðan hann er í eðlilegri stærð. Vegna þess hversu skemmtileg og skrýtin týpa stóri maðurinn er, þá eru þessar rólegu fyrstu mínútur ansi skemmtilegar. Mér þótti t.d. mjög gaman hvað hann hélt upp á hluti sem geta stækkað þegar maður þarf á þeim að halda, eins og regnhlíf og frystiþurkað þang.
Það er líka ansi skondið þegar hann stækkar í fyrsta sinn og þarf að takast á við skrímsli. Það er ekki beint mikið lagt í tæknibrellurnar, þ.a. þessar hasarsenur eru ekkert sérstaklega flottar, en þær eru sniðugar. Hins vegar verða þær soldið endurtekningarsamar eftir fyrstu 2-3 skrímslin, og heilt yfir eru senurnar þar sem stóri maðurinn er lítill skemmtilegri og á allan hátt vandaðri.
1 ummæli:
Já ég sé mikið eftir að hafa ekki séð symbol en big man var góð skemmtun. Hafði eiginlega mest gaman af endanum þar sem höfundurinn gefur einhvern veginn bara skít í allt og klárar myndina á staðnum... með sýru.
Skrifa ummæli