þriðjudagur, 25. mars 2008

Góð helgi fyrir leikið innlent efni

Á páskadag og annan í páskum var sannkölluð góssentíð hvað leikið innlent efni varðar. Á Sirkus (eða hvað sem sú stöð heitir nú) var Pressu-maraþon, þar sem þáttunum sex var dreift yfir bæði kvöldin, og í Sjónvarpinu var Foreldrar sýnd á sunnudagskvöldið og á mánudagskvöldið var fyrsti þáttur af fjórum sýndur í nýrri spennuþáttaröð, Mannaveiðum. Ég sá eins mikið af þessu og hægt var (þurfti að fórna 4. þætti af Pressu fyrir Mannaveiðar), og verð að segja að mér sýnist staðan á leiknu innlendu efni ansi góð.
Sú var ekki alltaf raunin. Haustið 1999 fór ég á helgarlangt námskeið um gerð sjónvarpsþáttaraða sem Leikskáldafélag Íslands stóð fyrir ásamt höfundum dönsku þáttanna Taxa. Þó svo að efni námskeiðsins hafi verið mjög áhugavert og námskeiðið lærdómsríkt, þá man ég helst eftir því vonleysi sem ríkti í hópnum. Þarna var samankominn hópur manna sem hafði áhuga á og metnað til þess að skrifa leikið íslenskt sjónvarpsefni en gerði sér nánast engar vonar um að koma nokkru slíku í framleiðslu næstu árin. Þetta var á þeim tíma þegar Stöð2 var á vonarvöl og Sjónvarpið hellti öllu því fé sem átti að fara í innlenda dagskrá í skemmtiþætti. Þetta árið minnir mig að það hafi verið arfaslaki unglingaþátturinn Kolkrabbinn sem tók upp stóran hluta fjárins. Árið eftir (eða sama ár?) tókst Sjónvarpinu að klára allt féð í innlenda dagskrá það árið í mars eða apríl. (Staðan hjá Sjónvarpinu hefur reyndar lítið batnað, þeir ausa enn peningum í metnaðarlaust drasl eins og Laugardagslögin og Útsvar. Við getum þakkað eldri Björgólfinum það að eitthvað verði framleitt af leiknu innlendu efni fyrir þá næstu árin.) Á þessum tíma var bókstaflega ekki útlit fyrir að það yrði framleitt leikið innlent efni næstu áratugina. Sem betur fer virðist það vera breytt.
Það er gaman að minnast á það að tveir menn sem ég man eftir að voru á þessu námskeiði hafa verið virkir í gerð sjónvarpsefnisins sem sýnt hefur verið í vetur - þeir Sigurjón Kjartansson, sem er einn af mönnunum á bak við Pressu, og Jón Gnarr, leikari og meðhöfundur að Næturvaktinni.

Pressa
Þar sem ég tími ekki að borga þær fáránlegu upphæðir sem áskrift að Stöð2 kostar, þá missti ég af þessum þegar þeir voru frumsýndir í haust. Ég náði megninu af þeim nú um helgina og leist bara ansi vel á. Þeir ná að skapa ágæta stemningu og sæmilega spennu. Aðalpersónan, Lára, var ansi sympatísk, og taktískt að láta aðalpersónuna vera einhvern sem kemur nýr inn í þetta framandi umhverfi og kynnist því samtímis okkur áhorfendunum.
Þættirnir héldu athygli manns og gerðu vel í að halda yfirleitt alltaf nokkrum söguþráðum á lofti í einu, nema í lokin þegar aðalsöguþráðurinn er auðvitað aðalmálið. Þessi færsla á að vera jákvæðu nótunum, þannig að ég ætla ekkert að tala um smáatriðin sem fóru örugglega ekki í taugarnar á neinum nema mér, og láta nægja eina smá-gagnrýni. Seinasti þátturinn var frekar sléttur og felldur - mér fannst hann eiginlega allur fara í að binda einhverja hnúta og það var ekki beint mikil spenna í gangi eftir að Láru var bjargað strax í upphafi þáttar. "Cliffhangerinn" í lok 5. þáttar var reyndar gott "touch", en um leið kom hann upp um vonda kallinn u.þ.b. hálfum þætti of snemma - það getur varla nokkur hafa efast um hver morðinginn var í lok 5. þáttar.
Allt í allt ansi fínir þættir. Svo sem engin gargandi snilld, en vandaðir og spennandi þættir sem sóma sér vel á skjánum...

Mannaveiðar
Það er auðvitað ekki hægt að dæma þessa þáttaröð eftir einn þátt, en það má svo sem tala um þennan eina þátt. Mér leist bara mjög vel á þennan þátt og bíð spenntur eftir þeim næsta.
Að vissu leyti er þetta auðvitað bara sama gamla. Manni sýnist í fljótu bragði þættirnir ætla að sverja sig í ætt við sænska félagslega raunsæið (mig minnir að þeir kalli það það), eins og Allir litir hafsins eru kaldir gerði (og e.t.v. Pressa líka). Lúkkið rennir enn frekari stoðum undir það - það er svolítið skrýtið að það hafi myndast þessi hefð að þegar menn ætla að vera rosalega raunsæir þá sýni þeir allt í gegnum filter sem dregur úr litunum og gerir þá kaldari.
Upphafssenan (morðið) fannst mér bara nokkuð vel heppnuð. Þá fannst mér dýnamíkin milli lögreglumannanna tveggja (Hinriks og Gunnars) nokkuð skemmtileg, þó hún sé kannski ekki sú allra frumlegasta. Hún minnti mig svolítið á Turner & Hooch (man einhver eftir þeirri þvælu), með Gísla Örn í hlutverki Tom Hanks og Ólaf Darra í hlutverki hundsins... Og svo leiðir þessa dýnamík auðvitað líka til línu þáttanna hingað til: "Ég verð alltaf svangur þegar ég sé Borgarnes."
Ef það var eitthvað sem fór nett í taugarnar á mér í þessum fyrsta þætti þá var það hvað þeim lá mikið á að veita persónunum dýpt og persónueinkenni. Það lá við að það væri hálf-þvingað hvað þeir ætluðu að troða mikilli kynningu á persónum saman við upphafið á fléttunni. Hefði ekki mátt dreifa þessu yfir nokkra þætti. Það liggur við að allir sem hafi verið kynntir til sögunnar hafi einhver áberandi einkenni, og smáatriðunum er hlaðið á aðalpersónurnar. Einhvern vegin finnst mér minna "fínt" að skapa persónum með þessum hætti. Strax eftir fyrsta þáttinn vitum við að yfirmaður þeirra kumpána er að ganga í gegnum erfið sambandsslit; félagi þeirra (sem hefur nánast ekkert gert) tekur Dale Carnegie námskeið fram yfir morðmál; konan í tæknideildinni er svo forfallinn reykingamaður að hún fær að reykja inn á lögreglustöð: Gunnar er síétandi sóði, býr hjá þýskri mömmu sinni, er að gera upp gamalt mótorhjól og á (næstum örugglega) eftir að ná saman við dóttur bóndans sem er fyrst grunaður um morðið (sem nota bene var gift óvirkum alka, opnaði sjoppu, fór á hausinn...); og Hinrik er hræðilega tilfinningalega bældur, býr einn og er alltaf með slökkt inni hjá sér, er algjört "neat-freak", og var líkast til misnotaður sem barn. Í þeim efnum ætla ég líka að vona að þessi "flashbökk" hans Hinriks taki á sig einhvern viðsnúning, því ef þau fjalla um það að hann hafi orðið fyrir barðinu á barnaníðingi í æsku (og þess vegna sé hann svona bældur) þá hefði fyrsta "flashbakkið" verið nóg til þess að maður fattaði það. Mjög kúl effekt í "flashbökkunum" samt...
Ég vona að þessi "hleðsla" á persónum verði tónuð niður í næstu þáttum og plottið og dýnamíkin milli persóna fái að njóta sín (þó svo að kynning á persónum sé auðvitað lykilatriði til þess að svo megi verða). Ef sú verður raunin þá líst mér ansi hreint ágætlega á þessa þætti. Næstu þrjú sunnudagskvöld gætu orðið helvíti spennandi.
Og loks, sem dæmi um ágæti þessa fyrsta þáttar, þá þótti mér leiðinlegt að hann skyldi enda, og ef ég hefði haft næsta þátt hefði ég hiklaust haldið áfram að horfa.

Morgundagurinn

Mæting kl. 8.55.

Mælist til þess að menn mæti með klippitölvuna, og það á réttum tíma (reyndar helst nokkrum mínútum fyrr). Ef þeir gera það, þá getum við kíkt á stuttmyndir. Ef ekki, þá þarf ég að töfra eitthvað fram úr erminni.

mánudagur, 24. mars 2008

Mannaveiðar: Skylduáhorf í kvöld

Ég bið alla að horfa á Mannaveiðar í Sjónvarpinu í kvöld kl. 20.15. Það er ekki á hverjum degi sem leikin íslensk þáttaröð hefur göngu sína (sérstaklega ekki í opinni dagskrá) og um að gera að fylgjast með.
Fyrir þá sem alls ekki geta horft í kvöld, þá er þátturinn endursýndur á morgun kl. 23.40.

Síðan er aldrei að vita nema Björn geti talið leikstjórann á að koma í tíma til okkar. Hvað segir Björn um það?

föstudagur, 21. mars 2008

Fyrirlestrar og staða á stuttmyndunum

Það væri ágætt að fá að vita hvernig stuttmyndirnar ykkar standa, hver er með græjurnar þessa stundina, og hvort einhvern hóp dauðvantar að komast í græjurnar. Skiljið eftir komment.
Eins væri ágætt að þeir sem eiga eftir að velja efni í fyrirlestrunum tilkynni val sitt sem fyrst. Þá gæti ég hugsanlega lánað þeim myndir strax á miðvikudaginn eftir páska.

fimmtudagur, 20. mars 2008

Catch-22

Doc: "There's a catch."
Yossarian: "A catch?"
Doc: "Sure. Catch-22. Anyone who wants to get out of combat isn't really crazy, so I can't ground them."
Yossarian: "OK. Let me see if I got this straight. In order to be grounded I've got to be crazy. And I must be crazy to keep flying. But if I ask to be grounded it means I'm not crazy any more and I have to keep flying."
Doc: "You've got it. That's Catch-22."
Yossarian: "That's some catch, that Catch-22."
Doc: "It's the best there is."

Horfði á Catch-22 um daginn. Það eru örugglega komin 8 ár síðan ég las bókina (sem er tær snilld), en af einhverri ástæðu hafði ég aldrei horft á myndina. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Myndin er ansi hreint góð, og alveg ótrúlegt einvalalið leikara í henni: Alan Arkin, Martin Balsam, Anthony Perkins, Martin Sheen, Jon Voight, Orson Welles, Bob Balaban, Charles Grodin.
Myndin hefur gott orð á sér, þ.a. ég bjóst við gæðamynd, en á sama tíma er bókin alls ekki auðmyndanleg. Catch-22 eftir Joseph Heller er brotakennd, póst-módernísk, firrt, flókin og fyndin. Hún er mjög kaflaskipt og fylgir einni flugsveit Bandaríkjamanna í Miðjarðarhafi í seinni heimsstyrjöldinni, og það er engin ein vitundarmiðja (þó svo að Yossarian komist þar einna næst).
Samtalið hér fyrir ofan er nokkuð dæmigert um andann í bókinni (og myndinni). Nokkur önnur dæmi um álíka firringu:
  • Ein persónan er Major Major Major. Foreldrar hans skírðu hann þetta í einhverju djóki, og nafnið verður til þess að hann fær majórstign fyrir misskilning (og verður því Major Major Major Major). Hann vill ekkert með ábyrgðina hafa, þannig að hann segir undirmanni sínum að ef einhver kemur að hitta hann þá eigi undirmaðurinn að segja að hann sé ekki við, nema ef hann er ekki við, þá má senda gestinn beint inn á skrifstofuna...
  • Messadrengurinn, þ.e. liðsforinginn sem sér um matskála flugsveitarinnar byggir upp risavaxið viðskiptaveldi með því að versla með búnað og vistir sveitarinnar. Hann selur fallhlífar sveitarinnar, innihald fyrstu-hjálpar kassans (m.a. morfín) og hermennirnir fá í staðinn hlut í M&M Enterprises. Að lokum gerir hann samning við Þjóðverja að þeir kaupi af honum hundruðir tonna af bómull og í staðinn framkvæmir hann loftárás á bækistöðvar sinnar eigin sveitar.
  • Læknirinn fær einn flugmanninn til þess að skrá sig alltaf í flugbækurnar svo hann sleppi við að fara í loftið í alvörunni. Þegar viðkomandi flugmaður fremur sjálfsmorð í vél sinni þá er læknirinn skráður sem farþegi, og eftir það verður hann nokkurs konar uppvakningur, því allir ganga út frá því að hann sé dauður.
Myndin nær ágætlega firringu bókarinnar, þó svo að eðli sínu samkvæmt vanti auðvitað eitthvað upp á dýptina.
Það fór svolítið í taugarnar á mér að oft þurfti maður virkilega að hafa fyrir því að heyra orðaskil. Til dæmis er samtalinu sem vitnað er í hér fyrir ofan næstum drekkt í flugvélahljóðum.
Leikurinn er nokkuð góður. Alan Arkin er fantagóður í hlutverki Yossarians. Jon Voight í hlutverki messadrengsins fær mann alveg til þess að trúa á þennan karakter sem eltir gróðann svo blindandi að hann sér ekkert að því að selja fallhlífar mannanna án þess að segja þeim, svo lengi sem hann veitir þeim hlut í gróðanum.

Í hnotskurn: Ansi hreint góð mynd. Ég mæli eindregið með henni. Samt engin gargandi snilld.

laugardagur, 8. mars 2008

Dagskrá næstu viku

Mánudagur 8.10-9.35
Ég ætla að tala aðeins um hljóðblöndun. Áhrif hljóðblöndunar, nema hún sé þeim mun verri, er yfirleitt undirmeðvituð. Hljóð er samt ótrúlega mikilvægt og hefur hrikalega mikil áhrif.

Mánudagur 16.10-18.00
Bíó. Sýni líklegast Hearts of Darkness, heimildarmynd um gerð Apocalypse Now, yfirleitt talin vera besta Making of... mynd allra tíma. Ég er reyndar ekki alveg nógu ánægður með eintakið mitt, en við sjáum til...

Miðvikudagur 8.55-9.35
Höfum það bara frekar rólegt. Kannski verður hægt að frumsýna mynd Ólympíuliðsins. Annars ætla ég að sýna 2-3 sniðugar stuttmyndir.

Juno

Kíkti á Juno um síðustu helgi. Ég held ég hafi komið að henni með nokkuð hlutlausar væntingar, hafandi heyrt bæði góða og vonda hluti. Niðurstaðan er frekar hlutlaus, mér finnst þetta alltílagi mynd, en alls engin snilld.
Mér fannst díalógurinn vera stór galli á myndinni. Það var eins og önnur hver persóna væri bara of kúl fyrir myndina (og of kúl til þess að tala mannamál...). Fyrsta samtalið í myndinni er lýsandi dæmi um þetta (og líklegast ýktasta dæmið):

A (Afgreiðslumaður): Well, well - if it isn't McGuff the crime dog. Back for another test?
J (Juno): I think the first one was defective. The plus sign looks more like a division symbol, so I remain unconvinced...
A: Third test today mama bear. Your eggo's preggo. No doubt about it.
B (Búðarþjófur): It's real easy to tell. Is your nipples real brown.
A: Yeah, maybe your boyfriend has got mutant sperms, knocked you up twice...
J: Silenzio old man. Look, I just drank my weight in Sunny-D and I got to go pronto.
A: Well, you know where the lavatory is ... Pay for the pee stick when you're done! Don't think it's yours just because you marked it with your urine.


og eftir að hún er búin að taka prófið:

A: What's the prognosis, fertile Myrtle. Minus or plus.
J: I don't know. It's not seasoned yet. I'll take some of these ... No, there it is. That little pink plus-sign is so unholy.
(Juno shakes the pee stick)
A: That ain't no etch-a-sketch. This is one doodle that can't be undid, homeskillet.


Ég veit að það er fáránlegt að kvarta undan því að persónur í bíómynd tala ekki eins og alvöru fólk, enda myndum við líklegast ekki borga fyrir að fá að heyra "alvöru" samtöl. En það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað er æskilegt að fara langt, og þetta samtal fer langt, langt yfir strikið. Þegar ég horfi á bíómynd vil ég geta gleymt því um stund að ég sé að horfa á bíómynd og lifa mig inn í líf persónanna. Samtölin í þessari mynd hafa þau áhrif að ýta mér stöðugt úr því ástandi. Það sem ég pæli helst í í þessari senu er hversu oft Diablo Cody hlýtur að hafa endurskrifað þessa senu til þess að enda í þessari dellu...


Þar með er ekki sagt að þessi mynd eigi ekki sín móment. Þetta er klassískt augnablik:
Juno er að fara að segja vini sínum, Bleeker, að hann hafi barnað hana, og hefur komið sér svona skemmtilega fyrir.

Annað dæmi um það hvernig sumar persónurnar (sérstaklega Juno) eru of kúl fyrir þessa bíómynd er tónlistin. Soundtrackið í myndinni einkennist af krúttpoppi Kimya Dawson (ég held að hún eigi 2/3 hluta laganna í myndinni), á meðan Juno segist ekki fíla neitt annað en fyrstu-kynslóðar pönk - uppáhaldstónlistarmennirnir hennar eru Stooges, Patti Smith og The Runaways. Meira að segja karakterinn hans Jason Bateman er með of kúl tónlistarsmekk fyrir þessa mynd, en hann hlustar mest á Sonic Youth og hitaði einu sinni upp fyrir The Melvins (sem mér finnst reyndar ekkert hrikalega kúl band).

Þetta er alveg alltílagi mynd, en mér fannst eitthvað vanta. Ellen Page var ágæt, en mér tókst bara ekki að tengja við persónuna hennar, og ég held að díalógurinn hafi haft þar talsvert að segja. Síðan fannst mér endirinn hálfgert "cop-out".

Spoiler
Eftir að hafa rifist heiftarlega við barnsföðurinn, og eftir að hjónaband tilvonandi fósturforeldra barnsins liðaðist í sundur (sem var svo augljóst að maður sá það fyrir strax í fyrstu senunni sem þau birtust í) þá var samt allt afgreitt voðalega snyrtilega. Jennifer Garner fær barnið þótt hún sé núna einstæð kona á framabraut. Juno fattar allt í einu að hún sé skotin í Bleeker og gefur honum ársbirgðir af appelsínugulum Tic-Tacs (vegna þess að leiðin að hjarta mannsins er...) og allt verður gott og þau syngja krúttlegt ástarlag eftir kimya dawson og ... "roll credits".
Spoiler búinn

Lokaniðurstaðan er sú að þetta er krúttleg mynd, en aðalpersónan passar bara ekki inn í hana. Juno, eins og hún er skrifuð, myndi ekki fíla sig í þessari fáránlega cheesy lokasenu:

sunnudagur, 2. mars 2008

Dagskrá næstu viku

Mánudagur 8.10-9.35
Ræðum örfáa punkta í viðbót um klippingu og Murch.
Skoðum endurbætta útgáfu nokkurra stuttmynda (Ólympíuliðið verður því að mæta með tölvuna).
Kíkjum e.t.v. á 1-2 sniðugar stuttmyndir ef tími gefst til.

Mánudagur 16.10-18.00
Bíó.
Ef Bóbó tekur með sér diskinn sem ég gleymdi í H-stofunni þá getum við kíkt á Suspiria eða Söngva af annarri hæð. Ég tek með mér einhverjar aðrar myndir.
Suspiria notar liti á alveg yndislegan hátt!

Miðvikudagur 8.55-9.35
Vonandi heimsfrumsýning á meistaraverki Ólympíuliðsins. Annars kynning á mögulegum leikstjórum eða stefnum fyrir seinni fyrirlesturinn.

Darjeeling Limited

Eitthvað hefur letin í mér smitað út frá sér. Það hefur lítið verið bloggað síðustu vikurnar, meira að segja blogg-aðallinn hefur lítið gert. Síðan eru sumir sem hafa ekkert bloggað á þessari önn. Hvet ég menn til þess að bæta ráð sitt og skrifa um stuttmyndina sem er í bígerð, óskarinn, nýjar og gamlar bíómyndir, myndirnar sem eru sýndar í tímum o.s.frv.

Ein hugmynd: Skrifið um mynd sem þið viljið að sé sýnd í tíma. Reynið að sannfæra mig. Besta (röksemda)færslan leiðir til sýningar.

En þá að myndinni.
Ég hafði töluverðar væntingar en varð fyrir vonbrigðum. Wes Anderson er einstaklega skemmtilegur leikstjóri, og ég er mjög hrifinn af öllum myndunum sem komu á undan þessari, nema kannski Bottle Rocket, sem mér fannst svona miðlungsgóð. Myndir hans sameina skemmtilegan stíl, nánast fullkomna tónlist og skemmtilegar offbeat persónur (nema Bottle Rocket sem skortir upp á stílinn).
Darjeeling Limited inniheldur sama stílinn. Hún er myndrænt mjög flott, notar liti og munstur skemmtilega og hefur að geyma hrikalega flott slow-mo skot. Tónlistin er frábær - fullkomin blanda af indverskri tónlist og poppi sem leggur línurnar og skapar stemningu.
En af hverju veldur myndin þá vonbrigðum? Það eru persónurnar. Aðalpersónur myndarinnar eru Whitman bræður. Þeir hafa ekki sést í heilt ár, síðan í jarðarför föður síns, og nú dregur elsti bróðirinn, Francis, hina tvo með sér í "andlega reisu" í Indlandi. Vandinn er að enginn bræðranna er nógu sterkur karakter til þess að halda áhuga manns, en uppbygging myndarinnar krefst þess. Þeir eru allir hálf litlausir og óspennandi, öfugt við burðarása fyrri mynda Andersons (Jason Schwartzman í Rushmore, Gene Hackman í Royal Tenenbaums og Bill Murray í Life Aquatic).
Fyrir vikið er myndin bragðlítið augna- og eyrnakonfekt, og maður býst við meiru frá Wes Anderson.