sunnudagur, 28. október 2007

Gætuð þið sannfært einhvern um að Junior sé besta mynd allra tíma?

...ef svo er, þá getið þið unnið 300 pund.
Einhver snillingur er búinn að stofna til ritgerðakeppni þar sem markmiðið er að sanna að Junior sé besta mynd allra tíma. Já, Junior, myndin þar sem Arnold Schwarzenegger er óléttur!!!
In brief: I (Sandy Smith) have set up this website and competition in order to find an excellent essay proving that Junior is the best film ever. The deadline for this competition is the 25th of December 2007. The competition is open to all, the essay can be of any length, and may be written in any subject. There are five set subjects for the essay, but these are intended as a rough guide - originality will always be rewarded.

There is a cash prize of £300 ($600) for the winner of the competition, and six further prizes of £50 ($100) for each of the following subjects: Art Theory, Media Studies, Philosophy, Social Anthropology and Contemporary World History. Lastly an additional £50 prize will be awarded to the most original essay.
Skoðið þetta nánar á www.juniorbestfilmever.com. Þið gætuð lagt þetta fram sem valfrjálsa verkefnið ykkar!
Þetta ætti að vera lítið mál. Hver gæti efast um ágæti þessarar myndar?

Dagskrá næstu viku

Mánudagur kl. 8.10-9.35
Ræðum okkar sýn á A Piece of Apple Pie og skoðum hvernig við gætum sviðsett og tekið upp myndina. Berum okkur svo saman við umfjöllunina í FDF. Munið að hér er engin ein rétt lausn - en við verðum að geta réttlætt ákvarðanir okkar, þó ekki sé nema fyrir sjálfum okkur.

Mánudagur kl. 16.10-18.00
Horfum á ... La Régle du jeu (Rules of the Game) í leikstjórn Jean Renoir frá 1939. Þetta er stórgóð mynd, og þið munið kannski eftir því að hún var í fyrsta sæti á listanum yfir "100 bestu myndirnar sem eru ekki á ensku" sem ég gerði færslu um um daginn.
Opnan um La Régle du jeu úr 1001 Movies You Must See Before You Die. Smellið á myndina til þess að sjá opnuna í læsilegri stærð.

Miðvikudagur kl. 8.55-9.35
Höldum áfram í FDF. Förum hratt yfir næstu kafla (kaflar 10-12). Þótt þeir séu að mörgu leyti áhugaverðir þá nýtast þeir okkur lítið akkúrat núna. Ef eitthvað í þessari umfjöllun vekur áhuga ykkar hvet ég ykkur til þess að lesa viðkomandi kafla. Efni kaflanna er:
  • vinna með leikurum
  • hlutverkaskipting á tökustað
  • eftirvinnsla (sem við ræðum betur og í miklu meiri dýpt eftir áramót)
Næsta vika fer svo að mestu leyti í fyrirlestrana.
Í vikunni þar á eftir ætlum við að grandskoða Notorious, Truman Show og í samræmi við kafla 13-15 í FDF. Ef það er langt síðan þið sáuð Truman Show hvet ég ykkur til þess að kíkja á hana aftur. Þeir sem eru ekki búnir að sjá ættu að kíkja á hana (og ég minni á að þeir sem ekki mættu á sýninguna, eða létu sig hverfa, fá ekki mætingu í þá tíma fyrr en þeir birta góða færslu um myndina).

föstudagur, 26. október 2007

Tveir góðir linkar

Intensified continuity revisited
David Bordwell hefur pælt ansi mikið í því hvernig maður segir sögu í kvikmyndum og í mismunandi áherslum í frásögn. Í þessari grein bendir hann á hvernig frásagnarlistin hefur breyst seinustu 50 árin. Hann tekur dæmi úr einni senu í The Shop Around the Corner (Ernst Lubitsch, 1940) og endurgerðinni á henni, You've Got Mail (Nora Ephron, 1998). Hann bendir m.a. á það hversu miklu meiri áhersla er lögð á sviðsetningu í eldri útgáfunni, meðan endurgerðin klippir ört milli nærmynda. Og það fer ekki á milli mála hvor útgáfan honum finnst betri.
The Shop Around the Corner: Aðalpersónurnar tvær - gott dæmi um flotta sviðsetningu

Annars er bloggið hjá Bordwell alveg brilljant. Hann fer djúpt í hlutina, en skrifar samt mjög læsilegar greinar. Hann linkar fram og tilbaka í tengdar greinar, þ.a. maður getur oft flakkað milli greina tímunum saman.

Senses of Cinema
Stórgott ástralskt vefrit um kvikmyndir. Þar birtast reglulega áhugaverðar greinar og þeir eru með stuttar ritgerðir um fjöldann allan af leikstjórum (sem gætu nýst ykkur í fyrirlestrunum).

Umsagnir um stuttmyndamaraþon (loksins, loksins)

Ég er búinn að láta þetta bíða allt of lengi. Hér koma stuttar umsagnir og einkunnir fyrir stuttmyndamaraþonið. Allar myndirnar voru frambærilegar (miðað við aðstæður) en auðvitað misgóðar.

Hópur 1 – “Vottur”
Jón
Ingólfur
Árni
Arnar
Ari

Ansi góð. Mörg stórskemmtileg atriði (10-11, baðherbergið, lokasenan). Einföld og góð saga. Tónlist og klipping nánast eins góð og hægt er að ná fram í myndavélinni. Eini áberandi gallinn er lýsingin í lokaatriðinu (sem má laga í tölvu).

9,5

Hópur 2 - Innilokunarkennd
Bjarki
Robert
Daníel
Hlynur
Gísli

Nokkuð fín. Leikur sér skemmtilega með myndavélina og skapar sæmilega stemmningu. Helsti gallinn er allt of lágt hljóð (sem má laga í tölvu).

9,0


Hópur 3 - Trailer
Björn
Emil
Marinó
Svavar

Áhugaverð pæling og nokkuð metnaðarfullt að ætla sér að búa til trailer án þess að nota klippitölvu. Ég var samt búinn að tala um að það ætti að vera saga í stuttmyndunum og mér fannst vanta upp á það hér.

8,0

Hópur 4 – “Búálfur”
Alexander
Andrés
Birkir
Einar
Óskar

Byrjaði mjög skemmtilega og fær plús fyrir glæsilegan búálfinn. Seinni hlutinn missti sig í hálfgerða dellu.

8,5

Hópur 5 – Dönsk draugasaga
Aron
Eyjólfur
Guðmundur
Hjálmar
Ingi

Nokkuð fín. Náði að skapa góða stemmningu, sem hefði vafalítið verið betri ef við hefðum heyrt betur í tónlistinni (það má laga í eftirvinnslu). Skemmtilega over-the-top á lokasprettinum.

9,0

sunnudagur, 21. október 2007

Í sjónvarpinu í kvöld

Aldrei þessu vant er sjónvarpsdagskráin ansi girnileg í kvöld. Ef þið hafið tíma, mæli ég með að þið eyðið kvöldinu fyrir framan imbakassan:

Sjónvarpið kl. 21.20 - Reiði guðanna

Heimildarmynd um stórslysið sem var gerð Bjólfskviðu. Ég hef heyrt góða hluti um þessa mynd, m.a. að hún sé svona þúsund sinnum meira áhugaverð en Bjólfskviða sjálf.

Sjónvarpið kl. 22.35 - Touch of Evil
Snilldarmynd eftir Orson Welles. Yfirleitt talin seinasta ekta film noir myndin. Myndatakan er frábær. Upphafsatriðið er skylduáhorf, eitt besta upphafsatriði kvikmyndasögunnar, langt og rosalega flott tracking skot. Welles er brilljant í hlutverki spillta lögreglustjórans, og Charlton Heston sleppur sæmilega frá sínu sem Mexíkóinn Vargas. Ef þið hafið ekki séð hana, þá er þetta algjör skylda.
Takið eftir lýsingunni og skuggunum á veggnum fyrir aftan þá. Þetta er bara flott. Og hún er næstum öll í þessum stíl.

Stöð 2 kl. 22.55 - For a Few Dollars More
Fyrir þá sem eru með Stöð 2 og búnir að sjá Touch of Evil, þá er þetta fínasta mynd. Gríðarlega flott widescreen-myndataka og ótrúlega góð notkun á tónlist. Og rosalega töff.

föstudagur, 19. október 2007

Áætlun næstu viku

Mánudagur kl. 8.10-9.35
Höldum áfram í Film Directing Fundamentals:
  • tölum aðeins meira um myndatöku
  • skoðum verandasenuna aftur með tilliti til myndatöku og sviðsetningar
  • skoðum A Piece of Apple Pie handritið og greinum það niður í smæstu smáatriði
  • veltum fyrir okkur sviðsetningu og myndatöku í A Piece of Apple Pie
Ég mæli með því að þið lesið ekki kafla 7 og 8 í FDF fyrr en eftir þennan tíma, þannig getið þið nálgast A Piece of Apple Pie handritið með ferskum huga, og þannig lærið þið mest af þessu. Ég ætla samt að gefa ykkur grunnflöt veitingastaðarins þ.a. þið getið byrjað að velta þessu fyrir ykkur ef þið viljið:

Mánudagur 16.10-?
Annað hvort Truman Show í leikstjórn Peter Weir eða eftir Federico Fellini. Þessar myndir eru teknar fyrir í köflum 14 og 15 í FDF og því er æskilegt að við horfum á þær. Það er bara spurning hvort það séu ekki allir búnir að sjá Truman Show.

Miðvikudagur 8.55-9.35

Höldum áfram í Film Directing Fundamentals:
  • örfá orð um vinnu með leikurum (kafli 10)
  • hlutverkaskipting og ábyrgð leikstjórans (kafli 11)
  • skoðum Notorious í heild sinni - hvað getum við lært af henni (kafli 13)

laugardagur, 13. október 2007

Dagskrá næstu viku

Mánudagur kl. 8.10-9.35
Tungumál kvikmynda, dramatísk uppbygging og e.t.v. náum við að byrja á sviðsetningu og myndatöku. Byggist á köflum 1-6 í Film Directing Fundamentals.

Mánudagur kl. 16.10-17.50
Notorious í leikstjórn Alfred Hitchcock.

Miðvikudagur kl. 8.55-9.35
Höldum áfram með efni mánudagsmorguns. Kaflar 1-6 í FDF.

Á miðvikudag ættu allir að vera komnir í hóp og búnir að ákveða leikstjóra fyrir fyrirlestra sem á að flytja mánudaginn 5. nóvember og miðvikudaginn 7. nóv.

miðvikudagur, 10. október 2007

Skil á hátíðarfærslum

Skilafrestur á hátíðarfærslum er til miðnættis næstkomandi sunnudag. Eftir það lækkar einkunnin. Þið eigið að gera a.m.k. tvær veglegar færslur um myndir sem þið sáuð á hátíðinni eða viðburð sem þið fóruð á. Hver færsla á að vera a.m.k. 300 orð, og ekki skemmir fyrir ef það fylgir mynd með.
Ef þið komust af einhverri ástæðu ekki á tvær myndir á hátíðinni þá eru nokkrar leiðir til þess að komast í kringum það. Heima, 11th Hour og The Bothersome Man eru allar í almennum sýningum. Ég mæli með að þið farið þá annað hvort á Heima eða Vandræðamanninn - ég hef bara heyrt slæma hluti um 11th Hour.
Þá eru nokkrar myndir á hátíðinni sem eru aðgengilegar á DVD eða netinu. Þar á meðal eru Brand on the Brain, Fay Grim, XXY og Danielson: A Family Movie.
Svo eru gömlu myndirnar eftir Kaurismäki og Fassbinder allar til á DVD. Maður án fortíðar á t.d. að vera til á velflestum vídeóleigum.
Þannig að þið hafið enga afsökun fyrir því að skila ekki inn færslum (fyrir utan það að það á nú ekki að vera svo erfitt að fara tvisvar í bíó á 10 dögum).

þriðjudagur, 9. október 2007

Tvöfaldur tími á morgun

Ég ætlaði að setja þessa tilkynningu inn fyrr. Efast um að nokkur sjái þetta fyrir morgundaginn, en skelli henni samt inn. Á morgun verður sem sagt tvöfaldur tími, mæting kl. 8.10. Allur tíminn mun fara í The Cabinet of Dr. Caligari.

sunnudagur, 7. október 2007

RIFF: Dagur 11

It started with a whimper and ended with a moan. Ég veit ekki hvernig ég ætti að orða þetta jafnvel á íslensku. Hátíðin byrjaði og endaði illa, eiginlega allt inn á milli var gott. Í kvöld fór ég á Ávallt, aldrei og hvar sem er (Antonin Svoboda) og 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar (Christian Mungiu).

Ávallt, aldrei og hvar sem er (Antonin Svoboda)
Ég bjóst svo sem ekki við miklu. Aðalástæðan fyrir því að ég fór á þessa mynd var að ég var forvitinn hvort það væri hægt að halda dampi í 90 mínútur og gera góða mynd þegar aðalpersónurnar eru fastar í bíl megnið af myndinni. Eftir að hafa séð þessa mynd myndi ég segja að svarið væri "nei", en það er ekkert rosalega afgerandi "nei".
Fyrir það fyrsta þá er mynd um menn sem eru fastir í bíl ekki gott bíó. Þetta er hugmynd sem gæti virkað vel í skáldsögu, þar sem er hægt að kafa í hugsanir persóna o.s.frv., en þetta virkar illa í bíómynd, m.a. vegna þess að fátt virkar verr á hvíta tjaldinu en kyrrstæður bíll. Það er einfaldlega erfitt að ná góðri mynd af fólki sem er inni í bíl. Megnið af skotunum eru tekin fyrir utan bílinn, þ.a. áhorfandinn upplifir aldrei almennilega innilokunarkenndina sem persónur finna. Þetta er konsept sem virkar bara illa í kvikmynd.
Í öðru lagi þá hlýtur mynd af þessu tagi að standa og falla með persónum sínum, þ.e. mönnunum sem eru fastir í bílnum. Enginn þessara þriggja manna er áhugaverður. Raunar eru þetta alveg grútleiðinlegar persónur. Sem hafði það að verkum að á kafla nennti ég varla á horfa á myndina. Raunar má líta þannig á þetta að með þessum hrikalega leiðinlegu persónum hafi leikstjóranum þó tekist að gefa áhorfandanum nasasjón af því hvernig það er að vera fastur í bíl með fólki sem manni líkar ekki við. Ég veit að ég hefði klikkast ef ég hefði verið fastur í bíl með þessum þremur...
Stundum finnst mér eins og myndir komist á hátíðir bara vegna þess að þær eru erlendar. Ég efast stórlega um að við hefðum einu sinni heyrt um þessa mynd ef hún væri bandarísk. Vissulega býr Hollywood til heilan haug af rusli, og þessi mynd er ekki beinlínis rusl, en maður hlýtur að spyrja sig hvaða erindi hún á á RIFF. Ég upplifði þetta meira eins og svona dæmigerða sunnudagsmynd á RÚV.
Við nánari eftirgrennslan sé ég að ég sá fyrri mynd sama leikstjóra sem var sýnd á hátíðinni 2005. Hún var talsvert betri en þessi, en samt ekkert sérstök. Ef ég hefði fattað að þetta væri sami maður, hefði ég líklegast ekki farið á þessa.

4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar (Christian Mungiu)
Enn og aftur bjóst ég ekki við neitt sérstaklega miklu. Vissulega vann hún aðalverðlaunin á Cannes, en það segir manni ekki neitt lengur. Það fer algjörlega eftir því hver er í dómnefndinni á Cannes og hver fer fyrir henni, hvort verðlaunin eru veitt virkilega góðri mynd eða mynd sem hefur frammi skoðanir sem hugnast dómnefndinni. Fahrenheit 9/11 vann fyrir nokkrum árum, og það var frekar slök mynd sem var valin bara til þess að senda Bush skilaboð. Elephant eftir Gus van Sant vann 2002 (held ég), og það var ekki ýkja merkileg bíómynd. Og ég gæti haldið áfram ef ég væri minnugri. Jim Emerson var búinn að lýsa því yfir að það lýsti fádæma heimsku eða röngum áherslum hjá dómnefndinni á Cannes að þessi mynd skyldi vinna en ekki No Country for Old Men eftir Coen bræðurna (sem hann segir vera essens kvikmynda, og Ebert sagði vera fullkomna).
Ég var líka hrikalega óánægður þegar ég sá að hún var sýnda af myndvarpa, líkast til af Digibeta, þrátt fyrir að í bæklingnum stæði 35mm. Gæðin voru í samræmi við það - ömurleg. Satt best að segja þá sé ég ekki tilganginn í því að fara á mynd sem er tekin á filmu en sýnd á digibeta - ég fengi líkast til betri gæði af því að horfa á hana af DVD disk á sjónvarpinu heima. Það er svo sem í lagi ef myndin er tekin á digital til þess að byrja með, t.d. truflaði þetta mig ekkert sérstaklega á Danielson myndinni. En þegar myndin er tekin á filmu þá á að sýna hana á filmu, annars á bara að sleppa því. Reynsla mín af digibeta-sýningum er hræðileg: í vor sá ég Still Life og þá virkaði ekki myndvarpinn og hún var sýnd svart-hvít; Híena, fyrsta myndin sem ég sá á hátíðinni var sýnd á digibeta og þar var bæði mynd og hljóð ömurlegt; og svo þessi.
Myndin sjálf er ekkert sérstök, eiginlega barar frekar slök. Þetta er eiginlega myndin sem ég var hræddur um að XXY myndi vera (áður en Árni og Bóbó sannfærðu mig um að svo væri ekki), þ.e. vandamálamynd sem blóðmjólkar vanlíðan persónanna án þess að skila af sér heildstæðri hugsun um vandann. Ég fatta ekki hver pælingin á bak við þessa mynd er.
SPOILER
Vandinn fyrir mig er sá að persónurnar eru fífl upp til hópa. Gabi er búin að bíða í 4½ mánuð með að fara í fóstureyðingu, og fer til virkilega ömurlegs gaurs bara vegna þess að hann er þekktur fyrir að eyða fóstrum sem eru komin yfir 3 mánuði. Hún lætur vinkonu sína sjá um allt og fær hana til þess að sofa hjá gaurnum sem borgun fyrir aðgerðina! Síðan er virkilega ógeðsleg sena þar sem fóstrið liggur á baðherbergisgólfinu, hálf-innpakkað í handklæði, og er í mynd í svona 30-45 sekúndur. Viðbjóður! Myndin endar svo á því að þær heita hvor annarri að þær muni aldrei tala um atburði þessa dags, og við fáum á tilfinninguna að þetta verði hvíti fíllinn í herberginu, og hljóti að stía þeim í sundur.
Er myndin með eða á móti fóstureyðingum? Gabi hefði heldur ekki fengið fóstureyðingu nú til dags ef hún hefði verið komin svona langt. Kannski hefði hún farið fyrr ef það hefði ekki verið bannað. Hver veit? Vandinn er sá að mér er slétt sama.

RIFF: Dagur 10

Næstsíðasti dagurinn. Í dag fór ég á fyrirlestur Peter Greenaway og á Ledsaget udgang (Erik Clausen). Á leiðinni heim úr Regnboganum stoppaði ég örstutt í lokahófinu í Landsbankanum, fékk mér einn bjór og hitti m.a. Árna. Annars var ég hissa á því að það skyldu ekki fleiri láta freistast af ókeypis áfengi og snittum.

Peter Greenaway
Ofboðslega góður fyrirlestur. Ég hafði áhyggjur af því að maður myndi ekki vera alveg með á nótunum, út af því að ég hef bara séð eina mynd eftir hann, og ég vissi að hann ætlaði að fjalla sérstaklega um tvö nýleg verk í fyrirlestrinum, The Tulse Luper Suitcases (2003) og Nightwatching (2007). Áhyggjur mínar reyndust algjör óþarfi. Greenaway talaði í rúma tvo tíma og hélt athygli minni algjörlega allan tímann.
Hann byrjaði á því að fjalla aðeins um Nightwatching og Rembrand, en Nightwatching er einmitt um þetta fræga málverk Rembrandts. Bíómynd um málverk? spyrjið þið kannski, en þessi lítur út fyrir að vera svona þúsund sinnum meira spennandi en Girl With A Pearl Earring. Greenaway er lærður listmálari, og sagði margt mjög áhugavert um Rembrandt og um listir almennt. Greenaway sýndi okkur m.a. trailerinn og þó það sé náttúrulega ekkert að marka trailera, þá gerði hann þennan sjálfur og myndin virtist vera áhugaverð, spennandi og sexí. Ég ætla á hana ef hún kemur í bíó.
The Tulse Luper Suitcases er í rauninni ekki bíó, heldur miklu frekar margmiðlunar-prójekt einhvers konar. Bíómyndin (sem er 7 tímar) er bara hluti af þessu. Vefurinn er annar hluti, og tölvuleikur enn annar. Síðan eru alls konar listaverk og innsetningar sem eru líka hluti af þessu, m.a. ferðatöskurnar 92 sem titillinn vísar í.
Greenaway talaði um að í gegnum tíðina hefði hann reynt að gera A- og B-myndir á víxl. A-myndir eru þá sæmilega aðgengilegar myndir sem fá nokkuð marga áhorfendur og græða yfirleitt einhvern pening, B-myndir eru ekki nærri því eins notendavænar, miklu erfiðari og framsæknari myndir. Eins og hann orðaði það, þá notar hann pening og traustið sem A-myndirnar færa honum til þess að búa til B-mynd. Miðað við það sem ég hef séð þá er Tulse Luper Suitcases greinilega B-mynd, en Nightwatching greinileg A-mynd.
Greenaway sagði margt mjög áhugavert. Meðal annars að flestir væru ólæsir eða illa læsir á myndir og myndmál. Hann vildi meina það að internet/multimedia byltingin myndi kannski/vonandi hafa svipuð byltingaráhrif á þessa tegund læsi og prentlistin hafði á textalæsi. Hann sagði að kvikmyndir væru upp til hópa blendingar ("mongrels") og væru í rauninni ekkert sjónrænt merkilegar, að í þeim væri of mikill texti og of mikið leikhús, að þær jöðruðu oft við það að vera myndskreyttur texti. Hann trúir því að það sé hægt að búa til kvikmynd sem er 100% sjónræn, og vill meina að á þessum 112 árum sem eru liðin síðan Lumiére-bræður sýndu myndir sínar í fyrsta skipti höfum við einungis náð fram brotabroti af möguleikum kvikmyndalistarinnar. Í Tulse Luper Suitcases kannar hann aðeins ytri mörk þess sem við þekkjum, og hann telur sig hafa náð fram hluta af því sem hann vildi, en þeir kaflar sem ég sá voru ekki beinlínis byltingarkenndir þó þeir hafi vissulega verið öðruvísi.
Kvikmyndir Greenaway eru yfirleitt ekki skipulagðar í kringum einhverja sögu, þetta eru ekki frásagnarkvikmyndir í beinum skilningi. Kvikmyndir hans eru samt ekki kaos, heldur eru þær skipulagðar í kringum eitthvað annað en frásögnina, t.d. er The Cook the Thief... skipulögð í kringum liti, grunnlitirnir mynda kafla myndarinnar eftir því sem mér skildist. Þannig getur verið erfitt fyrir venjulegan áhorfanda að ná samhenginu.
Tónskáldið John Cage sagði eitt sinn að ef meira en 20% af listaverki er "nýtt", þá missir maður 80% af áhorfendunum/hlustendunum. Við erum yfirleitt sæmilega fljót að læra að meðtaka eitthvað nýtt, en ef of stórt hlutfall verksins er þannig að við skiljum það ekki, þá er hætta á að við meðtökum ekki neitt.
Greenaway sagði ótalmargt fleira áhugavert, en ég ætla ekki að endurtaka allan tveggja-tíma fyrirlesturinn hér. Eftir áramót skoðum við að öllum líkindum experimental og listræna kvikmyndagerð, og það verður ekki gert án þess að nefna Greenaway.

Ledsaget udgang (Erik Clausen)
Ósköp fín lítil mynd, akkúrat það sem ég bjóst við og vonaðist eftir. Clausen var viðstaddur og kynnti mynd sína með þeim orðum að hann væri svolítið "öðruvísi", hann notaðist við lítið tökulið, óreynda leikara og reyndi að skapa svolítið "autentíska" stemningu. Hljómar svolítið eins og nýraunsæið, en hvað um það.
Myndin fjallar um fangann John (leikinn af leikstjóranum sjálfum) sem fær frí í einn dag til þess að mæta í brúðkaup sonar síns. Úr verður lítil vegamynd með fjölmörgum skemmtilegum uppákomum. Förunautur hans, Bo, er hálfgerður sveitalubbi sem leyfir John að stjórna ferðinni, og mikið af húmornum snýst um samskipti þeirra tveggja. Myndin heldur fínum dampi og inniheldur ágætis twist. Eftir kynninguna hafði ég áhyggjur af því að leikurinn yrði slakur, en hann reyndist bara ágætur. Persónur eru upp til hópa trúverðugar.
Sem sagt, ágætis mynd - létt, skemmtileg, aðgengileg, fínasta afslöppun. Ekkert meistaraverk, en maður bjóst svo sem heldur ekki við því.

laugardagur, 6. október 2007

RIFF: Dagur 9

Í gær fór ég á Roming (JIŘÍ VEJDĚLEK) og á tónleikana með Danielson.

Roming (JIŘÍ VEJDĚLEK)
Bráðskemmtileg mynd og ansi fyndin. Húmorinn byggist að miklu leyti á ýktum karakterum, t.d. er Roman, pabbi aðalpersónunnar, frekar samlagaður samfélaginu, en hann vill ekki að hinir sígaunarnir í hverfinu viti það. Þess vegna er hann t.d. með slökkt á rafmagninu í íbúðinni sinni, svo sígaunarnir sem búa í kring (flestir í húsvögnum) sjái ekki að hann hafi borgað rafmagnsreikninginn sinn. Annars er Roman að skrifa hina miklu sígauna-epík - hann sá nefnilega í sjónvarpinu að allar menningarþjóðir eiga sér einhverja epíska sögu (Hómerskviður Grikkja, Eneasarkviða Rómverja, Niflungasaga Þjóðverja o.s.frv.), en sígaunar eiga enga slíka sögu og Roman ætlar að bæta úr því.
Stano, vinur Romans, er þó líklegast fyndnasta persóna myndarinnar. Hann þykist vera rosalega harður sígauni - sefur undir berum himni, stelur sér til matar o.s.frv., en hann er í raun miklu mýkri en hann sýnist í fyrstu.
Myndin er vegamynd. Roman ætlar í ferð með son sinn, Jura, sem er enginn venjulegur sígauni. Jura er nefnilega háskólanemi í verkfræði, og virðist hafa afneitað öllum hefðum sígauna. Þegar Jura var 5 ára var hann trúlofaður dóttur besta vinar Romans (sem var þá eins árs), og nú þegar hún er orðin 18 ára ætlar hann að láta þau Jura hittast. Í fyrstu neitar Jura að fara í ferðina, en hann lætur loks undan til þess að gleðja föður sinn og á leiðinni gerist margt fyndið.
Myndin minnir kannski helst á myndir Emirs Kusturica, nema hvað það er meira plott í henni. Mæli með henni.

Danielson
Snilldartónleikar.
Ég veit ekkert hvað upphitunarhljómsveitin hét, ég held að þau hafi ekki kynnt sig, og ég þekki ekki íslenska tónlist nærri því nógu vel, en þau voru bara ansi góð. Hlýtur líka að vera ein af fáum íslenskum rokksveitum sem eru með fagott-leikara. Ég verð nú bara að segja að fagottið kom ágætlega út í hljóðheimi sveitarinnar - maður hefði nú fyrirfram ekki haldið að þetta væri mikið rokk-hljóðfæri. Í nokkrum seinustu lögum þeirra voru kallaðir til tveir trompet-leikarar og einn á horni, og þá varð þetta stundum svolítið ofhlaðið. En annars fín frammistaða hjá þeim, hver sem þau voru.
Danielson var hreint frábær. Daniel Smith var mættur með eiginkonuna (fiðla, söngur), tvo bræður (trommur, slagverk), einn mág (bassi) og tvo sem ég er ekki viss hvernig tengjast honum (gítar, hljómborð). Sjálfur spilaði hann á gítar og söng. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt hann syngja, er stíllinn frekar sérstakur, yfirleitt á mörkunum að vera falsetta. Þeir héldu uppi miklu fjöri á sinn sérstaka hátt, fengu meðal annars áhorfendur til þess að syngja, klappa og smella fingrum með. Það er ekki á hverjum degi sem tekið er sing-along á indí-tónleikum, en Danielson eru heldur ekki mjög uppteknir af því að "rokka", það snýst meira um tónlistina en einhverja rokk-ímynd.
Það er svo sem ekki margt annað hægt að segja. Þetta voru bara mjög góðir tónleikar.

RIFF - NEWSFLASH

Ég var að frétta að Peter Greenaway mun halda fyrirlestur á morgun, laugardag, í stofu 101 í Odda, kl. 17:30. Það er ókeypis inn. Ég mæli endilega með að þið mætið.
Peter Greenaway er einn frægasti "experimental" leikstjóri nútímans. Meðal frægustu mynda hans eru m.a. The Cook the Thief His Wife & Her Lover (1989), A Zed & Two Noughts (1985) og 8½ Women (1999). Ég hef bara séð The Cook..., en mér fannst hún nokkuð góð.

föstudagur, 5. október 2007

RIFF: Dagur 8

Ég tók því frekar rólega í dag og fór ekki á nema tvær myndir, Danielson: A Family Movie (J.L. Aronson) sem var svo góð að ég keypti mér miða á Danielson-tónleikana annað kvöld um leið og ég kom heim, og Vandræðamanninn (Jens Lien), sem var bara nokkuð góð þrátt fyrir gríðarlega grótesku á köflum.

Danielson: A Family Movie (J.L. Aronson)
Ég ætlaði á austurrísku myndina, Ávallt, aldrei og hvar sem er (Antonin Svoboda), en það var uppselt á hana. Ég ákvað því að fara á Danielson og sá ekki eftir því.
Ég upplifði þetta ekki sem frábæra heimildarmynd, en samt var ég alveg stórhrifinn. Daniel Smith, forsprakki Danielson, og fjölskylda hans og vinir eru bara svo áhugaverðir karakterar, og ekki skemmir tónlistin fyrir.
Hljómsveitin varð til sem útskriftarverkefni Daniels í listaháskóla, og þá fékk hann til liðs við sig systkini sín til þess að leika á hin ýmsu hljóðfæri. Þegar útskriftarverkefnið fékk plötusamning varð ekki aftur snúið. Þetta var 1994. Síðan þá eru nokkur systkini næstum hætt, önnur eru gift og fengið makann í hljómsveitina, og ýmsir vinir hafa spilað með þeim, þ.á.m. Sufjan Stevens. Daniel bjó til stúdíó í kjallara foreldra sinna, og gefur nú sjálfur út plötur Danielson á labelinu Sounds Familyre. Hann gaf líka út fyrstu tvær plötur Sufjans.
Daniel og fjölskylda hans eru öll trúuð, og í myndinni er gert mikið úr þessari "furðulegu" blöndu: indírokk og kristni. Sjálfur lítur Daniel ekki á tónlist sína sem kristilega tónlist, og satt best að segja var ég ekki búinn að fatta að flytjandinn væri eitthvað sérstaklega trúaður þótt ég hafi verið búinn að hlusta á nýju plötuna, Ships, 20-30 sinnum.
Það var mjög gaman að sjá upptökur af tónleikum hljómsveitarinnar og Daníels sólo því sjónræni þátturinn er mjög sterkur hjá þeim. Tónlistin sjálf er ekkert svo frábrugðin því sem gengur og gerist í indí-heimum, en Danielson-tónleikar eru skrítin blanda af tónlist, myndlist og gjörningi. Fyrstu árin léku Danielson í hjúkku-búningum með ásaumuðum hjörtum sem áttu að tákna græðandi krafta tónlistarinnar. Í dag leika þeir í hálfgerðum skátabúningum með ásaumuðum hjörtum (ekki veit ég hvort boðskapurinn sé annar). Þegar Daniel leikur sóló er hann yfirleitt í gerfi trés, "The 9-Fruit Tree", sem er tilvitnun í Pál postula (eitthvað um hina níu ávexti trúarinnar, "the nine fruits of faith: love, joy, peace, patience, kindness, goodness, faithfulness, gentleness and self-control").
Stórskemmtileg mynd, mæli eindregið með henni. Og ef þið fílið indí, þá er hún skylduáhorf.

Vandræðamaðurinn (Jens Lien)
Mér fannst þetta ágætis mynd. Ég var að vísu ansi þreyttur þegar ég fór á hana, og ég var á köflum milli svefns og vöku. Mér fannst samt stemningin í myndinni mjög góð, og margar skemmtilegar pælingar. Hún minnir mig svolítið á blöndu af Kafka og Borges, svona firring og absúrd atburðir.
Í upphafssenunni, sem ég rétt náði endanum á, fremur aðalpersónan, Andreas, sjálfsmorð. Afgangurinn af myndinni gerist í einhvers konar limbói (ekki helvíti og ekki himnaríki, heldur einhvers staðar á milli), og í fyrstu virðist allt voða fínt. Andreas fær vinnu, og samstarfsfólkið er vinalegt. Hann hittir konu, á í sambandi við hana og flytur inn til hennar. En eftir því sem á líður rennur upp fyrir Andreasi að það er eitthvað grunsamlegt á seyði. Enginn sýnir sterkar tilfinningar, ekki einu sinni ástkonan, og allt er grátt, hljótt og bragðlaust.
Á þessum stað getur enginn drepist, og senan þegar Andreas kemst að því er ROSALEG. Hann stekkur fyrir lest, en drepst ekki. Síðan kemur önnur lest, og önnur, og önnur. Og alltaf viðeigandi hljóð-effektar. Verulega ógeðsleg sena, en hún kom á réttum fyrir mig því ég glaðvaknaði.
Stemningin og fáránleikinn er aðal þessarar myndar að mínu mati. Hún notar tónlist og liti mjög sparlega til þess að skapa þessa stemningu. Það væri gaman að skoða hana aftur með þessa þætti í huga - mér fannst þetta mjög vel gert en ég var kannski ekki alveg nógu vakandi til þess að virkilega kunna að meta þetta.
Ég held að þetta sé svona mynd sem maður annað hvort fílar eða hatar. Ef lýsingin vekur áhuga, þá á ykkur örugglega eftir að finnast hún fín, og ég er nokkuð viss um að hún sé á leið í almennar sýningar að hátíðinni lokinni.
Vandræðamaðurinn er að hluta tekin á Íslandi.

fimmtudagur, 4. október 2007

RIFF: Dagur 7

Í dag fór ég á fyrirlestur um eftirvinnslu á heimildarmyndum (sem var mjög fróðlegur), Gildruna (Srdjan Golubovic) og Listina að gráta í kór (Peter Schønau Fog).

Fyrirlestur um eftirvinnslu á heimildarmyndum
Spennandi, skemmtilegur og fróðlegur fyrirlestur um heimildarmyndagerð. Leikstjórar Lion in the House, Julia Reichert og Steven Bognar, héldu fyrirlesturinn. Þau eru bæði þaulreyndir kvikmyndagerðarmenn, og Reichert hefur meira að segja tvisvar verið tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Lion in the House er í stuttu máli fjögurra tíma heimildarmynd um börn sem eru að berjast við krabbamein. Reichert og Bognar voru fengin til þess að gera myndina skömmu eftir að dóttir þeirra hafði náð sér af krabbameini. Þau fylgdu fimm börnum og fjölskyldum þeirra í fimm ár, þangað til öll börnin voru annað hvort dáin eða búin að ná sér að fullu. Þá stóðu þau uppi með 525 klst. af efni, og svo fóru önnur sex ár í að klippa myndina.
Þau fundu söguboga (story arch) fyrir hverja fjölskyldu og einn boga sem náði yfir alla myndina. Til þess að finna þennan söguboga þurftu þau fyrst að ákveða hver aðalpersóna hverrar sögu er (og það var ekki alltaf krabbameinsveika barnið). Svo var nánast allt sem gegndi ekki hlutverki í þessari sögu og færði hana áfram hent út. Síðan eru sögurnar tvinnaðar saman og eftir stendur fjögurra klukkutíma mynd í tveimur hlutum. Við getum e.t.v. skoðað nánar tæknilegu atriðin seinna (ég vildi bara óska að ég hefði tekið glósur).

Gildran (Srdjan Golubovic)
Svo sem ágætis mynd. Ég var samt aldrei almennilega sáttur við aðalleikarann - það var eitthvað við hann sem fór í taugarnar á mér. Hann stendur sig samt ekkert illa. Sagan er ágæt fyrir utan eitt risastórt plot-hole, sem við þurfum svo sem ekki að hafa áhyggjur af hér.
Í stuttu máli sagt: sonur aðalpersónunnar greinist með hjartagalla, og þarf að komast í aðgerð sem er ekki framkvæmd í Serbíu. Þess vegna þarf hann að komast til Berlínar, en aðgerðin þar kostar aftur á móti 26þús evrur, sem foreldrarnir eiga ekki til og geta ekki reddað. Þau auglýsa í dagblaði eftir hjálp, sem vekur á þeim óþægilega mikla athygli. Aðalpersónunni eru boðnar 30þús evrur fyrir að drepa mann, og meira vil ég ekki segja...
Strákurinn leikur ágætlega, og leikurinn er almennt fínn. Myndatakan er megnið af myndinni mjög náttúruleg og ber ekki mikið á henni, en öðru hvoru fer hún út í eitthvað artfart sem nánast öskrar "TAKIÐ EFTIR MÉR!" Þetta eru yfirleitt mjög flott skot (tvö skot í tveimur mismunandi stigagöngum koma upp í hugann), en þó efast ég um að þau séu rétta valið miðað við kringumstæður og heildarstíl myndarinnar. Þau bera vott um ákveðið "self-indulgence" (agaleysi?). Algjörlega eitthvað sem ég myndi detta niður í og gleyma mér í ef ég væri að gera mynd.
Leikstjórinn svaraði spurningum í lok myndar og eftirfarandi stóð upp úr:
1) myndin virðist eiga að vera hálfgerður áróður fyrir velferðarsamfélagið og almenna samkennd manna
2) leikstjórinn talar um að aðalpersónan leiti að kaþarsis í lok myndar - greinilega undir áhrifum frá grísku tragedíunum (og smá Macbeth fílingur á stöku stað - "Out, damned spot! out, I say!").
3) ást hans á Renault 4, sem er einmitt minn uppáhalds Renault, enda glæsikerra:
4) Hollywood hefur sýnt áhuga á að endurgera myndina og leikstjóranum hefur víst verið boðinn mikill peningur fyrir að leikstýra endurgerðinni - sem hann afþakkaði því honum finnst fáránleg hugmynd að gera sömu myndina tvisvar, auk þess sem hann hefur engan áhuga á að vinna í Hollywood.

Listin að gráta í kór (Peter Schønau Fog)
Sumt gerir maður ekki gamanmyndir um.
Í stuttu máli sagt þá er þetta gamanmynd um sifjaspell. Myndin er virkilega góð, vel leikin, vel skrifuð og í sjálfu sér ansi fyndin. Það eru fjölmargar senur sem eru drepfyndnar í mómentinu. Aftur á móti, ef þú hugsar bara aðeins um það sem er að gerast í víðara samhengi verður senan og myndin sorgleg og átakanleg og allt annað en fyndin.
Ég skemmti mér ágætlega fyrri helming myndar. Það er alltaf eitthvað óhuggulegt undir yfirborðinu, en sifjaspellið og áhrifin sem það hefur á fjölskyldulífið er ekki sett á oddinn fyrr en um miðbik myndar, en eftir það átti ég erfitt með að hlæja að myndinni, þó svo að salurinn hafi raunar sprungið þónokkrum sinnum á þeim tíma.
Ég spurði leikstjórann einmitt að því hvort hann hefði ekki verið hræddur að blanda saman kómedíu og þessu viðkvæma viðfangsefni. Það sem hann sagði var að í bókinni sem myndin er byggð á er talsvert meiri húmor, en að í myndinni hafi hann tónað þennan húmor niður heilmikið, e.t.v. einmitt vegna þess hversu viðkvæmt efnið er. Og hann tók skýrt fram að ætlunin hafi aldrei verið að gera grín að sifjaspelli (sem er svo sem ekki beinlínis gert).
Í sambandi við þessa mynd þá finnst mér Mogginn hafa gert stóran feil. Fyrirsögnin á gagnrýninni á myndina var "Mjólkurpósturinn sem misnotaði börnin sín". Þangað til ég sá þessa fyrirsögn sama dag og ég ætlaði á myndina vissi ég ekki að hún væri um kynferðislega misnotkun, og ég hefði viljað halda því þannig, enda hefði ég þá getað notið fyrri hluta myndarinnar grunlaus og það hefði komið mér meira á óvart þegar sifjaspellið kemur fram ... sem hefði leitt til sterkari áhrifa.
Sem sagt, ef þú telur þig geta skemmt þér á gamanmynd um sifjaspell, þá er þetta einstaklega góð og vel gerð mynd.

RIFF: Dagur 6

Ég náði ekki að skrifa færslu í gær, þannig að hún kemur hér.
Í gær sá ég þrjár myndir: Control (Anton Corbijn), Andlit fíkjutrésins (Kaori Momoi) og Bleikur (Alexandros Voulgaris).

Control (Anton Corbijn)
Mögnuð mynd með frábærri tónlist (auðvitað). Myndin fjallar um líf Ian Curtis, söngvara Joy Division, frá því þegar hann hittir konuna sína og þangað til hann fremur sjálfsmorð, 23 ára gamall (eftir að hafa horft á Stroszek eftir Werner Herzog (mögnuð mynd)).
Persóna Curtis er áhugaverð og trúverðug, vel leikin af hinum unga Sam Riley, sem hefur ekki leikið svona stórt hlutverk áður. Samantha Morton er mögnuð í hlutverki eiginkonunnar. Hún er reyndar alltaf góð.
Myndin er líka mjög flott. Hún er afskaplega fallega svart-hvít, hár kontrast og nánast silfurglampi á ljósum svæðum. Mjög flott áferð.
Ég verð að nefna tónlistina aftur. Það er ekki nóg með að myndin inniheldur tónlist Joy Division, heldur eru líka mjög góð lög með David Bowie og Iggy Pop. Mig hefði helst langað að fara beint heim og skella Joy Division á fóninn þegar myndinni lauk. Ég held ég fari rétt með að Sam Riley syngi sjálfur Joy Division lögin í myndinni. Hvort sem það er rétt eða ekki, þá er flutningurinn almennt mjög fínn.
Ef þið hafið einhvern áhuga á tónlist eða kvikmyndum þá skulið þið ekki missa af þessari.

Andlit fíkjutrésins (Kaori Momoi)
Skrýtin, skrýtin mynd. En samt skemmtileg.
Hún er um fjölskyldu. Fjölskyldufaðirinn, sem er smiður eða pípari og mjög skemmtilegur karakter, hverfur af heimilinu svo hann geti lappað upp á eitthvað röravirki sem hann byrjaði á fyrir 20 árum en var aldrei klárað. Nú á nefnilega að hefja vinnu aftur á þessari byggingu, og hann er hræddur um að vera handtekinn eða missa mannorðið ef fólk sér hvað hann fúskaði mikið þegar hann gerði þetta.
Sagan skiptir samt ekki miklu máli, og er raunar óskiljanleg á köflum. Hugsið ykkur David Lynch mynd, nema hvað hún er ofboðslega krúttleg og litrík. Bestu senurnar eru yfir matarborðinu, og fjölskyldufaðirinn er skemmtilegasti karakterinn, grófur og fyndinn. Í þessum senum er hann yfirleitt myndaður með mjög ýktri víðlinsu, þannig að hann verður enn kómískari.
Það er margt skemmtilegt í þessari mynd, en það er enginn raunverulegur söguþráður. Þetta eru í raun margar mismunandi sögur og samsafn af senum, nema alltaf með sömu persónunum. Myndin festist svolítið oft í rosalega flottum skotum sem hafa ekkert hlutverk í myndinni, þ.a. þetta er langt frá því að vera fullkomin mynd, og maður verður stundum svolítið óþolinmóður gagnvart henni. En á heildina er hún bara nokkuð góð.

Bleikur (Alexandros Voulgaris)
Þessi fékk frekar slakan dóm í Mogganum, og ég fór því ekki með mjög háar væntingar. Mér fannst hún bara nokkuð góð. Hún er vissulega full af artfarti og listrænni sjálfsfróun, en hún hittir einhvern veginn inn á einmitt þá týpu (eða eina af þeim týpum) af artfarti sem ég fíla.
Plottið er ekkert sérstaklega áhugavert. Aðalpersónan er kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður og óttalegur vælukjói. Mamma hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var ca. 10 ára, og hann vorkennir sjálfum sér alveg voðalega yfir því. Það er voice-over frásögn sem á að vera bréf sem hann sendir til mömmu sinnar. Hann er að gera heimildarmynd og hittir 11 ára úkraínska stelpu sem verður besti vinur hans (hann er um þrítugt). Enginn virðist neitt sérstaklega hissa á þessu - hann fer með henni í göngutúra og eyðir talsverðum tíma einn með henni í herberginu hennar. Hvíti fíllin í herberginu er spurningin hvort það sé eða verði eitthvað kynferðislegt á milli þeirra, og í lokasenunni eru þau að fara að kyssast (en það er klippt í credits áður en varir þeirra mætast).
Dæmi um artfart í myndinni:
1) aðalpersónan rakar af sér skeggið og snyrtir hár sitt, en það er sýnt með stop-motion þannig að það lítur næstum því út fyrir að hann strjúki skeggið burt. Mjög töff.
2) establishing skot af húsum eru oftar en ekki af lítt sannfærandi módelum, ekki alvöru húsum. Fyrir utan eitt skot sem hefði þurft að vera mjög flókið kranaskot ef um alvöru hús hefði verið að ræða, þá skil ég ekki alveg tilganginn með þessu. Þetta samt soldið kúl.
3.) í lokaskotinu, þar sem aðalpersónan er alveg að fara að kyssa stúlkuna, þá sitja þau í prófíl fyrir framan fjólubláan vegg, og á meðan á senunni stendur er stöðugt verið að sletta málningu eða eitthvað á vegginn þannig að hann verður smám saman svartur. Er bara ansi flott.

Sem sagt, ein mögnuð mynd og tvær allt í lagi.

mánudagur, 1. október 2007

RIFF: Dagur 5

Sá þrjár myndir í dag: XXY (Lucia Puenzo), Eigið þér annað epli (Bayram Fazli) og Gleðilegt nýtt líf (Árpád Bogdán).

XXY (Lucia Puenzo)
Þessi var mjög fín, þó ég hafi ekki verið alveg jafn heillaður og hann Árni. Þessi er enn eitt dæmið um það hvað lýsingin í bæklingnum getur eyðilagt fyrir manni. Ef maður hefði vitað minna um ástand Alex held ég að myndin hefði virkað betur. Samfarasenan hefði a.m.k. komið manni rækilega á óvart.
Myndin virkar ansi vel. Maður dettur inn í söguna og t.d. pældi ég miklu meira í því hvort fólkið í myndinni sé að taka réttar ákvarðanir en nokkurn tíman tæknilegu atriðunum. Raunar fór ákvarðanataka fólks í myndinni almennt í taugarnar á mér - en það sýnir bara innlifunina held ég. Ég skil t.d. ekki hvernig pabbinn réttlætir það að hafa ekki valið kyn á Alex strax í upphafi, frekar en að láta hana vera "freak" alla sína æsku. Og fyrst Alex átti að velja, af hverju var hún þá alin upp sem stúlka? Og hvað er málið með skurðlækninn? Senan þar sem hann er "heiðarlegur" við son sinn er algjörlega brútal!
En þó maður láti sumar persónurnar fara í taugarnar á sér, og þó svo að þetta sé hálfgerð "vandamálamynd", þá er hún ekki erfið áhorfs - manni líður ekkert illa á meðan maður horfir. Það var helst það sem ég óttaðist við þessa mynd: að þetta yrði hrottalega átakanleg mynd með rosa skilaboðum, en mér finnst hún sameina ágætlega afþreyingu og innihald.

Eigið þér annað epli (Bayram Fazli)
Þessi var vægast sagt stórfurðuleg. "Allegorísk, súrrealísk, ádeila, satíra, grínmynd, ævintýri, meistarastykki" stendur í bæklingnum. Vissulega svífur einhver rosaleg allegoría yfir vötnum í þessari mynd, en ég átta mig bara ekki á því hver hún er.
Drögum saman plottið: Sigðarfólkið heldur landinu í heljargreipum, íbúar þurfa að haga sér eins og sigðarfólkinu hugnast, annars eru þeir handteknir. Viðunandi hegðun virðist þó vera mismunandi fyrir hvert þorp - í einu þorpi eiga allir að sofa, í öðru slást þeir, í því þriðja betla þeir. En hverjir eru sigðarfólkið? Kommúnistar (hamar og sigð o.s.frv.)? Íranska klerkastjórnin? Bandaríkjamenn?
Hetja myndarinnar er hlauparinn. Hann hefur ítrekað sloppið úr greipum sigðarfólksins og ferðast milli þorpa, fyrst og fremst í leit að næringu. Hvar sem hann fer virðist hann koma fólki í vandræði. Hann lætur fyrst og fremst stjórnast af eigingirni og matgræðgi. Á sama tíma er hann þó einhvers konar bjargvættur. Hver skyldi hann eiga að vera í þessari furðulegu allegoríu?
Þessi mynd er skemmtileg á köflum. Sérstaklega er byrjunin fín (og raunar allur fyrri helmingurinn). Síðan missir mynd nýjabrumið og verður minna spennandi eftir því sem við nálgumst endann. Myndin er mjög flott: myndataka, sviðsmynd, búningar og allt umhverfi er mjög flott. Eltingaleikur í gegnum trjálundi snemma í myndinni fannst mér mjög sjónrænt skemmtilegur. Hljóðið er aftur á móti frekar lélegt. Hljóð-effektar eru allt of hátt mixaðir og ýktir og áberandi. Það er ekki oft sem ég pæli mikið í hljóði í bíómyndum, en í þessu tilfelli fór það verulega í taugarnar á mér.
Fazli virðist hafa skrifað, leikstýrt, klippt, gert sviðsmyndina og framleitt. Hann er greinilega prímus mótor í þessari mynd.

Gleðilegt nýtt líf (Árpád Bogdán)
Vonbrigði hátíðarinnar hingað til, ásamt Híenu.
Byrjum á því góða. Myndatakan var á heildina litið mjög flott. Myndbygging, litur og hreyfingar myndavélarinnar eru metnaðarfullt, útpælt og í flesta staði flott. Það er smá cinema verité tendens á köflum sem fór í taugarnar á mér, þar sem myndavélin er handheld og hreyfð hratt, og hlutirnir detta úr og í fókus. Það virtist bara ekki vera nein ástæða fyrir þessu önnur en athyglissýki myndatökumannsins. Raunar er myndatakan öll svolítið þessleg - maður tekur allt of oft eftir henni. Tónlistin var líka nokkuð kúl.
Svo það vonda. Sagan var ekki áhugaverð og nokkuð fyrirsjáanleg. Það sem var þó verst var að aðalpersónan var alls ekki sympatísk eða áhugaverð. Ég hafði litla samúð með honum, og maður kynntist honum aldrei almennilega. Aðalpersónan er sem sagt ungur maður sem hefur alist upp á munaðarleysingjahæli og man ekki eftir foreldrum sínu - hann er rótlaus og á sér enga fortíð. Sérstakt áhugamál hans virðist vera að fara í bað, stinga höfðinu í kaf og halda niðri í sér andanum þangað til hann fær flashback úr barnæsku. Málið er bara að hann er svo illa leikinn að manni er nokkurn veginn sama allan tímann hvernig fara mun fyrir drengnum. Sem er ekki gott.