sunnudagur, 7. október 2007

RIFF: Dagur 10

Næstsíðasti dagurinn. Í dag fór ég á fyrirlestur Peter Greenaway og á Ledsaget udgang (Erik Clausen). Á leiðinni heim úr Regnboganum stoppaði ég örstutt í lokahófinu í Landsbankanum, fékk mér einn bjór og hitti m.a. Árna. Annars var ég hissa á því að það skyldu ekki fleiri láta freistast af ókeypis áfengi og snittum.

Peter Greenaway
Ofboðslega góður fyrirlestur. Ég hafði áhyggjur af því að maður myndi ekki vera alveg með á nótunum, út af því að ég hef bara séð eina mynd eftir hann, og ég vissi að hann ætlaði að fjalla sérstaklega um tvö nýleg verk í fyrirlestrinum, The Tulse Luper Suitcases (2003) og Nightwatching (2007). Áhyggjur mínar reyndust algjör óþarfi. Greenaway talaði í rúma tvo tíma og hélt athygli minni algjörlega allan tímann.
Hann byrjaði á því að fjalla aðeins um Nightwatching og Rembrand, en Nightwatching er einmitt um þetta fræga málverk Rembrandts. Bíómynd um málverk? spyrjið þið kannski, en þessi lítur út fyrir að vera svona þúsund sinnum meira spennandi en Girl With A Pearl Earring. Greenaway er lærður listmálari, og sagði margt mjög áhugavert um Rembrandt og um listir almennt. Greenaway sýndi okkur m.a. trailerinn og þó það sé náttúrulega ekkert að marka trailera, þá gerði hann þennan sjálfur og myndin virtist vera áhugaverð, spennandi og sexí. Ég ætla á hana ef hún kemur í bíó.
The Tulse Luper Suitcases er í rauninni ekki bíó, heldur miklu frekar margmiðlunar-prójekt einhvers konar. Bíómyndin (sem er 7 tímar) er bara hluti af þessu. Vefurinn er annar hluti, og tölvuleikur enn annar. Síðan eru alls konar listaverk og innsetningar sem eru líka hluti af þessu, m.a. ferðatöskurnar 92 sem titillinn vísar í.
Greenaway talaði um að í gegnum tíðina hefði hann reynt að gera A- og B-myndir á víxl. A-myndir eru þá sæmilega aðgengilegar myndir sem fá nokkuð marga áhorfendur og græða yfirleitt einhvern pening, B-myndir eru ekki nærri því eins notendavænar, miklu erfiðari og framsæknari myndir. Eins og hann orðaði það, þá notar hann pening og traustið sem A-myndirnar færa honum til þess að búa til B-mynd. Miðað við það sem ég hef séð þá er Tulse Luper Suitcases greinilega B-mynd, en Nightwatching greinileg A-mynd.
Greenaway sagði margt mjög áhugavert. Meðal annars að flestir væru ólæsir eða illa læsir á myndir og myndmál. Hann vildi meina það að internet/multimedia byltingin myndi kannski/vonandi hafa svipuð byltingaráhrif á þessa tegund læsi og prentlistin hafði á textalæsi. Hann sagði að kvikmyndir væru upp til hópa blendingar ("mongrels") og væru í rauninni ekkert sjónrænt merkilegar, að í þeim væri of mikill texti og of mikið leikhús, að þær jöðruðu oft við það að vera myndskreyttur texti. Hann trúir því að það sé hægt að búa til kvikmynd sem er 100% sjónræn, og vill meina að á þessum 112 árum sem eru liðin síðan Lumiére-bræður sýndu myndir sínar í fyrsta skipti höfum við einungis náð fram brotabroti af möguleikum kvikmyndalistarinnar. Í Tulse Luper Suitcases kannar hann aðeins ytri mörk þess sem við þekkjum, og hann telur sig hafa náð fram hluta af því sem hann vildi, en þeir kaflar sem ég sá voru ekki beinlínis byltingarkenndir þó þeir hafi vissulega verið öðruvísi.
Kvikmyndir Greenaway eru yfirleitt ekki skipulagðar í kringum einhverja sögu, þetta eru ekki frásagnarkvikmyndir í beinum skilningi. Kvikmyndir hans eru samt ekki kaos, heldur eru þær skipulagðar í kringum eitthvað annað en frásögnina, t.d. er The Cook the Thief... skipulögð í kringum liti, grunnlitirnir mynda kafla myndarinnar eftir því sem mér skildist. Þannig getur verið erfitt fyrir venjulegan áhorfanda að ná samhenginu.
Tónskáldið John Cage sagði eitt sinn að ef meira en 20% af listaverki er "nýtt", þá missir maður 80% af áhorfendunum/hlustendunum. Við erum yfirleitt sæmilega fljót að læra að meðtaka eitthvað nýtt, en ef of stórt hlutfall verksins er þannig að við skiljum það ekki, þá er hætta á að við meðtökum ekki neitt.
Greenaway sagði ótalmargt fleira áhugavert, en ég ætla ekki að endurtaka allan tveggja-tíma fyrirlesturinn hér. Eftir áramót skoðum við að öllum líkindum experimental og listræna kvikmyndagerð, og það verður ekki gert án þess að nefna Greenaway.

Ledsaget udgang (Erik Clausen)
Ósköp fín lítil mynd, akkúrat það sem ég bjóst við og vonaðist eftir. Clausen var viðstaddur og kynnti mynd sína með þeim orðum að hann væri svolítið "öðruvísi", hann notaðist við lítið tökulið, óreynda leikara og reyndi að skapa svolítið "autentíska" stemningu. Hljómar svolítið eins og nýraunsæið, en hvað um það.
Myndin fjallar um fangann John (leikinn af leikstjóranum sjálfum) sem fær frí í einn dag til þess að mæta í brúðkaup sonar síns. Úr verður lítil vegamynd með fjölmörgum skemmtilegum uppákomum. Förunautur hans, Bo, er hálfgerður sveitalubbi sem leyfir John að stjórna ferðinni, og mikið af húmornum snýst um samskipti þeirra tveggja. Myndin heldur fínum dampi og inniheldur ágætis twist. Eftir kynninguna hafði ég áhyggjur af því að leikurinn yrði slakur, en hann reyndist bara ágætur. Persónur eru upp til hópa trúverðugar.
Sem sagt, ágætis mynd - létt, skemmtileg, aðgengileg, fínasta afslöppun. Ekkert meistaraverk, en maður bjóst svo sem heldur ekki við því.

Engin ummæli: