Roming (JIŘÍ VEJDĚLEK)
Stano, vinur Romans, er þó líklegast fyndnasta persóna myndarinnar. Hann þykist vera rosalega harður sígauni - sefur undir berum himni, stelur sér til matar o.s.frv., en hann er í raun miklu mýkri en hann sýnist í fyrstu.
Myndin er vegamynd. Roman ætlar í ferð með son sinn, Jura, sem er enginn venjulegur sígauni. Jura er nefnilega háskólanemi í verkfræði, og virðist hafa afneitað öllum hefðum sígauna. Þegar Jura var 5 ára var hann trúlofaður dóttur besta vinar Romans (sem var þá eins árs), og nú þegar hún er orðin 18 ára ætlar hann að láta þau Jura hittast. Í fyrstu neitar Jura að fara í ferðina, en hann lætur loks undan til þess að gleðja föður sinn og á leiðinni gerist margt fyndið.
Myndin minnir kannski helst á myndir Emirs Kusturica, nema hvað það er meira plott í henni. Mæli með henni.
Danielson
Snilldartónleikar.
Ég veit ekkert hvað upphitunarhljómsveitin hét, ég held að þau hafi ekki kynnt sig, og ég þekki ekki íslenska tónlist nærri því nógu vel, en þau voru bara ansi góð. Hlýtur líka að vera ein af fáum íslenskum rokksveitum sem eru með fagott-leikara. Ég verð nú bara að segja að fagottið kom ágætlega út í hljóðheimi sveitarinnar - maður hefði nú fyrirfram ekki haldið að þetta væri mikið rokk-hljóðfæri. Í nokkrum seinustu lögum þeirra voru kallaðir til tveir trompet-leikarar og einn á horni, og þá varð þetta stundum svolítið ofhlaðið. En annars fín frammistaða hjá þeim, hver sem þau voru.
Danielson var hreint frábær. Daniel Smith var mættur með eiginkonuna (fiðla, söngur), tvo bræður (trommur, slagverk), einn mág (bassi) og tvo sem ég er ekki viss hvernig tengjast honum (gítar, hljómborð). Sjálfur spilaði hann á gítar og söng. Fyrir þá sem ekki hafa heyrt hann syngja, er stíllinn frekar sérstakur, yfirleitt á mörkunum að vera falsetta. Þeir héldu uppi miklu fjöri á sinn sérstaka hátt, fengu meðal annars áhorfendur til þess að syngja, klappa og smella fingrum með. Það er ekki á hverjum degi sem tekið er sing-along á indí-tónleikum, en Danielson eru heldur ekki mjög uppteknir af því að "rokka", það snýst meira um tónlistina en einhverja rokk-ímynd.
Það er svo sem ekki margt annað hægt að segja. Þetta voru bara mjög góðir tónleikar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli