fimmtudagur, 4. október 2007

RIFF: Dagur 7

Í dag fór ég á fyrirlestur um eftirvinnslu á heimildarmyndum (sem var mjög fróðlegur), Gildruna (Srdjan Golubovic) og Listina að gráta í kór (Peter Schønau Fog).

Fyrirlestur um eftirvinnslu á heimildarmyndum
Spennandi, skemmtilegur og fróðlegur fyrirlestur um heimildarmyndagerð. Leikstjórar Lion in the House, Julia Reichert og Steven Bognar, héldu fyrirlesturinn. Þau eru bæði þaulreyndir kvikmyndagerðarmenn, og Reichert hefur meira að segja tvisvar verið tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Lion in the House er í stuttu máli fjögurra tíma heimildarmynd um börn sem eru að berjast við krabbamein. Reichert og Bognar voru fengin til þess að gera myndina skömmu eftir að dóttir þeirra hafði náð sér af krabbameini. Þau fylgdu fimm börnum og fjölskyldum þeirra í fimm ár, þangað til öll börnin voru annað hvort dáin eða búin að ná sér að fullu. Þá stóðu þau uppi með 525 klst. af efni, og svo fóru önnur sex ár í að klippa myndina.
Þau fundu söguboga (story arch) fyrir hverja fjölskyldu og einn boga sem náði yfir alla myndina. Til þess að finna þennan söguboga þurftu þau fyrst að ákveða hver aðalpersóna hverrar sögu er (og það var ekki alltaf krabbameinsveika barnið). Svo var nánast allt sem gegndi ekki hlutverki í þessari sögu og færði hana áfram hent út. Síðan eru sögurnar tvinnaðar saman og eftir stendur fjögurra klukkutíma mynd í tveimur hlutum. Við getum e.t.v. skoðað nánar tæknilegu atriðin seinna (ég vildi bara óska að ég hefði tekið glósur).

Gildran (Srdjan Golubovic)
Svo sem ágætis mynd. Ég var samt aldrei almennilega sáttur við aðalleikarann - það var eitthvað við hann sem fór í taugarnar á mér. Hann stendur sig samt ekkert illa. Sagan er ágæt fyrir utan eitt risastórt plot-hole, sem við þurfum svo sem ekki að hafa áhyggjur af hér.
Í stuttu máli sagt: sonur aðalpersónunnar greinist með hjartagalla, og þarf að komast í aðgerð sem er ekki framkvæmd í Serbíu. Þess vegna þarf hann að komast til Berlínar, en aðgerðin þar kostar aftur á móti 26þús evrur, sem foreldrarnir eiga ekki til og geta ekki reddað. Þau auglýsa í dagblaði eftir hjálp, sem vekur á þeim óþægilega mikla athygli. Aðalpersónunni eru boðnar 30þús evrur fyrir að drepa mann, og meira vil ég ekki segja...
Strákurinn leikur ágætlega, og leikurinn er almennt fínn. Myndatakan er megnið af myndinni mjög náttúruleg og ber ekki mikið á henni, en öðru hvoru fer hún út í eitthvað artfart sem nánast öskrar "TAKIÐ EFTIR MÉR!" Þetta eru yfirleitt mjög flott skot (tvö skot í tveimur mismunandi stigagöngum koma upp í hugann), en þó efast ég um að þau séu rétta valið miðað við kringumstæður og heildarstíl myndarinnar. Þau bera vott um ákveðið "self-indulgence" (agaleysi?). Algjörlega eitthvað sem ég myndi detta niður í og gleyma mér í ef ég væri að gera mynd.
Leikstjórinn svaraði spurningum í lok myndar og eftirfarandi stóð upp úr:
1) myndin virðist eiga að vera hálfgerður áróður fyrir velferðarsamfélagið og almenna samkennd manna
2) leikstjórinn talar um að aðalpersónan leiti að kaþarsis í lok myndar - greinilega undir áhrifum frá grísku tragedíunum (og smá Macbeth fílingur á stöku stað - "Out, damned spot! out, I say!").
3) ást hans á Renault 4, sem er einmitt minn uppáhalds Renault, enda glæsikerra:
4) Hollywood hefur sýnt áhuga á að endurgera myndina og leikstjóranum hefur víst verið boðinn mikill peningur fyrir að leikstýra endurgerðinni - sem hann afþakkaði því honum finnst fáránleg hugmynd að gera sömu myndina tvisvar, auk þess sem hann hefur engan áhuga á að vinna í Hollywood.

Listin að gráta í kór (Peter Schønau Fog)
Sumt gerir maður ekki gamanmyndir um.
Í stuttu máli sagt þá er þetta gamanmynd um sifjaspell. Myndin er virkilega góð, vel leikin, vel skrifuð og í sjálfu sér ansi fyndin. Það eru fjölmargar senur sem eru drepfyndnar í mómentinu. Aftur á móti, ef þú hugsar bara aðeins um það sem er að gerast í víðara samhengi verður senan og myndin sorgleg og átakanleg og allt annað en fyndin.
Ég skemmti mér ágætlega fyrri helming myndar. Það er alltaf eitthvað óhuggulegt undir yfirborðinu, en sifjaspellið og áhrifin sem það hefur á fjölskyldulífið er ekki sett á oddinn fyrr en um miðbik myndar, en eftir það átti ég erfitt með að hlæja að myndinni, þó svo að salurinn hafi raunar sprungið þónokkrum sinnum á þeim tíma.
Ég spurði leikstjórann einmitt að því hvort hann hefði ekki verið hræddur að blanda saman kómedíu og þessu viðkvæma viðfangsefni. Það sem hann sagði var að í bókinni sem myndin er byggð á er talsvert meiri húmor, en að í myndinni hafi hann tónað þennan húmor niður heilmikið, e.t.v. einmitt vegna þess hversu viðkvæmt efnið er. Og hann tók skýrt fram að ætlunin hafi aldrei verið að gera grín að sifjaspelli (sem er svo sem ekki beinlínis gert).
Í sambandi við þessa mynd þá finnst mér Mogginn hafa gert stóran feil. Fyrirsögnin á gagnrýninni á myndina var "Mjólkurpósturinn sem misnotaði börnin sín". Þangað til ég sá þessa fyrirsögn sama dag og ég ætlaði á myndina vissi ég ekki að hún væri um kynferðislega misnotkun, og ég hefði viljað halda því þannig, enda hefði ég þá getað notið fyrri hluta myndarinnar grunlaus og það hefði komið mér meira á óvart þegar sifjaspellið kemur fram ... sem hefði leitt til sterkari áhrifa.
Sem sagt, ef þú telur þig geta skemmt þér á gamanmynd um sifjaspell, þá er þetta einstaklega góð og vel gerð mynd.

Engin ummæli: