XXY (Lucia Puenzo)
Myndin virkar ansi vel. Maður dettur inn í söguna og t.d. pældi ég miklu meira í því hvort fólkið í myndinni sé að taka réttar ákvarðanir en nokkurn tíman tæknilegu atriðunum. Raunar fór ákvarðanataka fólks í myndinni almennt í taugarnar á mér - en það sýnir bara innlifunina held ég. Ég skil t.d. ekki hvernig pabbinn réttlætir það að hafa ekki valið kyn á Alex strax í upphafi, frekar en að láta hana vera "freak" alla sína æsku. Og fyrst Alex átti að velja, af hverju var hún þá alin upp sem stúlka? Og hvað er málið með skurðlækninn? Senan þar sem hann er "heiðarlegur" við son sinn er algjörlega brútal!
En þó maður láti sumar persónurnar fara í taugarnar á sér, og þó svo að þetta sé hálfgerð "vandamálamynd", þá er hún ekki erfið áhorfs - manni líður ekkert illa á meðan maður horfir. Það var helst það sem ég óttaðist við þessa mynd: að þetta yrði hrottalega átakanleg mynd með rosa skilaboðum, en mér finnst hún sameina ágætlega afþreyingu og innihald.
Eigið þér annað epli (Bayram Fazli)
Þessi var vægast sagt stórfurðuleg. "Allegorísk, súrrealísk, ádeila, satíra, grínmynd, ævintýri, meistarastykki" stendur í bæklingnum. Vissulega svífur einhver rosaleg allegoría yfir vötnum í þessari mynd, en ég átta mig bara ekki á því hver hún er.
Drögum saman plottið: Sigðarfólkið heldur landinu í heljargreipum, íbúar þurfa að haga sér eins og sigðarfólkinu hugnast, annars eru þeir handteknir. Viðunandi hegðun virðist þó vera mismunandi fyrir hvert þorp - í einu þorpi eiga allir að sofa, í öðru slást þeir, í því þriðja betla þeir. En hverjir eru sigðarfólkið? Kommúnistar (hamar og sigð o.s.frv.)? Íranska klerkastjórnin? Bandaríkjamenn?
Hetja myndarinnar er hlauparinn. Hann hefur ítrekað sloppið úr greipum sigðarfólksins og ferðast milli þorpa, fyrst og fremst í leit að næringu. Hvar sem hann fer virðist hann koma fólki í vandræði. Hann lætur fyrst og fremst stjórnast af eigingirni og matgræðgi. Á sama tíma er hann þó einhvers konar bjargvættur. Hver skyldi hann eiga að vera í þessari furðulegu allegoríu?
Þessi mynd er skemmtileg á köflum. Sérstaklega er byrjunin fín (og raunar allur fyrri helmingurinn). Síðan missir mynd nýjabrumið og verður minna spennandi eftir því sem við nálgumst endann. Myndin er mjög flott: myndataka, sviðsmynd, búningar og allt umhverfi er mjög flott. Eltingaleikur í gegnum trjálundi snemma í myndinni fannst mér mjög sjónrænt skemmtilegur. Hljóðið er aftur á móti frekar lélegt. Hljóð-effektar eru allt of hátt mixaðir og ýktir og áberandi. Það er ekki oft sem ég pæli mikið í hljóði í bíómyndum, en í þessu tilfelli fór það verulega í taugarnar á mér.
Fazli virðist hafa skrifað, leikstýrt, klippt, gert sviðsmyndina og framleitt. Hann er greinilega prímus mótor í þessari mynd.
Gleðilegt nýtt líf (Árpád Bogdán)
Vonbrigði hátíðarinnar hingað til, ásamt Híenu.
Byrjum á því góða. Myndatakan var á heildina litið mjög flott. Myndbygging, litur og hreyfingar myndavélarinnar eru metnaðarfullt, útpælt og í flesta staði flott. Það er smá cinema verité tendens á köflum sem fór í taugarnar á mér, þar sem myndavélin er handheld og hreyfð hratt, og hlutirnir detta úr og í fókus. Það virtist bara ekki vera nein ástæða fyrir þessu önnur en athyglissýki myndatökumannsins. Raunar er myndatakan öll svolítið þessleg - maður tekur allt of oft eftir henni. Tónlistin var líka nokkuð kúl.
Svo það vonda. Sagan var ekki áhugaverð og nokkuð fyrirsjáanleg. Það sem var þó verst var að aðalpersónan var alls ekki sympatísk eða áhugaverð. Ég hafði litla samúð með honum, og maður kynntist honum aldrei almennilega. Aðalpersónan er sem sagt ungur maður sem hefur alist upp á munaðarleysingjahæli og man ekki eftir foreldrum sínu - hann er rótlaus og á sér enga fortíð. Sérstakt áhugamál hans virðist vera að fara í bað, stinga höfðinu í kaf og halda niðri í sér andanum þangað til hann fær flashback úr barnæsku. Málið er bara að hann er svo illa leikinn að manni er nokkurn veginn sama allan tímann hvernig fara mun fyrir drengnum. Sem er ekki gott.
1 ummæli:
Ég hef kannski talað aðeins of mikið um XXY. Ég veit það ekki, mér fannst hún frábær. Kannski vegna þess að ég bjóst við allt öðru en það sem ég fékk. Ég er samt sammála þér hvað varðar svona lykilspurningar út í myndina en svona allt í allt fannst mér þetta klikkuð mynd.
Skrifa ummæli