föstudagur, 27. nóvember 2009

Handritamappan

Skil á handritamöppunni eru í seinasta lagi föstudaginn 4. des.

Í handritamöppunni eiga að vera eftirfarandi verkefni:
Æfingar Lýsing
Verkefni 1a Búa til fullskapaða persónu
Verkefni 1b Hvatningaratvik og drög að boga fyrir persónu í 1a
Æfing 1 X í herbergi
Sérverkefni 1 Sögu-útlína byggð á skrýtinni frétt
Æfing 5 Hljóð með merkingu
Æfing 3 Location, veiðikofi
Æfing 7 Manneskja úti í bæ
Æfing 8 Persónur úr æfingu 7 hittast á staðnum í æfingu 8
Verkefni 9-11 Söguútlína úr þjóðsögu
Æfing 10 Samtal
Verkefni 13 Söguútlína um uppgötvun
Verkefni 14 Undirbúningur fyrir handrit
Æfing 18 Spurningar um handrit
Verkefni 15 Uppkast að handriti

mánudagur, 16. nóvember 2009

Seinni fyrirlestraskammturinn

Hér koma umsagnir um seinni hluta fyrirlestranna:

Buster Keaton
Ari, Hrafn og Guðmundur
Mjög gott æviágrip.
Vantar meiri umfjöllun um myndirnar.
Góðar klippur úr One Week.
8,5

Akira Kurosawa
Arnór, Ásgeir, Eggert (og Ólafur Hrafn)
Æviágrip og umfjöllun um stílbrögð eru mjög góð.
Vantaði að fá titla á myndum upp á tjaldið – nokkuð viss um að allir þessir japönsku titlar hafi farið framhjá mörgum.
Góðar klippur.
John Ford ekki meðal áhrifavalda?
Góð umfjöllun um einstakar myndir.
Aðeins of langur.
9,5

George Cukor
Edda og Anna
Metnaðarlítill og slakur fyrirlestur.
Myndbrotin eru ekkert spes.
Í styttra lagi.
Staðreyndavillur (Great Gatsby leikrit árið 1938???)
6,0

Orson Welles
Linda, Margrét og Pálmar
Ágætt æviágrip.
Pínu endurtekningasöm og yfirborðskennd yfirferð yfir myndirnar.
Gott um lok ferilsins.
Góðar klippur.
Passlega langt.
8,5

Murnau
Darri og Nanna
Ansi gott æviágrip.
Góð umfjöllun og klippur úr Nosferatu og Faust.
Lítið um aðrar myndir. Mér fannst sérstaklega vanta eitthvað um Sunrise og Last Laugh.
9,0

Sergio Leone
Brynjólfur
Gott æviágrip.
Umfjöllun um myndirnar er almennt mjög góð.
Góðar pælingar og athugasemdir varðandi stíl.
Mjög góðar klippur.
Hefði kannski verið skemmtilegt að sjá klippur úr öðrum myndum líka.
Powerpoint greinilega búið til á Mac með drag-n-drop myndum – ekki hægt að sýna svoleiðis á PC.
9,0

föstudagur, 30. október 2009

Umsagnir um fyrirlestra

Kubrick
Þór og Baldvin

Gott æviágrip.

Glærurnar eru nokkuð góðar. Kannski frekar "plain".

Fín tilraun til þess að greina stíl.

Umfjöllun um einstakar kvikmyndir er ekki eins góð og æviágripið. Í lengra lagi og svolítið einhæf.

Klippurnar eru góðar, en kannski helst til stuttar.

Farið mjög hratt í Shining, Full Metal Jacket og Eyes Wide Shut.

Of langur: 25 mínútur.

9,0

Polanski
Halldór, Saga og Reynir
Æviágripið er fínt, en gerir kannski svolítið mikið úr nauðgunarmálinu. Fyrirlesturinn átti að vera um kvikmyndaleikstjórann Polanski, ekki nauðgarann Polanski.
Flott umfjöllun um Chinatown og ágæt um Rosemary's Baby. Hefði viljað sjá minnst á (miklu) fleiri myndir. Ég held að myndir eins og Repulsion og The Tenant hafi ekki einu sinni verið nefndar á nafn.
Myndbrotin voru góð.
Í lengra lagi: 22 mínútur.

7,5

Billy Wilder
Elín, Ingibjörg, Margrét Sigurpáls og Svanhvít
Flott æviágrip.
Góð umfjöllun um myndirnar. Vel valdar myndir til þess að einbeita sér að.
Ágætis pælingar varðandi stílbragð og annað.
1 gott myndbrot (af hverju ekki fleiri?).

9,0

Charlie Chaplin
Árni, Hlynur og Tryggvi
Mjög gott æviágrip. Óþarflega langt reyndar um ástkonurnar – í staðinn hefði mátt koma með meira um kvikmyndirnar.
Góð umfjöllun um myndirnar.
Myndbrotin eru góð. Spurning hvort það hefði ekki verið betra að hafa þau inni í fyrirlestrinum frekar en að spila öll í röð í lokin (þá hefði líka verið hægt að kynna hvert myndbrot betur).

9,0

Sergio Leone
Sverrir
Mjög góður fyrirlestur.
Flott æviágrip.
Mjög fínar pælingar um myndirnar.
Glærurnar eru góðar – gott að hafa screenshot.
Öll umfjöllun mjög góð, og mjög jákvæð – góð auglýsing fyrir Leone.
Mættu alveg vera aðeins fleiri myndbrot.

9,5

Hitchcock
Miriam og Tómas
Æviágripið er mjög gott.
Flott umfjöllun um starfsferilinn og ágætis nálgun á stíl.
Vantar samt meira um einstakar myndir.
Skemmtilegar klippur úr North by Northwest.

8,5

föstudagur, 16. október 2009

Maraþonmyndir

Jæja, mér gafst loks tóm til þess að kíkja á maraþonmyndirnar aftur. Mér finnst alltaf svolítið erfitt að gefa fyrir þetta verkefni, þar sem kröfurnar eru frekar óljósar og alls ekki strangar. Í fyrstu datt mér í hug að raða þessu einfaldlega eftir uppáhaldi og gefa bestu myndinni 10, næstbestu 9,5 og svo koll af kolli, en þá hefði sísta myndin fengið 6,5 sem hefði verið allt of lágt.
Allar myndirnar áttu sína spretti, en þær tvær bestu voru "Merkur" eftir hóp 1, og svo "Án titils" eftir hóp 5 (mennirnir sem finna líkið). En jafnvel þótt þessar hafi verið mjög góðar, þá fannst mér þær ekki vera alveg upp á 10.

Umsagnir og einkunnir:

Hópur 1
Miriam, Tómas, Hlynur og Nanna
Merkur

Þessi var mjög skemmtileg og margt vel gert. Atriðið þar sem keyrt er yfir fótinn á Hlyni er mjög flott. Atriðið þar sem Hlynur kemur að pabba sínum með kærustunni sinni er snilld, og Miriam sýnir þar stórleik. Og þetta hæga zoom-out í lokin þótti mér vel til fundið.
9,5

Hópur 2
Sverrir, Hjördís, Tryggvi og Árni
Dagur í lífi Raven

Veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa. Skemmtileg móment, en í heildina hvorki mikil saga né mikill metnaður.
7,5

Hópur 3
Halldór, Edda, Ásgeir og Eggert
Án titils (hópur án hugmynda)

Margt skemmtilegt í þessari. Ágæt hugmynd í grunninn og skemmtilega útfærð. Vantar helst aðeins upp á tæknileg atriði, sérstaklega eru útisenurnar allt of bjartar og bláar (hefði þurft að stilla white balance og nota ND-filter í útisenunum).
8,5

Hópur 4
Ólafur Hrafn, Margrét, Ari og Saga
Maraþonið

Átti sína spretti. Margt fyndið, en sumt fannst mér ekki alveg takast. Fyrri hlutinn fannst mér að mestu leyti góður (fyrir utan eina mjög oflýsta senu þegar Ari hleypur upp tröppurnar...) Seinni hlutinn ("Blóð ... sviti ... o.s.frv.) var í lengra lagi. Hljóðið sem sett var inn eftir á var oft of hátt (ansi nálægt því að springa) – það á ekki að vera erfitt að passa upp á það.
8,5

Hópur 5
Darri, Hrafn, Linda, Guðmundur og Reynir
Án titils (menn í myrkri)

Þessi nær að skapa ótrúlega flotta stemningu. Tónlistin og myndin (eða það sem maður sér af henni) mynda glæsilegt samspil, og endirinn er skemmtilega spooky. Þetta hefði hiklaust verið besta myndin ef hún hefði ekki verið alveg svona dökk. En auðvitað þurfti hún að vera soldið dökk, annars hefði hún aldrei náð þessari stemningu og aldrei orðið svona spooky, þ.a. þetta er línudans.
9,5

Hópur 6
Arnór, Pálmar, Brynjólfur, Anna og Þór
Án titils (blikkandi ljós og skokkari)

Margt mjög flott í þessari. Twin Peaks elementin eru skemmtileg, og eltingaleikurinn í gegnum skóginn er að mörgu leyti mjög vel gerður. Eitt móment er sérlega flott: þegar Pálmar lítur við og um leið er ljósopið opnað (allt verður bjart) og svo koma einhver taktskipti í tónlistina á sama tíma. Miðað við hversu óþægilegt er að horfa á blikkandi ljósið, þá fannst mér ekkert í sögunni beint réttlæta það.
9,0

Hópur 7
Svanhvít, Elín, Margrét, Þórhallur, Ingibjörg og Baldvin
Harbour Dromes of Pincanta Avenue, Part II: Strange Texture

Virkilega sniðug hugmynd. Það hefði kannski mátt vinna betur með hana, en útkoman er engu að síður skemmtileg mynd.
8,0

laugardagur, 26. september 2009

RIFF '09: Dagur 9

Í dag fór ég á Daytime Drinking og hina bráðskemmtilegu Død Snø.

29. Daytime Drinking
Ágæt mynd. Sagan var góð og leikurinn ágætur, og megnið af myndinni hélt hún manni alveg. Hins vegar var myndin lítið fyrir augað, raunar mætti segja að útlit myndarinnar hafi verið allt vægast sagt ömurlegt. Myndatakan var oft á tíðum æfing í því að finna ljótasta og leiðinlegasta sjónarhornið í hverri senu, og senurnar virtust yfirleitt ekkert hafa verið lýstar, eða þá lýstar svona rosalega illa. Ekki bætti það heldur úr skák að myndin var sýnd af Digibetu. Allt í allt góð mynd sem leið fyrir tæknilega og fagurfræðilega vankanta. Venjulega myndi ég ekki láta það trufla mig þótt myndin sé ekki ægifögur ef sagan er góð, en í þessu tilviki er myndin bara allt of ljót - það eyðilagði hana pínu fyrir mér.
Í stuttu máli sagt, þá fjallar myndin um ungan mann sem er nýhættur með kærustunni. Til þess að kæta hann ákveða vinirnir (á miðju fylliríi) að fara með honum út á land daginn eftir, en þegar á hólminn er komið er hann sá eini sem mætir. Hann ákveður engu að síður að fara í ferðina, og lendir í alls konar litlum ævintýrum.
...
Ég var að skoða IMDb síðu myndarinnar aðeins betur og áttaði mig á því að þessi mynd er að því er virðist hugarfóstur eins manns. Young-Seok Noh skrifar, leikstýrir, framleiðir, er myndatökumaður, sér um hljóðið, klippir og sér um tónlistina. Með það í huga verð ég að játa að þessi mynd er ótrúlegt afrek. Að honum skuli takast að gera bíómynd í fullri lengd, nánast upp á eigin spýtur, er með ólíkindum, og maður verður að fyrirgefa honum að lúkkið á myndinni hafi ekki verið fullkomið.

30. Død Snø
Einstaklega skemmtileg og vel heppnuð mynd. Og ótrúlega flott miðað við norræna mynd, og sérstaklega miðað við splattermynd. Maður fær aldrei á tilfinninguna að eitthvað hafi verið sparað við gerð myndarinnar. Lúkkið á henni er mjög flott.
Margir nemendur í Kvikmyndagerðinni hafa talað um að erfitt sé að komast hjá því að bera þessa saman við RWWM, og ég er alveg sammála. Það er ekki spurning um að þessi kemur betur út úr samanburðinum. Þessi mynd er fyndin, spennandi og nokkuð vel leikin. Samtölin þegar ekki er rosa hasar eru bara nokkuð fyndin og eðlileg (öfugt við RWWM). Auk þess eru allar senur og öll skot vönduð (sem mér fannst ekki vera raunin með RWWM, þar sem sum skot voru bara hroðvirknisleg og hálfljót).
Ef maður pælir í því þá fara hlátur og hryllingur mjög vel saman. Ef þér tekst að búa til raunverulega spennu eða hræðslu, þá vill áhorfandinn geta losað um þá spennu með því að hlæja. Þannig að ef myndin er virkilega "scary" þá er um leið auðveldara að fá áhorfendur til þess að hlæja. Og ef myndin er ekkert "scary", þá eru góðar líkur á því að hún sé um leið ekkert fyndin. Ég held a.m.k. að besti hláturinn sé sá hlátur sem losar um spennu, hvort sem það er hræðsla eins og í þessari mynd, eða bjánahrollur eins og tíðkast oft í gamanmyndum.

föstudagur, 25. september 2009

RIFF '09: Dagur 8

Í kvöld fór ég á fjórar myndir: hina hundleiðinlegu og frekar löngu Melody for a Street Organ, Edie & Thea, House of Satisfaction og svo kvikmyndatónleika á Bakkus þar sem Malneirophrena lék undir þöglu myndinni The Unknown.

25. Melody for a Street Organ
Þetta var fyrsta skiptið í ár sem ég virkilega hugleiddi að ganga út af bíómynd. Þessi mynd sameinar það nefnilega að vera löng og leiðinleg.
Myndin fjallar um tvö börn, systkini, Alenu og Nikita. Þau eru fátæk og munaðarlaus, og Nikita er á mörkunum að vera þroskaheftur. Þau fara að leita að feðrum sínum. Faðir Alenu hafði sent þeim póstkort ári fyrr, þar sem hann sagðist vinna á ákveðinni brautarstöð. Þangað fara þau, og eyða klukkutíma af myndinni að væla utan í fullorðna fólkinu að reyna að finna pabba hennar, en fullorðna fólkið er allt mjög upptekið og skrýtið. Síðan ákveða þau að leita að pabba Nikita sem er götutónlistarmaður, en það gengur ekkert betur.
Krakkarnir sem leika Alenu og Nikitu eru ömurlegir leikarar, og eiginlega allt fullorðna fólkið leikur virkilega illa (ofleikur alveg fáránlega). Nú grunar mig reyndar að þetta sé með vilja gert, að fullorðna fólkið eigi að vera virkilega ýkt og skrýtið, en það breytir því ekki að það virkar bara alls ekki. Myndin er ótrúlega tilgerðarleg - fullt af senum þar sem allir tala í kross og tala í einu sem á örugglega að vera geðveikt kúl, en er það bara alls ekki. Myndin er uppfull af löngum, leiðinlegum senum, með löngum absúrd samtölum sem á ekki einu sinni að vera vit í, heldur virðist þetta eiga að vera ádeila á fáránleika heimsins.
Þegar þessi mynd endar (og hún endar á ömurlegan hátt!), þá sat ég bara í svona mínútu, svekktur, reiður og bitur, og sá eftir því að hafa ekki einfaldlega gengið út af henni. Ég var búinn að kaupa miða á Edia & Thea sem átti að byrja tíu mínútum síðar og hugleiddi það virkilega að fara bara heim. Eftir þessa mynd langaði mig bara ekkert til þess að horfa á aðra bíómynd. En sem betur fer gerði ég það ekki...

26. Edie & Thea: A Very Long Engagement
Þessi mynd var, þvert á móti, stutt og skemmtileg.
Edie og Thea eru virkilega skemmtilegar og kraftmiklar konur, sem eru búnar að vera saman í meira en 40 ár og eru enn virkilega ástfangnar. Myndin fjallar eiginlega hvorki um raunir þess að vera samkynhneigður í gamla daga, né réttindabaráttu. Þetta er einfaldlega gullfalleg ástarsaga sem hlýjar manni um hjartarætur. Ég mæli með þessari.

27. House of Satisfaction
Þetta var alveg ágæt mynd. Jesse Hartman er allt í öllu í þessari, hann skrifar og leikstýrir, leikur aðalhlutverkið og semur tónlistina og klippir myndina. Og ég verð bara að segja að honum tekst ansi vel til.
Myndin er um Jesse Limbo, fyrrum tónlistarmann, núverandi dópista. Hann stelur pening frá einhverjum dópsölum og heldur aftur heim til New York í fyrsta skipti í 13 ár, til þess að hitta son sinn í fyrsta skipti. Þetta er mjög knöpp saga, en hún virkar.
Eitt af því sem gerir þessa mynd skemmtilega er hvar hún er tekin. Jesse Hartman og bróðir hans áttu stað í East Village sem hét Mo Pitkin's, og þar er megnið af myndinni tekin. Þessi staður hefur greinilega haft mikinn karakter (Hartman talar um hann sem þriðju aðalpersónuna í myndinni) og verður stór hluti af sögunni. Auk þess á Hartman sér langa sögu sem tónlistarmaður og kvikmyndagerðarmaður og notar óspart myndbrot úr sínu fyrra lífi, t.d. tónlistarmyndbönd sem hann gerði með hljómsveitinni sinni, og brot úr stuttmynd sem hann gerði fyrir 13 árum sem vann til verðlauna. Auk þess notar hann meira að segja myndbrot úr brúðkaupinu sínu, sem virkar m.a. vegna þess að mótleikarinn sem leikur gamlan vin hans er í raun gamall vinur hans og var viðstaddur brúðkaupið. Þannig að myndin verður að einhverju leyti sjálfsævisöguleg. Eins og Hartman orðar það sjálfur, þá er Jesse Limbo önnur útgáfa af honum sjálfum, bara miklu meira "edgy" og í meiri vanda (og með heróínfíkn).
Þessi mynd er sönnun þess að það er hægt að gera flotta mynd fyrir lítinn pening. Maður verður ekki einu sinni neitt sérstaklega var við sparnaðinn, nema kannski í lokasenunni, og þar kemur það alls ekkert illa út, heldur lætur bara áhorfandann ímynda sér hvað gerist frekar en að sýna honum það. Raunar fannst mér sú sena skemmtileg, m.a. af því að hún minnti mig mjög á senuna úr heimildamyndinni Malcolm X þar sem titilpersónan er drepin - klippingin og stemningin var mjög svipuð.

28. The Unknown
Hljómsveitin Malneirophrena spilaði undir mynd Tod Browning frá 1927, The Unknown, sem er um Alonzo, handalausan hnífakastara í sirkus, sem girnist dóttur sirkusstjórans.
Myndin sjálf er bráðskemmtilegt melódrama, uppfull af óvæntum uppákomum, ofbeldi og langsóttum sögufléttum. Undirspil Malneirophrenu var áhrifamikið og passaði einstaklega vel við myndina. Oft á tíðum gleymdi maður hljóðfæraleikurunum og lifði sig alveg inn í myndina (og tónlistina). Allt í allt var þetta stórgóð skemmtun. Þegar vel tekst til er nefnilega alveg frábært að sjá þöglar myndir með lifandi undirspili.

miðvikudagur, 23. september 2009

RIFF '09: Dagur 7

Í kvöld fór ég á þrjár myndir: Prodigal Sons, Kelin og One Flew Over the Cuckoo's Nest.

22. Prodigal Sons

Ansi mögnuð, og á köflum mjög óþægileg heimildamynd.
Leikstjórinn, Kimberly Reed, snýr aftur til bæjarins þar sem hún ólst upp, Helena, Montana, til þess að mæta í 20 ára High School Reunion. Þar hittir hún líka stjúpbróður sinn, Marc, sem útskrifaðist sama ár og hún. Það sem gerir þessa sögu sérstaka er að þegar Kimberly útskrifaðist hét hún Paul McKerrow og var fyrirliði fótboltaliðsins. Auk þess hefur Marc í millitíðinni lent í alvarlegu slysi, orðið fyrir heilaskaða og þurft að fara í fjölda aðgerða þar sem hluti heilans var fjarlægður. Sem sagt margt í gangi.
Marc var ættleiddur, og hefur í langan tíma viljað hafa uppi á foreldrum sínum. Þegar tæpur hálftími er liðinn af myndinni komumst við að því að mamma hans var dóttir Orson Welles og Ritu Hayworth! Marc var búinn að hafa uppi á móður sinni og þau voru búin að skrifa bréf til hvors annars, en hún deyr áður en hann getur hitt hana. Honum er hins vegar boðið í jarðarförina, þ.a. í fyrsta skiptið sem hann sér móður sína þá er hún dáin. Síðan býður kærasta Orson Welles, Oja Kodar, Marc og fjölskyldu hans til Króatíu til þess að hitta sig. Hún er himinlifandi að hitta þennan afkomanda Orsons og reynir að koma til skila arfleifð Orsons á einhvern hátt; hún gefur Marc til dæmis einhverjar skyrtur og vesti af Orson.
Sjáið þið fjölskyldusvipinn?
Nú gæti maður haldið að mynd um þetta fólk, týnt barnabarn Orson Welles og fyrrverandi fótboltahetju sem nú er kona, myndi einblína á þennan hluta sögu þeirra, en svo er alls ekki. Eins og leikstjórinn sagði sjálfur, þá er þetta fyrst og fremst mynd um fjölskyldu. Vandamál þessarar fjölskyldu gætu í fyrstu virst allt önnur en hjá öðrum fjölskyldum, en þegar nánar er að gáð er munurinn ekki svo mikill. Börnin hafa breyst frá því að þau fluttu að heiman og fjölskyldufaðirinn er nýdáinn, og vandi fjölskyldunnar nú er fyrst og fremst að aðlaga fjölskylduformið að breyttum aðstæðum, og ég held að það sé eitthvað sem gerist í öllum fjölskyldum. Helsta vandamálið er að Marc þjáist af miklum geðsveiflum, hugsanlega vegna aðgerðanna sem hann fór í eftir slysið, og þegar hann er slæmur er hann hættulegur sjálfum sér og öðrum.
Þessi mynd veitir okkur mikla nálægð við þessa fjölskyldu, svo mikla á köflum að það verður verulega óþægilegt. Óþægilegustu atriðin eru þegar Marc missir stjórn á skapi sínu. Þá verður hann eiginlega allt annar maður, nánast ómennskur, og bara virkilega "scary". Versta augnablik myndarinnar er þegar Marc ræðst á Kimberly á meðan myndavélin er í gangi, því maður veit ekki hversu langt hann mun ganga. Það var sena sem erfitt var að horfa á.
Eitt af því sem ég pældi í þegar ég horfði á myndina var hvernig barnabarn Orson Welles, eins helsta snillings 20. aldarinnar, getur verið jafn misheppnaður og Marc er (og það er ekki bara slysið því hann var hálfmisheppnaður fyrir). Getur verið að uppeldi gegni svona stóru hlutverki? Orson Welles naut bestu menntunar sem völ var á, og hann ferðaðist vítt og breitt um heiminn sem barn og hitti ótrúlegasta fólk: einu sinni snæddi hann við sama borð og Adolf Hitler, og hann þekkti Winston Churchill. Þegar Marc fer til Króatíu er það í fyrsta skipti sem hann fer til útlanda. Á móti kemur að Kimberly er á góðri leið með að verða heimsfrægur kvikmyndagerðarmaður. Það er auðvitað ekkert einfalt svar við þessu...

23. Kelin
Ég er soldið á báðum áttum með þessa. Annars vegar er margt mjög flott við hana - flott myndataka og margar sniðugar hugmyndir. Á hinn bóginn er líka margt við hana sem virkar illa eða er bara asnalegt (af hverju er fólk á 3. öld eftir Krist meira og minna mállaust?).
Sagan og efnistökin minntu mig á köflum á Íslendingasögurnar. Stór hluti sögunnar snýst um víg og hefndarvíg og svo framvegis. Sagan hefst á því að tveir hirðingjar bjóða í sömu konuna (s.s. pabbinn ætlar að gifta hana hæstbjóðanda), og sá sem tapar uppboðinu tekur því heldur illa og ætlar að ná stúlkunni með einhverjum öðrum ráðum.

24. One Flew Over the Cuckoo's Nest
Snilldarmynd. Það var orðið allt of langt síðan ég sá þessa síðast, og ég var búinn að gleyma heilum helling. Þetta er einfaldlega mögnuð mynd, og frábært að fá tækifæri til þess að sjá hana sýnda á filmu. Það var líka einstaklega góð stemning í salnum.
Ég vænti þess að flestir hafi séð hana (og ef þið voruð ekki búinn að sjá hana þá skil ég ekki af hverju þið mættuð ekki á þessa sýningu), og þess vegna ætla ég ekkert að skrifa um plottið.
Þetta er einfaldlega ótrúlega góð mynd. Sagan er grípandi. Leikurinn er einstaklega góður: Nicholson er í essinu sínu, og Louise Fletcher og Brad Dourif eru bæði ótrúlega góð sem Nurse Ratched og Billy Bibbit. Mér finnst alveg einstakt hvernig myndin getur verið til skiptis hlý og grimm, fyndin og sorgleg, en alltaf hitt á rétta tóninn. Það eru ekki senurnar einar sér sem skila snilldinni, heldur er það hvernig þær mynda kontrapunkt við hvora aðra. Eins frábærar og partísenan og senan daginn eftir eru einar sér, þá eru það þessi snöggu skipti úr ærslagamanleik og gleði yfir í ótrúlega grimmd, reiði og sorg sem gera þessar senur svo frábærar.
Tónlistin í myndinni er skemmtilega öðruvísi, en einhvern veginn virkar hún. Á masterklassanum sagði Forman skemmtilega sögu um tilurð tónlistarinnar. Jack Nitzsche var fenginn til þess að semja tónlistina og þegar átti að taka hana upp var hann spurður hversu marga tónlistarmenn hann þyrfti. Svarið var: "Engan." Framleiðandinn hélt að þetta væri bara eitthvað grín í honum og réði heila sinfóníuhljómsveit - Nitzsche gæti þá bara sent þá heim sem hann ekki þyrfti. Hann mætti svo á staðinn og með honum gamall karl með risastóra tösku. Hann sendi alla tónlistarmennina heim og bað um tunnu fulla af vatni. Síðan tók gamli karlinn ótalmörg misstór glös upp úr töskunni, fyllti þau af vatni og fór að spila á þau, og þannig varð tónlistin til!
Önnur skemmtileg saga sem kom fram bæði á masterklassanum og í spurningatímanum eftir myndina var um samskipti Formans við myndatökumanninn Haskell Wexler. Eins og Forman orðaði það, þá voru þeir báðir með fullkomnunaráráttu, og það var ekki pláss fyrir tvo slíka á sama settinu. Aðalástæðan er kannski sú að hugmyndir leikstjórans um fullkomnun eru víðs fjarri hugmyndum myndatökumannsins. Forman orðaði það skemmtilega: Fyrir myndatökumanninum er hin fullkomna mynd án leikara, því þá hreyfist ekkert og hann getur lýst allt fullkomlega; en fyrir leikstjóranum er hin fullkomna mynd án myndavélar, því þá getur hann einbeitt sér að leikurunum og fengið sem besta frammistöðu út úr þeim. Mér skilst að stærsta bitbeinið milli Formans og Wexler hafi verið meðferðarsenurnar, þar sem sjúklingarnir sitja í hálfhring og ræða vandamál sín við Nurse Ratched. Þar vildi Forman notast við tvær myndavélar hverju sinni: ein átti að vera á þeim leikara sem verið var að taka upp (þ.e. senan væntanlega tekin nokkrum sinnum, einu sinni fyrir hvern leikara sem átti að vera í mynd), en hin átti að flakka á milli þannig að leikararnir vissu aldrei hvenær myndavélin var á þeim. Þannig taldi Forman sig ná að halda leikurunum alltaf inni í senunni, annars myndu leikararnir sem voru ekki í mynd bara þylja upp línurnar, en í raun ekkert leika. Wexler fannst þetta ómögulegt vegna þess að hann gat ómögulega lýst alla í hálfhringnum fullkomlega. Forman vildi sem sagt fórna lýsingunni að einhverju leyti fyrir betri performans, en það vildi Wexler alls ekki. Að lokum rak Forman Wexler og fékk Bill Butler til þess að klára myndina.

RIFF '09: Dagur 6

Í dag fór ég á tvær sýningar (ég veit, ég veit - engin frammistaða): Eamon og The Firemen's Ball. Báðar voru stórskemmtilegar. Auk þess fór ég á masterclassa með Milos Forman og spjallfund með fimm leikstjórum í hádeginu.

20. Eamon
Þessi fjallar um skrýtna litla fjölskyldu. Eamon er 6 ára drengur sem sefur uppí hjá mömmu sinni og breytist í skrímsli ef hann borðar sykur. Hann er vel leikinn og skemmtilegur karakter. Segja má að foreldrar hans séu ekki mikið þroskaðri en hann. Mamman, Mary, er atvinnulaus, og þegar það kemur frí í skólanum hjá Eamon getur hún ekki hugsað sér að sjá um hann allan daginn og reynir að pranga honum upp á ömmu sína. Á hinn bóginn virðist hún hvetja Eamon til þess að sofa uppí, fyrst og fremst til þess að þurfa ekki að sofa hjá pabbanum, Daniel, sem hagar sér ótrúlega barnalega í myndinni. Þegar amman vill ekki taka við barnabarninu fer fjölskyldan á írska sólarströnd í frí.
Í byrjun myndar er áherslan lögð á hversu erfiður Eamon er, og maður vorkennir foreldrunum að eiga svona erfitt barn. Þegar á líður fer samkenndin hins vegar að flytjast yfir á Eamon þegar við áttum okkur á hversu barnaleg, eigingjörn og misheppnuð foreldrar hans eru.
Endirinn er svo alveg fáránlegur.
Á heildina litið er þetta falleg, fyndin og á köflum átakanleg mynd um erfitt barn og meingallaða foreldra þess. Mæli alveg með henni.

21. The Firemen's Ball
Síðasta myndin sem Milos Forman gerði í Tékkóslóvakíu. Það er vert að minnast á það að hann skrifaði handritið með Ivan Passer, sem sjálfur hefur leikstýrt mörgum fínum myndum.
Myndin gerist í litlu fjallaþorpi þar sem slökkviliðið blæs til veislu. Í veislunni er drukkið og dansað, það er fegurðarsamkeppni (Ungfrú slökkviliðsmaður) og tombóla. Auk þess ætla slökkviliðsmennirnir að færa fyrrverandi slökkviliðsstjóranum gjöf til þess að þakka fyrir vel unnin störf.
Myndin fjallar svo um það hvernig slökkviliðsmönnunum tekst að klúðra öllu saman, yfirleitt á mjög spaugilegan hátt. Það sem mér finnst einna skemmtilegast við þessa mynd er að hún er alveg drepfyndin ærslagamanmynd, en á sama tíma er hún ádeila á þjóðfélagsskipanina, þar sem yfirvaldið (slökkviliðsmennirnir) fara um með yfirgangi og spillingu og eyðileggja fyrir öðrum. Til dæmis þótti mér mjög góð senan þar sem kviknað hefur í húsi nálægt húsinu þar sem ballið er haldið, og slökkviliðsmennirnir standa ráðþrota og gera akkúrat ekkert gagn. Þetta þótti mér skemmtileg myndlíking um yfirvaldið sem er með puttana í alls konar hlutum sem koma því ekkert við (ballið), og gegna um leið mun verr því hlutverki sem þeim er ætlað.
Eitt þótt mér leiðinlegt við þessa sýningu, en það var að myndin var sýnd af DVD, sem er frekar lélegt. DVD er ekki bara með margfalt verri upplausn en filma, heldur er líka mynd-upplýsingum þjappað þannig að gæðin eru verri en t.d. Digibeta. Þegar myndin er komin á stórt tjald þá sér maður hvílíkur munur þetta er. Maður vill samt ekki skammast of mikið yfir þessu, enda ekki auðvelt verkefni að redda sýningareintökum af 100 bíómyndum, og það er alltaf eitthvað sem klúðrast. Mér skilst að Firemen's Ball hafi átt að vera sýnd af filmu, en að hún hafi einfaldlega ekki borist til landsins. Eins skilst mér að Deadgirl (í Miðnæturbíói 1) hafi átt að vera sýnd af filmu, en að hátíðin hafi fengið myndina Dead Girl í staðinn, og því hafi hún verið sýnd af Digibetu.

Spjallfundur
Í hádeginu (milli 11 og 12) fór ég á spjallfund með nokkrum leikstjórum á Hotel Plaza (við Ingólfstorg). Þarna voru mættir 7 leikstjórar, og þetta virkaði þannig að þeir svöruðu spurningum og töluðu sín á milli, og það kom margt mjög fróðlegt fram. Til dæmis var mjög gaman að hlusta á Cory McAbee (leikstjóra American Astronaut) og fleiri tala um hvernig það er að búa til kómedíur, og mismunandi reynslu leikstjóra af kómedíum og drama (leikstjóri kómedíu veit strax hvernig til tókst, því hann heyrir hlátur áhorfenda, en leikstjóri dramatískrar myndar veit kannski ekki fyrr en löngu eftir á hvort myndin hefur tilætluð áhrif).
Ég mæli með því að sem flestir kíki á síðasta spjallfundinn á morgun (fimmtudag) kl. 11 á Hotel Plaza. Ég veit ekki alveg hversu mikið er að marka auglýsta dagskrá (það voru bara 3 af 5 auglýstum leikstjórum í gær, en í staðinn komu aðrir sem voru ekkert síðri), en á morgun eiga að vera: Iben Hjejle (formaður dómnefndar og kona Caspers í Klovn), Joao Pedro Rodriguez (leikstjóri To Die Like a Man, Two Drifters og The Phantom), Jesse Hartman (leikstjóri House of Satisfaction) og Bill Rose (leikstjóri This Dust of Words). Ég ætla að kíkja á House of Satisfaction í kvöld á eftir Cuckoo's Nest og það verður því gaman að heyra í Jesse Hartman. Eins hef ég heyrt mjög góða hluti af This Dust of Words.

Milos Forman
Milos Forman var með svokallaðan masterklassa (ég veit ekki alveg hvað það þýðir, þetta var eiginlega bara spurningatími) kl. 15 í gær, og fór vítt og breitt og talaði um ferilinn bæði í Tékkóslóvakíu og Hollywood. Hann er bráðskemmtilegur karl, og það kom margt áhugavert og skemmtilegt fram. Mér þótti soldið leiðinlegt að það skyldu ekki mæta nema tveir nemendur úr kvikmyndagerðinni, því þetta er klárlega toppurinn í viðburðunum á hátíðinni.
Þessir masterklassar eru oft mjög fróðlegir, og ég mæli eindregið með að þið kíkið á a.m.k. einn. Nú eru eftir tveir sem þið gætuð komist á: Spjall með Jessicu Hausner (sem gerði Lourdes) í Norræna húsinu kl. 15 á föstudaginn, og svo masterklassi með Yorgos Lanthimos (sem gerði Dogtooth) í Norræna húsinu kl. 9:30 á laugardaginn. Ég ætla a.m.k. á Yorgos, og þeir sem mæta þangað fá klárlega stóran plús í kladdann fyrir að vakna svona snemma á laugardagsmorgni.

þriðjudagur, 22. september 2009

RIFF '09: Dagur 5

Í dag fór ég á þrjár myndir: misheppnaða lesbíuhryllinginn Bandaged, klassíkina Amadeus (með Q&A með meistara Forman) og svo Lourdes. Meira um það seinna.

17. Bandaged
Ég veit ekki hvort ég ætti að eyða miklu púðri í þessa, en á móti kemur að oft er skemmtilegra að skrifa um vondar myndir.
Ég myndi lýsa þessari mynd sem röð mjög slæmra ákvarðana.
Mér fannst myndin lofa góðu alveg í upphafi. Ágæt tónlist og mikið af soldið flottum extreme close-ups af sprautum og álíka, minnti soldið á upphafið í Dexter nema bara miklu hægara. Síðan fór fólk að tala ... á ensku! Til útskýringar ætti ég líkast til að segja að þessi mynd er þýsk og ég held að næstum allir leikararnir séu þýskir, en samt er hún á ensku. Enginn leikaranna talar ensku eins og innfæddur, pabbinn er líkast til skástur en það fer ekkert á milli mála að enska er ekki hans fyrsta mál. Aðrir leikarar eru talsvert verri. Þannig að maður er dæmdur til þess að hlusta á bjagaða ensku út alla myndina, en persónurnar eiga greinilega að vera enskumælandi. Sem er fáránlegt. Af hverju ekki hafa myndina á þýsku?
Myndinni er lýst sem gamaldags sálfræðitrylli með smá lesbíuívafi, en nær aldrei að uppfylla þær væntingar. Leikurinn í myndinni er verulega takmarkaður, og lesbíusenurnar hljóta að vera þær verstu sem festar hafa verið á filmu. Ég dottaði oftar en einu sinni yfir þessum lesbíusenum!
Lauren Wissot skrifar fína umfjöllun um þessa mynd á hið ágæta kvikmyndablogg House Next Door, og er talsvert jákvæðari gagnvart myndinni í heild, en virðist samt að mestu leyti sammála mér um helstu gallana.
Að lokum, trailerinn:


18. Amadeus
Ætli það séu ekki komin næstum því 15 ár síðan ég sá þessa síðast. Í minningunni fannst mé hún ekkert sérstök. Mig minnir að leikarinn sem lék Mozart, Tom Hulce, hafi farið alveg hræðilega í taugarnar á mér.
Í þetta skiptið fannst mér þetta stórgóð mynd. Uppbyggingin er skemmtileg, leikurinn er góður (meira að segja alveg ágætur hjá Tom Hulce), tónlistin er mjög flott... Þetta er bara virkilega vönduð og góð mynd. Ég ætlaði að benda þeim sem ekki hafa séð hana að nýta tækifærið til þess að sjá hana á filmu, en þetta var víst seinasta sýningin á henni.

19. Lourdes
Áhugaverð og nokkuð skemmtileg á köflum. Myndin fjallar um Christine, unga konu sem þjáist af MS sjúkdómnum og er bundin við hjólastól. Hún er í pílagrímsferð í Lourdes, þar sem María mey á að hafa birst fólki. Raunar kemur fram að hún stundar það að fara í pílagrímsferðir, ekki þó til þess að fá lækningu heldur til þess að hitta fólk.
Megnið af myndinni er meinfyndin ádeila á það færiband sem Lourdes er, en þangað leita tugþúsundir manna á ári hverju. Síðan gerist kraftaverk (eða þannig lítur það út), og það er skemmtilegt að sjá viðbrögð manna við því. Þetta hljómar kannski soldið eins og verið sé að gera grín að trúuðu fólki eða fólki sem trúir á kraftaverk, en mér fannst alls ekki vera sá tónn í myndinni.
Ágæt mynd, en ekkert mikið meira en það.

mánudagur, 21. september 2009

RIFF '09: Dagur 4

Í dag fór ég á fjórar myndir: The Girl, Another Planet, Mid August Lunch og The Happiest Girl in the World. Meira um það seinna.

13. The Girl (Flickan)
Enn ein myndin um börn/barn sem þurfa að bjarga sér sjálf vegna áhugaleysi og ábyrgðarleysi fullorðna fólksins. Foreldrar stúlkunnar ætla til Afríku að láta gott af sér leiða, en nokkrum dögum fyrir brottför fá þau þær fréttir að hún sé of ung til þess að koma með. Í stað þess að hætta við allt saman, skilja þau dóttur sína eftir hjá óábyrgri frænku sinni. Frænkan er ótrúlega sjálfhverf og drekkur stanslaust alla daga. Eftir að hún heldur villt partí fær stúlkan nóg og nær með klækjum að fá hana til þess að skella sér í skemmtisiglingu. Hún stendur sig ágætlega ein um stund, en síðan fer allt að ganga á afturfótunum, og um stund lítur út fyrir að allt fari á versta veg. Þetta leiðir m.a. til einnar skemmtilegustu birtingarmyndar deus ex machina sem ég hef séð í langan tíma.
The Girl er góð mynd og vel leikin. Hún er oft ansi fyndin, en um leið oft mjög átakanleg. Ég get alveg mælt með þessari.

14. Another Planet
Another Planet er heimildamynd um bága stöðu barna víðs vegar um heiminn. Fylgst er með fátækum börnum í Mexíkó, Ekvador, Kongó og Kambódíu. Formið er að mestu leyti þannig að við fylgjumst með börnunum við dagleg störf (sem eru iðulega frekar niðurdrepandi) og á hljóðrásinni segja þau sögur af sér sem eru oft hrikalegar.
Þetta hefði án nokkurs vafa getað verið mjög áhrifamikil mynd, en mér finnst stíll og uppbygging myndarinnar grafa algjörlega undan mögulegum áhrifum hennar. Í fyrsta lagi þá eru þetta of mörg börn sem fylgst er með, þ.a. við komumst aldrei nógu nálægt neinum. Í öðru lagi fer myndavélin aldrei af þrífætinum, heldur er myndin byggð upp á kyrrum, oft löngum skotum, of teknum með miklu zoomi, sem dregur mjög úr innlifun áhorfandans því við erum alltaf í ákveðinni fjarlægð frá viðfangsefninu (en í staðin eru skotin oft mjög flott, sem mér finnst bara ekki skipta ýkja miklu máli í heimildamynd um þetta efni). Í þriðja lagi er allt of mikið af artí innskotum sem virðast ekki hafa neinn skýran tilgang annan en að vera flott. Ég spurði leikstjórann um þessi innskot og hann bablaði vel og lengi um hliðsetningu þess fallega í heiminum og ljóta lífsins sem börnin lifa, auk þess sem hann hamraði mjög á því sem hann kallaði "a cinematic aesthetic", þ.e.a.s. þetta er heimildamynd ætluð fyrir bíó (ekki sjónvarp) og þess vegna er hún eins og hún er. Það er alveg góð og gild pæling, en mér finnst það samt ekki góð ákvörðun, og ég er samt á því að þetta dregur tennurnar úr heimildamyndinni.

15. Mid August Lunch
Ég ætla ekki að skrifa mikið um þessa. Þetta er einfaldlega skemmtileg, lítil og sæt ítölsk mynd um Giovanni, miðaldra mann í fjárhagskröggum, sem hugsar mjög vel um háaldraða móður sína. Röð atburða leiðir til þess að hann situr uppi með þrjár gamlar konur til viðbótar á 15. ágúst (sem virðist vera frídagur á Ítalíu). Hann reynir svo sitt besta til þess að hafa ofan af fyrir gömlu konunum og eldar meðal annars handa þeim dýrindismáltíðir (ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina um risastóran smjörsteiktan aspassinn sem hann ber fram snemma í myndinni). Þessi mynd er að einhverju leyti samanburður á gamla og nýja tímanum. Ítalir eru enn það gamaldags að það er ætlast til þess að börnin sjái um foreldra sína í ellinni, en það eru ekki allir sem nenna að standa í því. Þess vegna er Giovanni beðinn um að passa mæður annarra, vegna þess að hann hugsar svo vel um sína móður. Þessi mynd gæti líkast til ekki gerst á Íslandi, hér virðumst við ætlast til þess að gamla fólkið sjái um sig sjálft eða fari annars á elliheimili.

16. Hamingjusamasta stúlka í heimi
Ofurraunsæ mynd sem gerist nánast í rauntíma um það hvernig peningar geta eyðilagt sambönd. Myndin fjallar um Deliu sem vann bíl í keppni á vegum gosdrykkjaframleiðanda, og þarf nú að birtast í auglýsingu fyrir framleiðandann. Foreldrar hennar vilja selja bílinn en hún vill eiga hann. Þannig förum við fram og tilbaka milli upptöku auglýsingarinnar (sem gengur mjög illa) og rifrildis milli Deliu og foreldra hennar. Í auglýsingunni á Delia á að vera "hamingjusamasta stúlka í heimi", en á milli þess sem tekið er upp er samband hennar við foreldra sína að brotna í sundur.
Þetta er ekki léleg mynd, en mér fannst hún heldur ekki skemmtileg. Það er margt ágætlega gert í henni, og ef þú fílar ofurraunsæi, vandræðalegheit og niðurdrepandi aðstæður, þá er þetta myndin fyrir þig. Ég held hún hefði getað virkað mun betur ef hún hefði verið miklu styttri...

sunnudagur, 20. september 2009

RIFF '09: Dagur 3

Í dag fór ég á fimm sýningar: For the Love of Movies (og tengt málþing), Swimsuit Issue, Íslenskar stuttmyndir 2, Slovenian Girl og Miðnæturbíó. Ég mun fjalla nánar um þetta síðar en get þó sagt að stuttmyndirnar á sýningu nr.2 eru heilt yfir mun betri en þær á nr.1.

8. For the Love of Movies
Ég ætla ekki að skrifa mikið um þessa. Þetta er frekar þurr heimildamynd sem samanstendur nánast bara af talandi hausum og brotum úr myndum. Efnið, kvikmyndagagnrýni, býður kannski ekki upp á mikið meira. Annað sem fór í taugarnar á mér var að það var ef til vill lögð of mikil áhersla á kvikmyndagagnrýni sem nokkurs konar neytendaráðgjöf ("Hvaða mynd á ég að fara að sjá?"), sem mér finnst ekki vera nema lítill hluti af tilgangi hennar. Góð kvikmyndagagnrýni á ekki bara að benda þér á góðar myndir og sannfæra þig um að þær séu þess virði að horfa á, heldur líka kenna þér að horfa á myndir, að hugsa um myndir og að tala um myndir.
Engu að síður er þetta að mörgu leyti áhugaverð mynd, sem er gerð af og fjallar um fólk sem elskar bíómyndir.

9. Swimsuit Issue
Ósköp krúttleg mynd um hóp af miðaldra karlmönnum sem einu sinni voru góðir í bandí, sem byrja að æfa listsund (synchronized swimming) og stefna að því að keppa fyrir hönd Svíþjóðar á heimsmeistaramótinu.
Þessi mynd er vissulega skemmtileg, og á köflum er hún ansi fyndin. Hins vegar er nokkuð margt við hana sem fór í taugarnar á mér. Fyrir það fyrsta fannst mér sögufléttan ansi fyrirsjáanleg og klisjukennd. Það eina frumlega er grunnhugmyndin (karlar í listsundi), en framvindan er öll eftir góðu gömlu Hollywood-formúlunni. Þá er aðalpersónan, Fredrik, frekar ósympatískur. Fredrik er einhvers konar útbrunninn alpha-male íþróttamaður sem byrjar að gráta þegar rennur upp fyrir honum að hann er bara lúser. Meira og minna allt sem hann gerir í myndinni gerir hann til sjálfsupphafningar - hann vill verða sigurvegari aftur, og það skiptir ekki máli í hverju. Í mynd sem þessari verða áhorfendur að halda með aðalpersónunum, og það var ekki raunin með mig á þessari mynd. Það hlýtur að teljast frekar stór galli.
Ætli ég sé ekki að reyna að segja að þetta er skemmtileg mynd, en langtífrá fullkomin. Ef þessi mynd væri bandarísk, kæmist hún þá á einhverjar kvikmyndahátíðir? Þyrfti hún að sætta sig við kvikmyndahátíðir?

10. Íslenskar stuttmyndir 2
Mér fannst þessi stuttmyndapakki mun betri en númer 1. Ef þið komist bara á annan þeirra, veljið endilega þennan.
Fyrir utan "hljóðmyndirnar" voru fjórar myndir á dagskrá: "Íslensk alþýða", "Villingur", "Epik feil" og "Mamma veit hvað hún syngur".
Best þessara þótti mér "Íslensk alþýða", sem er alveg frábær 30 mínútna heimildarmynd um verkamannabústaðina við Hringbraut. Þetta hljómar kannski ekki ýkja spennandi, en stíllinn á myndinni er einstaklega skemmtilegur og viðtölin við íbúa hússins eru áhugaverð og oft bráðfyndin. Þetta er einfaldlega mjög vel gerð og stórskemmtileg mynd. Eitt þótti mér skrýtið, og það var að einn viðmælandinn varð eiginlega að athlægi. Ég hefði viljað spyrja leikstjórann hvort það var með vilja gert en þorði því ekki þegar ég fattaði að margir þeirra sem komu fram í myndinni voru í salnum...
"Villingur" er stutt og einföld og nokkuð skemmtileg, en þó líkast til síst þessara fjögurra mynda. Í henni flippar skrifstofumaður út og keyrir útí sveit og hleypur svo um nakinn. Það var margt skemmtilegt í myndinni, en ég veit ekki alveg hvort hún hafi almennilega þróast umfram grunnhugmyndina. Ef þetta átti að vera ádeila eða einhver frekari pæling þá kom það alls ekki fram í myndinni. Þar að auki minnti ein senan, þar sem nakti skrifstofukarlinn hleypur framhjá hópi af ferðafólki, mig á pólska verkamanninn sem fyrirfór sér á Esjunni í fyrrasumar. Síðan sagði leikstjórinn að sá atburður hefði verið kveikjan að sinni hugmynd. Ég verð að játa að mér finnst það pínu smekklaust...
"Epik feil" er skemmtileg lítil mynd um ofboðslega misheppnaðan gaur sem lendir í skondnu litlu ævintýri. Einföld, skemmtileg og vel gerð.
"Mamma veit hvað hún syngur" er bráðskemmtileg mynd um mömmuna frá helvíti. Helga Braga leikur mömmu sem reynir hvað hún getur til þess að hrekja í burtu allar stelpurnar sem sonur hennar kemur með heim. Þær eru, að hennar mati, allar ljótar og heimskar. Eftir að hafa séð heimildarmynd um þjóðflokk í Suður-Ameríku, dreymir hana um að eiga samkynhneigðan son, því slíkir synir fara aldrei frá mömmu sinni, heldur sjá um þær í ellinni. Myndin hefur að geyma einhverja skemmtilegustu "út úr skápnum"-senu sem ég man eftir að hafa séð, en hefði kannski mátt enda þar, því það er fátt áhugavert eða skemmtilegt sem kemur fram eftir þá senu.

11. Slóvenska stúlkan
Áður en ég byrja að fjalla um þessa mynd finnst mér réttast að segja eitt: Ég fíla ekki raunsæi. Í leiknum bíómyndum kýs ég næstum alltaf frekar stílfæringu, töfra og ævintýri en blákalt raunsæi, og það litar það hvernig ég upplifi beinharðar raunsæismyndir eins og þessa.
Slóvenska stúlkan er nefnilega ofurraunsæ (og verulega niðurdrepandi) mynd. Hún fjallar um unga konu, Söshu, sem nemur ensku í háskóla og selur sig til þess að fá aukatekjur. Í upphafi myndar virðist allt ganga vel. Hún virðist hafa stjórn á öllu, peningarnir gera henni kleift að kaupa sér flotta íbúð (þótt henni gangi reyndar illa að útskýra fyrir öðrum hvernig hún hafði efni á henni). Síðan byrja vandræðin að hlaðast upp og áður en við vitum af er stúlkan komin það djúpt í skítinn að það virðist engin leið upp. Hún er búin að eyðileggja líf sitt.
Fyrir utan það að vera niðurdrepandi og bjóða ekki upp á eina einustu vonarglætu þá fór í taugarnar á mér að við skyldum aldrei fá að vita hvað leiddi Söshu út í vændi til þess að byrja með. Vinkona hennar, Vesna, virðist vera í nokkurn veginn sömu sporum og hún, en leiddist ekki út í vændi. Það er eins og verið sé að gefa í skyn að Sasha hafi leiðst út í vændi fyrir smá aukapening, sem mér finnst gera hennar persónu ómerkilega.
Þetta er samt alls ekki vond mynd, og ef maður fílar ofurraunsæjar og niðurdrepandi myndir þá er þetta örugglega málið...

12. Miðnæturbíó 1
Maður býst svo sem ekki við neinum snilldarmyndum á miðnætursýningunum. Ætli væntingarnar á þessum sýningum séu ekki fyrst og fremst fyndnar og kannski pínu ógeðslegar B-myndir. Myndirnar í fyrsta pakkanum eru franska stuttmyndin "Short Cut" ("Coupe court) og bandaríska hryllingsmyndin Deadgirl, en aðeins sú fyrri uppfyllti miðnæturbíó-væntingar mínar.
"Short Cut" er fyndin, súrrealísk og stórskrýtin hryllingsmynd um dverg og dularfulla vini hans. Hún blandar saman film noir, hryllingsmyndum og ýmsu öðru úr kvikmyndasögunni (annar dularfulli vinur hans minnir óneitanlega á Fu Manchu, fræga persónu úr spennutryllum 4. og 5. áratugarins í Hollywood.
Deadgirl, hins vegar, er frekar léleg exploitation hryllingsmynd um tvo unglinga sem finna naktan, bundinn kven-uppvakning í kjallara í yfirgefnu geðsjúkrahúsi. Það sem fór einna mest í taugarnar á mér er sú afstaða myndarinnar að eiginlega allir unglingsdrengir myndu glaðir vilja eiga kynlífsþræl bundinn í kjallaranum hjá sér. Ég átta mig á því að hryllingsmyndir gerast oft í ýkt vondum heimi (þetta var eitt af því sem fór í taugarnar á mörgum okkar í RWWM), og ég átta mig líka á því að hryllingsmyndir eiga ekki bara að hræða heldur líka að uppfylla fantasíur markhópsins (unglingsdrengja) en mér finnst þessi þáttur myndarinnar bara smekklaus og siðlaus. Ég meina, það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá vini aðalpersónunnar þegar þeir finna nakta konu bundna við borð er að nauðga henni, og þetta er áður en þeir fatta að hún er uppvakningur (þeir fatta það bara vegna þess að vinurinn "drepur" hana á meðan hann nauðgar henni!).
Hvað myndir þú gera í hans sporum?

laugardagur, 19. september 2009

RIFF '09: Dagur 2

Í dag fór ég á þrjár sýningar: Born Without, Mamma er hjá hárgreiðslumanninum og Íslenskar stuttmyndir. Besta myndin var án nokkurs vafa Mamma..., sem var einfaldlega frábær.

5. Born Without
José Flores og börnin hans

Fyrstu mínúturnar af þessari mynd fara í raun í það að komast yfir "freak" effektinn. Hún fjallar um José Flores, sem fæddist alveg án handa og með vanskapaða fætur. Ég veit að maður á ekki að segja svona, en þegar hann gengur, sérstaklega ef honum liggur mikið á, þá minnir hann ótrúlega á mörgæs. Frá því að hann var ungur hefur hann unnið fyrir sér með því að spila tónlist úti á götu. Hann lítur alls ekki á það sem betl, en um það verður hver að dæma fyrir sig.
Í myndinni kynnumst við José, sem er skemmtilegur karl, duglegur og nokkuð klár. Við kynnumst einnig fjölskyldu hans, en hann á 7 börn. José er alinn upp í fátækt, og sjálfur er hann frekar fátækur, en hann fær nægan pening fyrir spilamennsku sína til þess framfleyta fjölskyldu sinni. José hefur líka leikið í bíómyndum, meðal annars hjá goðsögninni Alejandro Jodorowski, en í myndinni El Topo lék hann handalausan mann sem sparkar í Krists-líkneski (þegar ég skoða imdb síðuna fyrir þessa mynd þá sé ég að José Flores er ekki kreditaður fyrir hlutverk handalausa mannsins, og þá vakna upp spurningar hvort Born Without sé raunveruleg heimildamynd ... við skulum samt leyfa henni að njóta vafans.)
Fyrstu 3/4 myndarinnar kynnumst við José og hann vinnur sér samúð okkar alla. Í lokakafla myndarinnar koma síðan fram upplýsingar sem hneyksla mann algjörlega. Ekki ætla ég að gefa upp hvað það er, heldur láta nægja að benda á vandaða uppbyggingu myndarinnar. Ef þessar upplýsingar hefðu komið fram fyrr hefðu áhorfendur aldrei tekið José í sátt, og útkoman hefði verið mun verri mynd. Niðurstaðan hér er hins vegar góð mynd sem lýsir á raunsæjan og hlýjan hátt lífi José Flores.

6. Mamma er hjá hárgreiðslumanninum
Hiklaust besta mynd hátíðarinnar hingað til.
Myndin fjallar um hóp barna á 7. áratugnum og spannar sumarfríið þeirra, byrjar á síðasta skóladeginum og lýkur á fyrsta skóladeginum. Þó svo að öll börnin í hverfinu séu að einhverju leyti til umfjöllunar þá er er aðallega fylgst með þremur systkinum, Gauvin fjölskyldunni, en aðalpersóna myndarinnar er elsta systkinið, Élise Gauvin, 15 ára stúlka. Hin systkinin eru Coco, sem er svona 13-14 ára og eyðir öllu sumrinu í að smíða kassabíl með sláttuvélarmótor, og Benoit, sem er svona 6-8 ára gamall og virðist vera eitthvað þroskaheftur.
Ég ætla ekki að fara mikið í plottið í myndinni því það er ekki stór þáttur í því af hverju mér fannst hún svona góð. Eins og með svo margar myndir og sögur sem gerast í heimi barna og unglinga þá er fullorðna fólkið meira og minna gagnslaust. Eina fullorðna manneskjan sem eitthvað vit er í er utangarðsmaður, Herra Fluga, en hann er heyrnarlaus og virðist lifa á því að hnýta flugur.
Persónusköpunin í þessari mynd er mjög góð. Vissulega er fullorðna fólkið sjálfhverft og meingallað, en börnin eru frábærir karakterar, hvort sem það er litli ljóshærði strákurinn sem er búinn að bíta það í sig að pabbi hans sé austurrískur prins, eða strákurinn sem er hlaðinn áhyggjum og þarf að gæta þunglyndrar móður sinnar. Leikur barnanna er líka frábær, sérílagi stelpan sem lék Elise. Þetta er einfaldlega frábær mynd sem heldur manni í sögunni allan tímann. Ég var það niðursokkinn í söguna að ég get lítið talað um stíl, tökur eða þess háttar. Það eina sem ég get sagt er að myndin var mjög falleg. Þið megið ekki láta þessa framhjá ykkur fara.

7. Íslenskar stuttmyndir 1
Þessi stuttmyndapakki var ekkert sérstakur. Það voru 5 stuttmyndir, ein frekar slöpp ("Krummafótur"), þrjár allt í lagi myndir ("Njálsgata", "Ég elska þig" og "Sykurmoli") og loks ein frekar góð ("Herramenn").
"Njálsgata" var ágætlega gerð mynd um sambandsvandræði sem af einhverjum undarlegum orsökum var látin gerast árið 1996.
"Ég elska þig" fannst mér hallærislega artí. Ekkert sérstaklega varið í hana, en hún var sæmilega flott á köflum og nokkuð vönduð. Eitt móment fannst mér þó mjög "cheap", þegar ein lína er endurtekin í voice-over.
"Herramenn" var bráðskemmtileg. Hún er um þrjá unga menn sem koma saman og segja hvor öðrum sögur. Hún er að miklu leyti spunnin og stíllinn á henni er ansi skemmtilegur, en fyrst og fremst eru það samskipti mannanna og sögurnar sem þeir segja sem halda myndinni uppi. Ég get alveg mælt með þessari.
Inn á milli stuttmynda voru svokallaðar "hljóðmyndir" (asnalegt nafn) sem voru í eins og heimildamyndir nema bara með hljóði (s.s. engin mynd og þess vegna ekki "hljóðmyndir"). Þetta voru fjórar "myndir", en það var í raun bara sú síðasta sem var eitthvað skemmtileg. En þetta er samt skemmtilegt form.

fimmtudagur, 17. september 2009

RIFF '09: Dagur 1

Ég ákvað að hefja hátíðina af krafti og fór á fjórar myndir í dag: Sweethearts of the Prison Rodeo, Dirty Mind, Nord og opnunarmyndina Ég drap mömmu mína. Nú liggur leiðin á opnunarhófið.

1. Sweethearts of the Prison Rodeo
Sweethearts of the Prison Rodeo er heimildamynd um fanga (bæði karla og konur) sem taka þátt í fangelsis-kúrekasýningu í Oklahoma. Þessi sýning hefur verið haldin árlega síðan 1940, og er ein tveggja sinnar tegundar í heiminum.
Við kynnumst nokkrum kvenföngunum og einum karlfanga nokkuð vel, og sögur þeirra eru oftar en ekki ansi átakanlegar:
  • Karlfanginn, Danny, hefur setið inni í 25 ár fyrir morð, en eygir loks smá vonarglætu þegar hann fer fyrir reynslulausnarnefnd (parole board). Þetta er fjórtánda árið sem hann tekur þátt, en þessi kúrekasýning er það eina í lífi hans sem færir hugann frá fangavistinni. Hann kennir hinum föngunum hvernig skal sitja nautið, og er auk þess mikill heimspekingur með margar pælingar sem gera hann að skemmtilegu viðfangsefni. Það skrýtna er að hann ræðir eiginlega aldrei glæpinn sem hann situr inni fyrir, en það virðist vera eini glæpurinn sem hann hefur framið á ævinni.
  • Einn kvenfanginn, Foxy, flúði að heiman þegar hún var 12 ára. Þegar myndin er tekin er hún 23 ára og er búinn að afplána tvö ár af 20 ára dómi, og þá er hún byrjuð að reyna að hafa uppi á fjölskyldu sinni.
  • Annar kvenfangi, Jamie, er búin að vera 13 ár í fangelsi fyrir morð. 17 ára gömul var hún dæmd í 30 ára fangelsi. Á einhvern undarlegan hátt tókst henni að verða ólétt innan veggja fangelsisins, þ.a. hún á son sem hún hefur í raun aldrei verið með.
  • Langflestir hinna kvenfanganna voru dópistar sem voru byrjaðir að búa til meth heima hjá sér.
Rodeo-senurnar í þessari mynd eru frekar brútal. Ég fékk eiginlega þá tilfinningu að þeir sem skipulögðu þessa sýningu hefðu hugsað með sér að þátttakendurnir væru hvort eð er fangar sem hefðu engu að tapa. Einn dagskrárliðurinn, "Bull Poker", felst til dæmis í því að keppendur fá sér sæti í kringum borð og svo ræðst naut á þá. Sigurvegarinn er sá sem situr sem fastast. Annar dagskrárliður er "Money the Hard Way", þar sem keppendur reyna að ná snæri sem hefur verið bundið um hornin á nautinu. Það eru u.þ.b. 40 þátttakendur í þeim lið, og ansi margir fá flugferð í boði nautsins, sumum er jafnvel hent 2-3 metra í loft upp. Að sögn eins viðmælandans sem hefur mætt á keppnina í tugi ára þá hefur fólk dáið í þessari keppni, m.a. verið rekið á hol, en þetta árið (2007) virðist enginn meiðast alvarlega fyrir utan einn sem mölbrýtur á sér kjálkann.
Þessi mynd er ágæt skemmtun og gefur góða innsýn í hugarheim fangans. Ég mæli hiklaust með henni.

2. Dirty Mind
Ég hef svo sem ekki miklu við færslu Guðmundar að bæta. Við vorum sammála um að þetta væri ágæt mynd, en ekkert frábær, og hún skildi svo sem ekki mikið eftir sig. Fín afþreying. Margt ágætlega gert og nokkuð vel unnin, en hún er soldið "lókal". Ég gæti trúað því að útlendingur sem horfir á góða íslenska mynd (t.d. Reykjavík-Rotterdam) gæti upplifað hana á svipaðan hátt.

3. Nord
Hiklaust besta mynd dagsins. Hún fjallar um Jomar (t.h. á myndinni hér fyrir ofan) sem hefur þjáðst af þunglyndi og kvíðaköstum undanfarin 4-5 ár. Þegar þunglyndið fór að hrjá hann fór kærastan frá honum og tók saman við besta vin hans. Í upphafi myndar birtist vinurinn og segir Jomar að hann eigi 4 ára gamlan son. Þá ákveður Jomar að halda norður til þess að hitta son sinn, og á leiðinni hittir hann fjölmarga litríka karaktera, eins og t.d. hómófóbíska unglinginn sem er með honum á myndinni hér fyrir ofan.
Á meðan ég horfði á myndina hugsaði ég um hvernig hún sýnir tvær stórar ástir Norðmanna, kántrí tónlist og landa. Eins og allir vita sem hafa sörfað framhjá norsku stöðvunum á fjölvarpinu eftir kl. 11 á kvöldin, þá virðast Norðmenn haldnir óeðlilegri ást á kántrí tónlist, og sándtrakkið í þessari mynd er þar engin undantekning, enda mjög svo kántrí-skotið. Þess utan ku Norðmenn neyta óeðlilega mikils sykurs miðað við höfðatölu, og er það rakið til þess hversu margir brugga landa. Í myndinni er uppáhalds drykkur aðalpersónunnar einmitt landi, sem hann teygar í gríð og erg um leið og hann gleypir kvíðastillandi töflur.
Þessi mynd er bæði fyndin og hlý. Jomar er frábær persóna og maður finnur virkilega til með honum. Það er örugglega ekki auðvelt að skapa virkilega sympatískan þunglyndissjúkling, en það tekst óneitanlega í þessari mynd. Þið megið ekki láta þessa framhjá ykkur fara.

4. Ég drap móður mína
Ég get ekki annað en velt fyrir mér af hverju þessi mynd varð fyrir valinu sem opnunarmynd hátíðarinnar. Þótt þetta sé alls ekki vond mynd, þá sé ég ekkert í henni sem virkilega réttlætir þetta val. Leikstjórinn var ekki viðstaddur, og þetta er langt í frá besta mynd hátíðarinnar (gæti jafnvel verið versta mynd dagsins).
Sérstaða þessarar myndar er kannski fyrst og fremst ungur aldur leikstjórans (sem lék jafnframt aðalhlutverkið og skrifaði handritið), en hann er fæddur 1989. Ég er ekki frá því að þessi ungi aldur hafi skinið í gegn, ekki í reynsluleysi heldur í því sem ég upplifði sem ógagnrýna nálgun á hegðun aðalpersónunnar. Nú getur vel verið að ég hefði túlkað myndina öðruvísi ef ég hefði ekki vitað að hún var gerð af ungling. Kannski hefði ég séð íroníu gagnvart aðalpersónunni sem ég sá ekki núna. En mín upplifun var sú að aðalpersónan, sjálfhverfi og tilgerðarlegi unglingurinn Hubert, hafði samúð leikstjórans en náði ekki að vinna mína samúð.
Margt í þessari mynd er mjög vel gert. Samtölin (eða öllu heldur rifrildin) milli Hubert og móður hans eru oft mjög góð, og mörg mjög fyndin móment þeirra á milli. Hins vegar fannst mér myndin oft á köflum hræðilega tilgerðarleg, og "heimavídjó" Huberts þar sem hann talar við myndavélina um tilfinningar sínar til móður sinnar eru asnaleg, ótrúverðug og óþörf.
Einn lokapunktur um þessa mynd: Anne Dorval, sem leikur móður Huberts, minnti mig ótrúlega á Shirley MacLaine, sem er ein af mínum uppáhaldsleikkonum. Kannski er það ein ástæðan fyrir því af hverju ég hafði oft á tíðum meiri samúð með henni en Hubert. Smá samanburður, fyrst móðir Huberts (ásamt Hubert) og svo Shirley MacLaine:

föstudagur, 4. september 2009

Up

Ég horfði á þessa nokkrum tímum eftir að við horfðum á Citizen Kane, og eitt af því sem ég tók fyrst eftir var að þær byrjuðu nánast eins: báðar byrja á gamaldags fréttamynd.

Þessi mynd er náttúrulega bara tær snilld. Mér finnst svolítið skrýtið hvað það er búið að vera lítið "buzz" í kringum þessa mynd, miðað við hversu góð hún er, og svo er þetta auðvitað Pixar og Pixar-menn gera einfaldlega ekki lélegar myndir. Það er eiginlega ótrúlegt að sjá hversu metnaðarfullir þeir eru alltaf. Myndirnar þeirra eru ekki bara skemmtilegar, heldur eru þær gríðarlega flottar og Pixar-menn reyna að ryðja nýjar brautir í hverri einustu mynd. Í greininni "Rat Rapture" fjalla David Bordwell og Kristin Thompson um Ratatouille (næstsíðustu mynd Pixar-manna á undan Up), og líka um Pixar almennt. Eitt af því sem Kristin Thompson finnst skemmtilegast við að sjá nýja Pixar mynd er að reyna að átta sig á hvaða tæknilegu markmið Pixar-menn hafi sett sér fyrir myndina, hvort sem það er að ná raunsæjum loðnum feldi eins og í Monsters Inc., flottum endurspeglunum eins og í Cars (þar sem spegilslétt og gljáandi yfirborð aðalpersónanna var helsta áskorunin), eða í Ratatouille þar sem þeir ná áður óþekktum hæðum í raunsæi umhverfisins (tökum sem dæmi eldhúsið, þar sem hver einasta flís var stillt af svo þær væru ekki allar eins). Pixar sameinar einfaldlega ótrúleg tæknileg afrek og virkilega góða afþreyingu. Geri aðrir betur.

Ég er ekki viss hvert tæknilega markmiðið er í Up. Það sem mér dettur helst í hug er þrívíddin. Pixar hefur gefið það út að allar myndir þess héðan í frá verði í 3-D (og þeir eru meira að segja að "endurgera" Toy Story 1 og 2 í 3-D). Persónulega fannst mér þrívíddin í Up ekki bæta miklu við, og eiginlega hefði ég frekar viljað sjá hana í tvívídd einfaldlega vegna þess að mér finnst svolítið erfitt að horfa á þrívídd (augun þreytast frekar). Á hinn bóginn var ágætt að sjá þrívíddarmynd sem er ekki bara gimmick, þar sem eru engar senur sem ganga BARA út á hluti sem þjóta í átt að áhorfandanum.

Eins flott og Up er, þá er það sagan sem heillar mann. Montage-senan þar sem líf gamla karlsins er tekið saman er alveg frábær. Og svo er myndin bara uppfull af frábærum persónum (sérílagi skátinn Russell og hundurinn Dug) og fyndnum uppákomum. Í raun er allt tengt hundunum alveg sérlega skemmtilegt (t.d. "the cone of shame"). Sagan heldur manni alveg frá byrjun og maður tengist persónum tilfinningaböndum, svo að manni hlýnar um hjartarætur þegar vel gengur og maður verður jafnvel klökkur á ákveðnum augnablikum ("Thanks for the adventure..." - þeir sem hafa séð myndina vita hvað ég meina). Þetta er mynd sem allir verða að sjá!

Að lokum:
David Bordwell skrifaði aðra skemmtilega grein um Pixar, "A Glimpse into the Pixar Kitchen", sem fjallar svolítið um það hvernig þessar myndir eru unnar, bæði frá tæknilegu og listrænu sjónarmiði. Hér er áhugaverður kafli úr þeirri grein:
What makes Pixar films so fine? Bill supplied one answer: It’s a director-driven studio. As opposed to filmmaking-by-committee, with producers hiring a director to turn a property into a picture, the strategy is to let a director generate an original story and carry it through to fruition (aided by all-around geniuses like the late Joe Ranft). Within the Pixar look, John Lasseter’s Toy Story 2 and Cars are subtly different from Brad Bird’s The Incredibles and Ratatouille or Andrew Stanton’s Finding Nemo and upcoming Wall.E.
Í greininni "Reflections on Cars" er Kristin Thompson í sömu pælingum og í "Rat Rapture", en fer aðeins dýpra í efnið.

Á youtube má finna bráðskemmtileg "upisode" sem innihalda senur sem ekki eru í myndinni (1, 2, 3).

Að lokum, smá glaðningur:

laugardagur, 29. ágúst 2009

Inglourious Basterds

Eftir heldur magurt bíósumar virðast myndirnar loksins vera farnar að hrannast upp - nýjasta mynd Tarantinos og snilldar-teiknimyndin Up (að því er ég hef heyrt) báðar frumsýndar sömu helgi, síðan kemur Reykjavík Whale Watching Massacre og svo loks RIFF rétt handan við hornið.
Ef mig misminnir ekki þá fór ég ekki á nema 2 myndir í bíó í sumar (Hangover og Brüno), og fannst ég samt ekki missa af neinu, nema kannski Hurt Locker. Ég ætla mér þó að bæta það upp á næstu dögum.
Ég fór á Inglourious Basterds með talsverðar væntingar. Tarantino er svo yndislega mikið bíónörd, og myndirnar hans eru alltaf uppfullar af svona "tongue-in-cheek" tilvísunum í alls konar myndir. Í þessari mynd kom ég t.d. auga á mjög augljósar tilvísanir í þrjár mjög frægar myndir: The Searchers, The Good, the Bad and the Ugly og Taxi Driver.
The Searchers: Frægasta skotið í The Searchers sýnir John Wayne standa í dyragætt og snúa sér svo við og fjarlægjast. Á mjög áhrifamiklu augnabliki í fyrsta kafla Inglourious Basterds er þetta skot endurskapað að nokkru leyti. Þið takið eftir því þegar þið sjáið það.
Taxi Driver: Undir lok Taxi Driver er mjög flott skot sem sýnir stöðu mála eftir byssubardaga. Það er tekið ofan frá, og myndavélin líður hægt yfir "vígvöllinn", en á sama tíma er skotið tiltölulega dökkt, þannig að þótt þú fáir ákveðna hugmynd um hvað hefur gerst, sérðu það aldrei skýrt. Í lokakafla Inglourious Basterds er einmitt svolítið svipað skot (síðasta skotið í sýningarklefanum). Í fyrstu mundi ég ekki eftir skotinu úr Taxi Driver, en þetta skot var samt það frábrugðið stíl myndarinnar að mig grunaði strax að um einhvers konar tilvísun væri að ræða (sem reyndist rétt, því þegar ég kom heim og var að finna til skot handa ykkur úr hinni ágætu heimildamynd Visions of Light er einmitt þetta skot úr Taxi Driver sýnt).
The Good, the Bad and the Ugly: Ég held ég þurfi ekkert að útskýra þetta frekar fyrir þá sem hafa séð báðar myndir. Quentin Tarantino hefur margsagt að sér finnist The Good, the Bad and the Ugly besta mynd sem nokkurn tíman hefur verið gerð, og það sést í Inglourious Basterds. Í fyrsta kaflanum vísar tónlistin mjög sterkt til Spaghettí-vestranna (ég er ekki alveg viss, en mér fannst hann nota stef úr annað hvort The Good, The Bad and the Ugly eða For a Few Dollars More nánast óbreytt, með smá píanóstefi yfir (tilbrigði við Für Elise)). Þar að auki notar hann mjög mikið það sem hann sjálfur kallar "Sergio Leone skotið", þ.e. extreme close-up þar sem athyglinni er sérstaklega beint að augum persónunnar til þess að skapa spennu (besta dæmið um svona skot er bardagaatriðið í lok The Good, the Bad and the Ugly). Ég fann ekki screenshot af þessu skoti á Google en plakatið hér fyrir neðan er ágæt birtingarmynd fyrir þetta:
Og þetta eru bara þær tilvísanir sem ég áttaði mig á nokkurn veginn samstundis. Það voru fullt af öðrum skotum og senum sem mig grunar að hafi verið nánast beinar tilvísanir eitthvert annað, en bara í myndir sem ég hef ekki séð. Ef ég væri t.d. betur að mér í B-myndum (sérílagi gömlum B-myndum sem gerast í seinni heimsstyrjöldinni) þá hefði ég kannski komið auga á fleiri skemmtilegar vísanir. Þó má alls ekki skilja það sem svo að Tarantino taki þessi skot eða þessar senur beint upp, heldur er hann að leika sér með hefðina, vísanirnar eru stríðnislegar og kaldhæðnar.
Samt er Inglourious Basterds alls ekki bara samansafn af tilvísunum fyrir bíónörda, heldur er þetta bráðskemmtileg, spennandi og á köflum drepfyndin mynd (fyrir þá sem hafa séð hana: "Arrivederci" (berist fram með sterkum Suðurríkjahreim)). Plottið er stórsniðugt og sumar senurnar bera vott um gríðarlega hugmyndaauðgi Tarantinos. Til dæmis er ekki hægt að saka Tarantino um sögufölsun, því hann gefur einfaldlega sagnfræðinni langt nef og endurskrifar hana að flestu leyti.
Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast við þessa mynd er hvað hún tekur sig (og heimsstyrjöldina) lítið alvarlega. Í raun á myndin meira skylt við teiknimyndir og ævintýramyndir en stríðsmyndir. Ofbeldið í myndinni er að hluta til meira teiknimyndaofbeldi en alvöru (alveg eins og í Kill Bill), og sumar persónurnar eru yndislega ýktar eins og Bjarnarjúðinn Donny Donowitz (sem er leikinn svo ýkt af Eli Roth að ef um eitthvað annað hlutverk væri að ræða hefði ráðning hans verið talin hneyksli), en hans helsta kennimerki er hafnaboltakylfan... Einnig er persóna Hitlers gott dæmi um þetta - hann er hálf-kómískur karakter, ofur-veiklyndur og skapstór, minnir kannski mest á einræðisherra Chaplins eða Hitler eins og hann birtist í gamanmyndinni The Devil with Hitler frá 1942.
Raunsæi er neðarlega í forgangsröðinni hjá Tarantino í þessari mynd, og mér líkar það. Ég vil miklu frekar sjá bíómynd sem tekur sig eða umfjöllunarefnið EKKI alvarlega og leikur sér með efnið, en mynd sem þykist vera ofur-raunsæ en inniheldur síðan bull-söguþráð eða margfellur um sjálfa sig í þessu "raunsæi" sínu (t.d. Saving Private Ryan og Gladiator)
Í stuttu máli sagt er Inglourious Basterds pottþétt bíó og einstök skemmtun. Ég mæli eindregið með þessari.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Maraþonmyndin: "Making movies in your head"

Fyrsta verklega æfingin ykkar í haust er maraþonmyndin. Nú vill svo skemmtilega til að einn uppáhalds kvikmyndabloggarinn minn var einmitt að birta stutta færslu um kvikmyndagerð í þeim anda. Í færslunni "Making movies in your head" skrifar Jim Emerson um reynslu sína af því að gera stuttmyndir á 8mm myndavél þegar hann var lítill.
Eins og hann lýsir því þá sá hann myndina fyrir sér, eitt skot í einu, og reyndi svo að taka hana þannig - klippingin fór fram í höfðinu á honum (og myndavélinni) en ekki á klippiborðinu. Þetta er einmitt það sem þið ættuð að hafa að leiðarljósi við gerð maraþonmyndarinnar, að sjá fyrir ykkur myndina, skot fyrir skot, að minnsta kosti 2-3 skot fram í tímann, og reyna svo að framkvæma í takt við það. Þar að auki hafið þið eitt framyfir hinn barnunga Jim Emerson: ef skotið mistekst getið þið tekið það aftur. Þegar tekið er upp á filmu (eins og í 8mm vélinni) þá er ekki hægt að taka yfir neinn kafla, þannig að ef maður vill ekki klippa myndina eftir á þá hefur maður bara einn séns...

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Umsagnir um lokaverkefni

Engilbert Svarfdal
Anna, Birta, Íris, Kristján, Tryggvi.
Skemmtilegt mockumentary.
Ágætlega gerð.
Tónlistin vel útfærð.
Notkun ljósmynda mjög fín.
Viðtölin mörg hver mjög fín, og skemmtilega klippt milli viðtala.
Margar senur oflýstar. Sérstaklega var byrjunin alveg "sprungin".
Tímasetningin (comic timing) var almennt nokkuð góð.
Var á mörkunum að ná upp í 9,5, en klúðrið á frumsýningardag útilokar það eiginlega.
9,0

Brot og brestir
Árni, Gísli, Ragnar og Steinar.
Margt ágætt í þessari.
Mér finnst hún samt meiri "æfing" en heildstæð mynd.
Tónlistin var soldið "overkill", en átti vafalítið að vera það (s.s. íronísk notkun tónlistar).
Klippingin var fín og útfærslan á þessu ýkta melódrama var nokkuð skemmtileg.
Flashbackið og symbólismi skálarinnar voru ágætlega útfærð.
8,0

Op. no. 1
Andri, Björn Ívar, Haraldur, Helga, Héðinn.
Ég man ekki hvað þessi hét...
Eins og með "Brot og bresti" þá finnst mér þessi vera meira í átt að æfingu en heildstæðri mynd.
Það er margt skemmtilegt í myndinni - sumt er hálfgert "homage" til David Lynch og Idi i smotri, rússnesku stríðsmyndarinnar sem við horfðum á.
Sumar senurnar voru ROSALEGA oflýstar. Ég vona að það hafi verið stílræn ákvörðun, en þetta var samt soldið klúðurslegt.
Þessi hópur vann sér heldur ekki inn vinsældir með því að fara langt fram yfir töku- og klippiáætlun.
7,5
Umsókn #68
Anton, Magnús, Pétur og Tómas.
Margt ágætt við þessa. Hún er fyndin, nokkuð skemmtileg og hefur nokkur góð móment.
Mér finnst þetta form ekki beint hentugt fyrir svona lokaverkefni, ég hefði viljað heildstæðari sögu.
Skilað allt of seint.
8,0

Kleifarvatn
Gunnar, Ísak, Jóhann og Jóhanna.
Flottar tæknibrellur.
Ágæt hugmynd og margt vel gert.
Mér fannst aðeins vanta upp á útfærsluna. Ég hefði viljað sjá unnið meira með þessa tilvistarkreppu að vera ekki til. Mér fannst eiginlega vanta einhverja eftirminnilega senu um það (símtalið við 118 komst einna næst).
Mér finnst soldið ofnotað "dissolve through black" í myndinni.
Annars var ég ansi ánægður með hana.
Skilað seint samt...
9,0