föstudagur, 16. október 2009

Maraþonmyndir

Jæja, mér gafst loks tóm til þess að kíkja á maraþonmyndirnar aftur. Mér finnst alltaf svolítið erfitt að gefa fyrir þetta verkefni, þar sem kröfurnar eru frekar óljósar og alls ekki strangar. Í fyrstu datt mér í hug að raða þessu einfaldlega eftir uppáhaldi og gefa bestu myndinni 10, næstbestu 9,5 og svo koll af kolli, en þá hefði sísta myndin fengið 6,5 sem hefði verið allt of lágt.
Allar myndirnar áttu sína spretti, en þær tvær bestu voru "Merkur" eftir hóp 1, og svo "Án titils" eftir hóp 5 (mennirnir sem finna líkið). En jafnvel þótt þessar hafi verið mjög góðar, þá fannst mér þær ekki vera alveg upp á 10.

Umsagnir og einkunnir:

Hópur 1
Miriam, Tómas, Hlynur og Nanna
Merkur

Þessi var mjög skemmtileg og margt vel gert. Atriðið þar sem keyrt er yfir fótinn á Hlyni er mjög flott. Atriðið þar sem Hlynur kemur að pabba sínum með kærustunni sinni er snilld, og Miriam sýnir þar stórleik. Og þetta hæga zoom-out í lokin þótti mér vel til fundið.
9,5

Hópur 2
Sverrir, Hjördís, Tryggvi og Árni
Dagur í lífi Raven

Veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa. Skemmtileg móment, en í heildina hvorki mikil saga né mikill metnaður.
7,5

Hópur 3
Halldór, Edda, Ásgeir og Eggert
Án titils (hópur án hugmynda)

Margt skemmtilegt í þessari. Ágæt hugmynd í grunninn og skemmtilega útfærð. Vantar helst aðeins upp á tæknileg atriði, sérstaklega eru útisenurnar allt of bjartar og bláar (hefði þurft að stilla white balance og nota ND-filter í útisenunum).
8,5

Hópur 4
Ólafur Hrafn, Margrét, Ari og Saga
Maraþonið

Átti sína spretti. Margt fyndið, en sumt fannst mér ekki alveg takast. Fyrri hlutinn fannst mér að mestu leyti góður (fyrir utan eina mjög oflýsta senu þegar Ari hleypur upp tröppurnar...) Seinni hlutinn ("Blóð ... sviti ... o.s.frv.) var í lengra lagi. Hljóðið sem sett var inn eftir á var oft of hátt (ansi nálægt því að springa) – það á ekki að vera erfitt að passa upp á það.
8,5

Hópur 5
Darri, Hrafn, Linda, Guðmundur og Reynir
Án titils (menn í myrkri)

Þessi nær að skapa ótrúlega flotta stemningu. Tónlistin og myndin (eða það sem maður sér af henni) mynda glæsilegt samspil, og endirinn er skemmtilega spooky. Þetta hefði hiklaust verið besta myndin ef hún hefði ekki verið alveg svona dökk. En auðvitað þurfti hún að vera soldið dökk, annars hefði hún aldrei náð þessari stemningu og aldrei orðið svona spooky, þ.a. þetta er línudans.
9,5

Hópur 6
Arnór, Pálmar, Brynjólfur, Anna og Þór
Án titils (blikkandi ljós og skokkari)

Margt mjög flott í þessari. Twin Peaks elementin eru skemmtileg, og eltingaleikurinn í gegnum skóginn er að mörgu leyti mjög vel gerður. Eitt móment er sérlega flott: þegar Pálmar lítur við og um leið er ljósopið opnað (allt verður bjart) og svo koma einhver taktskipti í tónlistina á sama tíma. Miðað við hversu óþægilegt er að horfa á blikkandi ljósið, þá fannst mér ekkert í sögunni beint réttlæta það.
9,0

Hópur 7
Svanhvít, Elín, Margrét, Þórhallur, Ingibjörg og Baldvin
Harbour Dromes of Pincanta Avenue, Part II: Strange Texture

Virkilega sniðug hugmynd. Það hefði kannski mátt vinna betur með hana, en útkoman er engu að síður skemmtileg mynd.
8,0

3 ummæli:

reynirsnorra sagði...

Myrkrið var að leika okkur grátt. Það myrkraði með hverri mínutunni og við vorum eiginlega bara heppin, því 10 mínútum eftir að við tókum upp var allt orðið svart.

En er ekkert hægt að lýsa þetta aðeins í tölvu, amk fyrsta helminginn ?

Siggi Palli sagði...

Jújú, það er alveg hægt að lýsa þetta aðeins, en það verður aldrei eins. Það verður soldið "grainy".

Unknown sagði...

Himinn höndum tekinn heitir okkar mynd. Bara svona til að setja á DVD diskinn og eitthvað...