laugardagur, 26. september 2009

RIFF '09: Dagur 9

Í dag fór ég á Daytime Drinking og hina bráðskemmtilegu Død Snø.

29. Daytime Drinking
Ágæt mynd. Sagan var góð og leikurinn ágætur, og megnið af myndinni hélt hún manni alveg. Hins vegar var myndin lítið fyrir augað, raunar mætti segja að útlit myndarinnar hafi verið allt vægast sagt ömurlegt. Myndatakan var oft á tíðum æfing í því að finna ljótasta og leiðinlegasta sjónarhornið í hverri senu, og senurnar virtust yfirleitt ekkert hafa verið lýstar, eða þá lýstar svona rosalega illa. Ekki bætti það heldur úr skák að myndin var sýnd af Digibetu. Allt í allt góð mynd sem leið fyrir tæknilega og fagurfræðilega vankanta. Venjulega myndi ég ekki láta það trufla mig þótt myndin sé ekki ægifögur ef sagan er góð, en í þessu tilviki er myndin bara allt of ljót - það eyðilagði hana pínu fyrir mér.
Í stuttu máli sagt, þá fjallar myndin um ungan mann sem er nýhættur með kærustunni. Til þess að kæta hann ákveða vinirnir (á miðju fylliríi) að fara með honum út á land daginn eftir, en þegar á hólminn er komið er hann sá eini sem mætir. Hann ákveður engu að síður að fara í ferðina, og lendir í alls konar litlum ævintýrum.
...
Ég var að skoða IMDb síðu myndarinnar aðeins betur og áttaði mig á því að þessi mynd er að því er virðist hugarfóstur eins manns. Young-Seok Noh skrifar, leikstýrir, framleiðir, er myndatökumaður, sér um hljóðið, klippir og sér um tónlistina. Með það í huga verð ég að játa að þessi mynd er ótrúlegt afrek. Að honum skuli takast að gera bíómynd í fullri lengd, nánast upp á eigin spýtur, er með ólíkindum, og maður verður að fyrirgefa honum að lúkkið á myndinni hafi ekki verið fullkomið.

30. Død Snø
Einstaklega skemmtileg og vel heppnuð mynd. Og ótrúlega flott miðað við norræna mynd, og sérstaklega miðað við splattermynd. Maður fær aldrei á tilfinninguna að eitthvað hafi verið sparað við gerð myndarinnar. Lúkkið á henni er mjög flott.
Margir nemendur í Kvikmyndagerðinni hafa talað um að erfitt sé að komast hjá því að bera þessa saman við RWWM, og ég er alveg sammála. Það er ekki spurning um að þessi kemur betur út úr samanburðinum. Þessi mynd er fyndin, spennandi og nokkuð vel leikin. Samtölin þegar ekki er rosa hasar eru bara nokkuð fyndin og eðlileg (öfugt við RWWM). Auk þess eru allar senur og öll skot vönduð (sem mér fannst ekki vera raunin með RWWM, þar sem sum skot voru bara hroðvirknisleg og hálfljót).
Ef maður pælir í því þá fara hlátur og hryllingur mjög vel saman. Ef þér tekst að búa til raunverulega spennu eða hræðslu, þá vill áhorfandinn geta losað um þá spennu með því að hlæja. Þannig að ef myndin er virkilega "scary" þá er um leið auðveldara að fá áhorfendur til þess að hlæja. Og ef myndin er ekkert "scary", þá eru góðar líkur á því að hún sé um leið ekkert fyndin. Ég held a.m.k. að besti hláturinn sé sá hlátur sem losar um spennu, hvort sem það er hræðsla eins og í þessari mynd, eða bjánahrollur eins og tíðkast oft í gamanmyndum.

1 ummæli:

Ólafur Hrafn sagði...

Fín færsla 7 stig...