mánudagur, 21. september 2009

RIFF '09: Dagur 4

Í dag fór ég á fjórar myndir: The Girl, Another Planet, Mid August Lunch og The Happiest Girl in the World. Meira um það seinna.

13. The Girl (Flickan)
Enn ein myndin um börn/barn sem þurfa að bjarga sér sjálf vegna áhugaleysi og ábyrgðarleysi fullorðna fólksins. Foreldrar stúlkunnar ætla til Afríku að láta gott af sér leiða, en nokkrum dögum fyrir brottför fá þau þær fréttir að hún sé of ung til þess að koma með. Í stað þess að hætta við allt saman, skilja þau dóttur sína eftir hjá óábyrgri frænku sinni. Frænkan er ótrúlega sjálfhverf og drekkur stanslaust alla daga. Eftir að hún heldur villt partí fær stúlkan nóg og nær með klækjum að fá hana til þess að skella sér í skemmtisiglingu. Hún stendur sig ágætlega ein um stund, en síðan fer allt að ganga á afturfótunum, og um stund lítur út fyrir að allt fari á versta veg. Þetta leiðir m.a. til einnar skemmtilegustu birtingarmyndar deus ex machina sem ég hef séð í langan tíma.
The Girl er góð mynd og vel leikin. Hún er oft ansi fyndin, en um leið oft mjög átakanleg. Ég get alveg mælt með þessari.

14. Another Planet
Another Planet er heimildamynd um bága stöðu barna víðs vegar um heiminn. Fylgst er með fátækum börnum í Mexíkó, Ekvador, Kongó og Kambódíu. Formið er að mestu leyti þannig að við fylgjumst með börnunum við dagleg störf (sem eru iðulega frekar niðurdrepandi) og á hljóðrásinni segja þau sögur af sér sem eru oft hrikalegar.
Þetta hefði án nokkurs vafa getað verið mjög áhrifamikil mynd, en mér finnst stíll og uppbygging myndarinnar grafa algjörlega undan mögulegum áhrifum hennar. Í fyrsta lagi þá eru þetta of mörg börn sem fylgst er með, þ.a. við komumst aldrei nógu nálægt neinum. Í öðru lagi fer myndavélin aldrei af þrífætinum, heldur er myndin byggð upp á kyrrum, oft löngum skotum, of teknum með miklu zoomi, sem dregur mjög úr innlifun áhorfandans því við erum alltaf í ákveðinni fjarlægð frá viðfangsefninu (en í staðin eru skotin oft mjög flott, sem mér finnst bara ekki skipta ýkja miklu máli í heimildamynd um þetta efni). Í þriðja lagi er allt of mikið af artí innskotum sem virðast ekki hafa neinn skýran tilgang annan en að vera flott. Ég spurði leikstjórann um þessi innskot og hann bablaði vel og lengi um hliðsetningu þess fallega í heiminum og ljóta lífsins sem börnin lifa, auk þess sem hann hamraði mjög á því sem hann kallaði "a cinematic aesthetic", þ.e.a.s. þetta er heimildamynd ætluð fyrir bíó (ekki sjónvarp) og þess vegna er hún eins og hún er. Það er alveg góð og gild pæling, en mér finnst það samt ekki góð ákvörðun, og ég er samt á því að þetta dregur tennurnar úr heimildamyndinni.

15. Mid August Lunch
Ég ætla ekki að skrifa mikið um þessa. Þetta er einfaldlega skemmtileg, lítil og sæt ítölsk mynd um Giovanni, miðaldra mann í fjárhagskröggum, sem hugsar mjög vel um háaldraða móður sína. Röð atburða leiðir til þess að hann situr uppi með þrjár gamlar konur til viðbótar á 15. ágúst (sem virðist vera frídagur á Ítalíu). Hann reynir svo sitt besta til þess að hafa ofan af fyrir gömlu konunum og eldar meðal annars handa þeim dýrindismáltíðir (ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina um risastóran smjörsteiktan aspassinn sem hann ber fram snemma í myndinni). Þessi mynd er að einhverju leyti samanburður á gamla og nýja tímanum. Ítalir eru enn það gamaldags að það er ætlast til þess að börnin sjái um foreldra sína í ellinni, en það eru ekki allir sem nenna að standa í því. Þess vegna er Giovanni beðinn um að passa mæður annarra, vegna þess að hann hugsar svo vel um sína móður. Þessi mynd gæti líkast til ekki gerst á Íslandi, hér virðumst við ætlast til þess að gamla fólkið sjái um sig sjálft eða fari annars á elliheimili.

16. Hamingjusamasta stúlka í heimi
Ofurraunsæ mynd sem gerist nánast í rauntíma um það hvernig peningar geta eyðilagt sambönd. Myndin fjallar um Deliu sem vann bíl í keppni á vegum gosdrykkjaframleiðanda, og þarf nú að birtast í auglýsingu fyrir framleiðandann. Foreldrar hennar vilja selja bílinn en hún vill eiga hann. Þannig förum við fram og tilbaka milli upptöku auglýsingarinnar (sem gengur mjög illa) og rifrildis milli Deliu og foreldra hennar. Í auglýsingunni á Delia á að vera "hamingjusamasta stúlka í heimi", en á milli þess sem tekið er upp er samband hennar við foreldra sína að brotna í sundur.
Þetta er ekki léleg mynd, en mér fannst hún heldur ekki skemmtileg. Það er margt ágætlega gert í henni, og ef þú fílar ofurraunsæi, vandræðalegheit og niðurdrepandi aðstæður, þá er þetta myndin fyrir þig. Ég held hún hefði getað virkað mun betur ef hún hefði verið miklu styttri...

Engin ummæli: