25. Melody for a Street Organ
Þetta var fyrsta skiptið í ár sem ég virkilega hugleiddi að ganga út af bíómynd. Þessi mynd sameinar það nefnilega að vera löng og leiðinleg.
Krakkarnir sem leika Alenu og Nikitu eru ömurlegir leikarar, og eiginlega allt fullorðna fólkið leikur virkilega illa (ofleikur alveg fáránlega). Nú grunar mig reyndar að þetta sé með vilja gert, að fullorðna fólkið eigi að vera virkilega ýkt og skrýtið, en það breytir því ekki að það virkar bara alls ekki. Myndin er ótrúlega tilgerðarleg - fullt af senum þar sem allir tala í kross og tala í einu sem á örugglega að vera geðveikt kúl, en er það bara alls ekki. Myndin er uppfull af löngum, leiðinlegum senum, með löngum absúrd samtölum sem á ekki einu sinni að vera vit í, heldur virðist þetta eiga að vera ádeila á fáránleika heimsins.
Þegar þessi mynd endar (og hún endar á ömurlegan hátt!), þá sat ég bara í svona mínútu, svekktur, reiður og bitur, og sá eftir því að hafa ekki einfaldlega gengið út af henni. Ég var búinn að kaupa miða á Edia & Thea sem átti að byrja tíu mínútum síðar og hugleiddi það virkilega að fara bara heim. Eftir þessa mynd langaði mig bara ekkert til þess að horfa á aðra bíómynd. En sem betur fer gerði ég það ekki...
26. Edie & Thea: A Very Long Engagement
Þessi mynd var, þvert á móti, stutt og skemmtileg.
Edie og Thea eru virkilega skemmtilegar og kraftmiklar konur, sem eru búnar að vera saman í meira en 40 ár og eru enn virkilega ástfangnar. Myndin fjallar eiginlega hvorki um raunir þess að vera samkynhneigður í gamla daga, né réttindabaráttu. Þetta er einfaldlega gullfalleg ástarsaga sem hlýjar manni um hjartarætur. Ég mæli með þessari.
27. House of Satisfaction
Þetta var alveg ágæt mynd. Jesse Hartman er allt í öllu í þessari, hann skrifar og leikstýrir, leikur aðalhlutverkið og semur tónlistina og klippir myndina. Og ég verð bara að segja að honum tekst ansi vel til.
Myndin er um Jesse Limbo, fyrrum tónlistarmann, núverandi dópista. Hann stelur pening frá einhverjum dópsölum og heldur aftur heim til New York í fyrsta skipti í 13 ár, til þess að hitta son sinn í fyrsta skipti. Þetta er mjög knöpp saga, en hún virkar.
Eitt af því sem gerir þessa mynd skemmtilega er hvar hún er tekin. Jesse Hartman og bróðir hans áttu stað í East Village sem hét Mo Pitkin's, og þar er megnið af myndinni tekin. Þessi staður hefur greinilega haft mikinn karakter (Hartman talar um hann sem þriðju aðalpersónuna í myndinni) og verður stór hluti af sögunni. Auk þess á Hartman sér langa sögu sem tónlistarmaður og kvikmyndagerðarmaður og notar óspart myndbrot úr sínu fyrra lífi, t.d. tónlistarmyndbönd sem hann gerði með hljómsveitinni sinni, og brot úr stuttmynd sem hann gerði fyrir 13 árum sem vann til verðlauna. Auk þess notar hann meira að segja myndbrot úr brúðkaupinu sínu, sem virkar m.a. vegna þess að mótleikarinn sem leikur gamlan vin hans er í raun gamall vinur hans og var viðstaddur brúðkaupið. Þannig að myndin verður að einhverju leyti sjálfsævisöguleg. Eins og Hartman orðar það sjálfur, þá er Jesse Limbo önnur útgáfa af honum sjálfum, bara miklu meira "edgy" og í meiri vanda (og með heróínfíkn).
Þessi mynd er sönnun þess að það er hægt að gera flotta mynd fyrir lítinn pening. Maður verður ekki einu sinni neitt sérstaklega var við sparnaðinn, nema kannski í lokasenunni, og þar kemur það alls ekkert illa út, heldur lætur bara áhorfandann ímynda sér hvað gerist frekar en að sýna honum það. Raunar fannst mér sú sena skemmtileg, m.a. af því að hún minnti mig mjög á senuna úr heimildamyndinni Malcolm X þar sem titilpersónan er drepin - klippingin og stemningin var mjög svipuð.
28. The Unknown
Hljómsveitin Malneirophrena spilaði undir mynd Tod Browning frá 1927, The Unknown, sem er um Alonzo, handalausan hnífakastara í sirkus, sem girnist dóttur sirkusstjórans.
Myndin sjálf er bráðskemmtilegt melódrama, uppfull af óvæntum uppákomum, ofbeldi og langsóttum sögufléttum. Undirspil Malneirophrenu var áhrifamikið og passaði einstaklega vel við myndina. Oft á tíðum gleymdi maður hljóðfæraleikurunum og lifði sig alveg inn í myndina (og tónlistina). Allt í allt var þetta stórgóð skemmtun. Þegar vel tekst til er nefnilega alveg frábært að sjá þöglar myndir með lifandi undirspili.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli