miðvikudagur, 23. september 2009

RIFF '09: Dagur 7

Í kvöld fór ég á þrjár myndir: Prodigal Sons, Kelin og One Flew Over the Cuckoo's Nest.

22. Prodigal Sons

Ansi mögnuð, og á köflum mjög óþægileg heimildamynd.
Leikstjórinn, Kimberly Reed, snýr aftur til bæjarins þar sem hún ólst upp, Helena, Montana, til þess að mæta í 20 ára High School Reunion. Þar hittir hún líka stjúpbróður sinn, Marc, sem útskrifaðist sama ár og hún. Það sem gerir þessa sögu sérstaka er að þegar Kimberly útskrifaðist hét hún Paul McKerrow og var fyrirliði fótboltaliðsins. Auk þess hefur Marc í millitíðinni lent í alvarlegu slysi, orðið fyrir heilaskaða og þurft að fara í fjölda aðgerða þar sem hluti heilans var fjarlægður. Sem sagt margt í gangi.
Marc var ættleiddur, og hefur í langan tíma viljað hafa uppi á foreldrum sínum. Þegar tæpur hálftími er liðinn af myndinni komumst við að því að mamma hans var dóttir Orson Welles og Ritu Hayworth! Marc var búinn að hafa uppi á móður sinni og þau voru búin að skrifa bréf til hvors annars, en hún deyr áður en hann getur hitt hana. Honum er hins vegar boðið í jarðarförina, þ.a. í fyrsta skiptið sem hann sér móður sína þá er hún dáin. Síðan býður kærasta Orson Welles, Oja Kodar, Marc og fjölskyldu hans til Króatíu til þess að hitta sig. Hún er himinlifandi að hitta þennan afkomanda Orsons og reynir að koma til skila arfleifð Orsons á einhvern hátt; hún gefur Marc til dæmis einhverjar skyrtur og vesti af Orson.
Sjáið þið fjölskyldusvipinn?
Nú gæti maður haldið að mynd um þetta fólk, týnt barnabarn Orson Welles og fyrrverandi fótboltahetju sem nú er kona, myndi einblína á þennan hluta sögu þeirra, en svo er alls ekki. Eins og leikstjórinn sagði sjálfur, þá er þetta fyrst og fremst mynd um fjölskyldu. Vandamál þessarar fjölskyldu gætu í fyrstu virst allt önnur en hjá öðrum fjölskyldum, en þegar nánar er að gáð er munurinn ekki svo mikill. Börnin hafa breyst frá því að þau fluttu að heiman og fjölskyldufaðirinn er nýdáinn, og vandi fjölskyldunnar nú er fyrst og fremst að aðlaga fjölskylduformið að breyttum aðstæðum, og ég held að það sé eitthvað sem gerist í öllum fjölskyldum. Helsta vandamálið er að Marc þjáist af miklum geðsveiflum, hugsanlega vegna aðgerðanna sem hann fór í eftir slysið, og þegar hann er slæmur er hann hættulegur sjálfum sér og öðrum.
Þessi mynd veitir okkur mikla nálægð við þessa fjölskyldu, svo mikla á köflum að það verður verulega óþægilegt. Óþægilegustu atriðin eru þegar Marc missir stjórn á skapi sínu. Þá verður hann eiginlega allt annar maður, nánast ómennskur, og bara virkilega "scary". Versta augnablik myndarinnar er þegar Marc ræðst á Kimberly á meðan myndavélin er í gangi, því maður veit ekki hversu langt hann mun ganga. Það var sena sem erfitt var að horfa á.
Eitt af því sem ég pældi í þegar ég horfði á myndina var hvernig barnabarn Orson Welles, eins helsta snillings 20. aldarinnar, getur verið jafn misheppnaður og Marc er (og það er ekki bara slysið því hann var hálfmisheppnaður fyrir). Getur verið að uppeldi gegni svona stóru hlutverki? Orson Welles naut bestu menntunar sem völ var á, og hann ferðaðist vítt og breitt um heiminn sem barn og hitti ótrúlegasta fólk: einu sinni snæddi hann við sama borð og Adolf Hitler, og hann þekkti Winston Churchill. Þegar Marc fer til Króatíu er það í fyrsta skipti sem hann fer til útlanda. Á móti kemur að Kimberly er á góðri leið með að verða heimsfrægur kvikmyndagerðarmaður. Það er auðvitað ekkert einfalt svar við þessu...

23. Kelin
Ég er soldið á báðum áttum með þessa. Annars vegar er margt mjög flott við hana - flott myndataka og margar sniðugar hugmyndir. Á hinn bóginn er líka margt við hana sem virkar illa eða er bara asnalegt (af hverju er fólk á 3. öld eftir Krist meira og minna mállaust?).
Sagan og efnistökin minntu mig á köflum á Íslendingasögurnar. Stór hluti sögunnar snýst um víg og hefndarvíg og svo framvegis. Sagan hefst á því að tveir hirðingjar bjóða í sömu konuna (s.s. pabbinn ætlar að gifta hana hæstbjóðanda), og sá sem tapar uppboðinu tekur því heldur illa og ætlar að ná stúlkunni með einhverjum öðrum ráðum.

24. One Flew Over the Cuckoo's Nest
Snilldarmynd. Það var orðið allt of langt síðan ég sá þessa síðast, og ég var búinn að gleyma heilum helling. Þetta er einfaldlega mögnuð mynd, og frábært að fá tækifæri til þess að sjá hana sýnda á filmu. Það var líka einstaklega góð stemning í salnum.
Ég vænti þess að flestir hafi séð hana (og ef þið voruð ekki búinn að sjá hana þá skil ég ekki af hverju þið mættuð ekki á þessa sýningu), og þess vegna ætla ég ekkert að skrifa um plottið.
Þetta er einfaldlega ótrúlega góð mynd. Sagan er grípandi. Leikurinn er einstaklega góður: Nicholson er í essinu sínu, og Louise Fletcher og Brad Dourif eru bæði ótrúlega góð sem Nurse Ratched og Billy Bibbit. Mér finnst alveg einstakt hvernig myndin getur verið til skiptis hlý og grimm, fyndin og sorgleg, en alltaf hitt á rétta tóninn. Það eru ekki senurnar einar sér sem skila snilldinni, heldur er það hvernig þær mynda kontrapunkt við hvora aðra. Eins frábærar og partísenan og senan daginn eftir eru einar sér, þá eru það þessi snöggu skipti úr ærslagamanleik og gleði yfir í ótrúlega grimmd, reiði og sorg sem gera þessar senur svo frábærar.
Tónlistin í myndinni er skemmtilega öðruvísi, en einhvern veginn virkar hún. Á masterklassanum sagði Forman skemmtilega sögu um tilurð tónlistarinnar. Jack Nitzsche var fenginn til þess að semja tónlistina og þegar átti að taka hana upp var hann spurður hversu marga tónlistarmenn hann þyrfti. Svarið var: "Engan." Framleiðandinn hélt að þetta væri bara eitthvað grín í honum og réði heila sinfóníuhljómsveit - Nitzsche gæti þá bara sent þá heim sem hann ekki þyrfti. Hann mætti svo á staðinn og með honum gamall karl með risastóra tösku. Hann sendi alla tónlistarmennina heim og bað um tunnu fulla af vatni. Síðan tók gamli karlinn ótalmörg misstór glös upp úr töskunni, fyllti þau af vatni og fór að spila á þau, og þannig varð tónlistin til!
Önnur skemmtileg saga sem kom fram bæði á masterklassanum og í spurningatímanum eftir myndina var um samskipti Formans við myndatökumanninn Haskell Wexler. Eins og Forman orðaði það, þá voru þeir báðir með fullkomnunaráráttu, og það var ekki pláss fyrir tvo slíka á sama settinu. Aðalástæðan er kannski sú að hugmyndir leikstjórans um fullkomnun eru víðs fjarri hugmyndum myndatökumannsins. Forman orðaði það skemmtilega: Fyrir myndatökumanninum er hin fullkomna mynd án leikara, því þá hreyfist ekkert og hann getur lýst allt fullkomlega; en fyrir leikstjóranum er hin fullkomna mynd án myndavélar, því þá getur hann einbeitt sér að leikurunum og fengið sem besta frammistöðu út úr þeim. Mér skilst að stærsta bitbeinið milli Formans og Wexler hafi verið meðferðarsenurnar, þar sem sjúklingarnir sitja í hálfhring og ræða vandamál sín við Nurse Ratched. Þar vildi Forman notast við tvær myndavélar hverju sinni: ein átti að vera á þeim leikara sem verið var að taka upp (þ.e. senan væntanlega tekin nokkrum sinnum, einu sinni fyrir hvern leikara sem átti að vera í mynd), en hin átti að flakka á milli þannig að leikararnir vissu aldrei hvenær myndavélin var á þeim. Þannig taldi Forman sig ná að halda leikurunum alltaf inni í senunni, annars myndu leikararnir sem voru ekki í mynd bara þylja upp línurnar, en í raun ekkert leika. Wexler fannst þetta ómögulegt vegna þess að hann gat ómögulega lýst alla í hálfhringnum fullkomlega. Forman vildi sem sagt fórna lýsingunni að einhverju leyti fyrir betri performans, en það vildi Wexler alls ekki. Að lokum rak Forman Wexler og fékk Bill Butler til þess að klára myndina.

Engin ummæli: