fimmtudagur, 17. september 2009

RIFF '09: Dagur 1

Ég ákvað að hefja hátíðina af krafti og fór á fjórar myndir í dag: Sweethearts of the Prison Rodeo, Dirty Mind, Nord og opnunarmyndina Ég drap mömmu mína. Nú liggur leiðin á opnunarhófið.

1. Sweethearts of the Prison Rodeo
Sweethearts of the Prison Rodeo er heimildamynd um fanga (bæði karla og konur) sem taka þátt í fangelsis-kúrekasýningu í Oklahoma. Þessi sýning hefur verið haldin árlega síðan 1940, og er ein tveggja sinnar tegundar í heiminum.
Við kynnumst nokkrum kvenföngunum og einum karlfanga nokkuð vel, og sögur þeirra eru oftar en ekki ansi átakanlegar:
  • Karlfanginn, Danny, hefur setið inni í 25 ár fyrir morð, en eygir loks smá vonarglætu þegar hann fer fyrir reynslulausnarnefnd (parole board). Þetta er fjórtánda árið sem hann tekur þátt, en þessi kúrekasýning er það eina í lífi hans sem færir hugann frá fangavistinni. Hann kennir hinum föngunum hvernig skal sitja nautið, og er auk þess mikill heimspekingur með margar pælingar sem gera hann að skemmtilegu viðfangsefni. Það skrýtna er að hann ræðir eiginlega aldrei glæpinn sem hann situr inni fyrir, en það virðist vera eini glæpurinn sem hann hefur framið á ævinni.
  • Einn kvenfanginn, Foxy, flúði að heiman þegar hún var 12 ára. Þegar myndin er tekin er hún 23 ára og er búinn að afplána tvö ár af 20 ára dómi, og þá er hún byrjuð að reyna að hafa uppi á fjölskyldu sinni.
  • Annar kvenfangi, Jamie, er búin að vera 13 ár í fangelsi fyrir morð. 17 ára gömul var hún dæmd í 30 ára fangelsi. Á einhvern undarlegan hátt tókst henni að verða ólétt innan veggja fangelsisins, þ.a. hún á son sem hún hefur í raun aldrei verið með.
  • Langflestir hinna kvenfanganna voru dópistar sem voru byrjaðir að búa til meth heima hjá sér.
Rodeo-senurnar í þessari mynd eru frekar brútal. Ég fékk eiginlega þá tilfinningu að þeir sem skipulögðu þessa sýningu hefðu hugsað með sér að þátttakendurnir væru hvort eð er fangar sem hefðu engu að tapa. Einn dagskrárliðurinn, "Bull Poker", felst til dæmis í því að keppendur fá sér sæti í kringum borð og svo ræðst naut á þá. Sigurvegarinn er sá sem situr sem fastast. Annar dagskrárliður er "Money the Hard Way", þar sem keppendur reyna að ná snæri sem hefur verið bundið um hornin á nautinu. Það eru u.þ.b. 40 þátttakendur í þeim lið, og ansi margir fá flugferð í boði nautsins, sumum er jafnvel hent 2-3 metra í loft upp. Að sögn eins viðmælandans sem hefur mætt á keppnina í tugi ára þá hefur fólk dáið í þessari keppni, m.a. verið rekið á hol, en þetta árið (2007) virðist enginn meiðast alvarlega fyrir utan einn sem mölbrýtur á sér kjálkann.
Þessi mynd er ágæt skemmtun og gefur góða innsýn í hugarheim fangans. Ég mæli hiklaust með henni.

2. Dirty Mind
Ég hef svo sem ekki miklu við færslu Guðmundar að bæta. Við vorum sammála um að þetta væri ágæt mynd, en ekkert frábær, og hún skildi svo sem ekki mikið eftir sig. Fín afþreying. Margt ágætlega gert og nokkuð vel unnin, en hún er soldið "lókal". Ég gæti trúað því að útlendingur sem horfir á góða íslenska mynd (t.d. Reykjavík-Rotterdam) gæti upplifað hana á svipaðan hátt.

3. Nord
Hiklaust besta mynd dagsins. Hún fjallar um Jomar (t.h. á myndinni hér fyrir ofan) sem hefur þjáðst af þunglyndi og kvíðaköstum undanfarin 4-5 ár. Þegar þunglyndið fór að hrjá hann fór kærastan frá honum og tók saman við besta vin hans. Í upphafi myndar birtist vinurinn og segir Jomar að hann eigi 4 ára gamlan son. Þá ákveður Jomar að halda norður til þess að hitta son sinn, og á leiðinni hittir hann fjölmarga litríka karaktera, eins og t.d. hómófóbíska unglinginn sem er með honum á myndinni hér fyrir ofan.
Á meðan ég horfði á myndina hugsaði ég um hvernig hún sýnir tvær stórar ástir Norðmanna, kántrí tónlist og landa. Eins og allir vita sem hafa sörfað framhjá norsku stöðvunum á fjölvarpinu eftir kl. 11 á kvöldin, þá virðast Norðmenn haldnir óeðlilegri ást á kántrí tónlist, og sándtrakkið í þessari mynd er þar engin undantekning, enda mjög svo kántrí-skotið. Þess utan ku Norðmenn neyta óeðlilega mikils sykurs miðað við höfðatölu, og er það rakið til þess hversu margir brugga landa. Í myndinni er uppáhalds drykkur aðalpersónunnar einmitt landi, sem hann teygar í gríð og erg um leið og hann gleypir kvíðastillandi töflur.
Þessi mynd er bæði fyndin og hlý. Jomar er frábær persóna og maður finnur virkilega til með honum. Það er örugglega ekki auðvelt að skapa virkilega sympatískan þunglyndissjúkling, en það tekst óneitanlega í þessari mynd. Þið megið ekki láta þessa framhjá ykkur fara.

4. Ég drap móður mína
Ég get ekki annað en velt fyrir mér af hverju þessi mynd varð fyrir valinu sem opnunarmynd hátíðarinnar. Þótt þetta sé alls ekki vond mynd, þá sé ég ekkert í henni sem virkilega réttlætir þetta val. Leikstjórinn var ekki viðstaddur, og þetta er langt í frá besta mynd hátíðarinnar (gæti jafnvel verið versta mynd dagsins).
Sérstaða þessarar myndar er kannski fyrst og fremst ungur aldur leikstjórans (sem lék jafnframt aðalhlutverkið og skrifaði handritið), en hann er fæddur 1989. Ég er ekki frá því að þessi ungi aldur hafi skinið í gegn, ekki í reynsluleysi heldur í því sem ég upplifði sem ógagnrýna nálgun á hegðun aðalpersónunnar. Nú getur vel verið að ég hefði túlkað myndina öðruvísi ef ég hefði ekki vitað að hún var gerð af ungling. Kannski hefði ég séð íroníu gagnvart aðalpersónunni sem ég sá ekki núna. En mín upplifun var sú að aðalpersónan, sjálfhverfi og tilgerðarlegi unglingurinn Hubert, hafði samúð leikstjórans en náði ekki að vinna mína samúð.
Margt í þessari mynd er mjög vel gert. Samtölin (eða öllu heldur rifrildin) milli Hubert og móður hans eru oft mjög góð, og mörg mjög fyndin móment þeirra á milli. Hins vegar fannst mér myndin oft á köflum hræðilega tilgerðarleg, og "heimavídjó" Huberts þar sem hann talar við myndavélina um tilfinningar sínar til móður sinnar eru asnaleg, ótrúverðug og óþörf.
Einn lokapunktur um þessa mynd: Anne Dorval, sem leikur móður Huberts, minnti mig ótrúlega á Shirley MacLaine, sem er ein af mínum uppáhaldsleikkonum. Kannski er það ein ástæðan fyrir því af hverju ég hafði oft á tíðum meiri samúð með henni en Hubert. Smá samanburður, fyrst móðir Huberts (ásamt Hubert) og svo Shirley MacLaine:

1 ummæli:

Guðmundur Felixson sagði...

Úúúú.. kallinn bara farinn að kvóta í kallinn. Ég fíla þetta