sunnudagur, 20. september 2009

RIFF '09: Dagur 3

Í dag fór ég á fimm sýningar: For the Love of Movies (og tengt málþing), Swimsuit Issue, Íslenskar stuttmyndir 2, Slovenian Girl og Miðnæturbíó. Ég mun fjalla nánar um þetta síðar en get þó sagt að stuttmyndirnar á sýningu nr.2 eru heilt yfir mun betri en þær á nr.1.

8. For the Love of Movies
Ég ætla ekki að skrifa mikið um þessa. Þetta er frekar þurr heimildamynd sem samanstendur nánast bara af talandi hausum og brotum úr myndum. Efnið, kvikmyndagagnrýni, býður kannski ekki upp á mikið meira. Annað sem fór í taugarnar á mér var að það var ef til vill lögð of mikil áhersla á kvikmyndagagnrýni sem nokkurs konar neytendaráðgjöf ("Hvaða mynd á ég að fara að sjá?"), sem mér finnst ekki vera nema lítill hluti af tilgangi hennar. Góð kvikmyndagagnrýni á ekki bara að benda þér á góðar myndir og sannfæra þig um að þær séu þess virði að horfa á, heldur líka kenna þér að horfa á myndir, að hugsa um myndir og að tala um myndir.
Engu að síður er þetta að mörgu leyti áhugaverð mynd, sem er gerð af og fjallar um fólk sem elskar bíómyndir.

9. Swimsuit Issue
Ósköp krúttleg mynd um hóp af miðaldra karlmönnum sem einu sinni voru góðir í bandí, sem byrja að æfa listsund (synchronized swimming) og stefna að því að keppa fyrir hönd Svíþjóðar á heimsmeistaramótinu.
Þessi mynd er vissulega skemmtileg, og á köflum er hún ansi fyndin. Hins vegar er nokkuð margt við hana sem fór í taugarnar á mér. Fyrir það fyrsta fannst mér sögufléttan ansi fyrirsjáanleg og klisjukennd. Það eina frumlega er grunnhugmyndin (karlar í listsundi), en framvindan er öll eftir góðu gömlu Hollywood-formúlunni. Þá er aðalpersónan, Fredrik, frekar ósympatískur. Fredrik er einhvers konar útbrunninn alpha-male íþróttamaður sem byrjar að gráta þegar rennur upp fyrir honum að hann er bara lúser. Meira og minna allt sem hann gerir í myndinni gerir hann til sjálfsupphafningar - hann vill verða sigurvegari aftur, og það skiptir ekki máli í hverju. Í mynd sem þessari verða áhorfendur að halda með aðalpersónunum, og það var ekki raunin með mig á þessari mynd. Það hlýtur að teljast frekar stór galli.
Ætli ég sé ekki að reyna að segja að þetta er skemmtileg mynd, en langtífrá fullkomin. Ef þessi mynd væri bandarísk, kæmist hún þá á einhverjar kvikmyndahátíðir? Þyrfti hún að sætta sig við kvikmyndahátíðir?

10. Íslenskar stuttmyndir 2
Mér fannst þessi stuttmyndapakki mun betri en númer 1. Ef þið komist bara á annan þeirra, veljið endilega þennan.
Fyrir utan "hljóðmyndirnar" voru fjórar myndir á dagskrá: "Íslensk alþýða", "Villingur", "Epik feil" og "Mamma veit hvað hún syngur".
Best þessara þótti mér "Íslensk alþýða", sem er alveg frábær 30 mínútna heimildarmynd um verkamannabústaðina við Hringbraut. Þetta hljómar kannski ekki ýkja spennandi, en stíllinn á myndinni er einstaklega skemmtilegur og viðtölin við íbúa hússins eru áhugaverð og oft bráðfyndin. Þetta er einfaldlega mjög vel gerð og stórskemmtileg mynd. Eitt þótti mér skrýtið, og það var að einn viðmælandinn varð eiginlega að athlægi. Ég hefði viljað spyrja leikstjórann hvort það var með vilja gert en þorði því ekki þegar ég fattaði að margir þeirra sem komu fram í myndinni voru í salnum...
"Villingur" er stutt og einföld og nokkuð skemmtileg, en þó líkast til síst þessara fjögurra mynda. Í henni flippar skrifstofumaður út og keyrir útí sveit og hleypur svo um nakinn. Það var margt skemmtilegt í myndinni, en ég veit ekki alveg hvort hún hafi almennilega þróast umfram grunnhugmyndina. Ef þetta átti að vera ádeila eða einhver frekari pæling þá kom það alls ekki fram í myndinni. Þar að auki minnti ein senan, þar sem nakti skrifstofukarlinn hleypur framhjá hópi af ferðafólki, mig á pólska verkamanninn sem fyrirfór sér á Esjunni í fyrrasumar. Síðan sagði leikstjórinn að sá atburður hefði verið kveikjan að sinni hugmynd. Ég verð að játa að mér finnst það pínu smekklaust...
"Epik feil" er skemmtileg lítil mynd um ofboðslega misheppnaðan gaur sem lendir í skondnu litlu ævintýri. Einföld, skemmtileg og vel gerð.
"Mamma veit hvað hún syngur" er bráðskemmtileg mynd um mömmuna frá helvíti. Helga Braga leikur mömmu sem reynir hvað hún getur til þess að hrekja í burtu allar stelpurnar sem sonur hennar kemur með heim. Þær eru, að hennar mati, allar ljótar og heimskar. Eftir að hafa séð heimildarmynd um þjóðflokk í Suður-Ameríku, dreymir hana um að eiga samkynhneigðan son, því slíkir synir fara aldrei frá mömmu sinni, heldur sjá um þær í ellinni. Myndin hefur að geyma einhverja skemmtilegustu "út úr skápnum"-senu sem ég man eftir að hafa séð, en hefði kannski mátt enda þar, því það er fátt áhugavert eða skemmtilegt sem kemur fram eftir þá senu.

11. Slóvenska stúlkan
Áður en ég byrja að fjalla um þessa mynd finnst mér réttast að segja eitt: Ég fíla ekki raunsæi. Í leiknum bíómyndum kýs ég næstum alltaf frekar stílfæringu, töfra og ævintýri en blákalt raunsæi, og það litar það hvernig ég upplifi beinharðar raunsæismyndir eins og þessa.
Slóvenska stúlkan er nefnilega ofurraunsæ (og verulega niðurdrepandi) mynd. Hún fjallar um unga konu, Söshu, sem nemur ensku í háskóla og selur sig til þess að fá aukatekjur. Í upphafi myndar virðist allt ganga vel. Hún virðist hafa stjórn á öllu, peningarnir gera henni kleift að kaupa sér flotta íbúð (þótt henni gangi reyndar illa að útskýra fyrir öðrum hvernig hún hafði efni á henni). Síðan byrja vandræðin að hlaðast upp og áður en við vitum af er stúlkan komin það djúpt í skítinn að það virðist engin leið upp. Hún er búin að eyðileggja líf sitt.
Fyrir utan það að vera niðurdrepandi og bjóða ekki upp á eina einustu vonarglætu þá fór í taugarnar á mér að við skyldum aldrei fá að vita hvað leiddi Söshu út í vændi til þess að byrja með. Vinkona hennar, Vesna, virðist vera í nokkurn veginn sömu sporum og hún, en leiddist ekki út í vændi. Það er eins og verið sé að gefa í skyn að Sasha hafi leiðst út í vændi fyrir smá aukapening, sem mér finnst gera hennar persónu ómerkilega.
Þetta er samt alls ekki vond mynd, og ef maður fílar ofurraunsæjar og niðurdrepandi myndir þá er þetta örugglega málið...

12. Miðnæturbíó 1
Maður býst svo sem ekki við neinum snilldarmyndum á miðnætursýningunum. Ætli væntingarnar á þessum sýningum séu ekki fyrst og fremst fyndnar og kannski pínu ógeðslegar B-myndir. Myndirnar í fyrsta pakkanum eru franska stuttmyndin "Short Cut" ("Coupe court) og bandaríska hryllingsmyndin Deadgirl, en aðeins sú fyrri uppfyllti miðnæturbíó-væntingar mínar.
"Short Cut" er fyndin, súrrealísk og stórskrýtin hryllingsmynd um dverg og dularfulla vini hans. Hún blandar saman film noir, hryllingsmyndum og ýmsu öðru úr kvikmyndasögunni (annar dularfulli vinur hans minnir óneitanlega á Fu Manchu, fræga persónu úr spennutryllum 4. og 5. áratugarins í Hollywood.
Deadgirl, hins vegar, er frekar léleg exploitation hryllingsmynd um tvo unglinga sem finna naktan, bundinn kven-uppvakning í kjallara í yfirgefnu geðsjúkrahúsi. Það sem fór einna mest í taugarnar á mér er sú afstaða myndarinnar að eiginlega allir unglingsdrengir myndu glaðir vilja eiga kynlífsþræl bundinn í kjallaranum hjá sér. Ég átta mig á því að hryllingsmyndir gerast oft í ýkt vondum heimi (þetta var eitt af því sem fór í taugarnar á mörgum okkar í RWWM), og ég átta mig líka á því að hryllingsmyndir eiga ekki bara að hræða heldur líka að uppfylla fantasíur markhópsins (unglingsdrengja) en mér finnst þessi þáttur myndarinnar bara smekklaus og siðlaus. Ég meina, það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá vini aðalpersónunnar þegar þeir finna nakta konu bundna við borð er að nauðga henni, og þetta er áður en þeir fatta að hún er uppvakningur (þeir fatta það bara vegna þess að vinurinn "drepur" hana á meðan hann nauðgar henni!).
Hvað myndir þú gera í hans sporum?

1 ummæli:

Nanna Elísa sagði...

Hlakka til að sjá hvað þér fannst um Slovenian Girl!