sunnudagur, 26. október 2008

Dagskrá 10. viku, 27.-31. okt

Mánudagur 8.10-9.35
Höldum áfram að tala um heimildamyndir.
Horfum m.a. á stuttu heimildamyndina City of Gold.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Síðasti heimildamyndatíminn.

Föstudagur 14.55-17.00
Horfum á sigurvegara netkosningarinnar.

fimmtudagur, 23. október 2008

Netkosning: Kvikmynd næstu viku

Á hægri hönd má sjá netkosningu um það hvað heimildamynd við horfum á næsta föstudag, 31. okt. Ég mun skrifa nokkrar línur um myndirnar á næstu dögum, en þetta eiga allt að vera mjög góðar myndir.

51 Birch Street
Heimildamyndagerðarmaðurinn Doug Block hyggst nota myndavélina sína til þess að bæta tengsl sín við foreldra sína. Þegar móðir hans deyr og faðirinn tekur saman við ritarann sinn nánast áður en hún er komin í gröfina vakna ýmis konar spurningar hjá Doug. Hversu vel þekkir hann foreldra sína?
Roger Ebert fannst þessi ein besta heimildamynd ársins 2004. Fyrir okkur er hún kannski fyrst og fremst áhugaverð vegna efnisins: kvikmyndagerðarmaðurinn er venjulegur gaur sem byrjar að gera mynd um fjölskyldu sína, sem hann telur vera bara venjulega fjölskyldu, síðan gjörbreytast hlutirnir. Það er hægt að gera góða heimildamynd um hvað sem er.

Titicut Follies
Frederick Wiseman er einn virtasti heimildamyndagerðarmaður samtímans. Hann tekur ávallt fyrir einhverja menningarkima og fylgist með þeim á mjög hlutlausan hátt. Í Titicut Follies, fyrstu mynd sinni, er hann fluga á vegg í geðvekrahæli, og við fylgjumst með daglegu lífi geðsjúklinganna og hvernig farið er með þá.
Wiseman hefur m.a. gert myndir um blinda (Blind), herþjálfun (Basic Training sem Kubrick leitaði mikið til fyrir gerð Full Metal Jacket), menntaskólanema (High School og High School II), heimilisofbeldi (Domestic Violence og Domestic Violence 2) og margt, margt fleira.

Harlan County USA
Mynd um verkfall námuverkamanna í Kentucky, þar sem námufyrirtækið beitti m.a. vopnavaldi gegn verkamönnum (sem er nota bene ekkert nýtt í Bandaríkjunum), og heimildamynda-gerðarmennirnir sættu líkamsárásum og voru í lífshættu.
Þessi er algjör klassík og skylduáhorf hjá öllum sem hafa áhuga á heimildamyndum (ef ég myndi kjósa myndi ég líkast til kjósa hana).

Salesman
Áhrifamikil mynd um raunir sölumanna sem ganga hús úr húsi, og það hvernig það tekur á sálina að verða stöðugt hafnað. Svona "real-life" Willy Loman persónur, ég ætti eiginlega að sýna þessa þegar ég kenni Death of a Salesman.
Maysles-bræður, sem gerðu þessa, eru meðal virtustu heimildamyndagerðarmanna allra tíma og gerðu meðal annars Rolling Stones-myndina Gimme Shelter. Myndir þeirra eru gott dæmi um cinema verité. Albert Maysles kom einmitt til Íslands í vor á heimildamyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirði (ég vildi óska að ég hefði komist, en þetta var í miðjum vorprófunum).

Don't Look Back
Fræg heimildamynd D.A. Pennebaker um tónleikaferðalag Bob Dylan um Bretlandseyjar 1965, þegar hann byrjaði að færa sig frá þjóðlagatónlist og yfir í rokkið. Það var ekki öllum skemmt, og hann var oft kallaður svikari af áhorfendum.
D.A. Pennebaker er eitt allra stærsta nafnið í heimildamyndagerð, og einn af frumkvöðlum cinema verité stílsins og einn sá fyrsti sem notaði handheldar 16mm vélar í heimildamyndagerð.

Gates of Heaven
Fyrsta mynd Errol Morris. Fjallar um gæludýrakirkjugarð í Kaliforníu og fólkið sem grefur dýrin sín þar. Hún byrjar sem athugun á furðufuglum sem borga þúsundir dollara fyrir að grafa gæludýrin sín, en öðlast mun meiri dýpt en nokkurn hefði grunað.
Roger Ebert telur þessa með betri myndum allra tíma.

Taxi to the Dark Side
Vann Óskarinn 2008 fyrir bestu heimildamynd. Fjallar um pyntingaraðferðir Bandaríkjamanna í Afganistan, Írak og Gitmo, og einbeitir sér helst að afgönskum leigubílstjóra sem var pyntaður og drepinn árið 2002.

Triumph des Willens
Tímalaus klassík og siðlaus viðbjóður.
Listilega vel gerð upphafning Leni Riefenstahl á þriðja ríkinu er erfið áhorfs en jafnframt skólabókardæmi í gerð áróðursmynda.
Það sem truflar mig alltaf mest með þessa og Olympia er hvernig Riefenstahl formgerir mannslíkamann, með þeim hætti að fólk er brotið niður í hluta og hlutarnir verða abstrakt form. Þetta er nokkuð sem hún gerði allan sinn feril, t.d. sem ljósmyndari í Afríku, en þegar maður sér þetta í tengslum við þriðja ríkið, sem gerði nokkuð mikið af því að breyta lifandi fólki í eitthvað allt annað, þá stendur manni ekki á sama.

Vernon, Florida
Önnur eftir Errol Morris. Ég hefði eiginlega átt að velja bara eina, en gat ekki valið á milli.
Morris var í smábænum Vernon að rannsaka ákveðna hefð meðal bæjarbúa að aflima sig í "slysi" fyrir tryggingarpeninginn, en á endanum kom þetta hvergi fram í myndinni, heldur fjallar hún um furðulega íbúa þessa bæjar á mun almennari hátt.

Baraka
Í nýlegri grein Roger Eberts leggur hann til að verði geimfar sent út í geim með gögn um mannkynið, og það mætti bara velja eina bíómynd, þá ætti þessi að verða fyrir valinu.
Þetta er ótrúlega flott mynd um samspil manns og náttúru og hin ýmsu form sem mannlegt samfélag og náttúra geta tekið á sig (það eru myndir frá öllum heimshornum). Eintakið mitt er í High Definition, og þetta er mynd þar sem það skiptir máli.

laugardagur, 18. október 2008

Dagskrá 9. viku, 20.-24. okt

Mánudagur 8.10-9.35
Heimildamyndir. Fyrir þennan tíma vil ég að þið séuð búin að renna í gegnum heimildamyndahlutann í heftinu.
Þeir sem eiga eftir að velja leikstjóra fyrir fyrirlestrana eiga að tilkynna val sitt í dag.
Við byrjum að taka frá töku- og klippidaga fyrir heimildamyndirnar.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Heimildamyndir frh.

Föstudagur 14.55-16.30
Horfum á The Cats of Mirikitani, stórgóða heimildamynd.

laugardagur, 11. október 2008

Dagskrá 8. viku, 13.-17. okt

Sunnudagur kl. 18 í Kringlubíó
Hópferð á Queen Raquela. Reynum að ná betri mætingu en seinast.












Mánudagur 8.10-9.35

Heimildamyndagerð.
Skoðum proposal hjá hópunum og ræðum hugmyndirnar.
Smá fyrirlestur líka.

Miðvikudagur 8.20-9.35
Ólafur Jóhannesson, leikstjóri Queen Raquela, kemur í heimsókn.
Allir eiga að vera búnir að sjá myndina.
Allir eiga að vera tilbúnir með 2-3 spurningar.
Bannað að mæta seint.

sunnudagur, 5. október 2008

Reykjavík-Rotterdam: Langbesta íslenska spennumyndin?

Metmæting í dag: 3 nemendur mættu á "hópferð" okkar á Reykjavík-Rotterdam í dag. Ég minni á að það er skylda að sjá myndina fyrir miðvikudag, og þeir sem ekki skila mér miðum í seinasta lagi í þeim tíma (rækilega merktum) fá skróp í seinustu þremur tímunum í síðustu viku.
Annars er þessi mynd, alveg burtséð frá þessu námskeiði, skylduáhorf fyrir alla íslenska kvikmyndaunnendur. Hún er nefnilega verulega góð. Ég er á því að þetta sé langbesta íslenska spennumyndin hingað til, og janfvel bara með betri myndum sem ég hef séð í ár (ég þarf samt að melta hana aðeins betur til þess að ég þori að fara svo langt). Þetta er bara "must-see", það er ekki flóknara en það.
Ég ætla ekki að skrifa meira um hana í bili, ég vil ekki eyðileggja hana fyrir ykkur.

Dagskrá 7. viku, 6.-10. október

Sunnudagur kl. 15.30 í Háskólabíó
Hópferð á Reykjavík-Rotterdam
Ég gleymdi að athuga tímann á sýningunni. Hún er sem sagt sýnd 15.30. Vona að allir sjái þetta fyrir sýningu.

Mánudagur kl. 8.10-9.35

Byrjum að tala um heimildamyndir. Þar sem heftið er enn ekki komið hef ég sett fyrstu tvo kaflana um heimildamyndagerð inn á MySchool. Mæli með því að þið lesið þá.

Miðvikudagur 8.20-9.35
Óskar Jónasson, leikstjóri Reykjavík-Rotterdam (og Svartra Engla og Sódómu) kemur í heimsókn.
Fyrir þennan tíma verða allir að vera búnir að sjá myndina.
Munið að vera tilbúin með 2-3 spurningar.
BANNAÐ AÐ KOMA SEINT

RIFF: Dagur 10

Í dag fór ég á Suicide Tourist og Revanche.

Suicide Tourist
Þessi var ansi mögnuð. Myndin fjallar um rétt fólks til þess að deyja, nánar tiltekið stofnun í Sviss sem veitir fólki aðstoð við að fremja sjálfsmorð. Í fyrirlestri sínum sagði leikstjóri myndarinnar, John Zaritsky, að hann hefði áður gert mynd um aðstoðað sjálfsmorð (assisted suicide), þá í Hollandi (ég finn reyndar ekkert á IMDB um þá mynd), og að hann hefði almennt þá reglu að snúa ekki aftur í sama efnið. Hins vegar hefði írafárið í kringum Teri Schiavo fyrir nokkrum árum kveikt löngun hans til þess að gera aðra mynd um rétt fólks til þess að deyja. Hann byrjaði að rannsaka efnið og fann svo upplýsingar um Dignitas, Svissnesku stofnunina sem gegnir svo stóru hlutverki í myndinni.
Fyrir þá sem ekki muna, þá var Terri Schiavo bandarísk kona um fertugt sem var í dái í 15 ár eftir að hafa hlotið alvarlegan heilaskaða í kjölfar hjartastopps. Áður en hún fór í dá hafði hún látið í ljós þær óskir að henni skyldi ekki haldið lifandi við þessar aðstæður, og vildi eiginmaður hennar fara eftir þessum óskum. Foreldrar Teri vildu það hins vegar ekki, og úr varð mikið fjaðrafok þar sem strangkristnir öfgahægrimenn eins og George W Bush lýstu sig andsnúna því að leyfa Terri að deyja (Bush lét meira að segja setja lögbann á það, og það fór að lokum fyrir hæstarétt). Terri var loks leyft að deyja árið 2005.
Þó svo að Zaritsky hafi gert myndina með það í huga að styðja rétt fólks til þess að deyja, þá er ekki hægt að segja að myndin hafi yfirbragð áróðurs eða þrýsti með nokkrum hætti þessari skoðun á áhorfandann. Sögumaður myndarinnar heldur sig alfarið við staðreyndir, m.a. um lagalegu hliðina á þessum málum, án þess að upphefja eða fordæma gjörðir þeirra sem leita til Dignitas eða þeirra sem starfa fyrir Dignitas. Stuðningur við aðstoðað sjálfsmorð kemur aðeins fyrir í málflutningi viðmælendanna sem eru m.a. forstjóri Dignitas og nokkrir starfsmenn, auk þriggja einstaklinga sem hyggjast stytta sér aldur. Myndin er aðeins hlutdræg að því leyti að hún inniheldur ekki viðtöl við andstæðinga aðstoðaðra sjálfsmorða.
Myndin er samt alls ekki einhver köld athugun á þessu fyrirbæri og Dignitas stofnuninni, heldur sjáum við þetta í gegnum reynslu tveggja hjóna. Craig Ewert þjáist af taugahrörnunarsjúkdómi (ALS eða Lou Gehrig's disease) sem leggst á taugar sem senda hreyfiboð, en aðrar taugar haldast heilar, þ.a. viðkomandi heldur áfram að skynja t.d. sársauka. Craig getur ekki lengur hreyft hendurnar og þarf öndunarvél til þess að anda almennilega. Frá því að hann greindist með sjúkdóminn hefur hann verið að velta fyrir sér sjálfsmorði og nú finnst honum kominn tími til. Ein ástæða þess að hann vill gera þetta núna er að sjálfsmorðsaðferðin hjá Dignitas felst í því að drekka svefnlyf, en næsta skrefið í sjúkdómnum mun líklegast gera honum ókleift að kyngja. Craig fer því til Sviss ásamt konu sinni, Mary, en þau hafa verið gift í 37 ár og virðast enn nokkuð ástfangin.
George hefur fengið þrjú hjartaáföll, og lýsir sjálfum sér sem bíl með fjögurra strokka vél þar sem aðeins einn strokkurinn virkar. Hann er enn nokkuð sjálfbjarga en er þó veikburða og kvartar undan því að hann getur ekki lengur spilað tennis eða golf eða stundað kynlíf. Hann óttast líka mjög að eitthvað gæti komið fyrir sem gerði hann ósjálfbjarga og treystir sér ekki til þess að lifa við svoleiðis aðstæður. Þess vegna ætlar hann, eins og hann orðar það, að "fara" á meðan hann er ennþá sæmilega heilbrigður og hamingjusamur. Ekki nóg með það, heldur vill konan hans, Betty, ekki lifa án hans og ætlar að deyja með honum, þrátt fyrir að hún sé við hestaheilsu. Þau virðast líka vera mjög ástfangin, og raunar virðast þessi tvö hjónabönd svo góð að það liggur við að maður segi myndina vera ástarsögu að hluta.
Mér fannst svolítið áhugavert sem leikstjóri A Beautiful Tragedy sagði á Q&A eftir þá mynd. Hann sagði að það væri ekki hægt að gera vonda heimildarmynd, og ef þú gerðir vonda heimildarmynd þá værirðu einfaldlega ekki nógu nálægt viðfangsefninu. Það er engin hætta á því í þessari mynd því við förum mjög nærri fólkinu í myndinni, sérstaklega George og Betty.
Craig og George og Betty bíða mismunandi örlög í Sviss. Læknirinn sem skrifar upp á svefnlyfið sem er notað vill ekki skrifa upp á lyf handa þeim vegna þess að hvorugt þeirra er nógu veikt (ekki einu sinni George). Yfirmaður Dignitas styður þeirra ákvörðun, og samkvæmt svissneskum lögum er ekki gerð nein krafa um sjúkdóm eða annað til þess að aðstoðað sjálfsmorð sé löglegt, en eftir mikla neikvæða umfjöllun um stofnunina hefur lögreglan lagt hart að læknum að skrifa ekki upp á lyf fyrir aðstoðað sjálfsmorð nema viðkomandi sé alvarlega veikur. Þau verða því að snúa heim aftur og George talar um að nú muni hann kaupa sér byssu og æfa sig í að nota hana svo hann geti sjálfur svipt sig lífi. George og Betty standa fast á sínu og eru ákveðin í að framkvæma þetta. Þau ætla að fremja sjálfsmorð á brúðkaupsdaginn sinn. Í lok myndar kemur fram að Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að allir eigi rétt til þess að deyja, burtséð frá aldri og heilsu. Þetta veitir George og Betty nokkra von um að þau geti notað þjónustu Dignitas og þurfi ekki að gera þetta á einhvern subbulegan hátt.
Craig þykir hins vegar nógu veikur til þess að þiggja þjónustuna. Hann fer til Sviss ásamt konu sinni og drekkur lyfið við undirleik 9. simfóníu Beethovens. Allt er sýnt, bæði þegar hann drekkur eitrið og þegar öndunartækið slekkur á sér. Þetta er ekki auðvelt á að horfa, en ég er ekki viss um að ég hefði þolað að horfa upp á George og Betty stytta sér aldur.
Hér er smá brot úr myndinni og viðtal við John Zaritsky:

föstudagur, 3. október 2008

RIFF: Dagur 9

Í dag fór ég á "íslensku" stuttmyndirnar, A Beautiful Tragedy og Zift.

"Íslensku" stuttmyndirnar
Í fyrsta lagi þá finnst mér soldið frjálslega farið með orðið "íslenskar" í titli þessarar sýningar. Á þessari sýningu voru sýndar fimm stuttmyndir, þar af þrjár sem ég gæti með góðri samvisku kallað íslenskar.
Naglinn er stórskemmtileg mynd í leikstjórn Benedikts Erlingssonar um forsætisráðherra sem fær nagla í hausinn þannig að hann verður fyrir skemmdum á fremra heilablaði og breytist í nánast hömlulaust óargardýr (sem hljómar kannski ekkert svo illa þessa dagana).
Smáfuglar er flott mynd sem vekur upp spurningar. Hún er um hóp unglinga sem fer á djammið með sér eldra fólki og reynast hálf bjargarlausir við þessar aðstæður. Það er eiginlega ekki hægt að segja meira um hana án þess að fara að tala um endann. Þetta var líka eina myndin sem var sýnd af filmu, og Rúnar leikstjóri skammaðist sín soldið fyrir það að filmueintakið var víst eitthvað "workprint", þ.a. það var vel grainy og rispað. Hins vegar er filman orðin svo rómantíseruð að eftir fjórar stuttmyndir í misjöfnum stafrænum gæðum var virkilega skemmtilegt að fá mynd á filmu þar sem það fór ekkert framhjá neinum að um filmu væri að ræða.
Þessar tvær voru langbestar, hinar voru talsvert miklu síðri.
Harmsaga var flott (eða hefði verið það hefði hún verið sýnd af filmu en ekki lélegri stafrænni yfirfærslu) en svo ekki söguna meir. Hún hafði ekkert nema lúkkið, og ég man ekki eftir mörgum myndum með slappari söguþræði.The Emperor er bandarísk mynd eftir íslenskan leikstjóra. Þetta er soldið heillandi skólamynd eftir Þorbjörgu Jónsdóttir sem stundar nám við CalArts. Fyrir unnanda þýska expressjónismans var þetta skemmtileg mynd, enda leitar hún mikið þangað með útlitið. Þessi mynd er þögul, svart-hvít og mikið stílfærð. Sagan er aukaatriði.
Varmints getur engan vegin talist íslensk. Eini Íslendingurinn sem kemur nálægt þessari mynd er Jóhann Jóhannsson sem semur tónlistina. Þetta er tölvuteiknuð mynd, og útlitið er svo sem ágætt, en efnið er fáránlegt. Þetta er alveg ótrúlega illskiljanleg allegóría um mengun og gróðurhúsaáhrifin og eitthvað þannig. Ég get ekki sagt meira af þeirri einföldu ástæðu að ég skildi ekki meira en það. Fáránleg mynd.
Zift
Ansi skemmtilegt "homage" til noir-myndanna.
Í upphafi myndar er Mölurinn (Moth) látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í 12 ár (held ég) fyrir morð sem hann framdi ekki. Hann var samt viðriðinn morðið sem var framið í ráni sem hann tók þátt í ásamt kærustu sinni, Beiðunni (Mantis), og félaga sínum, Sniglinum (Slug).
Myndin samanstendur annars vegar af atburðarásinni sólarhringinn eftir að honum er sleppt úr fangelsi, og hins vegar af röð endurlita (flashback) sem rekja sögu hans fram að því.
Þegar Mölnum er sleppt úr haldi bíða hans fyrir utan fangelsið handbendi Snigilsins sem ræna honum vegna þess að þeir halda að hann viti um góssið úr ráninu forðum (sem var svartur demantur). Þeir pynta hann og eitra loks fyrir honum með hægvirku eitri til þess að fá úr honum upplýsingarnar, en hann segir þeim ekki neitt.
Hér er komin skemmtileg vísun í klassíska noir-mynd, D.O.A., sem er einmitt um mann sem var eitrað fyrir og hefur ákveðið langan tíma til þess að komast að því hver eitraði fyrir honum og vonandi finna móteitur. Mölurinn veit auðvitað hver eitraði fyrir honum, en seinni hluti myndarinnar er samt áþekkur D.O.A. að því leyti að hann er að leita að Sniglinum til þess að hefna sín, og að móteitri til þess að bjarga sér.
Samt fannst mér myndinni aðeins fatast flugið þegar á leið. Þó er ég ekki viss hvort hafi átt stærri þátt í því, minnkandi gæði myndarinnar eða þreyta mín. Það verður þó að segjast alveg eins og er að þegar hér var komið í sögu þá var ég orðinn ansi þreyttur. 25 myndir á 9 dögum og lítill svefn þar á milli geta haft þau áhrif.

RIFF: Dagur 8

Í dag fór ég á Villta tarfinn, Lengstu leiðina og Tulpan.

Meira um það síðar...

fimmtudagur, 2. október 2008

RIFF: Dagur 7

Í dag fór ég á Rannsóknarmanninn (sem var snilld), Shadow of the Holy Book (sem var frekar slöpp) og Hönnu K (sem var fín). Á meðan á Hönnu K stóð fór ég að óska þess að ég hefði getað sofið út í morgun, því ég átti í mesta basli með að halda mér vakandi, og þó var þetta fín mynd.

A nyomozó eða Rannsóknarmaðurinn
Þessi var mjög góð. Það fyrsta sem mér dettur í hug er að kalla þetta Hitchcock á ungversku. Myndin tvinnar saman góða thriller-fléttu og svartan húmor svo úr verður alveg listileg samsetning. Ég mæli hiklaust með þessari (síðasta sýningin er á laugardagskvöld kl. 8).
Aðalpersónan er meinafræðingurinn Malkáv, sem er alveg ótrúlega svipbrigða- og tilfinningalaus framan af myndinni. Hann lifir tilbreytingarlausu lífi: hann fer í vinnuna, fær sér svo alltaf að borða á sama veitingastaðnum, fer svo yfirleitt í bíó og svo beint heim. Eitt kvöldið kemur hann á veitingastaðinn þegar verið er að loka og verður það einhvern veginn til þess að þjónustustúlkan býður sér með honum í bíó. Að myndinni lokinni skutlar hann stúlkunni heim. Ekkert gerist og hann virðist engan áhuga hafa á henni, en hann segir að hún megi svo sem alveg koma með sér aftur í bíó.
Mamma Malkávs er að deyja úr krabbameini og hann á ekki fyrir meðferðinni sem gæti bjargað henni. Maður sem kallar sig Kýklópann (hann er blindur á öðru auganu) hefur samband við Malkáv og býður honum peninginn sem hann þarf fyrir að drepa mann. Röksemdarfærsla hans er sú að Malkáv sé vanur að sjá blóð og lík, honum vanti pening, og að hann sé á engan hátt tengdur fórnarlambinu og því verði glæpurinn aldrei rakinn til hans (þetta ætti að minna ykkur á Strangers on a Train). Malkáv hugsar sig um í svona tvær sekúndur og slær svo til (jafn svipbrigðalaus og ávallt). Eins og ætla mátti leiðir þetta til snúinnar og spennandi (og á köflum hlægilegrar) atburðarásar. Ég segi ekki meira.

miðvikudagur, 1. október 2008

RIFF: Dagur 6

Í kvöld fór ég á Breakfast with Scot og Mr. Big.

Breakfast with Scot
Þetta gæti verið ein mest "mainstream" mynd hátíðarinnar. Þetta er hugljúf, krúttleg og alveg ótrúlega saklaus mynd um hommapar sem taka að sér lítinn dreng eftir að mamma hans tekur of stóran skammt af eiturlyfjum.
Aðalpersónurnar eru Eric, fyrrverandi íshokkíhetja og núverandi íþróttafréttamaður (sem dreymir um að fara til Reykjavíkur að fylgjast með heimsmeistaramóti unglinga í íshokkí), og Scot Latour, 12 ára munaðarleysingi (eins og Eric orðar það: "He's my boyfriend's brother's dead ex-girlfriend's son") sem er með frekar torræða kynímynd (hann er eins kvenlegur og mögulegt er að hugsa sér).
Úr þessum efnivið hefði vafalítið verið hægt að búa til áleitna, "edgy" mynd, þar sem tekið er á málefnum samkynhneigðra eða hugmyndir okkar um kynímyndir skoðaðar í þaula. En það var ekki gert. Þetta er einfaldlega gamla góða formúlan, fjölskyldumynd sem hefði alveg eins getað verið framleidd af Disney. Það er ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd. Hún á bara ekkert erindi á kvikmyndahátíð - þetta er ágætis spólumynd. Þar að auki líður hún fyrir hræðilegan leik aðalleikarans Tom Cavanagh sem einhverjir muna kannski eftir í hlutverki keilusalarlögfræðingsins Ed í samnefndum þáttum.

Ég hafði heyrt fína hluti um þessa og fór kannski á hana með of háar væntingar. Hún fjallar um áhugavert efni og tekur svo sem ágætlega á því, en mér fannst hún bara ekki nógu vel gerð.
Mr. Big vísar í ákveðna leið sem kanadíska lögreglan (The Royal Canadian Mounties) notar til þess að fá fram játningar í alvarlegum glæpum. Þessi aðferð felst í því að leynilögreglumenn (undercover police officers) skella sér í hlutverk mafíósa eða glæpaforingja (þ.e. Mr. Big) og vingast við þá grunuðu. Síðan flækja þeir hina grunuðu í "skipulagða glæpastarfsemi" og reyna svo að þvinga eða lokka út úr þeim játningar á glæpunum sem þeir eru grunaðir um. Og þetta virkar furðu oft.
Þegar ég segi að þetta virki, þá á ég við að þeir fá fram játningar. Það er ekki þar með sagt að játningarnar séu réttar. Í myndinni eru viðtöl við menn sem játuðu á sig hrikalega glæpi en var síðan sleppt þegar í ljós kom að um falskar játningar var að ræða. Af hverju játuðu þeir þá á sig glæpinn? Þeir óttuðust um líf sitt eða líf fjölskyldu sinnar, eða vildu einfaldlega ganga í augun á glæpaforingjanum. Höfum í huga að hér er um að ræða eitthvað sem þeir telja sig vera að segja undir fjögur augu, þeir eru ekki meðvitað að játa á sig glæpinn. Slíkar játningar, fengnar með þessum hætti, myndu aldrei vera teknar gildar í Bandaríkjunum eða Bretlandi.
Hugsiði ykkur líka kostnaðinn og umstangið við þetta. Svona Mr. Big gildra getur verið marga mánuði í framkvæmd og lögreglumaðurinn "þarf" ávallt að sýnast vera glæpaforingi og lifa samkvæmt því (áfengi, dóp og peningar í stríðum straumum). Sem sagt, lögreglumaðurinn lifir eins og kóngur á meðan á gildrunni stendur. Auk þess hika þeir ekki við að brjóta lögin, bæði til þess að sannfæra hinn grunaða um að þeir séu glæpaforingjar, og líka til þess að flækja hann í eitthvað ef ekki skyldi takast að fá hann til að játa (þeir geta þá alltaf kært hann fyrir glæpina sem hann fremur fyrir Mr. Big).
Þó svo að viðtöl séu tekin við nokkur fórnarlömb þessarar gildru, þá er hún fyrst og fremst um Sebastien Burns, bróður leikstjórans, sem lenti í svona gildru og var fundinn sekur um að hafa myrt foreldra vinar síns. Það að hann skuli hafa verið fundinn sekur er eiginlega alveg ótrúlegt: einu sönnunargögnin gegn honum var játningin sem fékkst með falinni myndavél við afar dularfullar aðstæður; morðið var ekki einu sinni framið í Kanada, en kanadíska lögreglan taldi sig hafa umdæmi því drengirnir hefðu skipulagt morðið í Kanada; drengirnir höfðu verið í bíó á meðan morðið var framið; það fannst ekki blóðdropi á þeim (ekki einu sinni með svona bláu ljósi) þrátt fyrir að morðin hefðu verið sérlega blóðug og hrottaleg; það fannst DNA úr öðrum á staðnum, en það hunsaði lögreglan alveg eftir að hafa sent það í prófun þrisvar.
Leikstjóri myndarinnar er stórasystir Sebastien, Tiffany Burns. Hún er sjónvarpsfréttakona, svona "cold, angular blonde", og kemur ekkert sérstaklega vel fyrir í myndinni. Vissulega tengist efni myndarinnar henni persónulega, en samt fannst mér hún ota sér óþarflega mikið framí. Síðan var ýmislegt sem mér fannst mætti gera betur. Ég held einfaldlega að myndin hefði verið talsvert betri í höndum reyndari leikstjóra sem hefði haldið sig meira til hlés. John Zaritsky hefði t.d. getað gert brilljant mynd úr þessu. Þessi er samt ekkert slöpp, hún bara nær ekki að uppfylla möguleika sína né væntingar mínar.