Suicide Tourist
Fyrir þá sem ekki muna, þá var Terri Schiavo bandarísk kona um fertugt sem var í dái í 15 ár eftir að hafa hlotið alvarlegan heilaskaða í kjölfar hjartastopps. Áður en hún fór í dá hafði hún látið í ljós þær óskir að henni skyldi ekki haldið lifandi við þessar aðstæður, og vildi eiginmaður hennar fara eftir þessum óskum. Foreldrar Teri vildu það hins vegar ekki, og úr varð mikið fjaðrafok þar sem strangkristnir öfgahægrimenn eins og George W Bush lýstu sig andsnúna því að leyfa Terri að deyja (Bush lét meira að segja setja lögbann á það, og það fór að lokum fyrir hæstarétt). Terri var loks leyft að deyja árið 2005.
Þó svo að Zaritsky hafi gert myndina með það í huga að styðja rétt fólks til þess að deyja, þá er ekki hægt að segja að myndin hafi yfirbragð áróðurs eða þrýsti með nokkrum hætti þessari skoðun á áhorfandann. Sögumaður myndarinnar heldur sig alfarið við staðreyndir, m.a. um lagalegu hliðina á þessum málum, án þess að upphefja eða fordæma gjörðir þeirra sem leita til Dignitas eða þeirra sem starfa fyrir Dignitas. Stuðningur við aðstoðað sjálfsmorð kemur aðeins fyrir í málflutningi viðmælendanna sem eru m.a. forstjóri Dignitas og nokkrir starfsmenn, auk þriggja einstaklinga sem hyggjast stytta sér aldur. Myndin er aðeins hlutdræg að því leyti að hún inniheldur ekki viðtöl við andstæðinga aðstoðaðra sjálfsmorða.
Myndin er samt alls ekki einhver köld athugun á þessu fyrirbæri og Dignitas stofnuninni, heldur sjáum við þetta í gegnum reynslu tveggja hjóna. Craig Ewert þjáist af taugahrörnunarsjúkdómi (ALS eða Lou Gehrig's disease) sem leggst á taugar sem senda hreyfiboð, en aðrar taugar haldast heilar, þ.a. viðkomandi heldur áfram að skynja t.d. sársauka. Craig getur ekki lengur hreyft hendurnar og þarf öndunarvél til þess að anda almennilega. Frá því að hann greindist með sjúkdóminn hefur hann verið að velta fyrir sér sjálfsmorði og nú finnst honum kominn tími til. Ein ástæða þess að hann vill gera þetta núna er að sjálfsmorðsaðferðin hjá Dignitas felst í því að drekka svefnlyf, en næsta skrefið í sjúkdómnum mun líklegast gera honum ókleift að kyngja. Craig fer því til Sviss ásamt konu sinni, Mary, en þau hafa verið gift í 37 ár og virðast enn nokkuð ástfangin.
George hefur fengið þrjú hjartaáföll, og lýsir sjálfum sér sem bíl með fjögurra strokka vél þar sem aðeins einn strokkurinn virkar. Hann er enn nokkuð sjálfbjarga en er þó veikburða og kvartar undan því að hann getur ekki lengur spilað tennis eða golf eða stundað kynlíf. Hann óttast líka mjög að eitthvað gæti komið fyrir sem gerði hann ósjálfbjarga og treystir sér ekki til þess að lifa við svoleiðis aðstæður. Þess vegna ætlar hann, eins og hann orðar það, að "fara" á meðan hann er ennþá sæmilega heilbrigður og hamingjusamur. Ekki nóg með það, heldur vill konan hans, Betty, ekki lifa án hans og ætlar að deyja með honum, þrátt fyrir að hún sé við hestaheilsu. Þau virðast líka vera mjög ástfangin, og raunar virðast þessi tvö hjónabönd svo góð að það liggur við að maður segi myndina vera ástarsögu að hluta.
Mér fannst svolítið áhugavert sem leikstjóri A Beautiful Tragedy sagði á Q&A eftir þá mynd. Hann sagði að það væri ekki hægt að gera vonda heimildarmynd, og ef þú gerðir vonda heimildarmynd þá værirðu einfaldlega ekki nógu nálægt viðfangsefninu. Það er engin hætta á því í þessari mynd því við förum mjög nærri fólkinu í myndinni, sérstaklega George og Betty.
Craig og George og Betty bíða mismunandi örlög í Sviss. Læknirinn sem skrifar upp á svefnlyfið sem er notað vill ekki skrifa upp á lyf handa þeim vegna þess að hvorugt þeirra er nógu veikt (ekki einu sinni George). Yfirmaður Dignitas styður þeirra ákvörðun, og samkvæmt svissneskum lögum er ekki gerð nein krafa um sjúkdóm eða annað til þess að aðstoðað sjálfsmorð sé löglegt, en eftir mikla neikvæða umfjöllun um stofnunina hefur lögreglan lagt hart að læknum að skrifa ekki upp á lyf fyrir aðstoðað sjálfsmorð nema viðkomandi sé alvarlega veikur. Þau verða því að snúa heim aftur og George talar um að nú muni hann kaupa sér byssu og æfa sig í að nota hana svo hann geti sjálfur svipt sig lífi. George og Betty standa fast á sínu og eru ákveðin í að framkvæma þetta. Þau ætla að fremja sjálfsmorð á brúðkaupsdaginn sinn. Í lok myndar kemur fram að Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að allir eigi rétt til þess að deyja, burtséð frá aldri og heilsu. Þetta veitir George og Betty nokkra von um að þau geti notað þjónustu Dignitas og þurfi ekki að gera þetta á einhvern subbulegan hátt.
Craig þykir hins vegar nógu veikur til þess að þiggja þjónustuna. Hann fer til Sviss ásamt konu sinni og drekkur lyfið við undirleik 9. simfóníu Beethovens. Allt er sýnt, bæði þegar hann drekkur eitrið og þegar öndunartækið slekkur á sér. Þetta er ekki auðvelt á að horfa, en ég er ekki viss um að ég hefði þolað að horfa upp á George og Betty stytta sér aldur.
Hér er smá brot úr myndinni og viðtal við John Zaritsky:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli