fimmtudagur, 23. október 2008

Netkosning: Kvikmynd næstu viku

Á hægri hönd má sjá netkosningu um það hvað heimildamynd við horfum á næsta föstudag, 31. okt. Ég mun skrifa nokkrar línur um myndirnar á næstu dögum, en þetta eiga allt að vera mjög góðar myndir.

51 Birch Street
Heimildamyndagerðarmaðurinn Doug Block hyggst nota myndavélina sína til þess að bæta tengsl sín við foreldra sína. Þegar móðir hans deyr og faðirinn tekur saman við ritarann sinn nánast áður en hún er komin í gröfina vakna ýmis konar spurningar hjá Doug. Hversu vel þekkir hann foreldra sína?
Roger Ebert fannst þessi ein besta heimildamynd ársins 2004. Fyrir okkur er hún kannski fyrst og fremst áhugaverð vegna efnisins: kvikmyndagerðarmaðurinn er venjulegur gaur sem byrjar að gera mynd um fjölskyldu sína, sem hann telur vera bara venjulega fjölskyldu, síðan gjörbreytast hlutirnir. Það er hægt að gera góða heimildamynd um hvað sem er.

Titicut Follies
Frederick Wiseman er einn virtasti heimildamyndagerðarmaður samtímans. Hann tekur ávallt fyrir einhverja menningarkima og fylgist með þeim á mjög hlutlausan hátt. Í Titicut Follies, fyrstu mynd sinni, er hann fluga á vegg í geðvekrahæli, og við fylgjumst með daglegu lífi geðsjúklinganna og hvernig farið er með þá.
Wiseman hefur m.a. gert myndir um blinda (Blind), herþjálfun (Basic Training sem Kubrick leitaði mikið til fyrir gerð Full Metal Jacket), menntaskólanema (High School og High School II), heimilisofbeldi (Domestic Violence og Domestic Violence 2) og margt, margt fleira.

Harlan County USA
Mynd um verkfall námuverkamanna í Kentucky, þar sem námufyrirtækið beitti m.a. vopnavaldi gegn verkamönnum (sem er nota bene ekkert nýtt í Bandaríkjunum), og heimildamynda-gerðarmennirnir sættu líkamsárásum og voru í lífshættu.
Þessi er algjör klassík og skylduáhorf hjá öllum sem hafa áhuga á heimildamyndum (ef ég myndi kjósa myndi ég líkast til kjósa hana).

Salesman
Áhrifamikil mynd um raunir sölumanna sem ganga hús úr húsi, og það hvernig það tekur á sálina að verða stöðugt hafnað. Svona "real-life" Willy Loman persónur, ég ætti eiginlega að sýna þessa þegar ég kenni Death of a Salesman.
Maysles-bræður, sem gerðu þessa, eru meðal virtustu heimildamyndagerðarmanna allra tíma og gerðu meðal annars Rolling Stones-myndina Gimme Shelter. Myndir þeirra eru gott dæmi um cinema verité. Albert Maysles kom einmitt til Íslands í vor á heimildamyndahátíðina Skjaldborg á Patreksfirði (ég vildi óska að ég hefði komist, en þetta var í miðjum vorprófunum).

Don't Look Back
Fræg heimildamynd D.A. Pennebaker um tónleikaferðalag Bob Dylan um Bretlandseyjar 1965, þegar hann byrjaði að færa sig frá þjóðlagatónlist og yfir í rokkið. Það var ekki öllum skemmt, og hann var oft kallaður svikari af áhorfendum.
D.A. Pennebaker er eitt allra stærsta nafnið í heimildamyndagerð, og einn af frumkvöðlum cinema verité stílsins og einn sá fyrsti sem notaði handheldar 16mm vélar í heimildamyndagerð.

Gates of Heaven
Fyrsta mynd Errol Morris. Fjallar um gæludýrakirkjugarð í Kaliforníu og fólkið sem grefur dýrin sín þar. Hún byrjar sem athugun á furðufuglum sem borga þúsundir dollara fyrir að grafa gæludýrin sín, en öðlast mun meiri dýpt en nokkurn hefði grunað.
Roger Ebert telur þessa með betri myndum allra tíma.

Taxi to the Dark Side
Vann Óskarinn 2008 fyrir bestu heimildamynd. Fjallar um pyntingaraðferðir Bandaríkjamanna í Afganistan, Írak og Gitmo, og einbeitir sér helst að afgönskum leigubílstjóra sem var pyntaður og drepinn árið 2002.

Triumph des Willens
Tímalaus klassík og siðlaus viðbjóður.
Listilega vel gerð upphafning Leni Riefenstahl á þriðja ríkinu er erfið áhorfs en jafnframt skólabókardæmi í gerð áróðursmynda.
Það sem truflar mig alltaf mest með þessa og Olympia er hvernig Riefenstahl formgerir mannslíkamann, með þeim hætti að fólk er brotið niður í hluta og hlutarnir verða abstrakt form. Þetta er nokkuð sem hún gerði allan sinn feril, t.d. sem ljósmyndari í Afríku, en þegar maður sér þetta í tengslum við þriðja ríkið, sem gerði nokkuð mikið af því að breyta lifandi fólki í eitthvað allt annað, þá stendur manni ekki á sama.

Vernon, Florida
Önnur eftir Errol Morris. Ég hefði eiginlega átt að velja bara eina, en gat ekki valið á milli.
Morris var í smábænum Vernon að rannsaka ákveðna hefð meðal bæjarbúa að aflima sig í "slysi" fyrir tryggingarpeninginn, en á endanum kom þetta hvergi fram í myndinni, heldur fjallar hún um furðulega íbúa þessa bæjar á mun almennari hátt.

Baraka
Í nýlegri grein Roger Eberts leggur hann til að verði geimfar sent út í geim með gögn um mannkynið, og það mætti bara velja eina bíómynd, þá ætti þessi að verða fyrir valinu.
Þetta er ótrúlega flott mynd um samspil manns og náttúru og hin ýmsu form sem mannlegt samfélag og náttúra geta tekið á sig (það eru myndir frá öllum heimshornum). Eintakið mitt er í High Definition, og þetta er mynd þar sem það skiptir máli.

Engin ummæli: