föstudagur, 3. október 2008

RIFF: Dagur 9

Í dag fór ég á "íslensku" stuttmyndirnar, A Beautiful Tragedy og Zift.

"Íslensku" stuttmyndirnar
Í fyrsta lagi þá finnst mér soldið frjálslega farið með orðið "íslenskar" í titli þessarar sýningar. Á þessari sýningu voru sýndar fimm stuttmyndir, þar af þrjár sem ég gæti með góðri samvisku kallað íslenskar.
Naglinn er stórskemmtileg mynd í leikstjórn Benedikts Erlingssonar um forsætisráðherra sem fær nagla í hausinn þannig að hann verður fyrir skemmdum á fremra heilablaði og breytist í nánast hömlulaust óargardýr (sem hljómar kannski ekkert svo illa þessa dagana).
Smáfuglar er flott mynd sem vekur upp spurningar. Hún er um hóp unglinga sem fer á djammið með sér eldra fólki og reynast hálf bjargarlausir við þessar aðstæður. Það er eiginlega ekki hægt að segja meira um hana án þess að fara að tala um endann. Þetta var líka eina myndin sem var sýnd af filmu, og Rúnar leikstjóri skammaðist sín soldið fyrir það að filmueintakið var víst eitthvað "workprint", þ.a. það var vel grainy og rispað. Hins vegar er filman orðin svo rómantíseruð að eftir fjórar stuttmyndir í misjöfnum stafrænum gæðum var virkilega skemmtilegt að fá mynd á filmu þar sem það fór ekkert framhjá neinum að um filmu væri að ræða.
Þessar tvær voru langbestar, hinar voru talsvert miklu síðri.
Harmsaga var flott (eða hefði verið það hefði hún verið sýnd af filmu en ekki lélegri stafrænni yfirfærslu) en svo ekki söguna meir. Hún hafði ekkert nema lúkkið, og ég man ekki eftir mörgum myndum með slappari söguþræði.The Emperor er bandarísk mynd eftir íslenskan leikstjóra. Þetta er soldið heillandi skólamynd eftir Þorbjörgu Jónsdóttir sem stundar nám við CalArts. Fyrir unnanda þýska expressjónismans var þetta skemmtileg mynd, enda leitar hún mikið þangað með útlitið. Þessi mynd er þögul, svart-hvít og mikið stílfærð. Sagan er aukaatriði.
Varmints getur engan vegin talist íslensk. Eini Íslendingurinn sem kemur nálægt þessari mynd er Jóhann Jóhannsson sem semur tónlistina. Þetta er tölvuteiknuð mynd, og útlitið er svo sem ágætt, en efnið er fáránlegt. Þetta er alveg ótrúlega illskiljanleg allegóría um mengun og gróðurhúsaáhrifin og eitthvað þannig. Ég get ekki sagt meira af þeirri einföldu ástæðu að ég skildi ekki meira en það. Fáránleg mynd.
Zift
Ansi skemmtilegt "homage" til noir-myndanna.
Í upphafi myndar er Mölurinn (Moth) látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í 12 ár (held ég) fyrir morð sem hann framdi ekki. Hann var samt viðriðinn morðið sem var framið í ráni sem hann tók þátt í ásamt kærustu sinni, Beiðunni (Mantis), og félaga sínum, Sniglinum (Slug).
Myndin samanstendur annars vegar af atburðarásinni sólarhringinn eftir að honum er sleppt úr fangelsi, og hins vegar af röð endurlita (flashback) sem rekja sögu hans fram að því.
Þegar Mölnum er sleppt úr haldi bíða hans fyrir utan fangelsið handbendi Snigilsins sem ræna honum vegna þess að þeir halda að hann viti um góssið úr ráninu forðum (sem var svartur demantur). Þeir pynta hann og eitra loks fyrir honum með hægvirku eitri til þess að fá úr honum upplýsingarnar, en hann segir þeim ekki neitt.
Hér er komin skemmtileg vísun í klassíska noir-mynd, D.O.A., sem er einmitt um mann sem var eitrað fyrir og hefur ákveðið langan tíma til þess að komast að því hver eitraði fyrir honum og vonandi finna móteitur. Mölurinn veit auðvitað hver eitraði fyrir honum, en seinni hluti myndarinnar er samt áþekkur D.O.A. að því leyti að hann er að leita að Sniglinum til þess að hefna sín, og að móteitri til þess að bjarga sér.
Samt fannst mér myndinni aðeins fatast flugið þegar á leið. Þó er ég ekki viss hvort hafi átt stærri þátt í því, minnkandi gæði myndarinnar eða þreyta mín. Það verður þó að segjast alveg eins og er að þegar hér var komið í sögu þá var ég orðinn ansi þreyttur. 25 myndir á 9 dögum og lítill svefn þar á milli geta haft þau áhrif.

Engin ummæli: