Breakfast with Scot
Aðalpersónurnar eru Eric, fyrrverandi íshokkíhetja og núverandi íþróttafréttamaður (sem dreymir um að fara til Reykjavíkur að fylgjast með heimsmeistaramóti unglinga í íshokkí), og Scot Latour, 12 ára munaðarleysingi (eins og Eric orðar það: "He's my boyfriend's brother's dead ex-girlfriend's son") sem er með frekar torræða kynímynd (hann er eins kvenlegur og mögulegt er að hugsa sér).
Úr þessum efnivið hefði vafalítið verið hægt að búa til áleitna, "edgy" mynd, þar sem tekið er á málefnum samkynhneigðra eða hugmyndir okkar um kynímyndir skoðaðar í þaula. En það var ekki gert. Þetta er einfaldlega gamla góða formúlan, fjölskyldumynd sem hefði alveg eins getað verið framleidd af Disney. Það er ekki þar með sagt að þetta sé slæm mynd. Hún á bara ekkert erindi á kvikmyndahátíð - þetta er ágætis spólumynd. Þar að auki líður hún fyrir hræðilegan leik aðalleikarans Tom Cavanagh sem einhverjir muna kannski eftir í hlutverki keilusalarlögfræðingsins Ed í samnefndum þáttum.
Ég hafði heyrt fína hluti um þessa og fór kannski á hana með of háar væntingar. Hún fjallar um áhugavert efni og tekur svo sem ágætlega á því, en mér fannst hún bara ekki nógu vel gerð.
Mr. Big vísar í ákveðna leið sem kanadíska lögreglan (The Royal Canadian Mounties) notar til þess að fá fram játningar í alvarlegum glæpum. Þessi aðferð felst í því að leynilögreglumenn (undercover police officers) skella sér í hlutverk mafíósa eða glæpaforingja (þ.e. Mr. Big) og vingast við þá grunuðu. Síðan flækja þeir hina grunuðu í "skipulagða glæpastarfsemi" og reyna svo að þvinga eða lokka út úr þeim játningar á glæpunum sem þeir eru grunaðir um. Og þetta virkar furðu oft.
Þegar ég segi að þetta virki, þá á ég við að þeir fá fram játningar. Það er ekki þar með sagt að játningarnar séu réttar. Í myndinni eru viðtöl við menn sem játuðu á sig hrikalega glæpi en var síðan sleppt þegar í ljós kom að um falskar játningar var að ræða. Af hverju játuðu þeir þá á sig glæpinn? Þeir óttuðust um líf sitt eða líf fjölskyldu sinnar, eða vildu einfaldlega ganga í augun á glæpaforingjanum. Höfum í huga að hér er um að ræða eitthvað sem þeir telja sig vera að segja undir fjögur augu, þeir eru ekki meðvitað að játa á sig glæpinn. Slíkar játningar, fengnar með þessum hætti, myndu aldrei vera teknar gildar í Bandaríkjunum eða Bretlandi.
Hugsiði ykkur líka kostnaðinn og umstangið við þetta. Svona Mr. Big gildra getur verið marga mánuði í framkvæmd og lögreglumaðurinn "þarf" ávallt að sýnast vera glæpaforingi og lifa samkvæmt því (áfengi, dóp og peningar í stríðum straumum). Sem sagt, lögreglumaðurinn lifir eins og kóngur á meðan á gildrunni stendur. Auk þess hika þeir ekki við að brjóta lögin, bæði til þess að sannfæra hinn grunaða um að þeir séu glæpaforingjar, og líka til þess að flækja hann í eitthvað ef ekki skyldi takast að fá hann til að játa (þeir geta þá alltaf kært hann fyrir glæpina sem hann fremur fyrir Mr. Big).
Þó svo að viðtöl séu tekin við nokkur fórnarlömb þessarar gildru, þá er hún fyrst og fremst um Sebastien Burns, bróður leikstjórans, sem lenti í svona gildru og var fundinn sekur um að hafa myrt foreldra vinar síns. Það að hann skuli hafa verið fundinn sekur er eiginlega alveg ótrúlegt: einu sönnunargögnin gegn honum var játningin sem fékkst með falinni myndavél við afar dularfullar aðstæður; morðið var ekki einu sinni framið í Kanada, en kanadíska lögreglan taldi sig hafa umdæmi því drengirnir hefðu skipulagt morðið í Kanada; drengirnir höfðu verið í bíó á meðan morðið var framið; það fannst ekki blóðdropi á þeim (ekki einu sinni með svona bláu ljósi) þrátt fyrir að morðin hefðu verið sérlega blóðug og hrottaleg; það fannst DNA úr öðrum á staðnum, en það hunsaði lögreglan alveg eftir að hafa sent það í prófun þrisvar.
Leikstjóri myndarinnar er stórasystir Sebastien, Tiffany Burns. Hún er sjónvarpsfréttakona, svona "cold, angular blonde", og kemur ekkert sérstaklega vel fyrir í myndinni. Vissulega tengist efni myndarinnar henni persónulega, en samt fannst mér hún ota sér óþarflega mikið framí. Síðan var ýmislegt sem mér fannst mætti gera betur. Ég held einfaldlega að myndin hefði verið talsvert betri í höndum reyndari leikstjóra sem hefði haldið sig meira til hlés. John Zaritsky hefði t.d. getað gert brilljant mynd úr þessu. Þessi er samt ekkert slöpp, hún bara nær ekki að uppfylla möguleika sína né væntingar mínar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli