A nyomozó eða Rannsóknarmaðurinn
Aðalpersónan er meinafræðingurinn Malkáv, sem er alveg ótrúlega svipbrigða- og tilfinningalaus framan af myndinni. Hann lifir tilbreytingarlausu lífi: hann fer í vinnuna, fær sér svo alltaf að borða á sama veitingastaðnum, fer svo yfirleitt í bíó og svo beint heim. Eitt kvöldið kemur hann á veitingastaðinn þegar verið er að loka og verður það einhvern veginn til þess að þjónustustúlkan býður sér með honum í bíó. Að myndinni lokinni skutlar hann stúlkunni heim. Ekkert gerist og hann virðist engan áhuga hafa á henni, en hann segir að hún megi svo sem alveg koma með sér aftur í bíó.
Mamma Malkávs er að deyja úr krabbameini og hann á ekki fyrir meðferðinni sem gæti bjargað henni. Maður sem kallar sig Kýklópann (hann er blindur á öðru auganu) hefur samband við Malkáv og býður honum peninginn sem hann þarf fyrir að drepa mann. Röksemdarfærsla hans er sú að Malkáv sé vanur að sjá blóð og lík, honum vanti pening, og að hann sé á engan hátt tengdur fórnarlambinu og því verði glæpurinn aldrei rakinn til hans (þetta ætti að minna ykkur á Strangers on a Train). Malkáv hugsar sig um í svona tvær sekúndur og slær svo til (jafn svipbrigðalaus og ávallt). Eins og ætla mátti leiðir þetta til snúinnar og spennandi (og á köflum hlægilegrar) atburðarásar. Ég segi ekki meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli