miðvikudagur, 19. desember 2007

David Bordwell hatar Beowulf

Ég hef tekið eftir því að ansi margir í námskeiðinu eru búnir að sjá Beowulf og finnst upplifunin bara ansi mögnuð. Ég er enn ekki búinn að sjá hana, og ef ekki væri fyrir jákvætt umtal hefði ég líklegast afskrifað hana sem eitthvað lélegt gimmick í ætt við Spy Kids 3D og Jaws 3D (sem ég hef hvoruga séð). Núna dauðlangar mig að sjá hana, og ég vona að ég komist á hana áður en hún er tekin úr sýningum... Hún er örugglega í 3D alls staðar þar sem hún er sýnd, er það ekki?

Efni þessarar færslu er samt nokkuð áhugaverð grein á blogginu þeirra David Bordwell og Kristin Thompson, í þetta skipti í formi "samtals" þeirra á milli. Þó svo að lokaniðurstaða þeirra sé ekkert sérstaklega spennandi (þeim fannst myndin vond og animasjónin ömurleg) þá kemur margt áhugavert fram:
  • Myndin kostaði 150 milljónir dollara og er á mörkunum með að ná inn fyrir kostnaði. Það versta er samt að DVD-útgáfan verður ekki í 3D, sem þýðir að tekjur af þeim (og annari sölu eftir bíó-sýningar) verða nær örugglega hlutfallslega minni en gengur og gerist (sem er alveg voðalegt því það er þar sem stúdíóin græða peningana sína).
  • David Bordwell dregur fram skemmtilegar hliðstæður milli nútímans og tímabils í upphafi 6. áratugarins þegar svona "gimmicky" myndir réðu lögum og lofum. Þá var fyrsta holskefla 3D-myndanna, breiðtjaldssýningar hófust, Cinerama fæddist og dó, sverð- og sandala-myndir voru vinsælar, o.s.frv.
  • Bordwell vill meina að nútíma Hollywood-stíll eigi ekki heima í 3D-myndum. Örar klippingar og mikil hreyfing myndavélar séu enn meira truflandi í þrívídd en í tvívídd. Hann er á því að ef kvikmyndagerðarmenn vilji á annað borð gera myndir í 3D (sem hann mælir ekki með) þá verði þeir að finna sér nýjan stíl. Hann segir að þetta sé gert að hluta í Beowulf, en þá aðeins með það að markmiði að beina athygli áhorfandans að þrívíddinni (þ.e. óþarfa hreyfingar myndavélarinnar fram og (sérstaklega) tilbaka í rýminu), og að það eyðileggi frekar myndina en hitt.
  • Thompson ber saman "virtual" myndavélina (þ.e. tölvugerð myndavél sem færist í tölvugerðu rými) í Beowulf og í LOTR. Hún vill meina að hreyfingar þessarar sýndarmyndavélar séu mun smekkvísari í LOTR. Þar gegni þær a.m.k. yfirleitt hlutverki í sögunni. (Þessi sýndarmyndavél var einmitt það sem fór mest í taugarnar á mér í LOTR, þ.a. ef Beowulf er ýktari, þá má búast við því að ég hati hana...)
  • Um animasjónina. Bordwell og Thompson kvarta sáran undan bakgrunnum og líflausum augum persóna, en mest af öllu hata þau hestana. Thompson vill meina að feldurinn á hestunum sé eins og myndin sé gerð fyrir Monsters Inc. (sem einmitt vann markvisst með hár og feld) og að hreyfingar hestanna séu ótrúlega óraunsæjar, eins og það liggi engin raunsæ vöðvabygging að baki. Í samanburði voru öll skrímslin í LOTR hönnuð og animeruð með raunsæja vöðvabyggingu í huga...
Þar sem ég er ekki búinn að sjá myndina, þá get ég ekki tekið afstöðu til þessa. Það virðist þó sem að CGI-fyrirtækið á bak við þessa mynd sé ekki eins langt komið og Pixar eða fyrirtækið hans Peters Jacksons. Enn fremur hlýtur að vera ljóst að svo lengi sem það er svona dýrt að búa til 3D-myndir, og á meðan það er ekki hægt að gefa þær út á DVD í 3D, þá mun þetta form seint borga sig, og þegar öllu er á botninn hvolft þá er það það eina sem skiptir máli hjá baunateljurunum í Hollywood.
Endilega takið ykkur tíma til þess að líta á bloggið hjá Bordwell öðru hvoru. Þetta eru aðgengilegar og oft skemmtilegar greinar. Þar að auki linka þau alltaf í gamlar færslur sem tengjast efninu og það getur verið ansi gaman (og djöfuls tímaþjófur) að skoða áhugaverða linka og sjá hvar maður endar...

þriðjudagur, 18. desember 2007

Mæting og ástundun og jólaeinkunnir

Jæja, ég ætla að bíða með að setja þessar einkunnir hingað inn í bili. Það er óþarfi að vera að birta einkunnir einstakra nemenda á opinni síðu. En þær eru komnar inn á myschool.

Smá punktur um ástundunareinkunn
Einkunnin mæting og ástundun byggist að miklu leyti á mætingu og þar við bætist algjörlega óræður þáttur sem er samkvæmt minni hentistefnu. Í grunnin virkar það þannig að ef viðkomandi er jákvæður, virkur og lætur virkilega til sín taka í tímum þá fær hann plús - ef hann tekur lítinn þátt í tímum, er neikvæður eða ósýnilegur, þá fær hann mínus.

Einkunnir fyrir hátíðarfærslur og útskýring á jólaeinkunnum

Ég átti víst alltaf eftir að birta einkunnirnar fyrir hátíðarfærslurnar. Set þær inn á myschool.

Það vantar einkunn fyrir Andrés því ég kemst ekki inn á síðuna hans.

Jólaeinkunninn er uppbyggð á eftirfarandi hátt:
Blogg: 35%
Stuttmynd: 25%
Fyrirlestur: 15%
Hátíðarfærslur: 5%
Mæting og ástundun: 20%

Munið svo að þessi einkunn hefur EKKERT endanlegt gildi, heldur er þess einfaldlega krafist að þið fáið jólaeinkunn (ég veit ekki af hverju). Einkunnin ætti samt að gefa ágæta hugmynd um hver námskeinkunn ykkar yrði ef þið haldið áfram á sömu braut.

laugardagur, 15. desember 2007

Umsagnir um blogg

Enn ein "loksins, loksins" færslan. Þetta tók lengri tíma en ég bjóst við, enda margir búnir að blogga mikið á stuttum tíma og mikið fyrir mig að lesa. Síðan á maður víst líka að vera að fara yfir próf. Og þar að auki keypti ég mér íbúð í nóvember og er búinn að vera að rífa niður innréttingar, brjóta niður veggi, múra og flísaleggja. Þannig að það er búið að vera nóg að gera...

Alexander
Alls 6 færslur
Fínar færslur samt.

2,5

Andrés
Alls 25 færslur (held ég). Einhverjir tæknilegir örðugleikar á síðunni, þ.a. ég er ekki með þetta allt fyrir framan mig.
Yfirleitt mjög fínar færslur.

8,5

Ari
Akkúrat 30 færslur!
Færslur í hæsta gæðaflokki.

10+

Arnar
20 færslur
Allar góðar (nema Family Guy færslan – sem var eiginlega ekki færsla).

8,5

Aron
Bara 5 færslur
En virkilega fínar færslur – verð að taka tillit til þess.

4,0

Árni
22 færslur.
Allt hágæðafærslur og ansi margar sem gætu talist sem fleiri en ein færsla.

9,5

Birkir
Tekur þetta á lokasprettinum, 31 færsla.
Færslurnar uppfylla almennt kröfur og það er flott “touch” að linka í youtube-klipp.
Færslurnar standast samt ekki alveg samanburð við þær allra bestu – eru oft svona lágmarksfærslur, þ.a. mér finnst ég ekki geta gefið alveg fullt hús stiga.

9,5

Bjarki
28 færslur.
Velflestar ansi fínar.

9,5

Björn
31 færsla. Allar vel yfir meðallagi og margar mjög fínar.
10

Daníel
Frekar slappt. Bara tvær færslur!
Þarft að taka þig vel á á vorönn.

1,0

Einar
18 færslur
Flestar mjög fínar og nokkrar sem mætti alveg telja sem fleiri en eina.

8,0

Emil
18 færslur.
Langflestar mjög fínar og stuttmyndirnar eru góð viðbót. Það gæti verið skemmtilegt að fá Húsið inn líka.

7,5

Eyjólfur
30 færslur, öflugur lokasprettur.
Mjög fínar færslur, varla veikan blett að finna.

10

Gísli
30 færslur (eiginlega 29, sú fyrsta telst varla með).
Langflestar uppfylla þær kröfur, en margar gera ekki mikið meira en það. Ágætis-blog, en stenst ekki alveg samanburð við þau bestu.

9,5

Guðmundur
8 færslur.
Allar mjög góðar, færð smá plús fyrir það.

4,5

Hjálmar
Ekki flókin útreikningur hér: 0 færslur = 0,0.
0,0

Hlynur
19 færslur.
Við fyrstu sýn virðast færslurna hálf-mínimalískar, en þegar ég les yfir þetta þá eru þær flestar nokkuð fínar.

7,0

Ingi
30 færslur, þar af 25 fyrstu vikuna í desember. Hlýtur að vera magnaðasti endaspretturinn, a.m.k. hvað færslufjölda varðar.
Færslurnar eru margar ágætar, en sýna samt ekki alveg sama metnað og hjá þeim bestu. Sumar færslurnar eru í styttri kantinum, þótt þær uppfylli kannski alveg kröfurnar.

9,5

Ingólfur
Bloggkóngurinn.
35 færslur, allar í hæsta gæðaflokki og margar alveg hreint epískar.

10+++

Jón
33 færslur. Magnaður lokasprettur, einn sá rosalegasti hvað orðafjölda snertir (Ingi vinnur fyrir færslufjölda).
Færslurnar eru í hæsta gæðaflokki og bara alls ekkert fjarri Bóbó. Þær hefðu mátt koma fyrr svo maður hefði haft tíma til þess að lesa þetta yfir í makindum, en ekki í miðju jólaprófastressinu.
10++

Marinó
25 færslur.
Allar standast kröfur og nokkrar ansi góðar.

9,0

Óskar
30 færslur.
Standast kröfur og eru á köflum mjög fínar.

10

Robert
26 færslur.
Almennt séð fínar færslur og standast kröfur.
Samt ekki eins kjötmiklar og hjá toppunum...

9,0

Svavar
Undanþeginn einkunn en ég hvet hann samt til þess að halda blogginu við, enda er það lykilþáttur í námskeiðinu.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Umsagnir um fyrirlestra

Hér koma loks umsagnirnar um fyrirlestrana. Ég setti nú ekki fram neinar rosalegar kröfur fyrirfram og mér finnst allir fyrirlestrarnir uppfylla þær kröfur sem ég setti fram. Mismunur á einkunnum byggist því að mestu á smáatriðum og smávægilegum gæðamun.


Kurosawa
Bjarki
Hlynur
Robert
Daníel

Ágætur fyrirlestur.
Lengdin í fínu lagi.
Hefði viljað sjá powerpoint.
Hefði helst viljað sjá myndbrot úr Rashomon.
Flott myndbrot úr Seven Samurai.
Nefndu mikið af myndum og leikstjórum sem eru undir áhrifum frá Kurosawa. Vel gert. Hefðu mátt minnast á Star Wars tenginguna.
Margt í greiningunni var gott (t.d. minnst á vestræn áhrif í myndum hans), en sumt var á gráu svæði (það er varla hægt að segja að einfaraminnið hafi verið eitthvað nýtt á tímum Kurosawa).

9,0

Bergman
Eyjólfur
Andrés
Emil

Mjög góður fyrirlestur.
Flott auglýsing fyrir Bergman. Eftir fyrirlesturinn dauðlangaði mig til þess að sjá Bergman mynd, og ég held að það hafi vaknað áhugi á Bergman hjá ansi mörgum.
Æviágripið var mjög fínt.
Margt gott í greiningunni – áhersla á kristin tákn o.s.frv.
Mjög góð klipp.

10

Wilder
Ingólfur
Ari
Marinó
Árni

Fínn fyrirlestur.
Gott æviágrip.
Fín umfjöllun um helstu myndir.
Sýnishornin voru mjög fín.
Flutt með tilþrifum.

9,5

Murnau
Jón
Arnar
Björn

Ágætis fyrirlestur.
Æviágripið var ansi gott fyrir utan furðulega sagnfræðilega vitleysu (ég leyfi mér að efast um að Murnau hafi gert áróðursmyndir fyrir nasista árið 1918).
Umfjöllunin um Nosferatu og Last Laugh var mjög góð.
Mér fannst Sunrise afgreidd einum of fljótt – þetta er almennt talin með bestu myndum þögla tímabilsins og hún fékk sérstök verðlaun á fyrstu óskarsverðlaunahátíðinni.
Fyrirlesturinn var í lengri kantinum (ca. 25 mínútur).
Flott klipp.

9,0

Polanski
Birkir
Óskar
Einar

Fínn fyrirlestur.
Flott æviágrip (enda ansi rosaleg ævi).
Mjög flott klipp úr Fearless Vampire Killers og líka skemmtilegt klipp úr Chinatown.
Blaðlaust en samt fínt flæði. Impressive.

9,5

Truffaut
Hjálmar
Aron
Ingi
Guðmundur

Ágætis fyrirlestur.
Ágætis æviágrip.
Kom inn á feril hans hjá Cahiers du Cinema, sem er enda mjög mikilvægur.
Hefði kannski mátt setja hann betur í sögulegt samhengi, segja t.d. svolítið frá Nouvell vogue (frönsku New Wave) stefnunni og samtímamönnum hans.
Það hefði verið auðveldara að fylgjast með ef við hefðum fengið titlana á myndunum líka á einhverju tungumáli sem við skiljum (ensku, íslensku), þó ekki væri nema á glærunum.
Klippin úr 400 blows voru fín, en ég hefði viljað sjá texta á þeim. Þetta er að vissu leyti mér að kenna (ég sýndi ykkur ekki hvernig má breyta textaskránni til þess að hún passi við svona sýnishorn), en þetta eyðilagði engu að síður svolítið fyrir.
Skemmtilegt klipp úr Shoot the Pianist.

9,0

Fritz Lang
Svavar
Alexander
Gísli

Ágætis fyrirlestur en við þurftum að bíða ansi lengi eftir honum.
Æviágripið og textinn er almennt mjög góður.
Flutningurinn er misgóður.
Sýnishornið úr M var mjög vel valið. Ég hefði líka verið til í að sjá skotið þegar blaðran fer upp í loftið...
Annars fannst mér skotin sérlega skringilega valin. Hverjum finnst sinn fugl fagur og allt það, en að sýna samtalssenu á skrifstofu úr Metropolis fremur en allar þær stórkostlega áhrifamiklu senur sem þar er að finna finnst mér stórfurðulegt.

8,5

mánudagur, 3. desember 2007

Dagskrá vikunnar

Í þessari viku klárum við myndina með Martin Scorsese. Ég var að fatta að það er kennt á föstudaginn, þ.a. við höfum þá tvöfalda tíma bæði á miðvikudag og föstudag.

Umsagnir um fyrirlestra koma von bráðar.

Stuttmyndin þeirra Alexanders, Andrésar og Emils fær fullt hús stiga. Vissulega var hún svolítið ruglingsleg, en hún sýndi mikinn metnað, heilmikla tilraunagleði og gott hyggjuvit. Spegilsenan var mjög "impressive", og það voru fjölmörg glæsileg skot. Það er einmitt um að gera að gera tilraunir - prófa sig áfram með hvað við getum gert með þær græjur sem við höfum.