miðvikudagur, 19. desember 2007

David Bordwell hatar Beowulf

Ég hef tekið eftir því að ansi margir í námskeiðinu eru búnir að sjá Beowulf og finnst upplifunin bara ansi mögnuð. Ég er enn ekki búinn að sjá hana, og ef ekki væri fyrir jákvætt umtal hefði ég líklegast afskrifað hana sem eitthvað lélegt gimmick í ætt við Spy Kids 3D og Jaws 3D (sem ég hef hvoruga séð). Núna dauðlangar mig að sjá hana, og ég vona að ég komist á hana áður en hún er tekin úr sýningum... Hún er örugglega í 3D alls staðar þar sem hún er sýnd, er það ekki?

Efni þessarar færslu er samt nokkuð áhugaverð grein á blogginu þeirra David Bordwell og Kristin Thompson, í þetta skipti í formi "samtals" þeirra á milli. Þó svo að lokaniðurstaða þeirra sé ekkert sérstaklega spennandi (þeim fannst myndin vond og animasjónin ömurleg) þá kemur margt áhugavert fram:
  • Myndin kostaði 150 milljónir dollara og er á mörkunum með að ná inn fyrir kostnaði. Það versta er samt að DVD-útgáfan verður ekki í 3D, sem þýðir að tekjur af þeim (og annari sölu eftir bíó-sýningar) verða nær örugglega hlutfallslega minni en gengur og gerist (sem er alveg voðalegt því það er þar sem stúdíóin græða peningana sína).
  • David Bordwell dregur fram skemmtilegar hliðstæður milli nútímans og tímabils í upphafi 6. áratugarins þegar svona "gimmicky" myndir réðu lögum og lofum. Þá var fyrsta holskefla 3D-myndanna, breiðtjaldssýningar hófust, Cinerama fæddist og dó, sverð- og sandala-myndir voru vinsælar, o.s.frv.
  • Bordwell vill meina að nútíma Hollywood-stíll eigi ekki heima í 3D-myndum. Örar klippingar og mikil hreyfing myndavélar séu enn meira truflandi í þrívídd en í tvívídd. Hann er á því að ef kvikmyndagerðarmenn vilji á annað borð gera myndir í 3D (sem hann mælir ekki með) þá verði þeir að finna sér nýjan stíl. Hann segir að þetta sé gert að hluta í Beowulf, en þá aðeins með það að markmiði að beina athygli áhorfandans að þrívíddinni (þ.e. óþarfa hreyfingar myndavélarinnar fram og (sérstaklega) tilbaka í rýminu), og að það eyðileggi frekar myndina en hitt.
  • Thompson ber saman "virtual" myndavélina (þ.e. tölvugerð myndavél sem færist í tölvugerðu rými) í Beowulf og í LOTR. Hún vill meina að hreyfingar þessarar sýndarmyndavélar séu mun smekkvísari í LOTR. Þar gegni þær a.m.k. yfirleitt hlutverki í sögunni. (Þessi sýndarmyndavél var einmitt það sem fór mest í taugarnar á mér í LOTR, þ.a. ef Beowulf er ýktari, þá má búast við því að ég hati hana...)
  • Um animasjónina. Bordwell og Thompson kvarta sáran undan bakgrunnum og líflausum augum persóna, en mest af öllu hata þau hestana. Thompson vill meina að feldurinn á hestunum sé eins og myndin sé gerð fyrir Monsters Inc. (sem einmitt vann markvisst með hár og feld) og að hreyfingar hestanna séu ótrúlega óraunsæjar, eins og það liggi engin raunsæ vöðvabygging að baki. Í samanburði voru öll skrímslin í LOTR hönnuð og animeruð með raunsæja vöðvabyggingu í huga...
Þar sem ég er ekki búinn að sjá myndina, þá get ég ekki tekið afstöðu til þessa. Það virðist þó sem að CGI-fyrirtækið á bak við þessa mynd sé ekki eins langt komið og Pixar eða fyrirtækið hans Peters Jacksons. Enn fremur hlýtur að vera ljóst að svo lengi sem það er svona dýrt að búa til 3D-myndir, og á meðan það er ekki hægt að gefa þær út á DVD í 3D, þá mun þetta form seint borga sig, og þegar öllu er á botninn hvolft þá er það það eina sem skiptir máli hjá baunateljurunum í Hollywood.
Endilega takið ykkur tíma til þess að líta á bloggið hjá Bordwell öðru hvoru. Þetta eru aðgengilegar og oft skemmtilegar greinar. Þar að auki linka þau alltaf í gamlar færslur sem tengjast efninu og það getur verið ansi gaman (og djöfuls tímaþjófur) að skoða áhugaverða linka og sjá hvar maður endar...

5 ummæli:

Jón sagði...

Skemmtilegt frá því að segja en ég var einmitt búinn að lesa þessa grein. Þar sem ég las þessa þegar ég var nýbúinn að lesa bloggið hans Bóbó og ákveða að fara á myndina þá hætti ég við að fara eftir þessa grein. Nú bíð ég bara spenntur eftir þriðja áliti...

Ingólfur sagði...

Hva, treystiru mér ekki?

Jón sagði...

eru tímar á föstudaginn?

Siggi Palli sagði...

Já. Tvöfaldur tími á morgun.

Nafnlaus sagði...

Ég fer ekkert ofan af því að þetta er mynd sem maður á að sjá.
En þá verður maður líka að sjá hana góðum bíósal með þrívídd og hljóðkerfi. Annars held ég að það sé takmarkað varið í hana.