5. Born Without
Í myndinni kynnumst við José, sem er skemmtilegur karl, duglegur og nokkuð klár. Við kynnumst einnig fjölskyldu hans, en hann á 7 börn. José er alinn upp í fátækt, og sjálfur er hann frekar fátækur, en hann fær nægan pening fyrir spilamennsku sína til þess framfleyta fjölskyldu sinni. José hefur líka leikið í bíómyndum, meðal annars hjá goðsögninni Alejandro Jodorowski, en í myndinni El Topo lék hann handalausan mann sem sparkar í Krists-líkneski (þegar ég skoða imdb síðuna fyrir þessa mynd þá sé ég að José Flores er ekki kreditaður fyrir hlutverk handalausa mannsins, og þá vakna upp spurningar hvort Born Without sé raunveruleg heimildamynd ... við skulum samt leyfa henni að njóta vafans.)
Fyrstu 3/4 myndarinnar kynnumst við José og hann vinnur sér samúð okkar alla. Í lokakafla myndarinnar koma síðan fram upplýsingar sem hneyksla mann algjörlega. Ekki ætla ég að gefa upp hvað það er, heldur láta nægja að benda á vandaða uppbyggingu myndarinnar. Ef þessar upplýsingar hefðu komið fram fyrr hefðu áhorfendur aldrei tekið José í sátt, og útkoman hefði verið mun verri mynd. Niðurstaðan hér er hins vegar góð mynd sem lýsir á raunsæjan og hlýjan hátt lífi José Flores.
6. Mamma er hjá hárgreiðslumanninum
Hiklaust besta mynd hátíðarinnar hingað til.
Myndin fjallar um hóp barna á 7. áratugnum og spannar sumarfríið þeirra, byrjar á síðasta skóladeginum og lýkur á fyrsta skóladeginum. Þó svo að öll börnin í hverfinu séu að einhverju leyti til umfjöllunar þá er er aðallega fylgst með þremur systkinum, Gauvin fjölskyldunni, en aðalpersóna myndarinnar er elsta systkinið, Élise Gauvin, 15 ára stúlka. Hin systkinin eru Coco, sem er svona 13-14 ára og eyðir öllu sumrinu í að smíða kassabíl með sláttuvélarmótor, og Benoit, sem er svona 6-8 ára gamall og virðist vera eitthvað þroskaheftur.
Ég ætla ekki að fara mikið í plottið í myndinni því það er ekki stór þáttur í því af hverju mér fannst hún svona góð. Eins og með svo margar myndir og sögur sem gerast í heimi barna og unglinga þá er fullorðna fólkið meira og minna gagnslaust. Eina fullorðna manneskjan sem eitthvað vit er í er utangarðsmaður, Herra Fluga, en hann er heyrnarlaus og virðist lifa á því að hnýta flugur.
Persónusköpunin í þessari mynd er mjög góð. Vissulega er fullorðna fólkið sjálfhverft og meingallað, en börnin eru frábærir karakterar, hvort sem það er litli ljóshærði strákurinn sem er búinn að bíta það í sig að pabbi hans sé austurrískur prins, eða strákurinn sem er hlaðinn áhyggjum og þarf að gæta þunglyndrar móður sinnar. Leikur barnanna er líka frábær, sérílagi stelpan sem lék Elise. Þetta er einfaldlega frábær mynd sem heldur manni í sögunni allan tímann. Ég var það niðursokkinn í söguna að ég get lítið talað um stíl, tökur eða þess háttar. Það eina sem ég get sagt er að myndin var mjög falleg. Þið megið ekki láta þessa framhjá ykkur fara.
7. Íslenskar stuttmyndir 1
Þessi stuttmyndapakki var ekkert sérstakur. Það voru 5 stuttmyndir, ein frekar slöpp ("Krummafótur"), þrjár allt í lagi myndir ("Njálsgata", "Ég elska þig" og "Sykurmoli") og loks ein frekar góð ("Herramenn").
"Njálsgata" var ágætlega gerð mynd um sambandsvandræði sem af einhverjum undarlegum orsökum var látin gerast árið 1996.
"Ég elska þig" fannst mér hallærislega artí. Ekkert sérstaklega varið í hana, en hún var sæmilega flott á köflum og nokkuð vönduð. Eitt móment fannst mér þó mjög "cheap", þegar ein lína er endurtekin í voice-over.
"Herramenn" var bráðskemmtileg. Hún er um þrjá unga menn sem koma saman og segja hvor öðrum sögur. Hún er að miklu leyti spunnin og stíllinn á henni er ansi skemmtilegur, en fyrst og fremst eru það samskipti mannanna og sögurnar sem þeir segja sem halda myndinni uppi. Ég get alveg mælt með þessari.
Inn á milli stuttmynda voru svokallaðar "hljóðmyndir" (asnalegt nafn) sem voru í eins og heimildamyndir nema bara með hljóði (s.s. engin mynd og þess vegna ekki "hljóðmyndir"). Þetta voru fjórar "myndir", en það var í raun bara sú síðasta sem var eitthvað skemmtileg. En þetta er samt skemmtilegt form.
1 ummæli:
Ég ætla á Icelandic Shorts 1 og 2 ... var það ekkert gaman?
Skrifa ummæli