miðvikudagur, 23. september 2009

RIFF '09: Dagur 6

Í dag fór ég á tvær sýningar (ég veit, ég veit - engin frammistaða): Eamon og The Firemen's Ball. Báðar voru stórskemmtilegar. Auk þess fór ég á masterclassa með Milos Forman og spjallfund með fimm leikstjórum í hádeginu.

20. Eamon
Þessi fjallar um skrýtna litla fjölskyldu. Eamon er 6 ára drengur sem sefur uppí hjá mömmu sinni og breytist í skrímsli ef hann borðar sykur. Hann er vel leikinn og skemmtilegur karakter. Segja má að foreldrar hans séu ekki mikið þroskaðri en hann. Mamman, Mary, er atvinnulaus, og þegar það kemur frí í skólanum hjá Eamon getur hún ekki hugsað sér að sjá um hann allan daginn og reynir að pranga honum upp á ömmu sína. Á hinn bóginn virðist hún hvetja Eamon til þess að sofa uppí, fyrst og fremst til þess að þurfa ekki að sofa hjá pabbanum, Daniel, sem hagar sér ótrúlega barnalega í myndinni. Þegar amman vill ekki taka við barnabarninu fer fjölskyldan á írska sólarströnd í frí.
Í byrjun myndar er áherslan lögð á hversu erfiður Eamon er, og maður vorkennir foreldrunum að eiga svona erfitt barn. Þegar á líður fer samkenndin hins vegar að flytjast yfir á Eamon þegar við áttum okkur á hversu barnaleg, eigingjörn og misheppnuð foreldrar hans eru.
Endirinn er svo alveg fáránlegur.
Á heildina litið er þetta falleg, fyndin og á köflum átakanleg mynd um erfitt barn og meingallaða foreldra þess. Mæli alveg með henni.

21. The Firemen's Ball
Síðasta myndin sem Milos Forman gerði í Tékkóslóvakíu. Það er vert að minnast á það að hann skrifaði handritið með Ivan Passer, sem sjálfur hefur leikstýrt mörgum fínum myndum.
Myndin gerist í litlu fjallaþorpi þar sem slökkviliðið blæs til veislu. Í veislunni er drukkið og dansað, það er fegurðarsamkeppni (Ungfrú slökkviliðsmaður) og tombóla. Auk þess ætla slökkviliðsmennirnir að færa fyrrverandi slökkviliðsstjóranum gjöf til þess að þakka fyrir vel unnin störf.
Myndin fjallar svo um það hvernig slökkviliðsmönnunum tekst að klúðra öllu saman, yfirleitt á mjög spaugilegan hátt. Það sem mér finnst einna skemmtilegast við þessa mynd er að hún er alveg drepfyndin ærslagamanmynd, en á sama tíma er hún ádeila á þjóðfélagsskipanina, þar sem yfirvaldið (slökkviliðsmennirnir) fara um með yfirgangi og spillingu og eyðileggja fyrir öðrum. Til dæmis þótti mér mjög góð senan þar sem kviknað hefur í húsi nálægt húsinu þar sem ballið er haldið, og slökkviliðsmennirnir standa ráðþrota og gera akkúrat ekkert gagn. Þetta þótti mér skemmtileg myndlíking um yfirvaldið sem er með puttana í alls konar hlutum sem koma því ekkert við (ballið), og gegna um leið mun verr því hlutverki sem þeim er ætlað.
Eitt þótt mér leiðinlegt við þessa sýningu, en það var að myndin var sýnd af DVD, sem er frekar lélegt. DVD er ekki bara með margfalt verri upplausn en filma, heldur er líka mynd-upplýsingum þjappað þannig að gæðin eru verri en t.d. Digibeta. Þegar myndin er komin á stórt tjald þá sér maður hvílíkur munur þetta er. Maður vill samt ekki skammast of mikið yfir þessu, enda ekki auðvelt verkefni að redda sýningareintökum af 100 bíómyndum, og það er alltaf eitthvað sem klúðrast. Mér skilst að Firemen's Ball hafi átt að vera sýnd af filmu, en að hún hafi einfaldlega ekki borist til landsins. Eins skilst mér að Deadgirl (í Miðnæturbíói 1) hafi átt að vera sýnd af filmu, en að hátíðin hafi fengið myndina Dead Girl í staðinn, og því hafi hún verið sýnd af Digibetu.

Spjallfundur
Í hádeginu (milli 11 og 12) fór ég á spjallfund með nokkrum leikstjórum á Hotel Plaza (við Ingólfstorg). Þarna voru mættir 7 leikstjórar, og þetta virkaði þannig að þeir svöruðu spurningum og töluðu sín á milli, og það kom margt mjög fróðlegt fram. Til dæmis var mjög gaman að hlusta á Cory McAbee (leikstjóra American Astronaut) og fleiri tala um hvernig það er að búa til kómedíur, og mismunandi reynslu leikstjóra af kómedíum og drama (leikstjóri kómedíu veit strax hvernig til tókst, því hann heyrir hlátur áhorfenda, en leikstjóri dramatískrar myndar veit kannski ekki fyrr en löngu eftir á hvort myndin hefur tilætluð áhrif).
Ég mæli með því að sem flestir kíki á síðasta spjallfundinn á morgun (fimmtudag) kl. 11 á Hotel Plaza. Ég veit ekki alveg hversu mikið er að marka auglýsta dagskrá (það voru bara 3 af 5 auglýstum leikstjórum í gær, en í staðinn komu aðrir sem voru ekkert síðri), en á morgun eiga að vera: Iben Hjejle (formaður dómnefndar og kona Caspers í Klovn), Joao Pedro Rodriguez (leikstjóri To Die Like a Man, Two Drifters og The Phantom), Jesse Hartman (leikstjóri House of Satisfaction) og Bill Rose (leikstjóri This Dust of Words). Ég ætla að kíkja á House of Satisfaction í kvöld á eftir Cuckoo's Nest og það verður því gaman að heyra í Jesse Hartman. Eins hef ég heyrt mjög góða hluti af This Dust of Words.

Milos Forman
Milos Forman var með svokallaðan masterklassa (ég veit ekki alveg hvað það þýðir, þetta var eiginlega bara spurningatími) kl. 15 í gær, og fór vítt og breitt og talaði um ferilinn bæði í Tékkóslóvakíu og Hollywood. Hann er bráðskemmtilegur karl, og það kom margt áhugavert og skemmtilegt fram. Mér þótti soldið leiðinlegt að það skyldu ekki mæta nema tveir nemendur úr kvikmyndagerðinni, því þetta er klárlega toppurinn í viðburðunum á hátíðinni.
Þessir masterklassar eru oft mjög fróðlegir, og ég mæli eindregið með að þið kíkið á a.m.k. einn. Nú eru eftir tveir sem þið gætuð komist á: Spjall með Jessicu Hausner (sem gerði Lourdes) í Norræna húsinu kl. 15 á föstudaginn, og svo masterklassi með Yorgos Lanthimos (sem gerði Dogtooth) í Norræna húsinu kl. 9:30 á laugardaginn. Ég ætla a.m.k. á Yorgos, og þeir sem mæta þangað fá klárlega stóran plús í kladdann fyrir að vakna svona snemma á laugardagsmorgni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er Esjuganga á laugardaginn. Hvernig eigum við að vera á tveimur stöðum í einu?

Siggi Palli sagði...

Þið getið þá farið á spjallið á föstudag kl. 15, eða fórnað hádegishléinu á morgun (fimmtudag) og farið á spjallfundinn, eða á deus ex cinema dagskrána í dómkirkjunni annað kvöld (fimmtudag kl. 20:30. Þá mæli ég einnig eindregið með kvikmyndatónleikunum á Bakkus á morgun, þar sem Malneirophrena mun leika undir kvikmynd eftir Tod Browning um handalausan hnífakastara!