fimmtudagur, 4. október 2007

RIFF: Dagur 6

Ég náði ekki að skrifa færslu í gær, þannig að hún kemur hér.
Í gær sá ég þrjár myndir: Control (Anton Corbijn), Andlit fíkjutrésins (Kaori Momoi) og Bleikur (Alexandros Voulgaris).

Control (Anton Corbijn)
Mögnuð mynd með frábærri tónlist (auðvitað). Myndin fjallar um líf Ian Curtis, söngvara Joy Division, frá því þegar hann hittir konuna sína og þangað til hann fremur sjálfsmorð, 23 ára gamall (eftir að hafa horft á Stroszek eftir Werner Herzog (mögnuð mynd)).
Persóna Curtis er áhugaverð og trúverðug, vel leikin af hinum unga Sam Riley, sem hefur ekki leikið svona stórt hlutverk áður. Samantha Morton er mögnuð í hlutverki eiginkonunnar. Hún er reyndar alltaf góð.
Myndin er líka mjög flott. Hún er afskaplega fallega svart-hvít, hár kontrast og nánast silfurglampi á ljósum svæðum. Mjög flott áferð.
Ég verð að nefna tónlistina aftur. Það er ekki nóg með að myndin inniheldur tónlist Joy Division, heldur eru líka mjög góð lög með David Bowie og Iggy Pop. Mig hefði helst langað að fara beint heim og skella Joy Division á fóninn þegar myndinni lauk. Ég held ég fari rétt með að Sam Riley syngi sjálfur Joy Division lögin í myndinni. Hvort sem það er rétt eða ekki, þá er flutningurinn almennt mjög fínn.
Ef þið hafið einhvern áhuga á tónlist eða kvikmyndum þá skulið þið ekki missa af þessari.

Andlit fíkjutrésins (Kaori Momoi)
Skrýtin, skrýtin mynd. En samt skemmtileg.
Hún er um fjölskyldu. Fjölskyldufaðirinn, sem er smiður eða pípari og mjög skemmtilegur karakter, hverfur af heimilinu svo hann geti lappað upp á eitthvað röravirki sem hann byrjaði á fyrir 20 árum en var aldrei klárað. Nú á nefnilega að hefja vinnu aftur á þessari byggingu, og hann er hræddur um að vera handtekinn eða missa mannorðið ef fólk sér hvað hann fúskaði mikið þegar hann gerði þetta.
Sagan skiptir samt ekki miklu máli, og er raunar óskiljanleg á köflum. Hugsið ykkur David Lynch mynd, nema hvað hún er ofboðslega krúttleg og litrík. Bestu senurnar eru yfir matarborðinu, og fjölskyldufaðirinn er skemmtilegasti karakterinn, grófur og fyndinn. Í þessum senum er hann yfirleitt myndaður með mjög ýktri víðlinsu, þannig að hann verður enn kómískari.
Það er margt skemmtilegt í þessari mynd, en það er enginn raunverulegur söguþráður. Þetta eru í raun margar mismunandi sögur og samsafn af senum, nema alltaf með sömu persónunum. Myndin festist svolítið oft í rosalega flottum skotum sem hafa ekkert hlutverk í myndinni, þ.a. þetta er langt frá því að vera fullkomin mynd, og maður verður stundum svolítið óþolinmóður gagnvart henni. En á heildina er hún bara nokkuð góð.

Bleikur (Alexandros Voulgaris)
Þessi fékk frekar slakan dóm í Mogganum, og ég fór því ekki með mjög háar væntingar. Mér fannst hún bara nokkuð góð. Hún er vissulega full af artfarti og listrænni sjálfsfróun, en hún hittir einhvern veginn inn á einmitt þá týpu (eða eina af þeim týpum) af artfarti sem ég fíla.
Plottið er ekkert sérstaklega áhugavert. Aðalpersónan er kvikmyndagerðarmaður og tónlistarmaður og óttalegur vælukjói. Mamma hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var ca. 10 ára, og hann vorkennir sjálfum sér alveg voðalega yfir því. Það er voice-over frásögn sem á að vera bréf sem hann sendir til mömmu sinnar. Hann er að gera heimildarmynd og hittir 11 ára úkraínska stelpu sem verður besti vinur hans (hann er um þrítugt). Enginn virðist neitt sérstaklega hissa á þessu - hann fer með henni í göngutúra og eyðir talsverðum tíma einn með henni í herberginu hennar. Hvíti fíllin í herberginu er spurningin hvort það sé eða verði eitthvað kynferðislegt á milli þeirra, og í lokasenunni eru þau að fara að kyssast (en það er klippt í credits áður en varir þeirra mætast).
Dæmi um artfart í myndinni:
1) aðalpersónan rakar af sér skeggið og snyrtir hár sitt, en það er sýnt með stop-motion þannig að það lítur næstum því út fyrir að hann strjúki skeggið burt. Mjög töff.
2) establishing skot af húsum eru oftar en ekki af lítt sannfærandi módelum, ekki alvöru húsum. Fyrir utan eitt skot sem hefði þurft að vera mjög flókið kranaskot ef um alvöru hús hefði verið að ræða, þá skil ég ekki alveg tilganginn með þessu. Þetta samt soldið kúl.
3.) í lokaskotinu, þar sem aðalpersónan er alveg að fara að kyssa stúlkuna, þá sitja þau í prófíl fyrir framan fjólubláan vegg, og á meðan á senunni stendur er stöðugt verið að sletta málningu eða eitthvað á vegginn þannig að hann verður smám saman svartur. Er bara ansi flott.

Sem sagt, ein mögnuð mynd og tvær allt í lagi.

Engin ummæli: