Ávallt, aldrei og hvar sem er (Antonin Svoboda)
Ég bjóst svo sem ekki við miklu. Aðalástæðan fyrir því að ég fór á þessa mynd var að ég var forvitinn hvort það væri hægt að halda dampi í 90 mínútur og gera góða mynd þegar aðalpersónurnar eru fastar í bíl megnið af myndinni. Eftir að hafa séð þessa mynd myndi ég segja að svarið væri "nei", en það er ekkert rosalega afgerandi "nei".
Fyrir það fyrsta þá er mynd um menn sem eru fastir í bíl ekki gott bíó. Þetta er hugmynd sem gæti virkað vel í skáldsögu, þar sem er hægt að kafa í hugsanir persóna o.s.frv., en þetta virkar illa í bíómynd, m.a. vegna þess að fátt virkar verr á hvíta tjaldinu en kyrrstæður bíll. Það er einfaldlega erfitt að ná góðri mynd af fólki sem er inni í bíl. Megnið af skotunum eru tekin fyrir utan bílinn, þ.a. áhorfandinn upplifir aldrei almennilega innilokunarkenndina sem persónur finna. Þetta er konsept sem virkar bara illa í kvikmynd.
Í öðru lagi þá hlýtur mynd af þessu tagi að standa og falla með persónum sínum, þ.e. mönnunum sem eru fastir í bílnum. Enginn þessara þriggja manna er áhugaverður. Raunar eru þetta alveg grútleiðinlegar persónur. Sem hafði það að verkum að á kafla nennti ég varla á horfa á myndina. Raunar má líta þannig á þetta að með þessum hrikalega leiðinlegu persónum hafi leikstjóranum þó tekist að gefa áhorfandanum nasasjón af því hvernig það er að vera fastur í bíl með fólki sem manni líkar ekki við. Ég veit að ég hefði klikkast ef ég hefði verið fastur í bíl með þessum þremur...
Stundum finnst mér eins og myndir komist á hátíðir bara vegna þess að þær eru erlendar. Ég efast stórlega um að við hefðum einu sinni heyrt um þessa mynd ef hún væri bandarísk. Vissulega býr Hollywood til heilan haug af rusli, og þessi mynd er ekki beinlínis rusl, en maður hlýtur að spyrja sig hvaða erindi hún á á RIFF. Ég upplifði þetta meira eins og svona dæmigerða sunnudagsmynd á RÚV.
Við nánari eftirgrennslan sé ég að ég sá fyrri mynd sama leikstjóra sem var sýnd á hátíðinni 2005. Hún var talsvert betri en þessi, en samt ekkert sérstök. Ef ég hefði fattað að þetta væri sami maður, hefði ég líklegast ekki farið á þessa.
4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar (Christian Mungiu)
Enn og aftur bjóst ég ekki við neitt sérstaklega miklu. Vissulega vann hún aðalverðlaunin á Cannes, en það segir manni ekki neitt lengur. Það fer algjörlega eftir því hver er í dómnefndinni á Cannes og hver fer fyrir henni, hvort verðlaunin eru veitt virkilega góðri mynd eða mynd sem hefur frammi skoðanir sem hugnast dómnefndinni. Fahrenheit 9/11 vann fyrir nokkrum árum, og það var frekar slök mynd sem var valin bara til þess að senda Bush skilaboð. Elephant eftir Gus van Sant vann 2002 (held ég), og það var ekki ýkja merkileg bíómynd. Og ég gæti haldið áfram ef ég væri minnugri. Jim Emerson var búinn að lýsa því yfir að það lýsti fádæma heimsku eða röngum áherslum hjá dómnefndinni á Cannes að þessi mynd skyldi vinna en ekki No Country for Old Men eftir Coen bræðurna (sem hann segir vera essens kvikmynda, og Ebert sagði vera fullkomna).
Ég var líka hrikalega óánægður þegar ég sá að hún var sýnda af myndvarpa, líkast til af Digibeta, þrátt fyrir að í bæklingnum stæði 35mm. Gæðin voru í samræmi við það - ömurleg. Satt best að segja þá sé ég ekki tilganginn í því að fara á mynd sem er tekin á filmu en sýnd á digibeta - ég fengi líkast til betri gæði af því að horfa á hana af DVD disk á sjónvarpinu heima. Það er svo sem í lagi ef myndin er tekin á digital til þess að byrja með, t.d. truflaði þetta mig ekkert sérstaklega á Danielson myndinni. En þegar myndin er tekin á filmu þá á að sýna hana á filmu, annars á bara að sleppa því. Reynsla mín af digibeta-sýningum er hræðileg: í vor sá ég Still Life og þá virkaði ekki myndvarpinn og hún var sýnd svart-hvít; Híena, fyrsta myndin sem ég sá á hátíðinni var sýnd á digibeta og þar var bæði mynd og hljóð ömurlegt; og svo þessi.
Myndin sjálf er ekkert sérstök, eiginlega barar frekar slök. Þetta er eiginlega myndin sem ég var hræddur um að XXY myndi vera (áður en Árni og Bóbó sannfærðu mig um að svo væri ekki), þ.e. vandamálamynd sem blóðmjólkar vanlíðan persónanna án þess að skila af sér heildstæðri hugsun um vandann. Ég fatta ekki hver pælingin á bak við þessa mynd er.
SPOILER
Vandinn fyrir mig er sá að persónurnar eru fífl upp til hópa. Gabi er búin að bíða í 4½ mánuð með að fara í fóstureyðingu, og fer til virkilega ömurlegs gaurs bara vegna þess að hann er þekktur fyrir að eyða fóstrum sem eru komin yfir 3 mánuði. Hún lætur vinkonu sína sjá um allt og fær hana til þess að sofa hjá gaurnum sem borgun fyrir aðgerðina! Síðan er virkilega ógeðsleg sena þar sem fóstrið liggur á baðherbergisgólfinu, hálf-innpakkað í handklæði, og er í mynd í svona 30-45 sekúndur. Viðbjóður! Myndin endar svo á því að þær heita hvor annarri að þær muni aldrei tala um atburði þessa dags, og við fáum á tilfinninguna að þetta verði hvíti fíllinn í herberginu, og hljóti að stía þeim í sundur.
Er myndin með eða á móti fóstureyðingum? Gabi hefði heldur ekki fengið fóstureyðingu nú til dags ef hún hefði verið komin svona langt. Kannski hefði hún farið fyrr ef það hefði ekki verið bannað. Hver veit? Vandinn er sá að mér er slétt sama.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli