12. Inside America
Offurraunsæ og eymdarleg unglingamynd.
Ég hélt í fyrstu að þetta væri fáránlega ýkt útgáfa af bandarískum menntaskóla, en síðan sá ég eiginlega nákvæmlega sömu senurnar í Winter's Bone, þ.a. kannski er þetta nokkurn veginn sannleikanum samkvæmt. Þetta er mynd sem ætlar að sjokkera mann og sýna manni hversu fáránlegt bandarískt samfélag er, og henni tekst það nokkuð vel. Þetta er engin gargandi snilld, en myndin er að mörgu leyti ágæt.
13. Attenberg
Þegar ég fór á þessa mynd var ég soldið annars hugar og það gæti hafa haft áhrif á upplifun mína af henni. Auk þess minnti lýsingin mig á gríska mynd sem var á hátíðinni í fyrra, Dogtooth, en sú mynd var frekar sjokkerandi og eiginlega alveg rosaleg, þ.a. ég fór á þessa með háleitar væntingar um að vera stuðaður, en þær væntingar voru ekki uppfylltar.
Þetta er ágæt mynd, en frekar óvenjuleg. Hún fjallar um stúlku, Marinu, sem býr með dauðvona föður sínum í yfirgefnum verksmiðjubæ. Stelpan vill ekkert vita af mannfólkinu og hennar reynsla af heiminum virðist aðallega fengin úr dýralífsmyndum Davids Attenborough (eða Attenberg eins og eina vinkona hennar ber það fram). Leikstjórinn sagði eftir myndina að hún væri um sambönd og þríhyrninga, að eini rétti fjöldinn í sambandi væri þrír. Eftir því sem pabbi stúlkunnar nálgast dauðann opnar hún sig meira fyrir ungum manni, og kannski er pælingin sú að það sé eitthvað sem hún verði að gera til þess að halda þessu þrí-sambandi gangandi.
Myndin er öll byggð upp af samtölum og löngum skotum, með stuttum "silly walks" senum inn á milli, sem eru innblásnar af Monty Python. Leikurinn er soldið skrýtinn, mjög fjarlægur og tilfinningalaus. Leikstjórinn talaði um að hún vildi hafa þetta þannig, að hún hafi sagt leikurunum að fjarlægja sig frá persónunum sínum. Sem mér finnst frekar skrýtin pæling. Þessi mynd er ekki fyrir alla, en mér fannst hún ágæt. Hins vegar fangaði hún mig aldrei alveg, en hvort það er vegna þessarar fjarlægðar leikaranna eða vegna þess að ég var annars hugar get ég ekki sagt með neinni vissu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli