þriðjudagur, 28. september 2010

RIFF 2010: Dagur 5

Í dag fór ég á Inside America og Attenberg.

12. Inside America
Offurraunsæ og eymdarleg unglingamynd.
Kunningi minn furðaði sig á því hversu hefðbundin þessi mynd væri í uppbyggingu - að hún minnti hann soldið á bandarískar unglingamyndir frá 9. áratugnum. Það er samt bara uppbygging sögunnar; myndin sjálf er allt öðruvísi og er greinilega ætlað að vera óvæginn spegill á bandarískt samfélag. Á IMDb stendur að myndin sé "A feature film taking a tougher look on reality than any documentary," sem ég skil þannig að hún taki raunveruleg vandamál og ýki þau upp - a.m.k. eru aðstæðurnar í þessari mynd ótrúlega ýktar.Svona redda unglingar sér bjór í Texas - þeir stela honum!
Samfélagið sem myndin lýsir er rosalega misskipt. Ríku krakkarnir keyra um á jeppum og halda rosaleg partí, á meðan fátæku krakkarnir þurf að vinna á nóttinni með skólanum og þurfa að hafa áhyggjur af því að verða heimilislaus þegar þau verða 18 ára og verður hent út af fósturheimilinu. Aðal ríki strákurinn er í ROTC bekk, sem þýðir að hann er í herbúning í skólanum og er í hermannaleik megnið af deginum. Aðal ríka stelpan er klappstýra, og skóladagurinn hennar virðist fara í förðunarkennslu og það að læra að vera módel! Á meðan eru fátæku krakkarnir í Home-Ec að læra að vera foreldrar.
Nei, þetta eru ekki hermenn. Þetta eru menntaskólanemar!
Ég hélt í fyrstu að þetta væri fáránlega ýkt útgáfa af bandarískum menntaskóla, en síðan sá ég eiginlega nákvæmlega sömu senurnar í Winter's Bone, þ.a. kannski er þetta nokkurn veginn sannleikanum samkvæmt. Þetta er mynd sem ætlar að sjokkera mann og sýna manni hversu fáránlegt bandarískt samfélag er, og henni tekst það nokkuð vel. Þetta er engin gargandi snilld, en myndin er að mörgu leyti ágæt.
Hádegisverður meistaranna
Hópþrýstingur
Gaman í hermannaleik

13. Attenberg
Þegar ég fór á þessa mynd var ég soldið annars hugar og það gæti hafa haft áhrif á upplifun mína af henni. Auk þess minnti lýsingin mig á gríska mynd sem var á hátíðinni í fyrra, Dogtooth, en sú mynd var frekar sjokkerandi og eiginlega alveg rosaleg, þ.a. ég fór á þessa með háleitar væntingar um að vera stuðaður, en þær væntingar voru ekki uppfylltar.
Vinkonan kennir Marinu að kyssa
Þetta er ágæt mynd, en frekar óvenjuleg. Hún fjallar um stúlku, Marinu, sem býr með dauðvona föður sínum í yfirgefnum verksmiðjubæ. Stelpan vill ekkert vita af mannfólkinu og hennar reynsla af heiminum virðist aðallega fengin úr dýralífsmyndum Davids Attenborough (eða Attenberg eins og eina vinkona hennar ber það fram). Leikstjórinn sagði eftir myndina að hún væri um sambönd og þríhyrninga, að eini rétti fjöldinn í sambandi væri þrír. Eftir því sem pabbi stúlkunnar nálgast dauðann opnar hún sig meira fyrir ungum manni, og kannski er pælingin sú að það sé eitthvað sem hún verði að gera til þess að halda þessu þrí-sambandi gangandi.
Some silly walks

Innblásturinn: Monty Python sketsinn "The Ministry of Silly Walks"
Myndin er öll byggð upp af samtölum og löngum skotum, með stuttum "silly walks" senum inn á milli, sem eru innblásnar af Monty Python. Leikurinn er soldið skrýtinn, mjög fjarlægur og tilfinningalaus. Leikstjórinn talaði um að hún vildi hafa þetta þannig, að hún hafi sagt leikurunum að fjarlægja sig frá persónunum sínum. Sem mér finnst frekar skrýtin pæling. Þessi mynd er ekki fyrir alla, en mér fannst hún ágæt. Hins vegar fangaði hún mig aldrei alveg, en hvort það er vegna þessarar fjarlægðar leikaranna eða vegna þess að ég var annars hugar get ég ekki sagt með neinni vissu.

Engin ummæli: