14. In the Attic
Myndin sjálf var bráðskemmtileg. Þetta er tékknesk stop-motion mynd sem sameinar brúður, leirkarla og smá live action. Aðalpersónur myndarinnar eru gömul leikföng uppi á háalofti. Dúkkan Buttercup, leirkarlinn Schubert, bangsinn Teddy (minnir mig) og strengjabrúðan Handsome búa saman í gamalli ferðatösku/dúkkuhúsi. Líf þeirra er eins og í ævintýri þangað til útsendarar Gullhauss, einræðisherra vonda landsins, ræna Buttercup. Þetta er svolítið eins og stop-motion útgáfa af Toy Story með fullt af tilvísunum í kommúnisma og einræðisherra austantjaldsríkjanna.
15. The Tillman Story
Þessi var ansi mögnuð og kúventi væntingum mínum algjörlega. Ég fór á þessa mynd með talsverðum fordómum: ég var alveg sannfærðum um að efni myndarinnar, Pat Tillmann, hlyti að vera íþróttaidjót og þjóðremba af verstu sort, en það reyndist alvitlaust. Svona til að útskýra, þá var Pat Tillmann leikmaður í NFL-deildinni en hafnaði samningi upp á margar milljónir dollara og gekk í herinn árið 2002. Þegar hann lést í Afganistan árið 2004 var hann uppmálaður sem þjóðhetja, og æðstu menn hersins og fjölmargir Repúblikanar reyndu að eigna sér hann (m.a. talaði George Bush um hann í einni ræðu, og John McCain mætti í jarðarförina). Markmiðið með þessari mynd var tvíþætt: annars vegar að sýna að Pat Tillman var ekki sá maður sem þessir hægrimenn vildu að hann væri, og hins vegar að draga fram í dagsljósið aðstæðurnar í kringum dauðdaga hans (hann var skotinn af mönnum í sama liði) og samsæri um að leyna þessum aðstæðum sem virðist hafa náð alla leið upp til forsetans sjálfs.
Árið 2002 gengu Pat Tillman og bróðir hans, Kevin, í herinn. Svo virðist sem árásirnar 11. september hafi haft eitthvað að segja í þessari ákvörðun, en Pat neitaði alltaf opinbera ástæðu sína fyrir því að gera þetta. Í myndinni er dregin upp mynd af eldklárum strák með sterka gagnrýna hugsun sem lét hvorki stýrast af þjóðrembu né trúarofstæki. Hann var vinstrisinnaður (miðað við Bandaríkjamann) og var aðdáandi Noam Chomsky, og þegar Bandaríkjamenn réðust inn í Írak var hann algjörlega mótfallinn því, og kallaði það meira að segja ólöglegt stríð. Auðvitað veit maður aldrei hversu mikið er satt þegar fólk talar fallega um fólk sem er látið, en Pat Tillman virðist einfaldlega hafa verið góður gaur.
Þetta er að mörgu leyti mjög áhugaverð mynd. Hún varpar ljósi á marga vankanta í bandarísku samfélagi, og er áfellisdómur á bandaríska fjölmiðla. Eiginlega allar þær upplýsingar sem koma fram í myndinni voru aðgengilegar fjölmiðlum, en þeir kusu ávallt að segja einföldustu söguna - þá sögu sem ráðamenn matreiddu ofan í þá. Í Q&A-inu sagði leikstjórinn að fréttastöðvarnar vildu bara einfaldar sögur og sögur sem eru eins og bíómyndir. Hann talaði um að bíómyndir væru goðsagnir okkar tíma og að þessi hugmynd, að eitthvað sé eins og í bíómynd, sé eins og dóp: þegar okkur er sögð saga eða frétt sem er uppbyggð á sama hátt og bíómynd, eða sem inniheldur sömu goðsagnakenndu stefin, þá fari það í aðra stöð í heilanum og við meðtökum það miklu betur og það veitir okkur ánægju. Fréttastöðvunum er nákvæmlega sama hvort þær segi okkur sannleikann, þær vilja bara áhorfendur og segja okkur þess vegna það sem við viljum heyra.
Ég mæli hiklaust með þessari.
16. Winter's Bone
Þessi var mjög góð. Myndin hefst á því að hinni 17 ára Ree er tjáð það að ef pabbi hennar mætir ekki í réttarsal þá missir fjölskyldan húsið og landareignina, en pabbinn hefur ekkert sést í þrjár vikur. Upphefst þá leit Ree að föður sínum (eða líkinu af honum), en pabbinn hefur helst unnið sér það til frægðar að vera góður í að búa til meth.
Ég gæti hugsað mér að nota Winter's Bone sem sýnidæmi í handritaskrifum. Uppbygging myndarinnar er einföld og alveg klassísk. Heimi Ree er komið í uppnám þegar hún heyrir að heimili fjölskyldunnar er í hættu, og hún þarf að yfirstíga hverja hindrunina á fætur annarri til þess að ná markmiði sínu. Þetta er klassískur aristótelískur sögubogi.
Leikaraliðið á stóran þátt í að gera þessa mynd góða. Jennifer Lawrence er virkilega góð sem Ree og aukahlutverkin eru mörg hver mönnuð af kunnuglegum andlitum úr kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, svona gæða karakter-leikurum sem standa ávallt fyrir sínu. Ég mæli með þessari.
17. Kimjongilia
Ég er á báðum áttum með þessa mynd. Efni myndarinnar er ansi magnað, en efnistökin voru soldið skrýtin. Myndin fjallar um þjáningar íbúa Norður-Kóreu og er að miklu leyti byggð upp á viðtölum við fólk sem hefur flúið landið, en inn á milli birtast einhverjar óttalega artí senur með dansara, sem mér finnst einfaldlega ekki passa við efni myndarinnar. Einnig birtast mörg norður-kóresk áróðursmyndbönd, sem virðast fyrst og fremst ætluð til þess að gera grín að Kim Jong-Il, og eiga ekkert sérstaklega erindi í akkúrat þessa mynd.
Sögur viðmælendanna eru ótrúlega átakanlegar og sorglegar. Einn þeirra var handtekinn og færður í fangabúðir 9 ára gamall vegna þess að afi hans var grunaður um glæp, en í Norður-Kóreu tíðkast það að "hreinsa" þrjár kynslóðir í einu, þ.e. ekki bara afbrotamanninn sjálfan heldur líka konu, börn og barnabörn (eða foreldra, konu og börn). Annar fæddist í fangabúðum og þekkti ekkert annað, en eftir að hann eignaðist vin í búðunum sem sagði honum frá lífinu utan þeirra (honum fannst skemmtilegastar sögurnar af því hvað hann borðaði), þá gat hann ekki hugsað sér að vera lengur í búðunum og lagði líf sitt í hættu til þess að flýja. Einnig var talað við konu sem tókst að flýja til Kína, en þá lenti hún í jafnvel enn verri aðstöðu því fólk misnotaði sér veika stöðu hennar og hneppti hana í kynlífsþrælkun í fimm ár (en í Kína eru flóttamenn frá Norður-Kóreu sendir aftur heim ef þeir finnast).
Eftir myndina var mjög áhugavert Q&A með leikstjóranum. Ástandið í Norður-Kóreu er henni mikið hjartans mál, og m.a. kynnti hún fyrir salnum fulltrúa LINK (Liberty in North Korea) sem virtust mjög góð og áhugaverð samtök sem ég mæli alveg með að þið kynnið ykkur..Ástandið í Norður-Kóreu er hræðilegt. Í stórum hluta landsins hefur ríkt hungursneyð nánast samfleytt frá 1994, svo ekki sé minnst á kúgunina og mannréttindabrotin sem eiga sér stað á hverjum degi. Þrátt fyrir nokkra galla í stíl myndarinnar mæli ég hiklaust með henni. Þetta er málefni sem allir ættu að kynna sér.
2 ummæli:
hvað áttu riff-stigin aftur að vera mörg?
-Urður
Lágmark 10 stig
Skrifa ummæli