föstudagur, 1. október 2010

RIFF 2010: Dagur 7

Í dag fór ég á Which Way Home, Íslenskar stuttmyndir 2 og When the Dragon Swallowed the Sun.

18. Which Way Home
Þessi var alveg rosaleg. Ég er ekki frá því að ég hafi orðið pínu klökkur á tímabili.
Which Way Home fjallar um suður-amerísk börn sem reyna að komast til Bandaríkjanna. Á hverju ári eru um 100 þúsund manns gripin við það að smygla sér til Bandaríkjanna, og samkvæmt þessari mynd eru um 5% þeirra börn sem eru ein á ferð. Við fylgjum fyrst og fremst fjórum ungum drengjum á aldrinum 13-17 ára, en kynnumst líka fleiri flökkubörnum. Átakanlegasta senan var viðtal við tvö níu ára gömul börn, strák og stelpu, sem voru á leið til Bandaríkjanna ein síns liðs. Stelpan vildi finna mömmu sína, sem hún hafði ekki séð í þrjú ár.



19. Íslenskar stuttmyndir 2
Á þessari sýningu voru stuttmyndirnar Ocean Ocean, Viltu breyta lífi þínu?, Smá hjálp, Clean og Hjartsláttur.
Ég vil sem minnst segja um Ocean Ocean. Mér fannst þetta tilgerðarleg og leiðinleg mynd, og ég held að þetta sé í fyrsta skipti á svona leikstjórasýningu á íslenskum stuttmyndum þar sem enginn klappar. Leikstjórinn lét líka ekki sjá sig uppi á sviði eftir sýningu (raunar veit ég ekkert hvort hún var á staðnum til að byrja með, en ég hefði heldur ekki mætt upp á svið eftir þetta).
Viltu breyta lífi þínu? var ágæt mynd um tilbreytingasnautt líf gamals manns með skemmtilegu twisti í lokin. Það er gaman að minnast á það að fyrrverandi nemandi í kvikmyndagerðinni, Einar Sverrir, samdi tónlistina í myndinni (og stóð sig bara ansi vel).
Smá hjálp var ótrúlega krúttleg mynd þar sem einu leikararnir voru 4-5 ára gömul börn. Lítil stelpa vaknar á undan öllum öðrum á fjögurra ára afmælinu sínu og fer og vekur vin sinn og saman eiga þau í litlu ævintýri.
Clean var allt í lagi mynd um danskennara sem er fíkill og á í fjárhagsvandræðum og kemur sér í stöðugt vandræðalegri aðstæður til þess að redda pening fyrir næsta skammti. Það er soldið skrýtið að þessi er tekin upp á RED myndavél, sem á að vera toppurinn í þessu stafræna, en lúkkið á henni er samt verra en á flestum hinna.
Hjartsláttur er sæt lítil mynd um níu ára stelpu sem virðist soldið utangátta og einmana, en sýnir engu að síður mikið hugrekki í lok myndarinnar. Það sem mér fannst einna flottast í þessari mynd er hvernig fullorðna fólkið er utan við heim barnanna. Við sjáum foreldra stúlkunnar og aðra fullorðna aldrei nema sem klessur úr fókus, og raddir þeirra eru eins og óljóst bergmál. Mér fannst það eyðileggja þetta þema þegar kennarinn var sýndur í fókus og fékk línur. Mér hefði fundist mjög flott að sjá aldrei fullorðna manneskju í fókus í myndinni.
Mér fannst áhugavert í Q&A-inu í lok sýningar að allir nema Ísold, sem gerði Clean, höfðu tekið upp á annað hvort Canon 7D eða Canon 5D, sem eru ekki kvikmyndatökuvélar heldur fyrst og fremst ljósmyndavélar. Það eru augljóslega ýmsir kostir við þetta. Fyrir ca. 300þús færðu myndavél sem þú getur skipt um linsur á og stýrt fleiri þáttum en á 500 þúsund króna vídjó-vél, og það helsta sem þú missir er hljóðupptakan sem þú getur leyst með tiltölulega ódýru tæki.

20. When the Dragon Swallowed the Sun
Mér fannst frekar lítið varið í þessa. Vissulega er þetta verðugt málefni og hræðileg staða sem Tíbetar eru í, en þetta er líka orðið soldið þreytt umræðuefni og þessi mynd kynnti engar nýjar hliðar á því og færði fá sannfærandi rök. Raunar held ég ekki að það hafi verið ætlunin. Mín tilfinning var sú að þessi mynd ætlaði sér ekki að fá neinn til þess að skipta um skoðun, heldur væri hún bara "preaching to the choir", þ.e. henni var beint til þeirra sem voru þegar sammála boðskap myndarinnar. Ég get ekki mælt með þessari.


Engin ummæli: