sunnudagur, 3. október 2010

RIFF 2010: Dagur 9

Í dag fór ég á spjall með Jim Jarmusch, The Genius and the Boys, Aardvark og Silent Souls. Aardvark var léleg og ég var greinilega orðinn soldið þreyttur þegar kom að Silent Souls, því ég átti mjög erfitt með að halda mér vakandi yfir henni.

24. The Genius and the Boys
Þessi var ágæt.
Sagan á bak við þessa heimildamynd er alveg ótrúleg. Viðfangsefni myndarinnar, D. Carleton Gajdusek, var Nóbelsverðlaunahafi, ótrúlegur sérvitringur og barnaníðingur. Myndin fjallar um feril hans og afhjúpar hægt og rólega þessa dekkri hlið. Gajdusek uppgötvaði prótínsýkla (prions) og hvernig kúariða getur borist í menn þegar hann rannsakaði sjúkdóminn Kuro hjá mannætuættbálkum í Papúa Nýju-Gíneu. Hann hafði einnig sérstakt dálæti á þessum ættbálkum því þar tíðkaðist kynlíf með ungum drengjum. Það er margt skuggalegt í þessari mynd, en það skuggalegasta er líklegast það að þessi furðulegi, einhleypi maður skyldi fá að ættleiða 53 drengi á 20-30 ára tímabili.
Sögumaður myndarinnar fór soldið í taugarnar á mér, en það var leikstjórinn sjálfur sem las inn á hana með miklum sænskum hreim. Ég held að myndin hefði batnað talsvert við það hefði hann ráðið innfæddan Breta eða Bandaríkjamann til þess að tala inn á hana.



25. Aardvark
Aðal-"leikararnir" tveir
Þessi var arfaslök, og án nokkurs vafa versta myndin sem ég sá á hátíðinni. Hún fjallar um Larry, blindan alkóhólista á batavegi sem byrjar að æfa jiu jitsu. Þjálfarinn hans er Darren, en hann er í ruglinu - drekkur, dópar og nær sér í aukatekjur með því að selja sig. Þeir verða góðir vinir og Larry, þurri alkinn, fer að hanga með Darren á strípibúllum og fylleríum, en byrjar þó ekki að drekka aftur (þetta þótti mér mjög ótrúverðugt, að alki á batavegi myndi koma sér í svona aðstæður, og að hann skyldi ekki falla ef hann kæmi sér í svona aðstæður). Síðan er Darren drepinn og Larry leitar hefnda.
Það fyndna við þessa mynd er að þetta langsótta "premise" var í raun ekki skáldað, heldur er Larry virkilega blindur maður sem æfir jiu jitsu og Darren er þjálfarinn hans. Það gerir myndina samt engu betri, og raunar stuðlar það örugglega að því hvað hún er léleg því þeir eru báðir frekar slappir leikarar (og raunar er allur leikur í myndinni lélegur).
Ekki bætti það úr skák að sýningarstjórinn á þessari mynd hlýtur að hafa verið algjör viðvaningur. Ég sá myndina í Tjarnarbíói, þar sem hún var sýnd af myndvarpa. Myndvarpinn var widescreen (16:9), en myndin var sýnd af digibeta sem er ekki widescreen format, og þar að auki var myndin widescreen, en sýningarstjóranum datt ekki í hug að zooma, þannig að myndin þakti ekki nema í mesta lagi 1/3 af flatarmáli skjásins.
Mig minnir að myndin hafi tekið enn minna pláss á skjánum en þetta!

26. Silent Souls
Ég á soldið erfitt með að fjalla um þessa mynd því mér gekk afleitlega að halda mér vakandi í gegnum hana. Hún fjallar í stuttu máli um tvo menn sem ferðast langa leið til þess að brenna lík konu annars þeirra samkvæmt gamalli hefð. Á meðan á ferðalaginu stendur komumst við að því að vinurinn hafði átt í ástarsambandi við konuna, en eiginmaðurinn virðist ekkert sérstaklega sár yfir því. Hann elskaði hana svo heitt að hann vildi að hún fengi allt sem hún þarfnaðist.
Eftir líkbrennuna fara hlutirnir að óskýrast í höfðinu á mér...

Engin ummæli: