föstudagur, 1. október 2010

RIFF 2010: Dagur 8


Í dag fór ég á Nummioq, Investigation of a Citizen above Suspicion og The Tenth Victim.

21. Nummioq
Þessi var alveg ágæt.
Nummioq var samt alls ekki eins og ég bjóst við. Miðað við lýsingu og það að þetta á að vera fyrsta grænlenska myndin í fullri lengd bjóst ég við hægri, ljóðrænni mynd um inúíta sem ferðast um á kajak o.s.frv. Þetta voru auðvitað bara fordómar, en myndin kom mér engu að síður á óvart. Aðalpersónan er hvítur maður, væntanlega af dönskum ættum, og mest áberandi inúítinn í myndinni er sidekick-ið hans, sem er fyrst og fremst soldið misheppnaður og hlægilegur. Myndin í heild er mun hressari og skemmtilegri en ég bjóst við, en að sama skapi minni vigt í henni. Þetta er í raun nokkuð einföld saga, en mér fannst hún góð og mér fannst endirinn mjög góður og góð pæling á bak við hann. Ég get alveg mælt með þessari.



22. Investigation of a Citizen above Suspicion
Þessi mynd er frá 1970, og var alveg kostuleg á köflum. Aðalpersónan er lögregluforingi, ímynd valdníðslu og ofbeldis. Hjákonan hans virðist hafa alið upp í honum þá hugmynd að misbeita valdi sínu með einhverjum hætti, og að lokum gerir hann það með því að drepa hana til þess eins að komast að því hvort einhvern myndi gruna hann. Það er sama hvað hann gerir, enginn kollega hans vill horfast í augu við þann möguleika að hann gæti verið sekur, þótt öll sönnunargögnin bendi til þess. Upp úr þessum aðstæðum myndast fjölmargar skemmtilegar senur þar sem hann reynir, sitt á hvað, að koma upp um sjálfan sig og hylja spor sín. Í draumasenu seint í myndinni hefur hann játað á sig glæpinn en kollegar hans krefjast þess að hann sanni sekt sína, sem honum tekst ekki, og að lokum þvinga þeir fram hjá honum játningu um að hann sé saklaus. Þetta þótti einhverjum í salnum minna fullmikið á aðstæður í íslensku samfélagi, því hann hrópaði upp "Geir Haarde!", hvernig sem þið viljið svo túlka það.
Mér skilst að það sé ekkert sérstaklega auðvelt að nálgast þessa mynd (eða aðrar eftir Elio Petri), en hún er virkilega góð og firringin og hræsnin sem hún lýsir á ekki síður við á Íslandi árið 2010 en í Ítalíu árið 1970.



23. The Tenth Victim
Þetta er önnur myndin af þremur eftir Elio Petri sem voru sýndar á hátíðinni (ég sá ekki þá þriðju, A Quiet Place in the Country). Þessi var talsvert mikið síðri en Investigation... Þetta er í grunninn léleg vísindaskáldsaga sem gerist í framtíð þar sem "Hin mikla veiði" ("Il grande caccia") er vinsæl íþrótt, en hún gengur út á það að þátttakendur skiptast á að vera veiðimenn og bráð, og markmiðið er að drepa hvorn annan og lifa af 10 umferðir. Fyrir utan það að vera skemmtilegur fyrirboði um raunveruleikasjónvarp nútímans, þá er þessi grunnhugmynd frekar slöpp, og raunar tekst myndinni aldrei alveg að yfirstíga þennan slaka grunn, þrátt fyrir margar bráðskemmtilegar senur. Ef þið ætlið bara að sjá eina mynd eftir Elio Petri, þá mæli ég eindregið með því að það verði Investigation... og ekki þessi.


Engin ummæli: