fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Leikstjóraheimsókn: Gunnar Björn Guðmundsson

Gunnar Björn leikstjóri Astrópíu kom í heimsókn til okkar í gær og sagði okkur m.a. frá framleiðsluferli myndarinnar. Ég held ég geti með sanni sagt að heimsóknin hafi vakið rífandi lukku. Gunnar var hress og opinn og sagði skemmtilega frá og hafði frá mörgu skemmtilegu að segja.
Gunnar fór nokkuð ítarlega í framleiðsluferlið og svaraði í raun öllum spurningum sem höfðu vaknað hjá mér áður en ég náði að spyrja hann. Meðal þess sem mig langaði að vita var:
  • hvar finnur maður skóg á Íslandi (án þess að fara lengst út á land)?
  • hvað fer í gegnum hugann á leikstjóra sem ætlar að gera action-senur í íslenskri bíómynd?
  • eitthvað varðandi brellurnar...
Það kemur sem sagt í ljós að skógurinn var í Fossvoginum, og mikið haft fyrir því að ekki sæist í byggð eða heyrðist í umferð (og raunar heppni að það skyldi takast!).
Gunnar var á því að það væri vonlaust fyrir íslenskan leikstjóra að ætla að gera action-senur af fúlasta alvara, vegna þess að íslenskir áhorfendur myndu bera senurnar saman við senur úr erlendum hasarmyndum sem kosta tugi milljóna dollara, og auðvitað myndi íslenska senan fölna í samanburði.
Það kemur í ljós að það eru miklu færri brellur en mann grunaði. Ein sena sem ég hélt að hlyti að vera brella var þegar veggirnir falla. Ég var sannfærður um að það væri "blue-screen" en svo var ekki. Veggirnir á leikmyndinni voru á hjörum, og þegar búið var að taka allar senurnar í leikmyndinni nema þessa var hún flutt upp á fjall og veggir látnir falla. Maður þyrfti eiginlega að sjá myndina aftur bara til þess að sjá þessa senu í réttu ljósi.
Ég er ánægður með afstöðu Gunnars til tölvubrellna. Það er hárrétt hjá honum að það virðist ekki skipta máli hversu miklum peningum er dælt í tölvubrellur, maður er yfirleitt alltaf meðvitaður að um brellur sé að ræða. Ætli Gollum sé ekki það sem hefur komist næst því að vera trúverðugt, og ég held að það hafi haft meira með það að gera að honum var virkilega gefinn persónuleiki, en að tölvubrellan hafi verið eitthvað frábær. Bardagasenurnar í LOTR voru aftur á móti alveg sérlega lítt sannfærandi - allt var "fuzzy" og furðulega taktfast og hafði ekkert með veruleikann að gera.
Mér fannst líka mjög áhugavert að heyra að myndin hefði verið tekin upp á tvö formöt, veruleikinn á high definition og svo fantasían á Super-35 filmu. Þetta er annað atriði sem ég myndi vilja skoða betur - virkilega sjá muninn. Það er kannski þetta sem ruglaði mann í "veggir falla" senunni - þar er skipt úr high def í super-35 um leið og veggirnir falla, og svo virðist sem ég hafi túlkað þessa breytingu sem skiptingu yfir í "blue-screen".
Það var nánast alveg ótrúlegt að heyra hversu stuttur tími fór í tökur á myndinni. Gunnar lagði mikla áherslu á undirbúning og æfingar, og náði þannig að klára tökurnar á 30 dögum! Þetta er gott fordæmi fyrir okkur og raunar alla kvikmyndagerðarmenn. Tökurnar eru alltaf dýrasti og umfangsmesti hlutinn, og þess vegna er best að halda þeim sem stystum.
Þið ættuð að hafa þetta í huga í stuttmyndamaraþoninu, vegna þess að þar fáið þið bara einn dag. Best væri að þið væruð tilbúin með gróft handrit (ekkert endilega hvað þið segið heldur hvað á að gerast) og vissuð hvar þið ætluðuð að taka up hverja senu. Það er ekki líklegt til árangurs að ætla að gera þessa vinnu og taka upp, allt á þessum eina degi sem þið hafið myndavélina.

Ég vona svo sannarlega að við getum fengið fleiri svona heimsóknir í vetur, og ég vona að þær takist jafnvel.

Engin ummæli: