þriðjudagur, 29. janúar 2008

Funny Games

Ég tók áhættu með því að sýna mynd sem ég hafði ekki séð áður og mér sýndist á mönnum að það hafi ekki alveg gengið upp. Ingólfur kallar myndina "skelfilega" og Jón segir hana "ógeðslega langdregna". Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég reynt að forðast að sýna mynd sem ég hefði ekki séð áður, einmitt vegna þess að þá getur maður lent í því að missa algjörlega marks. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég horft á 15-20 myndir í jólafríinu og m.a. tékkað á myndum til þess að sýna ykkur. Og þá er komið að "lame" afsökun vikunnar: jólafríið fór í að gera upp íbúð sem ég keypti í nóvember, og ég er enn að vinna í henni (fóru t.d. rúmir 20 tímar í að leggja flísar nú um helgina). Mig langaði til þess að sýna ykkur "edgy" evrópska mynd og mundi ekki eftir neinni sem mér fannst nógu nýleg (Happy End og Themroc finnst mér góðar en þær eru svolítið gamlar, Come and See er eiginlega of löng, Taxidermia er mjög skrýtin, og 12:08 East of Bucharest er meira léttmeti en ég var til í þetta skiptið). Þannig að ég tók sénsinn á Funny Games. Fleiri en einn kvikmyndanörd hefur haldið því fram við mig að Michael Haneke sé besti núlifandi (eða virki, man ekki hvort) leikstjórinn, og að þessi sé brilljant. Caché fannst mér fín þó hún hafi kannski ekki verið nein snilld.
Ég myndi ekki ganga svo langt að kalla hana skelfilega, en langdregin var hún á köflum. Sérstaklega kaflinn sem byrjar á skotinu hér fyrir neðan, hann var bara "painful". Mér fannst samt margt ágætt við hana. Hegðun geðsjúklinganna Paul og Peter var framan af nokkuð fersk og skemmtileg. Dýnamíkin milli þeirra þótti mér líka ágæt. Ég hef líka alltaf verið svolítið veikur fyrir niðurrifi fjórða veggjarins, sem mér fannst reyndar ekki unnið nógu markvisst með í myndinni (annað hvort ætti það að vera gegnumgangandi þema eða eitthvað sem er gefið í skyn þ.a. áhorfandinn velkist í vafa - millibilsástandið í þessari mynd fannst mér hálf-slappt). Eins með kommentið um að myndin hafi ekki náð bíómyndalengd (sem kemur nota bene akkúrat á slaginu 90 mínútur). Myndin er vissulega sjálfsmeðvituð, en leikur sér alls ekki nógu markvisst með þessa sjálfsmeðvitund. Þess vegna fannst mér atriðið þar sem spólað er til baka bara hallærislegt, en ég er sannfærður um að við aðrar aðstæður hefði mér þótt það stórskemmtilegt. Ingólfur spyr líka hvort myndin hafi átt að vera "einvhers konar fáránleg ádeila á tölvuleiki", og svarið við því er einfaldlega "já". Kannski ekki endilega tölvuleiki, heldur bara fjöldamenningu (pop culture) samtímans - sjónvarp (þeir kalla sig líka Tom and Jerry, Beavis & Butthead), tölvuleiki og ofbeldið sem viðgengst í þessum miðlum.

Þetta er flott skot ... en þarf það að vera svona langt?

Á maður að fara öruggu leiðina eða taka sénsinn? Hvað finnst ykkur? Stundum hittir maður á ferskar og framandi myndir eins og Oldboy. Stundum mislukkast þetta eins og virðist hafa gerst með Funny Games og eins og gerðist fyrir tveimur árum þegar ég sýndi Woman Under the Influence, sem er 2½ tími og inniheldur m.a. rosalega vandræðalegt matarboð í rauntíma (en það á að vera erfitt áhorfs).
Jæja, ætli ég reyni ekki að fara öruggu leiðina næstu 2-3 vikur, nema ég fái sérstaka hvatningu til annars. Ég var að hugsa um Ameríku næst.
  • Hal Hartley var í uppáhaldi hjá mér þegar ég var á ykkar aldri (t..d Amateur og Trust) áður en hann gerði draslið No Such Thing hér á Fróni. Hann er reyndar ógeðslega tilgerðarlegur...
  • Jim Jarmusch er líka í miklum metum hjá mér, og Dead Man er í sérstöku uppáhaldi. Ég held ég sé svolítið veikur fyrir tilgerð...
  • John Sayles er með betri indie-leikstjórum Bandaríkjanna, ég bara hef ekki séð nógu margar myndir eftir hann. Lone Star var djöfulli góð...
  • Eða kannski einhver Mið- eða Suður-Amerísk. Það eru auðvitað allir búnir að sjá stærstu titlana: Amores perros, City of God, Devil's Backbone og Pan's Labyrinth. Kannski Cronos eftir sama leikstjóra og gerði síðustu tvær...

sunnudagur, 27. janúar 2008

Dagskrá næstu viku

Mánudagur 8.10-9.35
Í fyrri tímanum haldið þið áfram að þróa fléttuna fyrir stuttmyndina ykkar. Í seinni tímanum segið þið okkur hinum frá því hvernig staðan er. Mikilvægt að sem flestir mæti!

Mánudagur 16.10-18.00
Horfum á nýlega Evrópska bíómynd. Þessa stundina hallast ég að Funny Games í leikstjórn Michael Haneke. Það eru reyndar nokkrar aðrar sem koma líka til greina...

Miðvikudagur 8.55-9.35
Annað hvort haldið þið áfram að vinna í handriti að stuttmynd eða þá ég sýni ykkur klippitölvuna og við byrjum að undirbúa klippiverkefnið.

Brúðguminn

Fín mynd. Farsakennd og fyndin á köflum og aðrir kaflar dramatískir og átakanlegir. Leikurinn var almennt góður, og það er gaman að sjá nýtt andlit í íslenskri bíómynd, en Laufey Elíasdóttir var bara ansi góð. Raunar var ég að fatta að Laufey var líka í Blóðböndum, og var góð þar líka...
Ég er ekki viss hvað mér fannst um tímaröðina, þ.e. það hvernig endurlitin eru fléttuð inn í. Samt er ég sannfærður um að það að hafa endurlit er rétta ákvörðunin. Mér fannst þau óþarflega ágeng (hvíti blossinn í upphafi hvers endurlits fannst mér óþarfi) og mér fannst þau ekki alveg samkvæm sjálfum sér (sum endurlitin eru greinilega endurminningar sem líða gegnum huga Jóns á einmitt þeirri stundu, önnur virðast ekki vera það, sérstaklega þau sem koma snemma í myndinni).

Spoiler
Það er svolítið gaman að pæla í Brúðgumanum út frá því sem við erum búnir að vera að ræða í tímum upp á síðkastið. Jón Jónsson, persóna Hilmis Snæs, er nefnilega alveg ótrúlega passífur karakter (sem er t.d. hálfgert tabú hjá McKee). Allt í gegnum myndina gerir hann ekki neitt, hann tekur ekki eitt einasta hænuskref af eigin sjálfsdáðum, heldur flýtur nánast meðvitundarlaus með straumnum. Myndin fléttar saman tveimur þráðum úr lífi Jóns, annars vegar hvernig hann glutrar niður hjónabandi sínu með aðgerðaleysi og aumingjaskap og hins vegar hvernig honum tekst næstum að klúðra sambandi sínu við Þóru daginn áður en þau giftast.
Það sem mér fannst helst vanta var að Anna, persóna Margrétar Vilhjálmsdóttur, fengi meiri dýpt og væri gerð sympatískari, og að samband hennar og Jóns væri meira sannfærandi. Þóra þylur á einum stað upp ljóð eftir Jón um konu sem hann elskar jafnmikið og sjálfan sig. Þetta er ágætt trix til þess að segja okkur að eitt sinn elskaði hann Önnu heitt, en þetta er eina raunverulega vísunin í slíka ást, og ég átti bara mjög erfitt með að trúa því. Þessi lína gefur líka í skyn að Jón hafi ekki alltaf verið svona rosalega sjálfumglaður og passífur aumingi, en ég var aldrei almennilega sannfærður um það.
Annað af lögmálum McKee sem er hunsað í Brúðgumanum er að líf aðalpersónunnar í lok myndar skal alltaf vera gjörbreytt frá því hvernig það var í upphafi. Í lokasenu myndarinnar er það hins vegar sýnt svart á hvítu að líf Jóns er algjörlega eins í lok myndar: hann sinnir starfi sínu af hálfum hug (virðist þó aðeins áhugasamari í lokin) og lifir í ástlausu og innantómu hjónabandi (þó konan sé ekki sú sama í lokin). Hann gefur ekkert af sér og tekur lítið sem ekkert til sín. Hann bara er...

Þetta leiðir okkur að annarri hugmynd - það skiptir ekki öllu hvort okkur líkar við persónurnar eða ekki. Mér líkaði ekki við margar persónur í myndinni, kannski Þóru og pabba hennar, en líkast til engan annan. Samt fannst mér þetta fín mynd. Ein af ástæðunum fyrir því að fráhrindandi persónurnar ollu mér ekki meira hugarangri er kannski sú að ég gat samsvarað mig þeim. Mér finnst ömurlegt hvernig Jón lætur, en ég trúi því að persóna hans myndi gera þetta og ég get sett sjálfan mig í hans spor, en það er vitanlega eitt af skilyrðunum fyrir því að ég geti lifað mig inn í myndina.

Nóg um Brúðgumann. Á fimmtudag ætla ég á Ívanov, og það verður gaman að bera saman þessar tvær útgáfur. Kannski kemur önnur færsla um það...

föstudagur, 18. janúar 2008

Dagskrá næstu viku

Sunnudagur kl. 16:00, Háskólabíó
Förum á sýningu á Brúðgumanum. Þið þekkið ferlið: Sýningin kemur í stað bíósýningar og til þess að fá mætingu skilið þið bíómiða til mín, hvort sem þið komið á þessa sýningu eða einhverja aðra. Auðvitað er æskilegast að sem flestir mæti á þessa sýningu.

Mánudagur kl. 8.10-9.35
Höldum áfram að spjalla um handrit. Story eftir McKee er enn helsta heimildin.
Munið eftir heimavinnunni: Lesa handrit að góðri mynd og horfa á myndina í 10 bls. bútum. Hvað má læra af því?

Handrit getið þið nálgast á www.movie-page.com/movie_scripts.htm, imsdb, simplyscripts.com og nokkrum síðum til viðbótar. Ég er að hugsa um að líta á 25th Hour eftir David Benioff (í leikstjórn Spike Lee).

Miðvikudagur kl. 8.10-9.35
Leikstjóraheimsókn: Baltasar Kormákur kemur í heimsókn og fjallar um gerð Brúðgumans.
Ég er ekki búinn að fá staðfestingu, en þangað til annað kemur í ljós þá reiknum við með komu hans. Ég vil að þið séuð tilbúnir með spurningar (2-3 á mann), og að þið séuð búnir að blogga um myndina fyrir tímann.

Update:
Svo virðist sem Baltasar sé í London fram í febrúar. Hann tók þó vel í það að koma í tíma þegar hann kemur aftur til landsins. Við verðum bara að bíða. Brúðguminn er samt áfram mynd vikunnar.

sunnudagur, 13. janúar 2008

Næsta vika

Mánudagur 8.10-9.35
Umfjöllun um handrit. Grunnurinn er fyrsti hluti Story eftir Robert McKee. Bókin verður seint sagt læsileg, en ég ætla að reyna að kjarna það gagnlegasta/áhugaverðasta fyrir ykkur. Seinna verður líka notast við aðrar bækur, t.d. On Screen Writing eftir Edward Dmytryk (margfalt læsilegri en McKee, en ekki eins góð og bækur Dmytryks um leikstjórn og klippingu), Writing a Screenplay eftir John Costello (ekkert sérstök bók, en aðgengileg), Writing the Short Film eftir Pat Cooper og Ken Dancyger (nokkuð áhugaverð).

Mánudagur 16.10-18.00
Bíó.
Við höldum okkur í Asíu og myndin er innan við 10 ára gömul. Annað segi ég ekki.

Miðvikudagur 8.55-9.35
Höldum áfram á sömu nótum og á mánudagsmorgni.

föstudagur, 11. janúar 2008

Bestu myndir 2007

Ég hef alltaf gaman af listum, og mér datt í hug að það gæti verið gaman að taka saman bestu myndir síðasta árs. Ég hef líka oft séð fólk taka saman lista yfir bestu gömlu myndirnar sem það sá í fyrsta skipti á árinu. Það eru oft ansi skemmtilegir listar.

Bestu nýju myndirnar (í engri sérstakri röð)
No Country for Old Men
Kannski ekki eins brjálæðislega góð og ég vonaði, en ansi mögnuð engu að síður. Javier Bardem er magnaður í hlutverki hins kolklikkaða morðingja og það eru fjölmargar eftirminnilegar senur.

Du levande
Ég dýrka Roy Andersson - hugmyndaauðgin og kaldhæðinn húmorinn eru akkúrat fyrir mig. Ég sat skælbrosandi eins og barn í dótabúð alla myndina. Tvær af bestu senum ársins að mínu mati er þegar smiðurinn kippir dúknum af matarborðinu og þegar hús brúðhjónanna fer af stað.

Veðramót
Ein besta íslenska myndin síðasta áratuginn eða svo. Ég var vægast sagt undrandi þegar hún sópaði ekki að sér verðlaunum á Eddunni. Þó svo að Börn og Foreldrar séu ágætisverk þá finnst mér þær svolítið eins og upphafðar leiklistaræfingar, þar sem dramað er keyrt í botn og leikararnir fá tækifæri til þess að sýna ýktar tilfinningar. Veðramót er bara miklu meira bíó.

Das Leben der Anderen
Mjög áhugaverð mynd, bæði frá sögulegu og persónulegu sjónarmiði. Óhugnanlegt til þess að hugsa að svona var þetta (og í sumum tilvikum verra). Stór hluti þjóðarinnar var á mála hjá Stasí. Ég las um Bandaríkjamann (minnir mig) sem var við nám í Austur-Þýskalandi og sneri aftur eftir að skjalasafn Stasí var opnað, og las möppuna sína sem reyndist ótrúlega þykk. Hann komst að því að ótrúlegasta fólk hafði njósnað um hann - nágrannar, vinir og meira að segja kærastan hans!

The Science of Sleep
Krúttleg, hugmyndarík og sjónrænt flott mynd. Ekki gallalaus, en nær miklum hæðum þegar best lætur.

Little Miss Sunshine
Það er eitthvað af myndum sem eru tæknilega séð frá 2006 og sem ég man bara ekki hvort ég sá 2006 eða 2007. Þetta er ein af þeim. Yndisleg mynd á svo marga vegu.

Pan's Labyrinth
Ég er eiginlega alveg viss um að ég sá þessa 2007. Það er samt orðið svolítið langt síðan, en myndin er frábær fantasía.

Roming
Sígaunamyndin á kvikmyndahátíðinni. Frábær persónusköpun, pabbinn og frændinn eru yndislegir og rúmlega það. Frændinn sem þykist vera svo harður og lifa samkvæmt hefðum sígaunanna. Pabbinn sem sá í sjónvarpinu að allar menningarþjóðir eiga sér eitthvert lykil-bókmenntaverk (t.d. Grikkir og Hómerskviður, Ísraelar og gamla testamentið,) og ákveður að skrifa slíkt lykilverk fyrir hönd sígaunanna...

Ferð Isku
Mögnuð mynd um raunalegt líf ungrar ungverskrar stúlku. Stelpan er frábærlega leikin, umhverfið stórkostlega hráslagalegt, og endirinn með því grátlegasta sem ég hef séð.

Control
Sameinar góða sögu, framúrskarandi myndatöku (yndislegt high-contrast svart-hvítt lúkk), stórgóðan leik (ég er sannfærður um að Samantha Morton er ein allra besta leikkona nútímans) og frábæra tónlist.

Þegar ég lít yfir árið sé ég hvað ég lítið séð af myndum, sérstaklega nýjum myndum, frá því á kvikmyndahátíð. Ég á enn eftir að sjá Eastern Promises, 3.10 to Yuma, Atonement, I'm Not There, Shoot 'Em Up, Persepolis, American Gangster, Die Fälscher, Once, This Is England, Zodiac, Death Proof og margar fleiri. Þar að auki bólar enn ekkert á There Will Be Blood (sem á víst að vera mögnuð. Eiginlega ætti maður ekkert að gera svona lista fyrr en maður er búinn að sjá fleiri af þessum myndum, og spurningin er alltaf hvort maður sé að gera lista yfir myndir sem maður sá 2007 eða sem komu út 2007 (og komu út hvar?).

Klippitölvan komin í hús

Ég fékk klippitölvuna í gær og í dag setti ég upp hugbúnaðinn. Það tók tímann sinn, og alltaf vildi hún fá að skipta um diska, þ.a. ég var farinn að hlaupa upp á skrifstofu í hverjum einustu frímínútum til þess að setja næsta disk í...
Þetta er þvílíkt tryllitæki. 17" macbook pro, 2,4Ghz Intel core duo, 4GB í minni. Í næstu viku fæ ég svo útanáliggjandi harðan disk til þess að vinna með myndefnið, og þá erum við "good to go".