Fín mynd. Farsakennd og fyndin á köflum og aðrir kaflar dramatískir og átakanlegir. Leikurinn var almennt góður, og það er gaman að sjá nýtt andlit í íslenskri bíómynd, en Laufey Elíasdóttir var bara ansi góð. Raunar var ég að fatta að Laufey var líka í Blóðböndum, og var góð þar líka...
Ég er ekki viss hvað mér fannst um tímaröðina, þ.e. það hvernig endurlitin eru fléttuð inn í. Samt er ég sannfærður um að það að hafa endurlit er rétta ákvörðunin. Mér fannst þau óþarflega ágeng (hvíti blossinn í upphafi hvers endurlits fannst mér óþarfi) og mér fannst þau ekki alveg samkvæm sjálfum sér (sum endurlitin eru greinilega endurminningar sem líða gegnum huga Jóns á einmitt þeirri stundu, önnur virðast ekki vera það, sérstaklega þau sem koma snemma í myndinni).
SpoilerÞað er svolítið gaman að pæla í Brúðgumanum út frá því sem við erum búnir að vera að ræða í tímum upp á síðkastið. Jón Jónsson, persóna Hilmis Snæs, er nefnilega alveg ótrúlega passífur karakter (sem er t.d. hálfgert tabú hjá McKee). Allt í gegnum myndina gerir hann ekki neitt, hann tekur ekki eitt einasta hænuskref af eigin sjálfsdáðum, heldur flýtur nánast meðvitundarlaus með straumnum. Myndin fléttar saman tveimur þráðum úr lífi Jóns, annars vegar hvernig hann glutrar niður hjónabandi sínu með aðgerðaleysi og aumingjaskap og hins vegar hvernig honum tekst næstum að klúðra sambandi sínu við Þóru daginn áður en þau giftast.
Það sem mér fannst helst vanta var að Anna, persóna Margrétar Vilhjálmsdóttur, fengi meiri dýpt og væri gerð sympatískari, og að samband hennar og Jóns væri meira sannfærandi. Þóra þylur á einum stað upp ljóð eftir Jón um konu sem hann elskar jafnmikið og sjálfan sig. Þetta er ágætt trix til þess að segja okkur að eitt sinn elskaði hann Önnu heitt, en þetta er eina raunverulega vísunin í slíka ást, og ég átti bara mjög erfitt með að trúa því. Þessi lína gefur líka í skyn að Jón hafi ekki alltaf verið svona rosalega sjálfumglaður og passífur aumingi, en ég var aldrei almennilega sannfærður um það.
Annað af lögmálum McKee sem er hunsað í Brúðgumanum er að líf aðalpersónunnar í lok myndar skal alltaf vera gjörbreytt frá því hvernig það var í upphafi. Í lokasenu myndarinnar er það hins vegar sýnt svart á hvítu að líf Jóns er algjörlega eins í lok myndar: hann sinnir starfi sínu af hálfum hug (virðist þó aðeins áhugasamari í lokin) og lifir í ástlausu og innantómu hjónabandi (þó konan sé ekki sú sama í lokin). Hann gefur ekkert af sér og tekur lítið sem ekkert til sín. Hann bara er...
Þetta leiðir okkur að annarri hugmynd - það skiptir ekki öllu hvort okkur líkar við persónurnar eða ekki. Mér líkaði ekki við margar persónur í myndinni, kannski Þóru og pabba hennar, en líkast til engan annan. Samt fannst mér þetta fín mynd. Ein af ástæðunum fyrir því að fráhrindandi persónurnar ollu mér ekki meira hugarangri er kannski sú að ég gat samsvarað mig þeim. Mér finnst ömurlegt hvernig Jón lætur, en ég trúi því að persóna hans myndi gera þetta og ég get sett sjálfan mig í hans spor, en það er vitanlega eitt af skilyrðunum fyrir því að ég geti lifað mig inn í myndina.
Nóg um Brúðgumann. Á fimmtudag ætla ég á Ívanov, og það verður gaman að bera saman þessar tvær útgáfur. Kannski kemur önnur færsla um það...