föstudagur, 11. janúar 2008

Bestu myndir 2007

Ég hef alltaf gaman af listum, og mér datt í hug að það gæti verið gaman að taka saman bestu myndir síðasta árs. Ég hef líka oft séð fólk taka saman lista yfir bestu gömlu myndirnar sem það sá í fyrsta skipti á árinu. Það eru oft ansi skemmtilegir listar.

Bestu nýju myndirnar (í engri sérstakri röð)
No Country for Old Men
Kannski ekki eins brjálæðislega góð og ég vonaði, en ansi mögnuð engu að síður. Javier Bardem er magnaður í hlutverki hins kolklikkaða morðingja og það eru fjölmargar eftirminnilegar senur.

Du levande
Ég dýrka Roy Andersson - hugmyndaauðgin og kaldhæðinn húmorinn eru akkúrat fyrir mig. Ég sat skælbrosandi eins og barn í dótabúð alla myndina. Tvær af bestu senum ársins að mínu mati er þegar smiðurinn kippir dúknum af matarborðinu og þegar hús brúðhjónanna fer af stað.

Veðramót
Ein besta íslenska myndin síðasta áratuginn eða svo. Ég var vægast sagt undrandi þegar hún sópaði ekki að sér verðlaunum á Eddunni. Þó svo að Börn og Foreldrar séu ágætisverk þá finnst mér þær svolítið eins og upphafðar leiklistaræfingar, þar sem dramað er keyrt í botn og leikararnir fá tækifæri til þess að sýna ýktar tilfinningar. Veðramót er bara miklu meira bíó.

Das Leben der Anderen
Mjög áhugaverð mynd, bæði frá sögulegu og persónulegu sjónarmiði. Óhugnanlegt til þess að hugsa að svona var þetta (og í sumum tilvikum verra). Stór hluti þjóðarinnar var á mála hjá Stasí. Ég las um Bandaríkjamann (minnir mig) sem var við nám í Austur-Þýskalandi og sneri aftur eftir að skjalasafn Stasí var opnað, og las möppuna sína sem reyndist ótrúlega þykk. Hann komst að því að ótrúlegasta fólk hafði njósnað um hann - nágrannar, vinir og meira að segja kærastan hans!

The Science of Sleep
Krúttleg, hugmyndarík og sjónrænt flott mynd. Ekki gallalaus, en nær miklum hæðum þegar best lætur.

Little Miss Sunshine
Það er eitthvað af myndum sem eru tæknilega séð frá 2006 og sem ég man bara ekki hvort ég sá 2006 eða 2007. Þetta er ein af þeim. Yndisleg mynd á svo marga vegu.

Pan's Labyrinth
Ég er eiginlega alveg viss um að ég sá þessa 2007. Það er samt orðið svolítið langt síðan, en myndin er frábær fantasía.

Roming
Sígaunamyndin á kvikmyndahátíðinni. Frábær persónusköpun, pabbinn og frændinn eru yndislegir og rúmlega það. Frændinn sem þykist vera svo harður og lifa samkvæmt hefðum sígaunanna. Pabbinn sem sá í sjónvarpinu að allar menningarþjóðir eiga sér eitthvert lykil-bókmenntaverk (t.d. Grikkir og Hómerskviður, Ísraelar og gamla testamentið,) og ákveður að skrifa slíkt lykilverk fyrir hönd sígaunanna...

Ferð Isku
Mögnuð mynd um raunalegt líf ungrar ungverskrar stúlku. Stelpan er frábærlega leikin, umhverfið stórkostlega hráslagalegt, og endirinn með því grátlegasta sem ég hef séð.

Control
Sameinar góða sögu, framúrskarandi myndatöku (yndislegt high-contrast svart-hvítt lúkk), stórgóðan leik (ég er sannfærður um að Samantha Morton er ein allra besta leikkona nútímans) og frábæra tónlist.

Þegar ég lít yfir árið sé ég hvað ég lítið séð af myndum, sérstaklega nýjum myndum, frá því á kvikmyndahátíð. Ég á enn eftir að sjá Eastern Promises, 3.10 to Yuma, Atonement, I'm Not There, Shoot 'Em Up, Persepolis, American Gangster, Die Fälscher, Once, This Is England, Zodiac, Death Proof og margar fleiri. Þar að auki bólar enn ekkert á There Will Be Blood (sem á víst að vera mögnuð. Eiginlega ætti maður ekkert að gera svona lista fyrr en maður er búinn að sjá fleiri af þessum myndum, og spurningin er alltaf hvort maður sé að gera lista yfir myndir sem maður sá 2007 eða sem komu út 2007 (og komu út hvar?).

Engin ummæli: