þriðjudagur, 29. janúar 2008

Funny Games

Ég tók áhættu með því að sýna mynd sem ég hafði ekki séð áður og mér sýndist á mönnum að það hafi ekki alveg gengið upp. Ingólfur kallar myndina "skelfilega" og Jón segir hana "ógeðslega langdregna". Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég reynt að forðast að sýna mynd sem ég hefði ekki séð áður, einmitt vegna þess að þá getur maður lent í því að missa algjörlega marks. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég horft á 15-20 myndir í jólafríinu og m.a. tékkað á myndum til þess að sýna ykkur. Og þá er komið að "lame" afsökun vikunnar: jólafríið fór í að gera upp íbúð sem ég keypti í nóvember, og ég er enn að vinna í henni (fóru t.d. rúmir 20 tímar í að leggja flísar nú um helgina). Mig langaði til þess að sýna ykkur "edgy" evrópska mynd og mundi ekki eftir neinni sem mér fannst nógu nýleg (Happy End og Themroc finnst mér góðar en þær eru svolítið gamlar, Come and See er eiginlega of löng, Taxidermia er mjög skrýtin, og 12:08 East of Bucharest er meira léttmeti en ég var til í þetta skiptið). Þannig að ég tók sénsinn á Funny Games. Fleiri en einn kvikmyndanörd hefur haldið því fram við mig að Michael Haneke sé besti núlifandi (eða virki, man ekki hvort) leikstjórinn, og að þessi sé brilljant. Caché fannst mér fín þó hún hafi kannski ekki verið nein snilld.
Ég myndi ekki ganga svo langt að kalla hana skelfilega, en langdregin var hún á köflum. Sérstaklega kaflinn sem byrjar á skotinu hér fyrir neðan, hann var bara "painful". Mér fannst samt margt ágætt við hana. Hegðun geðsjúklinganna Paul og Peter var framan af nokkuð fersk og skemmtileg. Dýnamíkin milli þeirra þótti mér líka ágæt. Ég hef líka alltaf verið svolítið veikur fyrir niðurrifi fjórða veggjarins, sem mér fannst reyndar ekki unnið nógu markvisst með í myndinni (annað hvort ætti það að vera gegnumgangandi þema eða eitthvað sem er gefið í skyn þ.a. áhorfandinn velkist í vafa - millibilsástandið í þessari mynd fannst mér hálf-slappt). Eins með kommentið um að myndin hafi ekki náð bíómyndalengd (sem kemur nota bene akkúrat á slaginu 90 mínútur). Myndin er vissulega sjálfsmeðvituð, en leikur sér alls ekki nógu markvisst með þessa sjálfsmeðvitund. Þess vegna fannst mér atriðið þar sem spólað er til baka bara hallærislegt, en ég er sannfærður um að við aðrar aðstæður hefði mér þótt það stórskemmtilegt. Ingólfur spyr líka hvort myndin hafi átt að vera "einvhers konar fáránleg ádeila á tölvuleiki", og svarið við því er einfaldlega "já". Kannski ekki endilega tölvuleiki, heldur bara fjöldamenningu (pop culture) samtímans - sjónvarp (þeir kalla sig líka Tom and Jerry, Beavis & Butthead), tölvuleiki og ofbeldið sem viðgengst í þessum miðlum.

Þetta er flott skot ... en þarf það að vera svona langt?

Á maður að fara öruggu leiðina eða taka sénsinn? Hvað finnst ykkur? Stundum hittir maður á ferskar og framandi myndir eins og Oldboy. Stundum mislukkast þetta eins og virðist hafa gerst með Funny Games og eins og gerðist fyrir tveimur árum þegar ég sýndi Woman Under the Influence, sem er 2½ tími og inniheldur m.a. rosalega vandræðalegt matarboð í rauntíma (en það á að vera erfitt áhorfs).
Jæja, ætli ég reyni ekki að fara öruggu leiðina næstu 2-3 vikur, nema ég fái sérstaka hvatningu til annars. Ég var að hugsa um Ameríku næst.
  • Hal Hartley var í uppáhaldi hjá mér þegar ég var á ykkar aldri (t..d Amateur og Trust) áður en hann gerði draslið No Such Thing hér á Fróni. Hann er reyndar ógeðslega tilgerðarlegur...
  • Jim Jarmusch er líka í miklum metum hjá mér, og Dead Man er í sérstöku uppáhaldi. Ég held ég sé svolítið veikur fyrir tilgerð...
  • John Sayles er með betri indie-leikstjórum Bandaríkjanna, ég bara hef ekki séð nógu margar myndir eftir hann. Lone Star var djöfulli góð...
  • Eða kannski einhver Mið- eða Suður-Amerísk. Það eru auðvitað allir búnir að sjá stærstu titlana: Amores perros, City of God, Devil's Backbone og Pan's Labyrinth. Kannski Cronos eftir sama leikstjóra og gerði síðustu tvær...

4 ummæli:

Jón sagði...

Mér finnst myndin skána eftir því lengra sem líður frá því að við sáum hana. Mér finnst þetta ekki vera ádeila á ofbeldi sem slík því þá hefði ég í raun búist við því að sjá eitthvað af því og að gæjarnir hefðu verið aðeins meiri hörkutól. Mér finnst þetta miklu frekar vera ádeila á thriller genre-ið og McKee-fræði. Sá sem skrifaði handritið að myndinni tekur alveg McKee og rífur hann í sig. Þar sem við erum orðin svo vön því að horfa á myndir sem eru eftir uppskriftinni þá kemur það okkur á óvart þegar það er ekkert í myndinni sem kemur á óvart. Ekkert falið plott eða innri átök sem brjótast fram. Þannig séð var auðvitað algjör snilld að sýna okkur þessa mynd eftir fyrirlestra síðustu viku...

Ég held að galdurinn við mánudagsbíóið sé að vera með nógu ólíkar myndir milli vikna. Old Boy - Brúðguminn - Funny Games, gerast ekki ólíkari...

Bóbó sagði...

Eru allir búnir að sjá Devil's Backbone? Ég væri feitt til í hana. Reyndar bara hvaða Del Toro sem er. Langt síðan maður sá Hellboy...

Nafnlaus sagði...

Stórt JÁ við Devil's Backbone

annasinn sagði...

File-inn á myschool fyrir handritaforritnu virkar ekki hér er slóð beint á dl síðuna:

http://www.celtx.com/download.html

ef einhver skildi vera í vandræðum