Mér leist satt best að segja ekki á blikuna í upphafi myndar, þegar við sjáum einhverfa strákinn Kela óljóst í gegnum þoku (sem reynist vera gufan af Bláa lóninu) við undirspil Sigur rósar. Þá hélt ég að þetta yrði kannski algjört artfart, sem reyndist alls ekki raunin. Þegar ég lít yfir myndina eftir á finnst mér samt þessar sviðsettu senur frekar óspennandi, og kannski ekki beint bæta miklu við. Á hinn bóginn mætti auðvitað færa rök fyrir því að þessi sena hafi verið flott myndhverfing fyrir ástand Kela... Einnig hafði ég miklar áhyggjur af litunum í upphafi myndar, en það var eins og rauða litinn vantaði alfarið, síðan kom hann allt í einu. Það sama gerðist eftir hlé, þ.a. þetta hefur greinilega verið af völdum myndvarpans sem myndin var sýnd af (held ég), greinilegt að hann var eitthvað lélegur og sýndi bara ekkert rauðan lit fyrr en hann var orðinn heitur. Þetta fannst mér mjög truflandi fyrst, því þá vissi ég auðvitað ekki hvort um væri að ræða bilun eða virkilega furðulega listræna ákvörðun...
Heilt yfir var þetta mjög góð mynd. Margrét, móðir Kela, tekur áhorfandann með sér í leit að eitthverju sem gæti hjálpað Kela eða hjálpað henni að ná sambandi við Kela. Um leið kynnumst við sögu Kela, sem grét stanslaust og svaf lítið sem ekkert fyrstu 3-4 árin og greindist fyrst með einhverfu fjögurra ára gamall. Margrét hleypir okkur ansi nálægt sér án þess þó að þetta snúist upp í eitthvað tilfinningaklám, og við finnum oft að þrátt fyrir mikinn styrk og harðfylgni þá er hún líka leið yfir því hversu lítið hún hefur getað gert fyrir Kela og hversu litla hjálp hún hefur fengið á Íslandi.
Efni myndarinnar er þríþætt. Hún fræðir áhorfandann um einhverfu, skoðar hin ýmsu meðferðarúrræði sem boðið er upp á út um allan heim (samt mest í Bandaríkjunum) og loks fjallar hún um Kela, en sá þáttur myndarinnar er eðlilega sá persónulegasti. Mér þótti sérstaklega áhugavert viðtalið við Temple Grandin, einhverfa búfræðinginn sem hafði unnið sig út úr einhverfunni með hjálp móður sinnar - bæði hafði hún margt mjög athyglisvert að segja, og svo var hún líka bara mjög skemmtilegur karakter. Eins var mögnuð senan þegar Keli fór að tjá sig hjá indversku konunni, Somu. Ég varð bara næstum því klökkur þegar hann sagðist vilja læra á píanó og að hann væri alltaf að semja tónlist í höfðinu. Það var vægast sagt mögnuð sena.
Senurnar með Somu vöktu samt upp nokkrar spurningar. Ég veit að þetta á eftir að hljóma ótrúlega kalt, en ég fékk stundum á tilfinninguna að það væri kannski ekki allt að gerast sem virtist vera að gerast. Það sem ég á við er að í mörgum tilvikum, sérstaklega senunni þar sem hún fær Kela til þess að "tjá sig" í fyrsta skiptið, þá gæti hún hæglega stýrt þessu sjálf. Stundum fannst mér hún t.d. stýra réttu bókstöfunum á bókstafatöflunni að blýantinum sem hann hélt á frekað en að hann hefði stýrt blýantinum. Þegar ég lít á heildarmyndina, þ.e. árangurinn sem önnur einhverf börn hafa náð hjá henni, þá sé ég að þetta er væntanlega ekki raunin, en mér fannst samt eitthvað ekki alveg sannfærandi við þessar senur.
Heimsókn Friðriks
Mér fannst heimsókn Friðriks bara nokkuð vel heppnuð. Hann hafði frá mörgu að segja og það var greinilegt að þessi mynd var honum mikið hjartans mál. Það hafði hins vegar í för með sér bæði kosti og galla, því á þessum klukkutíma talaði Friðrik talsvert meira um einhverfu en kvikmyndir. Það er í sjálfu sér eðlilegt að hann hafi áhuga á einhverfu og margt um hana að segja eftir að hafa unnið sleitulaust að þessu verkefni undanfarin 2-3 ár, og eins held ég að myndin hafi vakið áhuga flestra á viðfangsefninu. Hins vegar er svolítil synd að þegar maður fær einn reyndasta leikstjóra Íslands í heimsókn, að hann skuli þá ekki tala meira um kvikmyndir. Ég hefði helst viljað hafa hann í klukkutíma í viðbót að tala bara um kvikmyndagerð og kvikmyndir almennt, enda hefur hann mörgu að miðla í þeim efnum.
Það voru nokkur atriði í máli Friðriks sem mér fannst sérstaklega áhugaverð. Í fyrsta lagi var mjög áhugavert að heyra að Margrét, mamma Kela, hefði fyrst viljað gera þurra fræðslumynd um einhverfu þar sem hún og Keli kæmu ekkert fram. Þetta sýnir okkur hvað það er hægt að gera mismunandi myndir um sama efnið, og hvað hver einasta ákvörðun skiptir miklu máli. Ég held það sé ekki nokkur spurning að myndin hefði verið margfalt síðri ef Friðrik hefði farið í einu og öllu eftir þessum hugmyndum Margrétar. Sú mynd hefði a.m.k. ekki náð til nærri því eins margra.
Það var líka áhugavert að heyra um vinnslu myndarinnar. Friðrik tók upp mörg hundruð klukkustundir (ég man ekki töluna, fleiri en 400), og sagðist hafa klippt sex klukkustunda grófklipp sem svínvirkaði þrátt fyrir lengdina (það er spurning hvort það sé ekki markaður fyrir slíkt, t.d. í sjónvarpi). Eins var greinilegt á máli hans að hann þurfti að klippa út heilmikið af virkilega góðu efni, sem hann oft dauðsá eftir.
Í lok tímans talaði hann aðeins um kvikmyndagerð á Íslandi og almennt. Hann sagði m.a. að aðalástæðan fyrir því að hann hefði aldrei farið til Hollywood var sú að þar hefði hann aldrei fengið að stjórna loka-afurðinni, þ.e. fengið "final cut". Einnig sagði hann að hlutirnir hefðu svo sem ekki breyst svo rosalega frá því að hann hóf ferilinn. Stafræna tæknin gerði mönnum kleift að gera ákveðnar tegundir af myndum á mun ódýrari hátt (sérstaklega samtímamyndir), en á sama tíma hefði umhverfið breyst á þann veg að nú væri nánast ógjörningur að gera períóðu-myndir (eins og Djöflaeyjuna eða Bíódaga) vegna þess hve mikið þær myndu kosta (hann talaði um að períóðumynd eins og Djöflaeyjan, þar sem menn þyrftu að byrja að byggja sviðsmyndir ári áður en tökur hæfust, myndu kosta milljarð í dag).
Í blálokin talaði hann aðeins um möguleikana sem stafræna tæknin veitir fólki, þ.e. að það getur nánast hver sem er gert bíómyndir nú til dags, og m.a. nefndi hann draum Coppola (var það ekki örugglega Coppola) um feitu táningsstúlkuna í Iowa sem tekur upp snilldarverk á camcorderinn sinn.
2 ummæli:
Það gefur þér enginn einkunn fyrir þínar færslur. Er það ekki leiðinlegt. Væri skemmtilegra ef við myndum öll gefa færslunum þínum einkunn?
Æ nei. Myndi þá ekki bara myndast pressa á mér að uppfylla bloggkvótann?
Skrifa ummæli