sunnudagur, 3. október 2010

RIFF 2010: Dagur 11

Í dag fór ég á Bad Family, Brim og sigurmyndina, Four Times. Mér fannst Brim fantagóð, og vona að enginn láti hana framhjá sér fara. Bad Family var ágæt, og svo má deila um Four Times - það var margt áhugavert við hana og mörg alveg stórskemmtileg skot í henni en hún var ofboðslega hæg og ekki alltaf auðvelt að fylgja því hvað átti að vera að gerast.

Meira um þetta síðar...

RIFF 2010: Dagur 10

Í dag fór ég á The Blood of the Rose, Operation Danube, Womb og Íslenskar stuttmyndir 3. Allar myndirnar í fullri lengd voru góðar, íslensku stuttmyndirnar voru síðri, auk þess sem það voru ýmsir tæknifeilar í gangi á þeirri sýningu.

Meira um þetta síðar...

RIFF 2010: Dagur 9

Í dag fór ég á spjall með Jim Jarmusch, The Genius and the Boys, Aardvark og Silent Souls. Aardvark var léleg og ég var greinilega orðinn soldið þreyttur þegar kom að Silent Souls, því ég átti mjög erfitt með að halda mér vakandi yfir henni.

24. The Genius and the Boys
Þessi var ágæt.
Sagan á bak við þessa heimildamynd er alveg ótrúleg. Viðfangsefni myndarinnar, D. Carleton Gajdusek, var Nóbelsverðlaunahafi, ótrúlegur sérvitringur og barnaníðingur. Myndin fjallar um feril hans og afhjúpar hægt og rólega þessa dekkri hlið. Gajdusek uppgötvaði prótínsýkla (prions) og hvernig kúariða getur borist í menn þegar hann rannsakaði sjúkdóminn Kuro hjá mannætuættbálkum í Papúa Nýju-Gíneu. Hann hafði einnig sérstakt dálæti á þessum ættbálkum því þar tíðkaðist kynlíf með ungum drengjum. Það er margt skuggalegt í þessari mynd, en það skuggalegasta er líklegast það að þessi furðulegi, einhleypi maður skyldi fá að ættleiða 53 drengi á 20-30 ára tímabili.
Sögumaður myndarinnar fór soldið í taugarnar á mér, en það var leikstjórinn sjálfur sem las inn á hana með miklum sænskum hreim. Ég held að myndin hefði batnað talsvert við það hefði hann ráðið innfæddan Breta eða Bandaríkjamann til þess að tala inn á hana.



25. Aardvark
Aðal-"leikararnir" tveir
Þessi var arfaslök, og án nokkurs vafa versta myndin sem ég sá á hátíðinni. Hún fjallar um Larry, blindan alkóhólista á batavegi sem byrjar að æfa jiu jitsu. Þjálfarinn hans er Darren, en hann er í ruglinu - drekkur, dópar og nær sér í aukatekjur með því að selja sig. Þeir verða góðir vinir og Larry, þurri alkinn, fer að hanga með Darren á strípibúllum og fylleríum, en byrjar þó ekki að drekka aftur (þetta þótti mér mjög ótrúverðugt, að alki á batavegi myndi koma sér í svona aðstæður, og að hann skyldi ekki falla ef hann kæmi sér í svona aðstæður). Síðan er Darren drepinn og Larry leitar hefnda.
Það fyndna við þessa mynd er að þetta langsótta "premise" var í raun ekki skáldað, heldur er Larry virkilega blindur maður sem æfir jiu jitsu og Darren er þjálfarinn hans. Það gerir myndina samt engu betri, og raunar stuðlar það örugglega að því hvað hún er léleg því þeir eru báðir frekar slappir leikarar (og raunar er allur leikur í myndinni lélegur).
Ekki bætti það úr skák að sýningarstjórinn á þessari mynd hlýtur að hafa verið algjör viðvaningur. Ég sá myndina í Tjarnarbíói, þar sem hún var sýnd af myndvarpa. Myndvarpinn var widescreen (16:9), en myndin var sýnd af digibeta sem er ekki widescreen format, og þar að auki var myndin widescreen, en sýningarstjóranum datt ekki í hug að zooma, þannig að myndin þakti ekki nema í mesta lagi 1/3 af flatarmáli skjásins.
Mig minnir að myndin hafi tekið enn minna pláss á skjánum en þetta!

26. Silent Souls
Ég á soldið erfitt með að fjalla um þessa mynd því mér gekk afleitlega að halda mér vakandi í gegnum hana. Hún fjallar í stuttu máli um tvo menn sem ferðast langa leið til þess að brenna lík konu annars þeirra samkvæmt gamalli hefð. Á meðan á ferðalaginu stendur komumst við að því að vinurinn hafði átt í ástarsambandi við konuna, en eiginmaðurinn virðist ekkert sérstaklega sár yfir því. Hann elskaði hana svo heitt að hann vildi að hún fengi allt sem hún þarfnaðist.
Eftir líkbrennuna fara hlutirnir að óskýrast í höfðinu á mér...

föstudagur, 1. október 2010

RIFF 2010: Dagur 8


Í dag fór ég á Nummioq, Investigation of a Citizen above Suspicion og The Tenth Victim.

21. Nummioq
Þessi var alveg ágæt.
Nummioq var samt alls ekki eins og ég bjóst við. Miðað við lýsingu og það að þetta á að vera fyrsta grænlenska myndin í fullri lengd bjóst ég við hægri, ljóðrænni mynd um inúíta sem ferðast um á kajak o.s.frv. Þetta voru auðvitað bara fordómar, en myndin kom mér engu að síður á óvart. Aðalpersónan er hvítur maður, væntanlega af dönskum ættum, og mest áberandi inúítinn í myndinni er sidekick-ið hans, sem er fyrst og fremst soldið misheppnaður og hlægilegur. Myndin í heild er mun hressari og skemmtilegri en ég bjóst við, en að sama skapi minni vigt í henni. Þetta er í raun nokkuð einföld saga, en mér fannst hún góð og mér fannst endirinn mjög góður og góð pæling á bak við hann. Ég get alveg mælt með þessari.



22. Investigation of a Citizen above Suspicion
Þessi mynd er frá 1970, og var alveg kostuleg á köflum. Aðalpersónan er lögregluforingi, ímynd valdníðslu og ofbeldis. Hjákonan hans virðist hafa alið upp í honum þá hugmynd að misbeita valdi sínu með einhverjum hætti, og að lokum gerir hann það með því að drepa hana til þess eins að komast að því hvort einhvern myndi gruna hann. Það er sama hvað hann gerir, enginn kollega hans vill horfast í augu við þann möguleika að hann gæti verið sekur, þótt öll sönnunargögnin bendi til þess. Upp úr þessum aðstæðum myndast fjölmargar skemmtilegar senur þar sem hann reynir, sitt á hvað, að koma upp um sjálfan sig og hylja spor sín. Í draumasenu seint í myndinni hefur hann játað á sig glæpinn en kollegar hans krefjast þess að hann sanni sekt sína, sem honum tekst ekki, og að lokum þvinga þeir fram hjá honum játningu um að hann sé saklaus. Þetta þótti einhverjum í salnum minna fullmikið á aðstæður í íslensku samfélagi, því hann hrópaði upp "Geir Haarde!", hvernig sem þið viljið svo túlka það.
Mér skilst að það sé ekkert sérstaklega auðvelt að nálgast þessa mynd (eða aðrar eftir Elio Petri), en hún er virkilega góð og firringin og hræsnin sem hún lýsir á ekki síður við á Íslandi árið 2010 en í Ítalíu árið 1970.



23. The Tenth Victim
Þetta er önnur myndin af þremur eftir Elio Petri sem voru sýndar á hátíðinni (ég sá ekki þá þriðju, A Quiet Place in the Country). Þessi var talsvert mikið síðri en Investigation... Þetta er í grunninn léleg vísindaskáldsaga sem gerist í framtíð þar sem "Hin mikla veiði" ("Il grande caccia") er vinsæl íþrótt, en hún gengur út á það að þátttakendur skiptast á að vera veiðimenn og bráð, og markmiðið er að drepa hvorn annan og lifa af 10 umferðir. Fyrir utan það að vera skemmtilegur fyrirboði um raunveruleikasjónvarp nútímans, þá er þessi grunnhugmynd frekar slöpp, og raunar tekst myndinni aldrei alveg að yfirstíga þennan slaka grunn, þrátt fyrir margar bráðskemmtilegar senur. Ef þið ætlið bara að sjá eina mynd eftir Elio Petri, þá mæli ég eindregið með því að það verði Investigation... og ekki þessi.


RIFF 2010: Dagur 7

Í dag fór ég á Which Way Home, Íslenskar stuttmyndir 2 og When the Dragon Swallowed the Sun.

18. Which Way Home
Þessi var alveg rosaleg. Ég er ekki frá því að ég hafi orðið pínu klökkur á tímabili.
Which Way Home fjallar um suður-amerísk börn sem reyna að komast til Bandaríkjanna. Á hverju ári eru um 100 þúsund manns gripin við það að smygla sér til Bandaríkjanna, og samkvæmt þessari mynd eru um 5% þeirra börn sem eru ein á ferð. Við fylgjum fyrst og fremst fjórum ungum drengjum á aldrinum 13-17 ára, en kynnumst líka fleiri flökkubörnum. Átakanlegasta senan var viðtal við tvö níu ára gömul börn, strák og stelpu, sem voru á leið til Bandaríkjanna ein síns liðs. Stelpan vildi finna mömmu sína, sem hún hafði ekki séð í þrjú ár.



19. Íslenskar stuttmyndir 2
Á þessari sýningu voru stuttmyndirnar Ocean Ocean, Viltu breyta lífi þínu?, Smá hjálp, Clean og Hjartsláttur.
Ég vil sem minnst segja um Ocean Ocean. Mér fannst þetta tilgerðarleg og leiðinleg mynd, og ég held að þetta sé í fyrsta skipti á svona leikstjórasýningu á íslenskum stuttmyndum þar sem enginn klappar. Leikstjórinn lét líka ekki sjá sig uppi á sviði eftir sýningu (raunar veit ég ekkert hvort hún var á staðnum til að byrja með, en ég hefði heldur ekki mætt upp á svið eftir þetta).
Viltu breyta lífi þínu? var ágæt mynd um tilbreytingasnautt líf gamals manns með skemmtilegu twisti í lokin. Það er gaman að minnast á það að fyrrverandi nemandi í kvikmyndagerðinni, Einar Sverrir, samdi tónlistina í myndinni (og stóð sig bara ansi vel).
Smá hjálp var ótrúlega krúttleg mynd þar sem einu leikararnir voru 4-5 ára gömul börn. Lítil stelpa vaknar á undan öllum öðrum á fjögurra ára afmælinu sínu og fer og vekur vin sinn og saman eiga þau í litlu ævintýri.
Clean var allt í lagi mynd um danskennara sem er fíkill og á í fjárhagsvandræðum og kemur sér í stöðugt vandræðalegri aðstæður til þess að redda pening fyrir næsta skammti. Það er soldið skrýtið að þessi er tekin upp á RED myndavél, sem á að vera toppurinn í þessu stafræna, en lúkkið á henni er samt verra en á flestum hinna.
Hjartsláttur er sæt lítil mynd um níu ára stelpu sem virðist soldið utangátta og einmana, en sýnir engu að síður mikið hugrekki í lok myndarinnar. Það sem mér fannst einna flottast í þessari mynd er hvernig fullorðna fólkið er utan við heim barnanna. Við sjáum foreldra stúlkunnar og aðra fullorðna aldrei nema sem klessur úr fókus, og raddir þeirra eru eins og óljóst bergmál. Mér fannst það eyðileggja þetta þema þegar kennarinn var sýndur í fókus og fékk línur. Mér hefði fundist mjög flott að sjá aldrei fullorðna manneskju í fókus í myndinni.
Mér fannst áhugavert í Q&A-inu í lok sýningar að allir nema Ísold, sem gerði Clean, höfðu tekið upp á annað hvort Canon 7D eða Canon 5D, sem eru ekki kvikmyndatökuvélar heldur fyrst og fremst ljósmyndavélar. Það eru augljóslega ýmsir kostir við þetta. Fyrir ca. 300þús færðu myndavél sem þú getur skipt um linsur á og stýrt fleiri þáttum en á 500 þúsund króna vídjó-vél, og það helsta sem þú missir er hljóðupptakan sem þú getur leyst með tiltölulega ódýru tæki.

20. When the Dragon Swallowed the Sun
Mér fannst frekar lítið varið í þessa. Vissulega er þetta verðugt málefni og hræðileg staða sem Tíbetar eru í, en þetta er líka orðið soldið þreytt umræðuefni og þessi mynd kynnti engar nýjar hliðar á því og færði fá sannfærandi rök. Raunar held ég ekki að það hafi verið ætlunin. Mín tilfinning var sú að þessi mynd ætlaði sér ekki að fá neinn til þess að skipta um skoðun, heldur væri hún bara "preaching to the choir", þ.e. henni var beint til þeirra sem voru þegar sammála boðskap myndarinnar. Ég get ekki mælt með þessari.