mánudagur, 21. apríl 2008

Umsögn um síðustu tvo fyrirlestrana

Dóp
Alveg hreint ágætur fyrirlestur.
Ágætur inngangur.
Öll klippin voru góð og vel valin nema Easy Rider (það skiptir kannski ekki öllu með tónlistina en ég fékk þá tilfinningu að það væri allt sundurklippt, þó ég sé ekki 100% viss).
Fín pæling um áhrif kvikmynda.
Talsvert of langur (26 mínútur)
9,0

Anders Thomas Jensen
Ágætisfyrirlestur.
Vel valin klipp.
Fín greining á myndum hans.
Fín umfjöllun um myndirnar.
9,0

laugardagur, 19. apríl 2008

Prófið langa

Jæja, það gekk ekki áfallalaust hjá okkur prófið frekar en flest annað. Vegna þess að um alveg nýja uppbyggingu prófs var að ræða, hafði ég einfaldlega ekki tilfinningu fyrir lengdinni á því. Ég sé það núna að það hefði mátt notast við talsvert styttra handrit (2-4 bls. í staðinn fyrir 7-8 eins og fyrsta senan í þessu handriti var). Því aðalatriðið er jú að þið sýnið fram á þekkingu ykkar, ekki að þið getið teiknað upp senur á ljóshraða. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á.
Þið ættuð samt ekki að hafa neinar voðalegar áhyggjur af þessu. Lengdin er auðvitað mín mistök, og ég mun reyna eins og ég get að haga fyrirgjöfinni þannig að þið gjaldið ekki fyrir þau. Eins virðist ekki hafa verið nógu skýrt, hvorki á prófinu né í glærunum, akkúrat hvað ein "uppsetning" þýðir, en það sem ég átti við var ein uppstilling á myndavél. Þannig hefði ein uppsetning átt að samanstanda af einni myndavél á einum stað, en það mátti svindla svolítið með það, því það mátti snúa henni og zooma, þ.a. í raun hefði alveg verið hægt að nota sömu uppsetninguna á nærmynd af mömmunni og nærmynd af vitninu, strangt til tekið. Svo hefði auðvitað verið hægt að nota kranann eða dollýið fyrir nánast hvað sem er... Ég ætla að reyna eins og ég get að gefa vel fyrir þetta verkefni þótt menn séu ekki að framkvæma þetta eins og ég hafði ímyndað mér.
Að öðru leyti vona ég að prófið hafi lagst vel í menn, og óska ég ykkur alls hins besta í prófunum sem eftir eru.
Ég veit ekki fyrir víst hvenær DVD-diskurinn verður til, líklegast ekki fyrr en eftir svona tvær vikur í fyrsta lagi (ég er alveg að drukkna í vinnu akkúrat núna). Þegar að því kemur, þá tilkynni ég það hér á síðunni, og að öllum líkindum verður það afgreitt þannig að þið getið sótt þá upp á skrifstofu.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Maður verður að játa mistök sín

Það þykir víst góður eiginleiki að menn geti játað mistök sín. Ég á stundum svolítið erfitt með það, og dett stundum í einhverjar varnarstellingar þegar ég verð fyrir gagnrýni. Það er bæði kostur og galli á blogginu hvað hlutirnir gerast hratt. Á öðru formi hefði ég kannski haft vit á því að lesa viðbrögð Jóns og Ingólfs yfir og melta þau í svona 24 tíma áður en ég myndi bregðast við. Og á öðru formi hefðu þeir kannski gert slíkt hið sama. Þá held ég að þessi samskipti hefðu öll orðið á jákvæðari nótum.
En gert er gert. Jón og Ingólfur (og Eyjólfur líka) höfðu margt til síns máls í viðbrögðum sínum. Ég bjóst alveg við því að menn myndu koma verki sínu til varnar, og það er ekkert nema gott um það að segja. Fyrirgjöfin fyrir stuttmyndirnar er langtífrá gallalaus, því miður, og þess vegna var ég frá upphafi opinn fyrir tillögum og rökstuðningi. Eftir á að hyggja hefði ég líka átt að taka mér betri tíma í fyrirgjöfina, melta hana aðeins með mér áður en ég varpaði henni svona fram. Það hefði líka verið auðveldara hefði ég haft myndirnar hjá mér til þess að geta litið aftur á þær.
Aftur á móti finnst mér að menn hefðu getað komið myndum sínum til varnar án þess að gera lítið úr myndum annarra. Ef eitthvað er, þá fannst mér það grafa undan málflutningi þeirra, og sum gagnrýnin var á mörkunum að vera lágkúruleg.
Allar myndirnar voru góðar - það er engin skömm að fá 8,5 fyrir stuttmynd. Að því sögðu, þá er ljóst að fyrirgjöfin hjá mér var hálfmisheppnuð, því ég tók ekki nægilegt tillit til sögunnar og handritavinnunnar (þar finnst mér reyndar Endurfundir vera meiri óréttlæti beitt en Syndir feðranna).
Eftir á að hyggja, sé ég að það voru e.t.v. mistök að gera þær handritskröfur sem ég gerði, þar sem einhverjir hópar festu sig of mikið í handritinu á kostnað flæðis og sköpunargleði. Þá hefði ég líka átt að koma með athugasemdir við handritin sem ég fékk.
Ég vil ekki lækka neinar myndir, enda myndi það senda leiðindaskilaboð. Einn hópur fylgdi ekki sínu handriti og hefði kannski átt að fá refsistig fyrir það. Á móti kemur bæði að handritið sem þeir skrifuðu var mjög gott, og að ákvörðunin sem þeir tóku var sú eina rétta, því það hefði að öllum líkindum reynst þeim um megn að kvikmynda handritið sitt. Mér finnst ekki ástæða til þess að draga þá niður fyrir að taka rétta ákvörðun.
En að endurskoðuðum einkunnum:

Syndir feðranna
Þessi mynd fannst mér líða mest fyrir fastheldni sína við handritið. Ef ég hefði beðið um handrit án díalógs hefði það kannski ekki gerst, hver veit?
Höfum það samt alveg á hreinu að þetta er ekki slæm mynd. Það er margt mjög gott við hana. Myndatakan og klippingin í bílasenunni er til fyrirmyndar. Lokasenan var fín. Senan á lögfræðistofunni var ansi góð. Senan með Breka var líka mjög fín. Sagan í heildina var góð og vel uppbyggð. Klippingin er oft mjög fín, og t.d. er uppbygging upphafssenunnar, með klippinu yfir í nærmyndina á hárréttum tíma, mjög flott.
Sem sagt, ég lúffa með hluta af upphaflegri gagnrýni minni á bílasenuna. Það er rétt að það að klippa senuna eins og samtal gefur henni skemmtilega firrtan blæ, þ.a. reaction skotin eiga vissulega rétt á sér. Ég tek gagnrýnina á þau tilbaka. Ég get því miður ekki með góðri samvisku gert hið sama með hljóðvinnsluna. Myndin verður að geta staðið ein og sér, án þess að fylgi með langar útskýringar á því af hverju þetta eða hitt er rosalega sniðugt. Eftir allar þessar útskýringar skil ég hvað þið eruð að reyna að gera, og mér finnst það ágæt hugmynd. En eins og senan er kemst þetta ekki til skila. Annað hvort hefði mátt hafa eina langa vandræðalega þögn með háu umhverfishljóði í lok einræðunnar, kannski með hægu zoomi á líkpokann eða eitthvað svoleiðis - ég er sannfærður um að það hefði virkað betur. Ellegar hefðu þagnirnar þurft að vera lengri til þess að þessi hugmynd ykkar kæmist til skila - ég er ekki viss um að það hefði endilega verið gott því það hefði getað gert senuna of hæga, en ef við eigum að taka þessu sem symbólskri bið Guðmundar eftir svari frá dauðum föður sínum, þá þurfa pásurnar að vera lengri.
Þrátt fyrir að upphafssenan hafi að mörgu leyti verið góð, finnst mér hún einfaldlega ekki virka í samhengi við myndina. Hún er í lengra lagi miðað við myndina, og gerir ekki mikið til þess að fleyta sögunni áfram. Þið talið um svipaða senu í Reservoir Dogs sem ég man ekki alveg eftir, en ég geri ráð fyrir að sú saga hafi verið sögð af persónu sem kom aftur við sögu í myndinni. Það er ekki raunin með þessa senu. Ef Guðmundur eða Ingólfur (sem báðir gegna raunverulegu hlutverki í sögunni) hefðu sagt söguna, þá hefði hún virkað betur (held ég).
Samtölin eru stundum svolítið þunglamaleg, og stundum er sagan látin þróast of mikið í samtölunum og of lítið myndrænt.
9,0

Endurfundir
Fín mynd sem hefði átt að fá betri umsögn.
Það sem ég held ég hafi verið að reyna að segja varðandi yfirvaraskeggin var að sá húmor passar ekki endilega saman við restina af húmornum í myndinni, sem er lúmskari og þroskaðri. Þau eru samt fyndin, og alls ekki löstur á myndinni.
Ljóðin eru bráðskemmtileg og montage senan ansi góð. Það hefði kannski verið enn fyndnara ef tónlistin í montage senunni hefði verið einhver eldgömul dægurlög, Raggi Bjarna eða Haukur Morthens eða eitthvað álíka. Þá er ég ekki að segja að tónlistin hafi ekki virkað - hún var fín.
Ég talaði um að hún hefði ekki verið nógu myndræn, en sumt var mjög fínt myndrænt. T.d. var undirbúningur Eyjólfs fyrir kaffiboðið vel gerður. Eins var skotið þar sem Aron hendir stílabókinni ansi skemmtilegt. Það voru eiginlega bara örfáar senur sem voru fábreyttar, t.d. senan með Alexöndru - mér finnst að þar hefði mátt vinna í þrengri skotum.
Ég er alveg á mörkunum að fara með þessa upp í 9,5, en mér finnst ég ekki alveg geta það.
9,0

Vonandi eru þessar umsagnir réttlátari og betur rökstuddar.

Smá punktur að lokum. Skil á námseinkunnum eru ekki fyrr en á mánudag, þ.a. ekki láta ykkur bregða þótt stigagjöf fyrir bloggið haldi áfram að koma inn yfir helgina.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Dómur fellur

Update
Ég hef kannski vaðið svolítið blint í sjóinn með einkunnirnar fyrir stuttmyndirnar. Að minnsta kosti hef ég fengið nokkuð sannfærandi rökstuðning hjá einhverjum aðilum um að breytinga sé þörf (og myndu þær þá vera til hækkunar). Ég mun leggjast undir feld og gera breytingar á morgun. Þangað til hvet ég menn endilega til þess að láta í sér heyra.



Nú er ég búinn að sjá allar stuttmyndirnar og fimm af sjö fyrirlestrum, og kominn tími á að gefa einkunn fyrir þessi verkefni. Endilega kommentið ef þið viljið verja verk ykkar. Ekkert er greypt í stein.

Stuttmyndir

0:15
(Emil, Björn, Marinó, Andrés og Svavar)
Í alla staði sérlega vel heppnuð mynd. Einföld hugmynd, en jafnframt skemmtileg og vel útfærð. Mjög flott lúkk í innisenunum, mjög hrein og falleg svarthvít mynd. Mjög flottur effekt þegar Emil og Andrés speglast í glugganum. Öll tæknivinnsla til fyrirmyndar.
10

Look Around You (Bjarki, Gísli, Robert, Daníel og Hlynur)
Margt vel heppnað. Upphafssenan var nokkuð flott og endirinn ansi vel heppnaður. Það var margt skemmtilegt í flashbakkinu, t.d. þótti mér gaman hvernig leikið var með fókusinn til þess að túlka ofdrykkju persónunnar. Slagsmálin voru ágæt. Sumt var ekki að virka, sérílagi "ljósmyndirnar". Sá effekt var einfaldlega hallærislegur, og léleg gæðin á myndunum gerðu e.t.v. bara illt verra.
9

Endurfundir (Aron, Eyjólfur, Guðmundur, Hjálmar og Ingi)
Margt ansi fyndið. Ég er samt ekki alveg viss hvort hún haldi dampi. Stundum fannst mér þessi brandari - Aron og Eyjólfur að leika gamla kalla með "porn-'staches" - vera að tapa töfrunum, en þá kom eitthvað annað, eins og þessi stórkostlegu "ljóð". Á heildina var hún ansi skemmtileg. Varðandi útisenuna, þá hefði mátt reyna meira að laga hljóðið í henni (annað hvort að nota low-pass filterinn á hljóðnemanum, eða einhvern álíka filter í tölvunni), það hefði átt að ná einhverju af bílahljóðinu í upphafi þeirrar senu. Ég er svolítið á báðum áttum með þessa. Mér finnst hún ekki alveg jafnmikið "bíó" og hinar myndirnar, þ.e. mér finnst efnistökin svolítið "plain", og eins og þið séuð ekki að vinna úr efninu alveg eins myndrænt og ég hefði viljað.
8,5

Syndir feðranna (Ari, Arnar, Árni, Ingólfur og Jón)
Hér var ýmislegt sem virkaði ekki alveg. Þetta er hiklaust efni í skemmtilega mynd, en einhvern veginn fannst mér eins og það vantaði eitthvað upp á heildarmyndina. Hvaða tilgangi gegndi t.d. upphafssenan? Hvernig fleytti hún handritinu áfram? Kannski hefði senan virkað betur ef aðalpersónan hefði sagt söguna, en eins og hún er þá er varla hægt að tala um að hún dýpki persónusköpunina. Líklegast er það smámunasemi í mér, en "líkpokinn" var ekki að gera sig - var pabbinn kannski dvergur? Sama hvað ég pæli í því þá skil ég ekki af hverju hljóðvinnslan í bílasenunni ætti að þykja fyndin eða sniðug. Í fyrsta lagi má setja spurningamerki við það að klippa alltaf yfir á pokann í einræðu aðalpersónunnar - það er ekki eins og við séum forvitin um viðbrögð pokans við ræðunni (mér fannst það samt alveg virka). En af hverju í ósköpunum að nota annað umhverfishljóð í skotunum af pokanum -þótt það sé gert viljandi þá virkar það samt viðvaningslega á mig. Þetta er reyndar farið að hljóma verr en efni standa til - það var margt ágætt í myndinni: cameo-ið hans Breka var skemmtilegt, senan á lögfræðistofunni var ágætlega útfærð (það stakk reyndar svolítið í stúf að Jón skyldi tala fyrir lögfræðinginn þegar hann var nýbúinn að segja okkur langa sögu í öðru hlutverki), upphafssenan var ágætlega gerð og það var klippt yfir á nærmyndina af Jóni á hárréttum tíma, o.s.frv.
8,5

Númer 46 (Óskar, Alexander, Einar, Birkir)
Draumkennd og myndrænt mjög flott. Ég hafði mjög gaman af því þegar klippt var í takt við tónlistina, það kom ansi skemmtilega út. Fyrstu-persónu sjónarhornið virkaði oft ágætlega. Ef ég ætti að kvarta undan einhverju, þá fannst mér sagan svolítið óskýr og kannski ekki alveg virka í lokin (þegar hann vaknar í lokin, þá skildi ég það þannig að hann hafi dreymt megnið af myndinni, og mér fannst það einhvern veginn ekki alveg eins spennandi og hinn kosturinn, en það er líkast til bara smámunasemi).
9,5


Fyrirlestrar
Emir Kusturica (Árni, Marinó og Björn)
Nánast gallalaus fyrirlestur. Fjallað er um leikstjórann og myndir hans af einlægum áhuga og nokkurri natni. Myndbrotin eru vel valin. Flutningurinn var góður. Ég hef bara ekkert út á þennan fyrirlestur að setja.
10

Werner Herzog (Hjálmar, Aron, Guðmundur og Ingi)
Mér fannst vanta svolítið upp á vandvirkni og metnað í þessum. Sumt af því er líkast til sjálfum mér að kenna, enda fékk hópurinn að því er virðist stórgallaðar myndir frá mér, og ég mun reyna að taka tillit til þess í fyrirgjöf. Herzog er kannski efni í fleiri en einn fyrirlestur, en mér fannst vanta svolítið upp á umfjöllunina um hann. Og fyrst verið var að sýna myndbrot úr Grizzly Man, var þá ekki kjörið að sýna eitthvað með honum sjálfum (hann er skemmtilega skrýtinn í henni).
8,5

Hirokazu Koreeda (Óskar, Einar og Birkir)
Ágætlega útfærður fyrirlestur. Virkilega vel valin klipp og mjög fín umfjöllun um kvikmyndirnar. Það var lítið um leikstjórann, en það er reyndar ekki hópnum að kenna - það er nánast ekkert á netinu um hann (sem dæmi um það þá birtist færsla á námskeiðssíðunni okkar meðal 10 efstu ef maður slær upp nafninu hans á Google).
9,5

Anime (Bjarki, Robert, Daníel og Hlynur)
Ágætur fyrirlestur en ekki gallalaus. Mér fannst tilfinnanlega vanta glærur þegar farið var í sögu anime - það er erfitt að ná öllum japönsku nöfnunum og þvíumlíku, auk þess sem gaman hefði verið að sjá myndir til þess að átta sig á stílnum (ef einhverjar myndir voru til). Annars var söguhlutinn fínn. Hvað umfjöllun um myndir varðar, þá hefði ég viljað sjá umfjöllun um fleiri leikstjóra en bara Miyazaki.
9,0

Bollywood (Emil, Eyjólfur og Andrés)
Hér hefðu líka mátt vera glærur í söguhlutanum. Síðan verð ég að setja smá spurningamerki við rannsóknarvinnuna, þar sem ekki var lögð meiri áhersla á gríðarlega frægð og arfleifð Amitabh Bachchan (gamli karlinn sem dansaði í myndbrotinu), en hann er ein af topp-5 stjörnum Bollywood seinustu 30 árin! Svo var fyrirlesturinn líka í lengra laginu (örugglega um 25 mínútur). Samt sem áður var umfjöllunin um helstu einkenni góð og myndbrotin voru skemmtileg. Svo var myndbandið sem sýnt var í upphafi seinni tímans ansi sniðugt.
9,0

Uppbygging prófsins

Þar sem gömul próf gefa ekki beint rétta mynd af því hvernig prófið á laugardag verður, þá ætla ég að lýsa í stuttu máli uppbyggingu prófsins. Prófið er í meginatriðum svona uppbyggt:
  • 5 stuttar skilgreiningar (10%)
  • 2 stuttar efnislegar spurningar (10%)
  • 1 spurning sem er nánast gefins (10%)
  • Stutt ritgerð þar sem þið greinið uppbyggingu einnar af myndunum sem við horfðum á í vetur (þið getið valið milli nokkurra mynda) (15%)
  • Önnur stutt ritgerð (15%)
  • Undirbúningur handrits fyrir tökur: Þið fáið senu(r) úr bíómynd sem gerist öll á einum stað og eigið að undirbúa tökuáætlun (uppsetningar, skot, storyboard fyrir nokkur skot, "shooting script", o.s.frv.) (40%)
Athugið að handritið sem þið fáið er í lengra laginu (12 bls) og er í raun meira en ein sena (3-4 senur sem gerast allar á einum stað). Meginuppistaðan (meira en helmingur) er fyrsta senan, og það skiptir langmestu máli að ganga frá henni. Ef þið lendið í tímaþröng, þá skulið þið ekki hafa áhyggjur af hinum senunum.

mánudagur, 14. apríl 2008

Helstu áherslur fyrir próf í kvikmyndagerð

Ég var að enda við að fá minniháttar taugaáfall. Ég mundi ekkert hvenær prófið átti að vera, minnti að það væri einhvern tíman rétt eftir dimission. Síðan gáði ég og fékk kvíðahnút á stærð við verðlauna-vatnsmelónu þegar ég sá að prófið er 19. apríl!!!

<-- Einhvern veginn svona leið mér...




Á morgun fáið þið "leslista" fyrir prófið (allt of seint - mea maxima culpa). Hann lítur einhvern veginn svona út og getur ekkert breyst héðan af.


Myndataka

Skot

· Hvað heita þau?

· Hvernig eru þau yfirleitt notuð?

Sjónlínan

· Hvað er sjónlínan?

· Hvernig getum við notað sjónlínuna til þess að láta áhorfandann samsama sig við persónu, eða fjarlægja sig frá henni?

Uppbygging ramma

· Þriðjungaskiptingin

· Hvernig er ramminn oftast uppbyggður (hvar setjum við augun)?

Þrívítt rými á tvívíðum fleti

· Hvernig sköpum við dýpt? (samsíða línur o.fl.)

Sjónarhorn

· Lágt sjónarhorn vs. hátt sjónarhorn

· Besta hæðin til þess að taka myndir af fólki. Af hverju?

· Hallandi sjónarhorn (Dutch tilt).

· Brennivídd – hvaða áhrif hefur mismunandi brennivídd?

Lífið er línudans

· 180° reglan og “línan” og allur línudansinn.

· Hvernig getum við komist yfir línuna (brýr og hjarir)?

Film Directing Fundamentals

Grunnreglurnar

· 30° reglan

· 180° reglan (og “línan”)

· Skjástefna (screen direction)

· Hvenær má brjóta reglurnar?

Önnur grundvallaratriði

· Meðferð tíma (þjappa, teygja)

· Mikilvægar myndir (hlutir, staðir, fólk) kynntar til sögunnar áður en til kasta kemur

· Aðferðir og mikilvægi þessa

Uppbygging sögunnar

· Rauði þráðurinn (spine)

· Meginhvatir persóna

· Átök (conflict)

· Persónusköpun

· Gjörðir og taktar (actions and beats)

Uppbygging senunnar

· Blokkir

· Taktar

· Vendipunktur

Sviðsetning

· Hlutverk sviðsetningar

· Hvernig notum við sviðsetningu til þess að segja sögu

Myndavélin

· Hverju getum við stýrt

· Hvernig notum við myndavélina til þess að segja sögu

Nokkur önnur atriði

· Stíll

· Dekkun

· Hæð myndavélar

· Linsur/brennivídd

· Prósa-storyboard

Loks eigið þið að geta fengið í hendurnar handrit (eina senu) og sett upp skot og raðað niður á skot, eins og gert er bæði með Notorious og A Piece of Apple Pie. Í slíku verkefni mynduð þið þurfa að sýna framvindu í senunni og að byggja upp spennu, bæði með sviðsetningu og myndatöku.

Kvikmyndasagan

Hverjar voru forsendur kvikmynda?

En kvikmynda með hljóði?
En litmynda?
Hverjir voru forverar kvikmyndanna?
Nokkrir upphafsmenn kvikmyndanna (Lumiére-bræður, Méliès, Edison, D.W. Griffith.
Af hverju Hollywood?
Hvernig stóð á heimsyfirráðum Hollywood?
Hverjar voru tæknilegar og efnahagslegar forsendur hljóðmynda?
Hvaða hindranir hafði hljóðið í för með sér?
(Af hverju leið stúdíó-tímabilið undir lok?)

Handrit
Grunnþættir (Beat-->Story Event-->Scene-->Sequence-->Act-->Story) og dæmigerð uppbygging.
Archplot, Miniplot og Antiplot (og dæmi).
Annað skiptir minna máli.

Klipping
Nokkrar grundvallarhugmyndir um klippingu.
Hugmyndir Murch um klippingu.

Leikstjórar/stefnur
Þið eigið að kunna deili á leikstjórunum eða stefnunum sem þið fjölluðuð um í fyrirlestrunum ykkar.

Lesefni
Glærur.
Film Directing Fundamentals
, kaflar 1-9, 13-15 og 17.
5 C’s of Cinematography
, fyrstu tvö C-in, lesin mjög lauslega.
In the Blink of an Eye
, mjög lauslega lesin.
(How to Read a Film
, kafli 4. Þið eigið að skilja nokkurn veginn a.m.k. eitt sjónarhornið.)

Þið eigið líka að kunna skil á myndunum sem við horfðum á í vetur:

American Movie
Astrópía
Brúðguminn
Devil’s Backbone
Funny Games
General, The
Happy End
Hearts of Darkness
Hold Up Down
Kabinett des Dr. Caligari, Das
Killer of Sheep
Man Bites Dog
Mannaveiðar
Notorious
Oldboy
A Personal Journey With Martin Scorsese through American Movies
Rashomon
Règle du Jeu, La
Sjunde inseglet, Det
Some Like It Hot
Stóra planið
Suspiria
Taste of Tea
Veðramót

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Stuttmyndadagar í Reykjavík

Stuttmyndadagar í Reykjavík hefjast von bráðar og mig langar til að hvetja alla til þess að senda myndirnar sínar inn.
Munið eftir mottóinu hans Ólafs: Það er allt í lagi að senda frá sér mynd þótt hún sé ekki fullkomin, svo lengi sem þetta er nokkurn veginn mynd - þú ert ekki myndin þín og þarft ekki að skammast þín þótt þú gerir mistök. Það skiptir ekki öllu hvort myndirnar eigi séns á að vinna, það er bara gaman að taka þátt, og ef myndin kemst á úrslitakvöldið þá er það frábært (og auðvitað enn þá betra ef hún vinnur til verðlauna).
Skilafrestur er 11. maí, og það má skila annað hvort á Quicktime eða DV (þ.a. þið getið annað hvort flutt myndirnar aftur út á spólu eða kóðað þær sem Quicktime mynd, hvorugt er mikið mál).
Úrslitakvöldið er 29. maí, þ.a. þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki vegna prófa.
Sýnið lit - takið þátt!

þriðjudagur, 8. apríl 2008

ATH: DAGSKRÁRBREYTING

Var að tala við Ólaf, leikstjóra Stóra plansins. Hann var kallaður í tökur í fyrramálið, en segist vera laus seinnipartinn. Leikstjóraheimsóknin færist þess vegna til kl. 16.10 (væntanlega í J-stofu).
Ég biðst afsökunar á þessum skamma fyrirvara, en Ólafur vissi ekki af þessu fyrir víst fyrr en í dag. Ég vona að sem allra flestir sjái sér fært að mæta, og minni ykkur á að vera tilbúnir með 2-3 spurningar handa honum.
Af þessum sökum mun tíminn í fyrramálið falla niður.
Þeir sem þetta sjá mega endilega láta boð ganga til félaga sinna.

þriðjudagur, 1. apríl 2008

Vinnuáætlun stuttmyndar - ÚT FRÁ ÞESSU MÁ EKKI VÍKJA

Myndavélin:
1) Eyjólfur og félagar ljúka tökum nú um helgina.
2) Á mánudag tekur Ólympíuliðið við vélinni og hafa vikuna til þess að ljúka sínum tökum.

Klippitölvan:

1) Emil og félagar ljúka klippingu nú í vikunni.
2) Á föstudag fá Bjarki og félagar tölvuna og klippa sína mynd.
3) Á mánudag taka Eyjólfur og félagar við tölvunni og hafa vikuna til þess að klippa sína mynd.
4) Á föstudag fær Ólympíuliðið tölvuna og ljúka við klippinguna um helgina.

Við höfum ekki mikinn tíma og það má ekkert fara úrskeiðis ef við ætlum að klára allt áður en ég þarf að skila námseinkunnum. Af þeim sökum verða tafir ekki liðnar! Ef þetta kallar á 1-2 svefnlausar nætur eða nokkur skróp þá verður bara að hafa það.

The Deadline Demon