Allar myndirnar voru góðar - það er engin skömm að fá 8,5 fyrir stuttmynd. Að því sögðu, þá er ljóst að fyrirgjöfin hjá mér var hálfmisheppnuð, því ég tók ekki nægilegt tillit til sögunnar og handritavinnunnar (þar finnst mér reyndar Endurfundir vera meiri óréttlæti beitt en Syndir feðranna).
Eftir á að hyggja, sé ég að það voru e.t.v. mistök að gera þær handritskröfur sem ég gerði, þar sem einhverjir hópar festu sig of mikið í handritinu á kostnað flæðis og sköpunargleði. Þá hefði ég líka átt að koma með athugasemdir við handritin sem ég fékk.
Ég vil ekki lækka neinar myndir, enda myndi það senda leiðindaskilaboð. Einn hópur fylgdi ekki sínu handriti og hefði kannski átt að fá refsistig fyrir það. Á móti kemur bæði að handritið sem þeir skrifuðu var mjög gott, og að ákvörðunin sem þeir tóku var sú eina rétta, því það hefði að öllum líkindum reynst þeim um megn að kvikmynda handritið sitt. Mér finnst ekki ástæða til þess að draga þá niður fyrir að taka rétta ákvörðun.
En að endurskoðuðum einkunnum:
Syndir feðranna
Þessi mynd fannst mér líða mest fyrir fastheldni sína við handritið. Ef ég hefði beðið um handrit án díalógs hefði það kannski ekki gerst, hver veit?
Höfum það samt alveg á hreinu að þetta er ekki slæm mynd. Það er margt mjög gott við hana. Myndatakan og klippingin í bílasenunni er til fyrirmyndar. Lokasenan var fín. Senan á lögfræðistofunni var ansi góð. Senan með Breka var líka mjög fín. Sagan í heildina var góð og vel uppbyggð. Klippingin er oft mjög fín, og t.d. er uppbygging upphafssenunnar, með klippinu yfir í nærmyndina á hárréttum tíma, mjög flott.
Sem sagt, ég lúffa með hluta af upphaflegri gagnrýni minni á bílasenuna. Það er rétt að það að klippa senuna eins og samtal gefur henni skemmtilega firrtan blæ, þ.a. reaction skotin eiga vissulega rétt á sér. Ég tek gagnrýnina á þau tilbaka. Ég get því miður ekki með góðri samvisku gert hið sama með hljóðvinnsluna. Myndin verður að geta staðið ein og sér, án þess að fylgi með langar útskýringar á því af hverju þetta eða hitt er rosalega sniðugt. Eftir allar þessar útskýringar skil ég hvað þið eruð að reyna að gera, og mér finnst það ágæt hugmynd. En eins og senan er kemst þetta ekki til skila. Annað hvort hefði mátt hafa eina langa vandræðalega þögn með háu umhverfishljóði í lok einræðunnar, kannski með hægu zoomi á líkpokann eða eitthvað svoleiðis - ég er sannfærður um að það hefði virkað betur. Ellegar hefðu þagnirnar þurft að vera lengri til þess að þessi hugmynd ykkar kæmist til skila - ég er ekki viss um að það hefði endilega verið gott því það hefði getað gert senuna of hæga, en ef við eigum að taka þessu sem symbólskri bið Guðmundar eftir svari frá dauðum föður sínum, þá þurfa pásurnar að vera lengri.
Þrátt fyrir að upphafssenan hafi að mörgu leyti verið góð, finnst mér hún einfaldlega ekki virka í samhengi við myndina. Hún er í lengra lagi miðað við myndina, og gerir ekki mikið til þess að fleyta sögunni áfram. Þið talið um svipaða senu í Reservoir Dogs sem ég man ekki alveg eftir, en ég geri ráð fyrir að sú saga hafi verið sögð af persónu sem kom aftur við sögu í myndinni. Það er ekki raunin með þessa senu. Ef Guðmundur eða Ingólfur (sem báðir gegna raunverulegu hlutverki í sögunni) hefðu sagt söguna, þá hefði hún virkað betur (held ég).
Samtölin eru stundum svolítið þunglamaleg, og stundum er sagan látin þróast of mikið í samtölunum og of lítið myndrænt.
Fín mynd sem hefði átt að fá betri umsögn.
Það sem ég held ég hafi verið að reyna að segja varðandi yfirvaraskeggin var að sá húmor passar ekki endilega saman við restina af húmornum í myndinni, sem er lúmskari og þroskaðri. Þau eru samt fyndin, og alls ekki löstur á myndinni.
Ljóðin eru bráðskemmtileg og montage senan ansi góð. Það hefði kannski verið enn fyndnara ef tónlistin í montage senunni hefði verið einhver eldgömul dægurlög, Raggi Bjarna eða Haukur Morthens eða eitthvað álíka. Þá er ég ekki að segja að tónlistin hafi ekki virkað - hún var fín.
Ég talaði um að hún hefði ekki verið nógu myndræn, en sumt var mjög fínt myndrænt. T.d. var undirbúningur Eyjólfs fyrir kaffiboðið vel gerður. Eins var skotið þar sem Aron hendir stílabókinni ansi skemmtilegt. Það voru eiginlega bara örfáar senur sem voru fábreyttar, t.d. senan með Alexöndru - mér finnst að þar hefði mátt vinna í þrengri skotum.
Ég er alveg á mörkunum að fara með þessa upp í 9,5, en mér finnst ég ekki alveg geta það.
Smá punktur að lokum. Skil á námseinkunnum eru ekki fyrr en á mánudag, þ.a. ekki láta ykkur bregða þótt stigagjöf fyrir bloggið haldi áfram að koma inn yfir helgina.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli