miðvikudagur, 16. apríl 2008

Dómur fellur

Update
Ég hef kannski vaðið svolítið blint í sjóinn með einkunnirnar fyrir stuttmyndirnar. Að minnsta kosti hef ég fengið nokkuð sannfærandi rökstuðning hjá einhverjum aðilum um að breytinga sé þörf (og myndu þær þá vera til hækkunar). Ég mun leggjast undir feld og gera breytingar á morgun. Þangað til hvet ég menn endilega til þess að láta í sér heyra.



Nú er ég búinn að sjá allar stuttmyndirnar og fimm af sjö fyrirlestrum, og kominn tími á að gefa einkunn fyrir þessi verkefni. Endilega kommentið ef þið viljið verja verk ykkar. Ekkert er greypt í stein.

Stuttmyndir

0:15
(Emil, Björn, Marinó, Andrés og Svavar)
Í alla staði sérlega vel heppnuð mynd. Einföld hugmynd, en jafnframt skemmtileg og vel útfærð. Mjög flott lúkk í innisenunum, mjög hrein og falleg svarthvít mynd. Mjög flottur effekt þegar Emil og Andrés speglast í glugganum. Öll tæknivinnsla til fyrirmyndar.
10

Look Around You (Bjarki, Gísli, Robert, Daníel og Hlynur)
Margt vel heppnað. Upphafssenan var nokkuð flott og endirinn ansi vel heppnaður. Það var margt skemmtilegt í flashbakkinu, t.d. þótti mér gaman hvernig leikið var með fókusinn til þess að túlka ofdrykkju persónunnar. Slagsmálin voru ágæt. Sumt var ekki að virka, sérílagi "ljósmyndirnar". Sá effekt var einfaldlega hallærislegur, og léleg gæðin á myndunum gerðu e.t.v. bara illt verra.
9

Endurfundir (Aron, Eyjólfur, Guðmundur, Hjálmar og Ingi)
Margt ansi fyndið. Ég er samt ekki alveg viss hvort hún haldi dampi. Stundum fannst mér þessi brandari - Aron og Eyjólfur að leika gamla kalla með "porn-'staches" - vera að tapa töfrunum, en þá kom eitthvað annað, eins og þessi stórkostlegu "ljóð". Á heildina var hún ansi skemmtileg. Varðandi útisenuna, þá hefði mátt reyna meira að laga hljóðið í henni (annað hvort að nota low-pass filterinn á hljóðnemanum, eða einhvern álíka filter í tölvunni), það hefði átt að ná einhverju af bílahljóðinu í upphafi þeirrar senu. Ég er svolítið á báðum áttum með þessa. Mér finnst hún ekki alveg jafnmikið "bíó" og hinar myndirnar, þ.e. mér finnst efnistökin svolítið "plain", og eins og þið séuð ekki að vinna úr efninu alveg eins myndrænt og ég hefði viljað.
8,5

Syndir feðranna (Ari, Arnar, Árni, Ingólfur og Jón)
Hér var ýmislegt sem virkaði ekki alveg. Þetta er hiklaust efni í skemmtilega mynd, en einhvern veginn fannst mér eins og það vantaði eitthvað upp á heildarmyndina. Hvaða tilgangi gegndi t.d. upphafssenan? Hvernig fleytti hún handritinu áfram? Kannski hefði senan virkað betur ef aðalpersónan hefði sagt söguna, en eins og hún er þá er varla hægt að tala um að hún dýpki persónusköpunina. Líklegast er það smámunasemi í mér, en "líkpokinn" var ekki að gera sig - var pabbinn kannski dvergur? Sama hvað ég pæli í því þá skil ég ekki af hverju hljóðvinnslan í bílasenunni ætti að þykja fyndin eða sniðug. Í fyrsta lagi má setja spurningamerki við það að klippa alltaf yfir á pokann í einræðu aðalpersónunnar - það er ekki eins og við séum forvitin um viðbrögð pokans við ræðunni (mér fannst það samt alveg virka). En af hverju í ósköpunum að nota annað umhverfishljóð í skotunum af pokanum -þótt það sé gert viljandi þá virkar það samt viðvaningslega á mig. Þetta er reyndar farið að hljóma verr en efni standa til - það var margt ágætt í myndinni: cameo-ið hans Breka var skemmtilegt, senan á lögfræðistofunni var ágætlega útfærð (það stakk reyndar svolítið í stúf að Jón skyldi tala fyrir lögfræðinginn þegar hann var nýbúinn að segja okkur langa sögu í öðru hlutverki), upphafssenan var ágætlega gerð og það var klippt yfir á nærmyndina af Jóni á hárréttum tíma, o.s.frv.
8,5

Númer 46 (Óskar, Alexander, Einar, Birkir)
Draumkennd og myndrænt mjög flott. Ég hafði mjög gaman af því þegar klippt var í takt við tónlistina, það kom ansi skemmtilega út. Fyrstu-persónu sjónarhornið virkaði oft ágætlega. Ef ég ætti að kvarta undan einhverju, þá fannst mér sagan svolítið óskýr og kannski ekki alveg virka í lokin (þegar hann vaknar í lokin, þá skildi ég það þannig að hann hafi dreymt megnið af myndinni, og mér fannst það einhvern veginn ekki alveg eins spennandi og hinn kosturinn, en það er líkast til bara smámunasemi).
9,5


Fyrirlestrar
Emir Kusturica (Árni, Marinó og Björn)
Nánast gallalaus fyrirlestur. Fjallað er um leikstjórann og myndir hans af einlægum áhuga og nokkurri natni. Myndbrotin eru vel valin. Flutningurinn var góður. Ég hef bara ekkert út á þennan fyrirlestur að setja.
10

Werner Herzog (Hjálmar, Aron, Guðmundur og Ingi)
Mér fannst vanta svolítið upp á vandvirkni og metnað í þessum. Sumt af því er líkast til sjálfum mér að kenna, enda fékk hópurinn að því er virðist stórgallaðar myndir frá mér, og ég mun reyna að taka tillit til þess í fyrirgjöf. Herzog er kannski efni í fleiri en einn fyrirlestur, en mér fannst vanta svolítið upp á umfjöllunina um hann. Og fyrst verið var að sýna myndbrot úr Grizzly Man, var þá ekki kjörið að sýna eitthvað með honum sjálfum (hann er skemmtilega skrýtinn í henni).
8,5

Hirokazu Koreeda (Óskar, Einar og Birkir)
Ágætlega útfærður fyrirlestur. Virkilega vel valin klipp og mjög fín umfjöllun um kvikmyndirnar. Það var lítið um leikstjórann, en það er reyndar ekki hópnum að kenna - það er nánast ekkert á netinu um hann (sem dæmi um það þá birtist færsla á námskeiðssíðunni okkar meðal 10 efstu ef maður slær upp nafninu hans á Google).
9,5

Anime (Bjarki, Robert, Daníel og Hlynur)
Ágætur fyrirlestur en ekki gallalaus. Mér fannst tilfinnanlega vanta glærur þegar farið var í sögu anime - það er erfitt að ná öllum japönsku nöfnunum og þvíumlíku, auk þess sem gaman hefði verið að sjá myndir til þess að átta sig á stílnum (ef einhverjar myndir voru til). Annars var söguhlutinn fínn. Hvað umfjöllun um myndir varðar, þá hefði ég viljað sjá umfjöllun um fleiri leikstjóra en bara Miyazaki.
9,0

Bollywood (Emil, Eyjólfur og Andrés)
Hér hefðu líka mátt vera glærur í söguhlutanum. Síðan verð ég að setja smá spurningamerki við rannsóknarvinnuna, þar sem ekki var lögð meiri áhersla á gríðarlega frægð og arfleifð Amitabh Bachchan (gamli karlinn sem dansaði í myndbrotinu), en hann er ein af topp-5 stjörnum Bollywood seinustu 30 árin! Svo var fyrirlesturinn líka í lengra laginu (örugglega um 25 mínútur). Samt sem áður var umfjöllunin um helstu einkenni góð og myndbrotin voru skemmtileg. Svo var myndbandið sem sýnt var í upphafi seinni tímans ansi sniðugt.
9,0

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bjarki segir:
Léleg gæði á ljósmyndunum var pointið, það hefði einhvern veginn ekki verið eins ef þær hefðu verið í frábærum gæðum. En það hefur greinilega misst marks!

Nafnlaus sagði...

Okkar mynd heitir Númer 46.

Marinó Páll sagði...

Ég get ekki verið alveg sammála einkunnagjöfinni á Endurfundum Eyjólfs, Arons og þeirra. Ég veit að sjálfsögðu ekki alveg á hvað þú lítur í einkunnagjöfinni en sögulega séð fannst mér þetta ein af betri myndunum. Uppbyggingin var mjög góð fannst mér og einmitt flott að þeir notuðu svona flashback til þess að segja aðalsöguna. Myndin var síðan ótrúlega fyndin og lang fyndnasta myndin af öllum en það er svosum ekki mælikvarði á kvikmyndagerð. Tæknilega séð var hún náttla ekkert undur og margt sem hefði mátt laga, kannski er það það sem er að draga hana niður. Ef maður ber hana saman við hinar myndirnar og þeirra einkunnagjöf nefni engin nöfn þá fyndist mér sanngjarnt að skella allvega 9 á hana. Svo gæti vel verið að ég sé bara eitthvað að rugla að því mér fannst hún fyndin.

Siggi Palli sagði...

Bjarki: En ef effektinn átti að vera dæmigerðar fylliríismyndir, þá eru þær lélegar á svolítið annan hátt. Þessar myndir voru rosalega "grainy" og grófar einhvern veginn, en lélegar fylliríismyndir eru oftar úr fókus og eitthvað þess háttar, upplausnin og áferðin er almennt í lagi. Nema að þær hafi átt að vera teknar með einnota myndavél, þá myndi ég frekar kaupa þetta, en hver notar svoleiðis lengur.

Marinó: Þetta eru engin nákvæm vísindi hjá mér og ég er alveg opinn fyrir athugasemdum. Kannski er ég að einblína um of á tæknilegu hliðina - því vissulega voru Endurfundir ansi fyndið verk. Mér fannst einhvern veginn öll tæknileg úrvinnsla vera heldur einföld hjá þeim, svona miðað við það hvernig 0:15 og Númer 46 léku sér með formið. En kannski var það ekkert verra miðað við efnið. Ég ætla að pæla í þessu - það væri gaman að fá innlegg hjá öðrum.

Jolli sagði...

Í sambandi við hljóðið í útisenunni, þá var ég búinn að laga það í Soundtrack en þegar ég ætlaði að vista þá kom upp einhver villa og það hvarf allt sem ég hafði gert klukkutímann þar áður. Ég hefði átt að reyna aftur en ég var búinn að velkjast í þessu of mikið og nennti ekki að reyna meira. Ég reyndi að laga það í Final Cut en það gekk ekki. Eftir á séð hefði ég átt að reyna aftur að laga þetta, en ég hafði einhvern veginn ekki þolinmæðina og var auk þess á seinustu stundu að klára myndina. Tímaleysi kom líklega niður á tæknilegu hliðinni. Samt sem áður eyddi ég líklega 15-20 tímum í Final Cut að klippa og laga myndina.

Í sambandi við fyrirlesturinn, þá minnist ég ekki að hafa séð neitt um Bachchan. Ég reyndar var að fjalla um leikstjórana aðallega og veit ekki hvort ég hefði átt að fjalla um hann. Svo er ég líka ekkert að kvarta með níuna.

Einar Sverrir. sagði...

Endirinn á Númer 46 átti að vera mjög ólógískur.
Pælingin var sumsé að gera ákveðna hringrás úr efninu, þ.e.a.s. að maður vissi ekki hvort partýið með slysinu var orsokin að slysinu eða afleiðing af því - ef þú skilur hvað ég er að fara.
Sumsé pínulítill Groundhog Day fílíngur.
En reyndar eins og ég sá það fyrir mér þegar ég skrifaði handritið þá átti myndin bæði að byrja og enda á sama skotinu af okkar manni að labba að húsinu.
En það breyttist örlítið í tökum.

En alls ekki það að ég sé að kvarta undan einkunnagjöfinni.

Siggi Palli sagði...

Eyjólfur: Ég man að þú sagðir mér frá þessum vandræðum þínum með Soundtrack, en ég veit samt ekki hvort ég geti tekið mikið tillit til þess. Annars er ég að velta þessu fyrir mér, og myndin ykkar er alveg á mörkunum að fara upp í 9.
Hvað Bollywood fyrirlesturinn varðar, þá las ég mér svolítið til um Bollywood í fyrra og minn skilningur er sá að þar sé nokkuð stíft stjörnukerfi, þar sem leikstjórarnir eru kannski ekki í aðalhlutverki. Þar að auki hefur Bachchan leikið stórt hlutverk í mörgum helstu myndum Bollywood síðustu 30 árin (t.d. Sholay og Amar, Akhbar, Antony).

Siggi Palli sagði...

Einar: Ágætis punktur. Svolítið eins og Lost Highway þá líka.

Marinó Páll sagði...

Þvílík og önnur eins aksjón hefur aldrei sést á síðum kvikmyndafræðiblogga. Það er bara allt að verða vitlaust, er ekki búinn að ná að læra neitt af viti í kvöld er bara á refresh takkanum hérna.

Bóbó sagði...

Ég vil bara láta vita af því að aukaverkefnið mitt er komið á hreint og má finna undir þessari slóð: http://kvikmyndagerd-ingolfur.blogspot.com/2008/03/um-daginn-bar-g-saman-rjr.html
Færslunni var ekki mikið breytt, bætti við vídjói fyrir TCM en ekki miklu í viðbót.

Bóbó sagði...

ok leim, þetta tókst ekki alveg... alalvega það er hryllingsmyndafærslan og hún er á sama stað og áður.

Björn Brynjúlfur sagði...

Siggi Palli: Ég er búinn að senda þrjú meil á sigurdurp@mr.is en þú virðist ekki fá þau...

Er þetta rétt meil og færðu ekki bréfin frá mér? Áríðandi að þau séu skoðuð fyrir vetrareinkunnargjöf

Jolli sagði...

Ég skrifaði stutta færslu um þetta. Bara svo þú vitir af henni.

Ingólfur sagði...

Hvenar megum við búast við einkunn fyrir fyrirlesturinn? Og mun óskammfeilni Jóns og Ara í því að mæta ekki vinna gegn okkur í einkunn?
P.S. Ég lofa að kvarta ekki.

Ari Guðjónsson sagði...

Haltu kjafti Bóbó. Það er ekki eins og við höfum skrópað heldur vorum við í stúdentsprófi. Það hlýtur að teljast lögmæt afsökun. Þú kannt svo sannarlega að vera dónalegur.

annasinn sagði...

Hvet alla til að skella myndinni sinni á youtube og pósta link á

hugi.is/kvikmyndagerð og/eða

http://www.hugi.is/kvikmyndagerd/threads.php?page=view&contentId=5786839

annasinn sagði...

omg þetta hugi.is/kvikmyndagerð/....

virðist ekki hafa virkað korkurinn er undir hugi.is/kvikmyndagerð og heitir Stuttmynd eftir nemendur í vali