sunnudagur, 22. mars 2009

KOSNING!!!

Kjósum um bíómynd vikunnar. Kjörseðlum verður að skila inn fyrir fimmtudagskvöld. Kjörorð Al Capone þegar kom að kosningum voru: "Vote early and vote often." Ég vona að þið sýnið drengskap og fylgið bara fyrri hlutanum...


Do The Right Thing
"It's the hottest day of summer. You can do nothing, you can do something, or you can..."
Leikstýrt af Spike Lee.
120 mínútur.
Þetta er myndin sem kom Spike Lee almennilega á kortið. Áður en þessi kom út var hann frægastur fyrir að leika í auglýsingum með Michael Jordan.
Það er heitasti dagur sumars á götu í Bedford-Stuyvesant hluta Brooklyn. Allir eru pirraðir. Það er bara spurning um hvenær sýður upp úr.
Spike Lee, John Torturro, Danny Aiello og Samuel L. Jackson eru allir góðir í þessari. Myndin sjálf er ansi góð, en dettur niður í soldið "preachy" tón á köflum (eins og margar myndir Spike Lee).

Standard Operating Procedure
"I wouldn't recommend a vacation to Iraq any time soon"
Leikstýrt af Errol Morris.
116 mínútur.
Heimildarmynd um Abu Ghraib ljósmyndahneykslið (þið vitið, ljósmyndirnar af föngunum sem verið var að pynta), frá Errol Morris, einum helsta heimildarmyndagerðarmanni síðustu 30 ára (og manninum sem fékk Werner Herzog til þess að éta skóinn sinn).
Ég er ekki búinn að sjá þessa.

Turtles Can Fly
Leikstýrt af Bahman Ghobadi.
98 mínútur.
Leikin mynd um kúrdíska flóttamenn á landamærunum milli Írak og Tyrklands. Kúrdar hafa verið hundeltir bæði af Tyrkjum og Írökum um áraraðir (Saddam prófaði efnavopn á þeim á sínum tíma). Myndin gerist skömmu fyrir innrás Bandaríkjamanna í Írak, og fjallar um kúrdísk börn og unglinga í flóttamannabúðum á landamærunum sem bíða og vona að innrásin hafi betri tíma í för með sér.
Ég veit að þetta hljómar ofurdramatískt, en mig grunar að myndin sé ekki alveg svo þung. Ég hef ekki séð þessa, en hef séð nokkrar aðrar eftir sama leikstjóra, og þær fjölluðu um alvarleg málefni en á léttum og skemmtilegum nótum. Ef þessi er eins, þá er húmor í henni (e.t.v. tragikómísk).

Amateur
"Accountancy, Murder, Amnesia, Torture, Ecstasy, Understanding, Redemption"
Leikstýrt af Hal Hartley.
105 mínútur.
Þegar ég var á ykkar aldri var Hal Hartley uppáhaldsleikstjórinn minn. Segir kannski meira um furðulegan kvikmyndasmekk minn en um leikstjórann sjálfan. Mig grunar að a.m.k. helmingi ykkar myndi finnast þessi mynd frekar mikið listrænt rúnk, en mér fannst hún einu sinni rosa góð (það eru orðin svona 6-7 ár síðan ég sá hana seinast).
Thomas er ljúfur, góður og með minnisleysi. Hann man ekki að hann var viðbjóðslegur skíthæll sem neyddi eiginkonu sína inn í klámbransann. Isabelle er fyrrverandi nunna sem vinnur fyrir sér með því að skrifa erótískar sögur á meðan hún bíður eftir merki frá Guði.

Encounters at the End of the World
Leikstýrt af Werner Herzog.
99 mínútur.
Gríðarlega falleg mynd um furðulega íbúa Suðurskautslandsins, bæði um sérvitra vísindamenn og skrýtin dýr.

El Dia de la bestia
"A devilishly dark comedy"
Leikstýrt af Alex de la Iglesia.
103 mínútur.
Bráðskemmtileg kolsvört kómedía um prest sem er sannfærður um að Antikristur sé á leiðinni. Til þess að geta nálgast Antikrist og tortímt honum verður presturinn að spillast, og byrjar því að gera alls konar slæma hluti...

Dead Man
"No one can survive becoming a legend"
Leikstýrt af Jim Jarmusch.
120 mínútur.
Falleg svart-hvít myndataka Robby Müllers, seyðandi gítar-riff Neil Young, svartur húmor, Johnny Depp og síðasta hlutverk Robert Mitchum (sem er minn uppáhaldsleikari). Þetta og margt fleira gerir þetta að einni af mínum uppáhaldsmyndum.
Johnny Depp er bókhaldari sem hefur fengið vinnu í námubæ í villta vestrinu. Þegar hann mætir á staðinn stendur vinnan honum ekki lengur til boða, þannig að hann er blankur og fastur á stað þar sem hann passar alls ekki inn. Síðan verður honum það á að drepa son mannsins sem á bæinn og þarf að leggja á flótta með hjálp indjánans Nobody.
Snilldarmynd.

Nobody Knows
Leikstýrt af Hirokazu Koreeda.
140 mínútur.
Besta myndin á RIFF 2006.
Myndin hefst á því að kona á þrítugsaldri og elsti sonur hennar smygla þremur yngri systkinum hans inn í íbúð fyrir tvo. Yngri börnin mega ekki fara út, því fjölskyldunni verður vísað úr íbúðinni ef það fattast að þar búa fleiri en tveir. Síðan hverfur móðirin, og þá þurfa börnin að sjá um sig sjálf.

Mad Detective
"I can see a person's inner personality."
Leikstýrt af Johnnie To.
89 mínútur.
Óreynd lögga vinnur með fyrrverandi löggu með yfirnáttúrulega hæfileika við það að elta uppi raðmorðingja. Vel gerð, hröð og skemmtileg spennumynd frá Hong Kong.

In the Mood for Love
"Feel the heat, keep the feeling burning, let the sensation explode."
Leikstýrt af Wong Kar-Wai.
98 mínútur.
Hæg, falleg og dáleiðandi mynd um nágranna í Hong Kong á 6. áratugnum sem eiga í ástarsambandi. Ótrúlega vel gerð og hiklaust með flottari myndum sem ég hef séð.

Engin ummæli: