laugardagur, 19. apríl 2008

Prófið langa

Jæja, það gekk ekki áfallalaust hjá okkur prófið frekar en flest annað. Vegna þess að um alveg nýja uppbyggingu prófs var að ræða, hafði ég einfaldlega ekki tilfinningu fyrir lengdinni á því. Ég sé það núna að það hefði mátt notast við talsvert styttra handrit (2-4 bls. í staðinn fyrir 7-8 eins og fyrsta senan í þessu handriti var). Því aðalatriðið er jú að þið sýnið fram á þekkingu ykkar, ekki að þið getið teiknað upp senur á ljóshraða. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á.
Þið ættuð samt ekki að hafa neinar voðalegar áhyggjur af þessu. Lengdin er auðvitað mín mistök, og ég mun reyna eins og ég get að haga fyrirgjöfinni þannig að þið gjaldið ekki fyrir þau. Eins virðist ekki hafa verið nógu skýrt, hvorki á prófinu né í glærunum, akkúrat hvað ein "uppsetning" þýðir, en það sem ég átti við var ein uppstilling á myndavél. Þannig hefði ein uppsetning átt að samanstanda af einni myndavél á einum stað, en það mátti svindla svolítið með það, því það mátti snúa henni og zooma, þ.a. í raun hefði alveg verið hægt að nota sömu uppsetninguna á nærmynd af mömmunni og nærmynd af vitninu, strangt til tekið. Svo hefði auðvitað verið hægt að nota kranann eða dollýið fyrir nánast hvað sem er... Ég ætla að reyna eins og ég get að gefa vel fyrir þetta verkefni þótt menn séu ekki að framkvæma þetta eins og ég hafði ímyndað mér.
Að öðru leyti vona ég að prófið hafi lagst vel í menn, og óska ég ykkur alls hins besta í prófunum sem eftir eru.
Ég veit ekki fyrir víst hvenær DVD-diskurinn verður til, líklegast ekki fyrr en eftir svona tvær vikur í fyrsta lagi (ég er alveg að drukkna í vinnu akkúrat núna). Þegar að því kemur, þá tilkynni ég það hér á síðunni, og að öllum líkindum verður það afgreitt þannig að þið getið sótt þá upp á skrifstofu.

3 ummæli:

Ingólfur sagði...

Snilld. Ég segi fyrir mitt leiti að mér fannst þetta próf alveg ágætt fyrir utan lengdina. Svo var það sem kom fram þarna fyrir utan í morgun að það hefði ekki verið úr vegi að við hefðum gert svona shooting script áður sem verkefni eða í tíma þannig að við hefðum einhverja hugmynd um hvernig við ættum að bera okkur að. En ég ætla ekki að kvarta. Þakka bara fyrir mig. Takk fyrir frábært námskeið. Lokafærslan kemur eftir próf.

Siggi Palli sagði...

Hlakka til. Takk fyrir veturinn.

Ingi sagði...

Það er betra að vera vitur eftirá en aldrei.